Hjálparstarf kirkjunnar veitir mannúðaraðstoð í samstarfi við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, og systursamtök og -stofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance, sem samhæfir mannúðaraðstoð með hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og starfar eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf.

Rammasamningar Hjálparstarfs kirkjunnar og utanríkisráðuneytisins voru undirritaðir árið 2022 en þeir hverfast um stuðning ráðuneytisins við verkefni Hjálparstarfsins á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Samkvæmt samningunum leggur ráðuneytið til framlag sem nemur stórum hluta af kostnaði við skilgreind verkefni.

Í janúar 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar 21,2 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Afganistan. Framlagið er að meðtöldum 20 milljóna króna styrk utanríkisráðuneytisins og rennur það til verkefna Christian Aid, systurstofnunar Hjálparstarfsins í Alþjóðlegu hjálparstarf kirkna, ACT Alliance.

Eftir að hafa verið frá völdum í 20 ár komust Talibana aftur til valda í Afganistan þegar bandarískt herlið yfirgaf landið í ágúst 2021. Segja má að um leið hafi hafist hnignun og afturför í landinu ekki hvað síst hvað varðar mannréttindi og stöðu kvenna.

Afganska þjóðin stendur nú frammi fyrir mikilli neyð en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fá 95% af afgönsku þjóðinni ekki nóg að borða. Fyrir valdatöku talibana var efnahagsstaðan í landinu mjög slæm vegna þurrka og afleiðinga kórónuveirufaraldursins en nú fer sárafátækt hratt vaxandi og mikill skortur er á matvælum.

Alþjóðastofnanir segja mjög mikilvægt að viðhalda flæði fjármagns og mannúðaraðstoðar til Afganistan til að vernda það sem unnist hefur í þróunarstarfi undanfarna áratugi og til að koma í veg fyrir algjört hrun í landinu.

Markmið með verkefni Christian Aid eru fyrst og fremst að tryggja fólki sem býr við sárustu fátæktina aukið fæðuöryggi, húsaskjól og aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Áætlað er að verkefnið hafi náð til samtals 63 þúsund einstaklinga í lok árs 2022.

Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna stríðsátaka

Lýðfrelsisfylking Tigray og stjórnvöld í Eþíópíu féllust á vopnahlé í lok árs 2022 sem hefur haldið til þessa dags. Borgarastríðið í Tigray hafði þá staðið óslitið í tvö ár en við undirskrift var samningalota deiluaðila búin að standa í áratug, sem er til marks um hversu þrálátar deilur fylkinganna tveggja hafa verið.

Átökin hafa leikið þetta næst fjölmennasta ríki Afríku grátt. Tölur eru á reiki en mat alþjóðastofnana er hins vegar að um 600.000 almennra borgara liggi í valnum. Þar af er talið að sex af hverjum tíu hafi dáið úr hungri enda var hungurvofunni beitt markvisst sem vopni af stjórnarhernum. Þá eru ótaldir þeir sem létu lífið eða særðust í beinum átökum og milljónir manna sem hröktust frá heimilum sínum.

Á meðan átökunum stóð einangruðu eþíópísk stjórnvöld Tigrayfylki nær algjörlega og því var aðgangur hjálparsamtaka mjög takmarkaður. Eftir að vopnahléið var sett á áttu  forsvarsmenn hjálparsamtaka hins vegar kost á því að ferðast um svæði þar sem áður var útilokað að fara um. Það átti við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins (LWF DWS)  sem veitti aðstoð vegna borgarastríðsins frá upphafi þess í nánu samráði við stjórnvöld og önnur mannúðarsamtök.

Í febrúar 2022 sendi Hjálparstarf kirkjunnar 22 milljónir króna til mannúðaraðstoðar LWF DWS í Amhara nágrannafylki Tigray en utanríkisráðuneytið veitti 20 milljón króna styrk til verkefnisins utan rammasamnings.

Markmið verkefnisins, sem varði frá júní 2022 – desember 2023, var að bregðast við alvarlegum fæðuskorti á svæðinu vegna átaka, þurrka og uppskerubrests.

Mannúðaraðstoð í Eþíópíu vegna þurrka

Átök, þurrkar og fátækt herja á Eþíópíu og yfir 24 milljónir íbúa hafa undanfarin ár þurft aðstoð eingöngu vegna þurrkanna. Í júní árið 2022 sendi ACT Alliance út neyðarbeiðni vegna þurrka í þremur ríkjum; Sómalíu, Keníu og Eþíópíu. Strax í kjölfar hennar sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 22 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðarinnar og nam styrkur utanríkisráðuneytisins til verkefnisins 20 milljónum króna. Framlag Íslendinga var eyrnamerkt mannúðaraðstoð Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF/DWS í Oromía- og Sómalí-fylkjum í Eþíópíu. Í Sómalífylki náði mannúðaraðstoð LWF meðal annars til Kebri Beyah héraðs en þar er stærsta verkefni Hjálparstarfsins í þróunarsamvinnu.

Lútherska heimssambandið hefur starfað í Eþíópíu frá árinu 1971 og veitt þar bæði mannúðaraðstoð og starfað í þróunarsamvinnu. LWF hefur m.a. aukið aðgengi fólks að vatni og hreinlætisaðstöðu og útvegað fólki húsaskjól, mat, búsáhöld og reiðufé til nauðþurfta. Fólkið í fylkjunum tveimur býr við alvarlegan fæðuskort og búfénaðurinn fellur úr hor vegna þurrka. Aðgengi að vatni er þar afar takmarkað sem leiðir til þess að fólkið yfirgefur iðulega heimkynni sín og fer á vergang. Heilsufar versnar og börn sækja ekki skóla.

Verkefninu sem Hjálparstarfið átti aðild að náði til 72.000 íbúa landsins, bæði heimafólks og fólks á vergangi á þeim átján mánuðum sem verkefnið stóð yfir, eða frá júnímánuði 2022 til ársloka 2023. Markmið verkefnisins voru að bjarga mannslífum og koma í veg fyrir hungursneyð og alvarlega vannæringu fólksins sem býr á verstu þurrkasvæðunum. Þá var veittur sálfélagslegur stuðningur en stærstu kostnaðarliðir verkefnisins voru að útvega vatn og hreinlætisaðstöðu og að tryggja fæðuöryggi fólksins.

Hvað starfssvæði Hjálparstarfsins í Sómalífylki varðar þá var um verstu þurrka að ræða í fjóra áratugi. Hundruð þúsunda bættust við tölu þeirra sem voru þegar á vergangi innan svæðisins og milljónir manna bættust við hóp þeirra sem þurfa aðstoð við að brauðfæða sig. Stór hluti vandans sem langvarandi þurrkar skapa er að búsmali fólksins á svæðinu hríðféll og er þá sama hvort um geitur, sauðfé eða nautgripi er að ræða.

Samkvæmt Eþíópísku heilbrigðisstofnuninni (EPI) braust kólera einnig út á tveimur aðskildum svæðum í Sómalífylki og var um hliðarverkun þurrkanna að ræða. Þá gripu bændafjölskyldur til þess örþrifaráðs að leggja sér útsæði sitt til munns. Þegar allt er samantekið mátu stjórnvöld og hjálparsamtök stöðuna svo að vegna þrálátra þurrka, mögulega að stórum hluta vegna loftslagsbreytinga, hafi staða íbúa á stórum svæðum innan Eþíópíu verið afar ótrygg.

Í heild sendi Hjálparstarf kirkjunnar tæpar 33 milljónir króna til systursamtaka sinna í Eþíópíu vegna verkefnisins á árinu 2022. Tuttugu og tveggja milljóna króna framlag í júlí og auk þess tæplega ellefu milljóna króna framlag í desember. Þetta var mögulegt með tilstyrk utanríkisráðuneytisins sem lagði til 30 milljónir króna.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf neyðarsöfnun í kjölfar innrásar Rússlandshers í Úkraínu í febrúar 2022 og hafði í lok starfsárs 2023 – 2024 alls sent 56,6 milljónir króna framlag Íslendinga til neyðaraðstoðar við flóttafólk frá Úkraínu – þar af lagði utanríkisráðuneytið til 30 milljónir, Þroskahjálp 500 þúsund krónur og styrktarsamfélag Hjálparstarfsins 26 milljónir króna.

Framlagið var sent til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins, LWF DWS, í Póllandi sem rekur meðal annars sex miðstöðvar þar sem fólkið fær reiðufé og sálfélagslegan stuðning Miðstöðvarnar þjóna einnig sem athvörf fyrir konur og börn. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja aðgengi og öryggi fólks með fötlun.

Í fyrstu fólst aðstoðin mikið til í því að hjálpa fólki að komast yfir landamæri Úkraínu og Póllands á öruggan hátt. Greitt var fyrir fargjald í rútur, fólki voru færðar samlokur og annað matarkyns. Börn og fullorðnir fengu teppi og hreinlætisvörur.

Frá því eftir innrásina og til loka árs 2023 höfðu fleiri en 30 þúsund fjölskyldur (69.852 einstaklingar, þar af 3.766 fatlaðir) fengið reiðufé fyrir nauðþurftum. Fleiri en 23 þúsund einstaklingar fengu sálfélagslegan stuðning og fleiri en 43 þúsund notið aðstoðar félagsráðgjafa við að aðlagast nýju samfélagi. Fleiri en 30 þúsund börn hafa verið í öruggu skjóli þar sem þau hafa getað leikið sér og um 4.000 leikföng voru keypt fyrir börnin. Fleiri en 700 fatlaðir einstaklingar fengu hjálpartæki og 1.800 einstaklingar hafa fengið inneignarkort fyrir vetrarfatnaði. Þá hafa um 3.700 flóttamenn fengið aðstoð við lyfjakaup og 450 börn fengið námsgögn.

Í upphafi voru verkefni LWF DWS hugsuð til tveggja ára, frá 1. mars 2022 til 29. febrúar 2024, en í upphafi árs 2024 var tímaramminn færður til loka febrúar 2025. Á starfsárinu 2024 – 2025 mun Hjálparstarf kirkjunnar leggja til frekari fjárstuðning til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða íbúa Úkraínu.

Mannúðaraðstoð í Sýrlandi

Í júlí 2021 sendi Hjálparstarf kirkjunnar um 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi. Átök höfðu þá geisað í landinu í rúman áratug en kórónuveirufaraldurinn enn aukið á sára neyð fólksins þar. Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir íbúa á aðstoð að halda og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem leggur áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning.

Áhersla er lögð á að hlúa að börnum, eldra fólki og sjúklingum og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.

Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð tíu milljónir króna. Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 118 milljónum króna.

Jarðskjálftar í Tyrklandi og Sýrlandi

Aðfaranótt mánudagsins 6. febrúar 2023 riðu öflugir jarðskjálftar yfir landamærahéruð Tyrklands og Sýrlands. Hjálparstarf kirkjunnar í Mið-Austurlöndum (MECC), sem eru systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum, hófu strax mat á því hvernig bregðast mætti við hamförunum með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma hóf MECC að dreifa  hjálpargögnum; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði.

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf neyðarsöfnun um sólarhring eftir að jarðskjálftarnir riðu yfir. Öllum var ljóst að hamfarirnar voru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð væri aðkallandi. Alls er nú talið að hamfarirnar hafi haft alvarlegar afleiðingar á líf 25 milljóna íbúa í Tyrklandi og Sýrlandi en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fórust í þeim á milli 50.000 og 60.000 manns. Ónýtar og illa farnar byggingar voru taldar í hundruðum þúsunda og mikill fjöldi fólks missti heimili sín auk þess sem innviðir á jarðskjálftasvæðunum fóru illa.

Þann 30. mars 2023 sendi Hjálparstarf kirkjunnar rúmar 25 milljónir króna til verkefna MECC og staðbundinna samstarfsaðila við að veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Sýrlandi neyðaraðstoð. Upphaflega stóð til að leggja til ellefu milljónir króna en hálfum mánuði eftir að náttúruhamfarirnar riðu yfir var ljóst að neyð fólksins væri enn meiri en leit út fyrir í upphafi. Því ákvað Hjálparstarfið að hækka framlagið sem var að meðtöldum 20 milljóna króna styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.

Mannúðarverkefni MECC í Sýrlandi lauk í árslok 2023. Aðstoðin hafði þá náð til um 26.000 íbúa í öllum fylkjum Sýrlands. Á árinu 2023 hafði MECC dreift fatnaði, teppum, matarkörfum, lyfjum og hreinlætisvörum ásamt því að gera við kirkjubyggingar og löskuð bænahús. Þá stóð MECC fyrir viðgerð á sex skólabyggingum svo fleiri en 4.000 nemendur gátu aftur hafið nám. MECC gerði auk þess við 30 íbúðabyggingar svo fjölskyldur gætu snúið aftur heim eftir hamfarirnar.

MECC skipulagði auk þess uppbótarkennslustundir fyrir grunnskólanemendur og dreifði námsgögnum, hreinlætisvörum, fatnaði og sólarrafhlöðuluktum til nemenda ásamt því að veita börnunum sálfélagslegan stuðning og halda úti barnavernd.

Unnið var að því að koma upp hreinlætisaðstöðu með fólkinu sjálfu og sameiginlegum þvottahúsum sem drifin voru áfram með sólarrafhlöðum. Þá var sólarrafhlöðukerfi sett upp í fjöldahjálparskýlum og fólkið fékk reiðufé fyrir nauðsynjum. Hátt í þrjú hundruð fjölskyldur fengu reiðufé fyrir leiguhúsnæði á meðan þær biðu þess að komast aftur heim til sín og starfsfólk sem vann að verkefnum MECC fékk laun fyrir vinnu sína sem dugði þeim til framfærslu.

Í júlí 2021 hafði Hjálparstarf kirkjunnar sent 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar vegna stríðsátaka í Sýrlandi. Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfinu þá styrk að upphæð tíu milljónir króna.

Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir Sýrlendinga á aðstoð að halda á árinu 2021 og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem lagði áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.

Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 143 milljónum króna og er sú upphæð að meðtöldu 25 milljóna króna framlagi Hjálparstarfsins vegna hamfarajarðskjálftanna í febrúar 2023.

 

Styrkja