Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki í Eþíópíu en þar ógna þurrkar og óstöðugt veðurfar fæðuöryggi fólksins. Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran rýr og fátæktin sífellt sárari. Þegar loksins rignir er jarðvegurinn orðinn grjótharður og regnvatnið nær ekki að næra hann heldur rífur með krafti sínum ræktarland í sundur.
Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og umhverfisvernd og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar. Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2008. Á fyrstu tíu árum þess náði aðstoðin beint og óbeint til fleiri en 130.000 einstaklinga í Jijigahéraði og breytti lífi þeirra til hins betra.
Brunnar voru grafnir og þar sem það var ekki mögulegt voru grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn. Stíflur og veggir í árfarvegum voru reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir voru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar fengu þjálfun í að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé. Þá lærði fólkið að steypa sparhlóðir sem spara eldivið og minnka reykmengum við eldamennsku.
Konur tóku þátt í sparnaðar- og lánahópum og fengu fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hófu margar kvennanna að reka litla búð, stunda geita- og hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem tóku þátt í verkefninu hafa talað um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt á verkefnasvæðunum áður.