Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki í Eþíópíu en landið er í 176 sæti af 193 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (2022) hvar Ísland er í einu af fimm efstu sætunum ár hvert.
Í Sómalífylki ógna þurrkar og óstöðugt veðurfar fæðuöryggi fólksins. Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran rýr og fátæktin sífellt sárari. Íbúar fylkisins hafa lifibrauð af kameldýra- og nautgriparækt, sauðfjár- og geitarækt en í sífellt meira mæli af korn- og grænmetisræktun.
Samfélagið hefur mjög takmarkað aðgengi að vatni, rafmagni, mörkuðum og lánsfé enda er fæðuöryggi mjög lítið og á þurrkatímum er fólkið háð mataraðstoð stjórnvalda og hjálparsamtaka. Dýrasjúkdómar eru tíðir og dýralæknisþjónusta af skornum skammti.
Landrof er mikið á ræktarlandi og almennt hafa bændurnir ekki verkþekkingu til að koma í veg fyrir frekari eyðimerkurmyndun. Í neyð sinni heggur fólkið niður tré og runna til að selja sem eldivið og eykur þannig enn á hættuna á landrofi. Fólk gengur örna sinna á víðavangi og aðstaða til handþvotta er ekki nema við trúariðkun en 98% íbúanna eru múslimar.
Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og umhverfisvernd og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.
Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2008. Á fyrstu tíu árum þess náði aðstoðin beint og óbeint til fleiri en 130.000 einstaklinga í Jijiga héraði og breytti lífi þeirra til hins betra.
Brunnar hafa verið grafnir en þar sem það er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn. Stíflur og veggir í árfarvegum eru reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir eru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar fá þjálfun í að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé. Þá lærir fólkið að steypa sparhlóðir sem spara eldivið og minnka reykmengun við eldamennsku.
Konur taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hefja margar kvennanna að reka litla búð, stunda sauð- og geitfjárhald hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem taka þátt í verkefninu hafa talað um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt frelsi á verkefnasvæðunum áður.
Meginmarkmið með verkefnisfasa sem hófst í janúar 2021 og lýkur í desember 2024 eru að auka þolgæði samfélagsins og getu þess til að bregðast við hamförum og hamfarahlýnun, að bæta lífsafkomu og fæðuöryggi sjálfsþurftarbænda á svæðinu, að bæta aðgengi íbúanna að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu og að stuðla að auknu jafnrétti með valdeflingu kvenna og stúlkna.
Aðstoðin nær með beinum hætti til þeirra 2.650 bændafjölskyldna sem búa við sárustu fátæktina í 10 þorpskörnum í Kebribeyah héraði þar sem búa samtals um 21.000 manns. Áhersla er lögð á að ná til atvinnulauss ungs fólks, kvenna og barna. Áhersla er einnig lögð á að ná til fólks með fötlun.
Heildarkostnaður við verkefnið starfsárið 2023-2024 nam 51 milljón króna. Á starfsárinu 2022 – 2023 nam kostnaður við verkefnið 52,5 milljónum króna.