Mannúðaraðstoð í Sýrlandi
Í júlí 2021 sendi Hjálparstarf kirkjunnar um 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi. Átök höfðu þá geisað í landinu í rúman áratug en kórónuveirufaraldurinn enn aukið á sára neyð fólksins þar. Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir íbúa á aðstoð að halda og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem leggur áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning.
Áhersla er lögð á að hlúa að börnum, eldra fólki og sjúklingum og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.
Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð tíu milljónir króna. Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 118 milljónum króna.
Jarðskjálftar í Tyrklandi og Sýrlandi
Aðfaranótt mánudagsins 6. febrúar 2023 riðu öflugir jarðskjálftar yfir landamærahéruð Tyrklands og Sýrlands. Hjálparstarf kirkjunnar í Mið-Austurlöndum (MECC), sem eru systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar á staðnum, hófu strax mat á því hvernig bregðast mætti við hamförunum með sem skilvirkustum hætti. Á sama tíma hóf MECC að dreifa hjálpargögnum; mat, lyfjum, teppum og hlýjum klæðnaði.
Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi hóf neyðarsöfnun um sólarhring eftir að jarðskjálftarnir riðu yfir. Öllum var ljóst að hamfarirnar voru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð væri aðkallandi. Alls er nú talið að hamfarirnar hafi haft alvarlegar afleiðingar á líf 25 milljóna íbúa í Tyrklandi og Sýrlandi en samkvæmt Sameinuðu þjóðunum fórust í þeim á milli 50.000 og 60.000 manns. Ónýtar og illa farnar byggingar voru taldar í hundruðum þúsunda og mikill fjöldi fólks missti heimili sín auk þess sem innviðir á jarðskjálftasvæðunum fóru illa.
Þann 30. mars 2023 sendi Hjálparstarf kirkjunnar rúmar 25 milljónir króna til verkefna MECC og staðbundinna samstarfsaðila við að veita fórnarlömbum jarðskjálftanna í Sýrlandi neyðaraðstoð. Upphaflega stóð til að leggja til ellefu milljónir króna en hálfum mánuði eftir að náttúruhamfarirnar riðu yfir var ljóst að neyð fólksins væri enn meiri en leit út fyrir í upphafi. Því ákvað Hjálparstarfið að hækka framlagið sem var að meðtöldum 20 milljóna króna styrk utanríkisráðuneytisins til verkefnisins.
Mannúðarverkefni MECC í Sýrlandi lauk í árslok 2023. Aðstoðin hafði þá náð til um 26.000 íbúa í öllum fylkjum Sýrlands. Á árinu 2023 hafði MECC dreift fatnaði, teppum, matarkörfum, lyfjum og hreinlætisvörum ásamt því að gera við kirkjubyggingar og löskuð bænahús. Þá stóð MECC fyrir viðgerð á sex skólabyggingum svo fleiri en 4.000 nemendur gátu aftur hafið nám. MECC gerði auk þess við 30 íbúðabyggingar svo fjölskyldur gætu snúið aftur heim eftir hamfarirnar.
MECC skipulagði auk þess uppbótarkennslustundir fyrir grunnskólanemendur og dreifði námsgögnum, hreinlætisvörum, fatnaði og sólarrafhlöðuluktum til nemenda ásamt því að veita börnunum sálfélagslegan stuðning og halda úti barnavernd.
Unnið var að því að koma upp hreinlætisaðstöðu með fólkinu sjálfu og sameiginlegum þvottahúsum sem drifin voru áfram með sólarrafhlöðum. Þá var sólarrafhlöðukerfi sett upp í fjöldahjálparskýlum og fólkið fékk reiðufé fyrir nauðsynjum. Hátt í þrjú hundruð fjölskyldur fengu reiðufé fyrir leiguhúsnæði á meðan þær biðu þess að komast aftur heim til sín og starfsfólk sem vann að verkefnum MECC fékk laun fyrir vinnu sína sem dugði þeim til framfærslu.
Í júlí 2021 hafði Hjálparstarf kirkjunnar sent 10.7 milljóna króna fjárframlag til mannúðaraðstoðar vegna stríðsátaka í Sýrlandi. Framlagið var að meðtöldum stuðningi utanríkisráðuneytisins sem veitti Hjálparstarfinu þá styrk að upphæð tíu milljónir króna.
Að mati Sameinuðu þjóðanna þurftu um ellefu milljónir Sýrlendinga á aðstoð að halda á árinu 2021 og rann fjárframlagið til verkefna Hjálparstarfs Lútherska heimssambandsins sem lagði áherslu á að vernda líf og heilsu íbúanna og að veita börnum jafnt sem fullorðnum sálfélagslegan stuðning og að aðstoða fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný.
Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar, með stuðningi ráðuneytisins, sent fjárframlag til mannúðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga sem nemur rúmlega 143 milljónum króna og er sú upphæð að meðtöldu 25 milljóna króna framlagi Hjálparstarfsins vegna hamfarajarðskjálftanna í febrúar 2023.