Í þróunarsamvinnu starfar Hjálparstarf kirkjunnar með staðbundnum hjálparsamtökum og Hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, í þágu fólks í einna fátækustu samfélögum heims. Samstarfsaðilar Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu þekkja vandann af eigin raun og menninguna og tungumál á hverjum stað. Þeir eru á staðnum eftir að verkefnum lýkur og geta metið árangur þeirra. Meginmarkmið eru að fólk sem býr við sára fátækt geti séð sér farborða á sjálfbæran hátt. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja velferð barna. Verndun umhverfisins og valdefling, og þá kvenna sérstaklega, eru áhersluþættir í verkefnunum sem unnin eru í samvinnu við fólkið sjálft á hverjum stað.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaðir árið 2022 en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.

Aðgengi að vatni er forsenda farsældar

Stærsta verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þróunarsamvinnu er með sárafátækum sjálfsþurftarbændum í Sómalífylki í Eþíópíu en landið er í 176 sæti af 193 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (2022) hvar Ísland er í einu af fimm efstu sætunum ár hvert.

Í Sómalífylki ógna þurrkar og óstöðugt veðurfar fæðuöryggi fólksins. Þegar lítið sem ekkert rignir á hefðbundnum regntíma verður uppskeran rýr og fátæktin sífellt sárari. Íbúar fylkisins hafa lifibrauð af kameldýra- og nautgriparækt, sauðfjár- og geitarækt en í sífellt meira mæli af korn- og grænmetisræktun.

Samfélagið hefur mjög takmarkað aðgengi að vatni, rafmagni, mörkuðum og lánsfé enda er fæðuöryggi mjög lítið og á þurrkatímum er fólkið háð mataraðstoð stjórnvalda og hjálparsamtaka. Dýrasjúkdómar eru tíðir og dýralæknisþjónusta af skornum skammti.

Landrof er mikið á ræktarlandi og almennt hafa bændurnir ekki verkþekkingu til að koma í veg fyrir frekari eyðimerkurmyndun. Í neyð sinni heggur fólkið niður tré og runna til að selja sem eldivið og eykur þannig enn á hættuna á landrofi. Fólk gengur örna sinna á víðavangi og aðstaða til handþvotta er ekki nema við trúariðkun en 98% íbúanna eru múslimar.

Meginmarkmið verkefnisins eru að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni, að fólkið geti aukið fæðuöryggi sitt með skilvirkum aðferðum í landbúnaði og umhverfisvernd og að styrkja stöðu kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.

Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) í Eþíópíu með dyggum stuðningi frá einstaklingum og utanríkisráðuneytinu frá árinu 2008. Á fyrstu tíu árum þess náði aðstoðin beint og óbeint til fleiri en 130.000 einstaklinga í Jijiga héraði og breytti lífi þeirra til hins betra.

Brunnar hafa verið grafnir en þar sem það er ekki mögulegt eru grafnar vatnsþrær fyrir regnvatn. Stíflur og veggir í árfarvegum eru reist til að halda regnvatni í farvegi og hefta eyðimerkurmyndun, nýjar og þurrkþolnari korntegundir eru kynntar til sögunnar sem og skilvirkari ræktunaraðferðir og betri verkfæri. Dýraliðar fá þjálfun í að meðhöndla dýrasjúkdóma og bólusetja búfé. Þá lærir fólkið að steypa sparhlóðir sem spara eldivið og minnka reykmengun við eldamennsku.

Konur taka þátt í sparnaðar- og lánahópum og fá fræðslu um hvernig best sé farið af stað með eigin rekstur. Eftir fræðslu og þjálfun hefja margar kvennanna að reka litla búð, stunda sauð- og geitfjárhald hænsnarækt og rækta grænmeti. Konur sem taka þátt í verkefninu hafa talað um að þær hafi fjárráð og ákvörðunarvald en það var nær óþekkt að konur hefðu slíkt frelsi á verkefnasvæðunum áður.

Meginmarkmið með verkefnisfasa sem hófst í janúar 2021 og lýkur í desember 2024 eru að auka þolgæði samfélagsins og getu þess til að bregðast við hamförum og hamfarahlýnun, að bæta lífsafkomu og fæðuöryggi sjálfsþurftarbænda á svæðinu, að bæta aðgengi íbúanna að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu og að stuðla að auknu jafnrétti með valdeflingu kvenna og stúlkna.

Aðstoðin nær með beinum hætti til þeirra 2.650 bændafjölskyldna sem búa við sárustu fátæktina í 10 þorpskörnum í Kebribeyah héraði þar sem búa samtals um 21.000 manns. Áhersla er lögð á að ná til atvinnulauss ungs fólks, kvenna og barna. Áhersla er einnig lögð á að ná til fólks með fötlun.

Heildarkostnaður við verkefnið starfsárið 2023-2024 nam 51 milljón króna. Á starfsárinu 2022 – 2023 nam kostnaður við verkefnið 52,5 milljónum króna.

Frá árinu 2001 hefur Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðað HIV smitaða, alnæmissjúka, aðstandendur þeirra og eftirlifendur upp til sveita í Úganda. Frá árinu 2016 hefur aðstoðin verið veitt í sveitarfélögunum Rakai og Lyantonde í samstarfi við grasrótarsamtökin Rural Action Community Based Organisation, RACOBAO, sem sprottin eru upp úr hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins á svæðinu. Uppbygging staðbundinna hjálparsamtaka eins og RACOBAO er talin ein helsta stoð virkrar þróunarsamvinnu og hlaut Hjálparstarf kirkjunnar lof fyrir samvinnu við samtökin í úttektarskýrslu sænska ráðgjafafyrirtækisins NIRAS fyrir utanríkisráðuneytið árið 2017.

Skjólstæðingar verkefnis Hjálparstarfsins í Rakai og Lyantonde eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIV smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sárafátækt. Fjölskyldur sem búa við erfiðustu aðstæðurnar njóta sérstaks stuðnings en nágrannar þeirra njóta einnig stuðnings með beinum og óbeinum hætti.

Áhersla er lögð á að bæta lífsskilyrði fólksins sem býr við nístandi skort með því að reisa múrsteinshús sem eru útbúin grunnhúsbúnaði og eldaskála með hlóðum sem spara eldsneyti. Reistir eru kamrar við hlið húsanna, fólkið fær fræðslu um samband hreinlætis og smithættu og hvernig bæta má hreinlætisaðstöðu. Aðgengi fólksins að hreinu vatni er aukið með því að koma upp 6000 lítra vatnssöfnunartönkum við hlið íbúðarhúsanna. Þegar börnin þurfa ekki að fara eftir vatni um langan veg hafa þau tíma til að sækja skólann. Hættan á kynferðislegri misnotkun minnkar einnig þegar stúlkur þurfa ekki að fara fjarri heimilinu eftir vatni í morgunsárið.

Fólkið fær geitur, verkfæri, fræ og útsæði til grænmetisræktunar, allt í þeim tilgangi að auka fæðuval og möguleika fjölskyldnanna til að afla sér tekna. Með fjölbreyttari fæðu verður heilsa fjölskyldnanna betri og með tekjum aukast líkur á að börnin geti sótt skóla og fengið menntun. Með aukinni menntun minnka líkur á að stúlkur verði gefnar barnungar í hjónaband og eignist börn á unglingsaldri. Með stuðningi er vítahringur fátæktar rofinn.

Í verkefnalýsingu fyrir árin 2022 – 2025 er lögð áhersla á að auka sálfélagslegan stuðning og möguleika skjólstæðinga á að afla sér tekna til þess að tryggja langtímaárangur af verkefninu fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig.

Á árinu 2023 vatt verkefninu fram samkvæmt áætlun og fengu átta fjölskyldur sem bjuggu við sára neyð múrsteinshús, kamar, eldaskála og vatnstank ásamt því að fá innbú og verkfæri til að yrkja lítinn jarðarskika við húsið.

Á árinu 2023 hófu mörg hundruð manns – bæði skjólstæðingar og nágrannar þeirra – þátttöku í sparnaðar- og lánahópum eða „Village Savings and Loan Associations“ (VSLA) með það að markmiði að geta aflað sér tekna með því að koma sér til dæmis upp sölubás fyrir grænmeti. Tuttugu hópar eru nú starfandi og eru 30 þátttakendur í hverjum þeirra.

Tugir sjálfboðaliða voru þjálfaðir til að veita skjólstæðingunum sálfélagslegan stuðning og ráðgjöf um lyfjanotkun til að hefta framgang alnæmis og fengu sjálfboðaliðarnir stuðning við að koma sér upp atvinnutækifærum og til að auka fæðuöryggi þeirra sem umbun fyrir störf sín. Sjálfboðaliðarnir gegna einnig lykilhlutverki þegar kemur að því að finna þá sem eru í verstu stöðunni á svæðinu.

Geitur voru keyptar fyrir fjölskyldur á svæðinu og þjálfun var veitt í geitaræktun í samstarfi við staðaryfirvöld. Fjölskyldurnar eru hvattar til að kaupa m.a. skóladót fyrir arðinn og dömubindi fyrir stúlkur svo þær geti sótt skólann.

Í verkefnalýsingu fyrir allan verkefnisfasann, 2022 – 2025, er lögð áhersla á að auka sálfélagslegan stuðning og möguleika skjólstæðinga á að afla sér tekna til þess að tryggja langtímaárangur af verkefninu fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig.

Í vettvangsferð í febrúar 2024 hittu fulltrúar Hjálparstarfs kirkjunnar skjólstæðinga verkefnisins og sjálfboðaliða sem starfa með þeim. Ljóst er að sjálfboðaliðar gegna veigamiklu hlutverki í verkefninu og þeir njóta mikillar virðingar fyrir störf sín.

Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið VIG vann á starfsárinu óháða úttekt á verkefni Hjálparstarfsins í dreifbýli Úganda. Úttektin fór fram á haustmánuðum 2023 og var unnin fyrir og að beiðni utanríkisráðuneytisins en verkefnið er fjármagnað með stuðningi í gegnum rammasamning við utanríkisráðuneytið.

Í umfjöllun ráðuneytisins um úttektina frá því í apríl segir að Hjálparstarf kirkjunnar hafi um árabil verið einn af lykil samstarfsaðilum utanríkisráðuneytisins í þróunarsamvinnu. „Hjálparstarf kirkjunnar er eitt fjögurra lykil félagasamtaka með rammasamninga um verkefni til þróunarsamvinnu og eru hluti af samstarfi ráðuneytisins við íslensk félagasamtök,“ segir þar.

Þar segir að niðurstöður úttektar um miðbik núverandi verkefnafasa séu afar jákvæðar. Samkvæmt niðurstöðunum hefur staða heimila sem verkefnið náði til batnað innan samfélaga og merki um að efnahagsleg valdefling hafi skilað tilætluðum árangri, en rík áhersla er lögð á kynjajafnrétti við framkvæmd þess. Þannig hafi verkefnið náð þeim markmiðum sem að var stefnt á tímabilinu.

„Það er einstaklega ánægjulegt að sjá í þessari úttekt hvernig stuðningur Íslands hefur skipt sköpum fyrir þennan viðkvæma og jaðarsetta hóp,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Sem fyrr eru það konur og börn sem eru í hvað viðkvæmustu stöðunni og því er afar dýrmætt að Hjálparstarf kirkjunnar geti veitt þennan stuðning. Þá kristallast hér enn og aftur reynsla okkar að með skýrri og einbeittri nálgun í þróunarsamvinnu, með nánu samstarfi við félagasamtök og yfirvöld í héraði, getum við náð góðum árangri.”

Heildarkostnaður verkefnisins starfsárið 2023-2024 nam 27,3 milljónum króna. Á starfsárinu 2022 – 2023 nam kostnaður við verkefnið 24,2 milljónum króna.

Valdeflingarverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar sem hófst í janúar 2017 er í þágu barna og ungmenna á aldrinum 13 – 24 ára í fátækrahverfum Rubage, Nakawa og Makindye í Kampala, höfuðborg Úganda. Fyrsta fasa verkefnisins lauk í árslok 2019 en á þremur árum náði það til fleiri en 1.500 barna og ungmenna. Í byrjun árs 2020 hófst næsti fasi verkefnisins en honum lauk í árslok 2023. Á fjórum árum náði verkefnið til rúmlega tvö þúsund barna og ungmenna til viðbótar.

Nýr verkefnisfasi hófst í byrjun árs 2024 og nær til og með ársins 2027. Á þeim tíma er áætlað að 1.500 börn og ungmenni geti lært iðn í þremur smiðjum UYDEL. Þessar breytingar eru gerðar til að rýmra verði um ungmennin sem taka þátt í verkefninu.

Í Úganda búa um 50 milljónir íbúa. Nær helmingur þeirra er yngri en 15 ára. Þrátt fyrir að langflestir búi í sveitum landsins og lifi af landbúnaði flykkist fólk í síauknum mæli til höfuðborgarinnar í leit að betra lífi. Þar bíður flestra hins vegar eymdarlíf í fátækrahverfum en samkvæmt Alþjóðabankanum búa 30% íbúa Kampala við sárafátækt.

Atvinnutækifæri í Kampala eru fá og mörg ungmenni skortir menntun og þjálfun til að eiga möguleika á að sækja um störf eða reyna fyrir sér með eigin rekstur. Börn og unglingar í fátækrahverfunum eru því útsett fyrir misnotkun sökum fátæktar og eymdin leiðir til þess að þau verða auðveldlega fíkniefnum að bráð. Neyðin rekur unglingana til að taka þátt í glæpagengjum eða selja líkama sinn til að geta séð sér farborða.

Markmið með verkefni Hjálparstarfsins er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem eykur atvinnumöguleika þess. Einnig að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Með fræðslu og valdeflingu má koma í veg fyrir að barnungar stúlkur verði þungaðar, hefta útbreiðslu HIV/alnæmis og kynsjúkdóma ásamt því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Í verkefninu er sérstök áhersla lögð á að ná til stúlkna, ungra kvenna og einstaklinga með fötlun.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS) í Úganda og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) sem hafa áratuga reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. UYDEL er einnig leiðandi í málsvarastarfi fyrir börn og unglinga á landsvísu og ýta á aðgerðir gegn mansali og barnaþrælkun í álfunni og á heimsvísu.

Í smiðjum UYDEL geta ungmennin valið sér ýmis svið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Einnig eru á dagskrá dans, leik- og sönglist og íþróttir. Í smiðjunum er jafningjafræðsla veitt um kynheilbrigði og um rétt ungs fólks til heilbrigðisþjónustu. Samhliða fræðslunni fá unglingarnir smokka. Mikið er lagt upp úr því að styrkja sjálfsmynd unglinganna sem koma úr ömurlegum aðstæðum í fátækrahverfunum.

UYDEL aðstoðar unglingana sem koma í smiðjurnar við að komast á starfsnámssamning hjá fyrirtækjum í Kampala og í framhaldinu að fá þar vinnu. Einn þáttur í náminu hjá UYDEL er verslunarfræði en mörg þeirra sem ekki fá starf hjá fyrirtæki eftir námið opna eigin búðarbás og selja til dæmis flíkur sem þau hafa saumað eða viðgerðarþjónustu.

Félagsráðgjafar UYDEL brugðust eindæma vel við neikvæðum afleiðingum COVID-19 og ebólufaraldurs í Úganda. Námskeiðum í verkmenntasmiðjum UYDEL var breytt tímabundið á þann veg að kennd voru fög sem tók skemmri tíma að kenna svo hægt væri að hafa færri nemendur í hverjum tíma en hafa tímana fleiri.

Mikið og gott samstarf er við heilsugæslustöðvar og verkþátturinn um bætt aðgengi unga fólksins að upplýsingum um kynheilbrigði og að heilsugæslu gengur vel. Félagsráðgjafar UYDEL ræða við foreldra unglinganna sem sækja smiðjurnar um heilbrigð samskipti innan fjölskyldna. Sparnaðar- og lánahópar hafa einnig verið myndaðir og eru unglingarnir að fóta sig í þeim.

Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið VIG vann á starfsárinu óháða lokaúttekt á verkefnisfasa sem lauk í árslok 2023. Úttektin var unnin fyrir og að beiðni utanríkisráðuneytisins en verkefnið er fjármagnað með stuðningi í gegnum rammasamning við ráðuneytið.

Í niðurstöðu úttektar VIG eru 18 tillögur til umbóta settar fram er varða þjálfun og endurgjöf, atvinnu og lífsskilyrði, valdeflingu ungmenna, kynjasamþættingu og varnir gegn misnotkun, auk tillagna er varða stjórnsýslu verkefnisins. Hjálparstarfið og samstarfsaðilar skoða í framhaldinu hvernig hægt er að bregðast við ábendingum VIG án mikils viðbótarkostnaðar. Breytingar á verkefninu munu koma til framkvæmda á seinni helmingi ársins 2024.

Í umfjöllun ráðuneytisins segir um úttektina að Hjálparstarf kirkjunnar hafi um árabil verið einn af lykil samstarfsaðilum utanríkisráðuneytisins í þróunarsamvinnu. Þar segir að niðurstöður lokaúttektar verkefnafasa sem lauk í árslok 2023 séu jákvæðar.

„Þrátt fyrir áskoranir í starfi, m.a. vegna COVID-19 faraldursins, náði verkefnið settum markmiðum, m.a. hvað varðar aukna samfélagsvitund, nýliðun meðal ungmenna, starfsþjálfun og námslok. Þá fengu tveir af hverjum þremur þátttakenda störf í kjölfar þjálfunar, þrátt fyrir hindranir sem enn á eftir að yfirstíga. Þar að auki hefur verulegur árangur náðst hvað varðar aukið aðgengi ungmennanna að kynfræðslu og getnaðarvörnum, en úttektin sýnir fram á minnkaða áhættuhegðun meðal 82% þátttakenda og að 92% þátttakenda hafi nú grunnþekkingu á sviði kynheilbrigðis.

Davíð Bjarnason, deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu, segir í umfjöllun utanríkisráðuneytisins frá því í byrjun apríl sl.:

„Það er afar ánægjulegt að sjá þennan góða árangur sem verkefni íslenskra félagasamtaka hafa skilað. Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar falla vel að stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu, einkum hvað varðar aðstoð við jaðarsetta hópa og samfélög líkt og UYDEL hefur gert í fátækrahverfum Kampala. Eins og úttektin ber með sér tekur verkefnið á mikilvægum málaflokkum og þá þykja áherslur UYDEL hafa stuðlað að því að þróunarmarkmiðum Úganda hafi verið mætt. Félagasamtökin taka þannig virkan þátt á landsvísu og eru stefnumótandi hvað varðar atvinnusköpun og aukin tækifæri fyrir viðkvæman hóp ungmenna í fátækrahverfum Kampala.“

Heildarkostnaður verkefnisins starfsárið 2023-2024 nam 27 milljónum króna. Á starfsárinu 2022 – 2023 nam kostnaður við verkefnið 19 milljónum króna.

Fyrstu skrefin í nýju þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Malaví voru tekin í janúar 2023. Markmið verkefnisins er að aðstoða a.m.k. 4.500 fjölskyldur, samtals um 20.000 manns við að auka viðnámsþrótt samfélagsins gegn öfgum í veðri af völdum loftslagsbreytinga og tryggja lífsviðurværi og fæðuöryggi fólks eins vel og mögulegt er. Þar er ekki síst horft til þess að grípa til varna þar sem veðuröfgar ganga harkalega á ræktarland, bæði vegna flóða og þurrka.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni. Verkefnið í Malaví sem er til þriggja ára og spannar árabilið 2023 til 2025 er sett á fót á grundvelli rammasamninganna.

Verkefni Hjálparstarfsins er unnið í samstarfi við Samband evangelískra kirkna í Malaví (Evangelical Association of Malawi, EAM) sem nýtur virðingar fyrir fagleg vinnubrögð í þróunarsamvinnu.

Áhugi heimamanna á verkefninu er áþreifanlegur en ljóst er að malavískt samfélag er afturhaldssamt og staða kvenna ber þess merki. Fólkið er afar trúað og kirkjan er mikilvæg stofnun í samfélagi þess. Prestar á svæðinu eru því mikilvægir þátttakendur í starfinu og kynna m.a. verkefnin þegar fólk sækir guðsþjónustu.

Malaví er landlukt land í Suðaustur-Afríku og liggur á milli Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Helsta einkenni Malaví er Malaví-vatn sem nær yfir tæplega fimmtung landsins, en samtals er flatarmál Malaví 120 þúsund ferkílómetrar, litlu stærra en Ísland. Malaví er eitt fátækasta ríki heims en íbúar landsins eru um 20 milljónir. Landið er í 172 sæti af 193 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (2022) en til samanburðar er Ísland þar iðulega í efstu fimm sætunum á milli ára.

Það sem einkennir verkefnasvæðið Hjálparstarfsins í Chikwawa héraði eru tíð flóð sem er rótin að vanda fólksins á svæðinu. Rigningar fjarri héraðinu valda flóðunum sem valda miklum skaða sökum þess að búið er að höggva niður skóga í fjallshlíðunum en vegna fátæktar hafa íbúar neyðst til að nýta viðinn með þessum afleiðingum. Verkefnið snýst um að fólkið geti hjálpað sér sjálft, og því felst starfið ekki síst í fræðslu og námskeiðahaldi.

Mikilvægi þess að endurheimta gróður og tré sem bindur vatn í jarðveginum er mikilvægur þáttur fræðslunnar. Eins lýtur fræðslan að því að efla viðbragðsgetu samfélagsins þegar hættulegar aðstæður skapast vegna rigninga. Það má líkja þessu við almannavarnir sem við þekkjum hér heima. Eins má nefna átak til að fjölga þeim tegundum matjurta sem ræktaðar eru; í Chikwawa rækta nær allir maís og á uppskerutíma skapast offramboð sem veldur því að lítið fæst fyrir uppskeruna. Fjölbreyttari afurðir og skilvirkari ræktunaraðferðir eru líklegar til að skila íbúum svæðisins bættum hag.

Fiskirækt kemur líka við sögu og bændurnir fá aðstoð við að stofna samvinnufélög. Slík félög gera bændunum frekar kleift að selja sínar eigin afurðir á markaði svo að ágóðinn nýtist þeim beint, en milliliðir éti ekki upp arðinn af vinnu þeirra.

Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins og Kristín Ólafsdóttir, verkefnastýra erlendra verkefna, fóru í vettvangsferð til Malaví í mars 2024. Þau hittu þá starfsfólk verkefnisins sem virtist vel starfi sínu vaxið, reynslumikið og áhugasamt. Sérstaklega þótti þeim ánægjulegt að kynnast verkefnastjóranum í Chikwawa sem er kona menntuð í landbúnaðarfræðum. Á ferð um verkefnasvæðið urðu fulltrúar Hjálparstarfsins vitni að því að starfsfólk verkefnisins er í mjög góðu sambandi við fólkið sem nýtur góðs af verkefninu.

Starfssaga Hjálparstarfsins í landinu teygir sig all langt aftur. Á árunum 2005 til 2014 studdi Hjálparstarfið verkefni Evangelical Lutheran Development Service (ELDS) í Malaví sem snerist um vatnsöflun og betra lífsviðurværi fyrir um 900 fjölskyldur sjálfsþurftarbænda í 37 þorpum, og einmitt í Chikwawa héraði.

Markmiðið með verkefninu var að auka aðgengi að hreinu vatni með því grafa brunna og kenna fólki að nýta vatn til að tryggja betur fæðuöryggi. Eins snéri verkefnið að því að byggja kamra og handþvottaaðstöðu og fræða um nauðsyn hreinlætis. Trjám var plantað og námskeið voru haldin um umhverfisvernd og sjálfbærni. Þá var jarðrækt þróuð með nýjum korntegundum og skepnuhald styrkt með því að bændur fengu geitur og hænur til að bæta lífsafkomu sína. Það er því vel hægt að halda því á lofti að verkefnið sem nú er hafið sé framhald eldri verkefna í Malaví, þó áherslur séu að einhverju leyti aðrar.

Heildarkostnaður verkefnisins starfsárið 2023-2024 nam 30 milljónum króna. Á starfsárinu 2022 – 2023 nam kostnaður við verkefnið 16,2 milljónum króna.

Styrkja