Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins

Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum í höfuðborginni og varir í 3 ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna. Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðnuneytisins. UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Þau reka verkmenntamiðstöðvar þar sem ungmennin  geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

 

Með munaðarlausum í Úganda

Skýrsla NIRAS í janúar 2018 um verkefni Hjálpartarfsins í þágu munaðarlausra barna í Úganda.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur um nokkurra ára skeið stutt verkefni í Úganda. Það er unnið í þremur héruðum: Sembabule, Rakaí og Lyantonde og snýst um að draga úr tíðni HIV-smits og áhrifum alnæmis á samfélagið. Sá hluti sem Hjálparstarfið styður snýst um að hjálpa börnum sem misst hafa báða foreldra úr alnæmi og búa ein. Áhersla er á að bæta lífsskilyrði þeirra með því að reisa handa þeim íbúðarhús með grunnhúsbúnaði og eldaskála með sérhönnuðum hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum. Hreinlæti á heimilum er aukið með fræðslu og með því að gera kamra og hreinlætisaðstöðu. Einnig er gengið frá því að börnin hafi betri aðgang að hreinu vatni með því að koma upp safntönkum við hús.

Góðir samstarfsaðilar

Framkvæmdar- og ábyrgðaraðili verkefnisins í Sembabule og Lyantonde er Lútherska heimssambandið og Rakai Community Based Aids Organisation í Rakaí. Þeir sjá um daglegan rekstur og framkvæmd í samvinnu við stjórnvöld og íbúa sem leggja fram vinnu á margvíslegan hátt. Hjálparstarfið naut samstarfs við Þróunarsamvinnustofnun Íslands fyrir tímabilið 2007-2009 um fjármögnun verkefnisins. Kostnaðaráætlun fyrir tímabilið nam 142.000 dollurum á ári. Kostnaði er skipt hlutfallslega þannig að ÞSSÍ greiðir 60% og Hk 40%. Hjálparstarfið hefur umsjón og eftirlit með verkefninu auk skýrslugerðar og skipulags sem metið er á um 10% af heildarkostnaði verkefnisins. Eftir að þessu samningstímabili lauk hefur Hjálparstarfið stutt verkefnið um 70.000 dollara á ári. Ástæðan fyrir þessum samdrætti er auðvitað efnahagsástandið á Íslandi og minni framlög til Þróunarsamvinnustofnunar. Sagði stofnunin frá því að samningar yrðu ekki endurnýjaðir að svo stöddu. Hjálparstarfið hefur búið að varasjóði sem nýtist nú til að brúa bilið þar til framlög Íslands aukast á ný og möguleiki verður á nýju samstarfi við ÞSSÍ.

Fjöldi munaðarlausra barna er mikill

Á starfssvæði kirkjunnar er ætlað að séu rúmlega 500 heimili þar sem báðir foreldrar hafa dáið úr alnæmi og börnin búa ein. Lútherska heimssambandið styður 350 þessara heimila sem verst eru sett. Á þeim búa u.þ.b. 2000 börn. Stundum búa þar einnig aldraðar ömmur sem hugsa um börn margra barna sinna.

Viðfangsefni barnanna

Börnin glíma við að rækta ofan í sig matvæli eða útvega þau á annan hátt, selja afurðir, elda mat, þvo þvott, þrífa, hugsa um yngri systikini og reyna jafnvel að ganga í skóla. Þau glíma auk þess við það að njóta ekki virðingar sem borin er fyrir fullorðnum t.d. í viðskiptum og öðrum erindum sem þau þurfa að reka, - þótt þau beri sömu ábyrgð og fullorðnir eftir fráfall foreldra sinna. Þau eru með réttu hrædd við þjófa og mörg læsa sig inni eftir myrkur og eiga því ekkert félagslegt samneyti við aðra eftir að vinnudegi lýkur.

Með litlu framlagi er t.d. hægt að veita einu heimili efnislegan stuðning með fatnaði, áhöldum og reglulegri ráðgjöf fullorðins sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðinn er þjálfaður til verksins og er sá eini sem kennir, styður og huggar þar sem engir eru foreldrarnir. Börnin þurfa mismikla aðstoð eftir aðstæðum. Söfnunarfé er varið þannig að það komi börnunum sem best.

M.a. eru sjálfboðaliðar þjálfaðir til heimsækja börnin reglulega. Þeir kenna þeim m.a. hvernig þau geti aflað tekna fyrir heimilið, veita sálgæslu og útvega nauðsynjar. Lítil hús sem byggð eru fyrir munaðarlaus börn og aðra illa stadda með börn á framfæri kostar aðeins 100.000 kr. Vatnstankur við húsið, sem í rennur regnvatn af þakinu, kostar 45.000 kr. Hann dugar oft 2-3 mánuði inn í þurrkatímann og sparar langar og erfiðar ferðir í vatnsból. Fatnaður og áhöld sem keypt eru fyrir börnin eru framleidd innanlands og mjög ódýr.


Einir í heiminum? Saga tveggja bræðra

Þeir eru ekki lengur einir í heiminum. Þeir hafa fengið aðstoð. En þeir vita hvernig það er að vera það. Þeir vita hvernig það er að vakna og það er enginn í næsta rúmi. Það er heldur enginn úti að taka til morgunverð. Þegar degi hallar kemur enginn gangandi eftir stígnum að kofanum þeirra. Enginn segir „góða nótt”.

 

Mukasa og Bbale eru 13 ára og 16 ára. Bbale, sá eldri, er þroskaheftur og Mukasa sér um heimilið. Það hefur hann gert í fimm ár. Bræðurnir misstu pabba sinn úr alnæmi þegar Mukasa var aðeins tveggja ára. Engar sögur fara af mömmu hans. Þeir fóru því til ömmu sinnar sem tók þá að sér um tíma. En hún var gömul, þreytt, sorgmædd og buguð af erfiðri lífsbaráttu og einn daginn fór hún burt. Ættingjar hlupu í skarðið. En skörðin urðu sífellt fleiri, hvert á fætur öðru dóu skyldmenni drengjanna, flest úr alnæmi. Strákarnir fóru að hugsa um að fara að búa sjálfir á litla jarðskika foreldra sinna. Mukasa vildi fá með sér bárujárnsplötur sem pabbi hans hafði átt og skyldmenni hans tekið til handagagns. Mukasa vildi hafa þær með sér til að búa þeim bræðrum skjól á nýju heimili. En upp hófst rifrildi, fólkið vildi ekki láta þær að hendi. Bræðurnir fóru tómhentir í gamla kofaræsknið sem enn stóð. Það var í raun mesta furða að kofinn skyldi standa; veik grind úr grönnum trjástofnum og þak úr skrælnuðum blöðum. Það hélt auðvitað hvorki vatni né vindi en var betra en ekkert.

Við þessar aðstæður reyndu bræðurnir að rækta landið, þeir borðuðu banana og sóttu vatn í drullugt vatnsból langt út með hæðinni. Dag einn kom maður eftir stígnum, ógreinilegur í fyrstu inn á milli bananatrjánna. Drengirnir færðu sig nær hvor öðrum og biðu átekta. Þetta var Stephen. Þetta var bjargvætturin. Hann sagðist geta hjálpað þeim, spurði þá spjörunum úr og sagðist mundu koma aftur fljótlega með áhöld, fræ og föt handa þeim. Stephen var einn af sjálfboðaliðunum á svæðinu sem hjálpa munaðarlausum börnum á vegum Lútherska heimssambandsins sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að. Þau eru bara svo mörg munaðarlausu börnin og þau búa mörg svo afskekkt að ekki næst til þeirra strax. Þjálfun Stephens hafði verið greidd fyrir framlag frá Hjálparstarfi kirkjunnar í fyrra og svo yrði einnig um aðstoðina sem drengirnir áttu að fá.

Komnir með kjölfestu

Þegar Hjálparstarfið fór á vettvang óx baunagras á landi drengjanna. Bananaakurinn var sæmilega ruddur af dauðum greinum og illgresi. Við hlið kofans sást móta fyrir grunni að litlum geymsluskúr fyrir uppskeruna. Lífið var auðvitað fjarri því að vera eins og það átti að vera. En strákarnir fá fjölbreyttari mat. Þeir kunna betur til verka. Þeir hafa betri áhöld. Umfram allt eru þeir ekki lengur einir í heiminum. Reglulegar heimsóknir ráðgjafans skipta öllu máli. Mukasa er ekki lengur einn um byrðarnar. Hann hefur einhvern til að leiðbeina sér og styðja. Hann getur betur hjálpað Bbale. Smám saman hefur brosið aftur komið fram á varirnar. Það lá við að það gelymdist alveg.