Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?

Aðgangur að hreinu vatni og bætt lífsskilyrði í Sómalífylki í Austur-Eþíópíu

vatn í Eþíópíu krakkar pumpa

Sómalífylki er eitt af fjórum fátækustu fylkjum í Eþíópíu sem er meðal fátækustu ríkja heims. Fylkið þekur 144 þúsund ferkílómetra og þar búa yfir 5 milljónir sjálfsþurftarbænda og hálfhirðingja. Grunnstoðir samfélagsins eru veikar og fjarskipti og samgöngur eru léleg. Tíðir þurrkar valda viðvarandi matarskorti og vannæringu í fylkinu. Um 1 milljón íbúanna er háð mataraðstoð að staðaldri.

Búfjárrækt með kameldýr, kindur, geitur og nautgripi er undirstöðuatvinnugrein í fylkinu. Þar sem skilyrði eru til er einnig ræktað maís, hirsi, hveiti og bygg. Vatnsskortur í fylkinu hefur leitt til lélegs ástands bústofnsins en dýralæknaþjónusta er stopul. Skortur er á tækjum og tólum og því eru ræktunaraðferðir í jarðrækt takmarkaðar. Allt leiðir þetta til þess að fæðuöryggi er mjög takmarkað og lífsskilyrði slæm.

Tryggara lífsviðurværi íbúa í Jijiga- og Tuluguladehéruðum Sómalífylkis

Á starfsárinu 2016 - 2017 náði verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í harðbýlu Sómalífylki til tæplega 35.000 sjálfsþurftarbænda (47% þeirra eru konur) en samstarfsaðili á vettvangi er Lútherska heimssambandið.

Yfirmarkmið verkefnisins er að bæta fæðuöryggi og lífsafkomu fólksins sem unnið er með. Tvö undirmarkmið þess eru að bæta aðgengi fólksins að fæðu og hreinu vatni og að valdefla konur með því að þær hafi meiri áhrif og ákvörðunarvald yfir tekjum sem þær afla.

Árið 2016 voru grafnar þrjár vatnsþrær eða birkur eins og heimamenn kalla þær. Grafið var fyrir tveimur brunnum og gert við fjóra gamla brunna og birkur. Loks voru rör og rennur sett á þak skólabyggingar yfir í vatnssöfnunartank sem byggður var. Þannig var drykkjarvatn tryggt fyrir um 12.700 manns og 4.300 skepnur á síðasta ári.

Hundrað og sex konur fengu lán úr sjóði sem endurnýjast þegar konurnar greiða til baka en hver og ein fær sem svarar um 22.000 krónum til að hefja atvinnurekstur. Þriggja daga vinnustofa var haldin fyrir 40 skoðanaleiðtoga um leiðir til að afnema skaðlegar venjur eins og limlestingar á kynfærum kvenna og að gefa stúlkur barnungar í hjónaband. Hundrað og sextíu bændur tóku þátt í námskeiðum um bættar ræktunarleiðir, þurrkþolnari korntegundir og hunangsræktun.

Um 77% þeirra verkþátta sem framkvæma átti á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 hafa verið framkvæmdir en þeir sem eftir standa fara í framkvæmd á þriðja ársfjórðungi.

Um 240 manns fengu fræðslu um hreinlæti og smitleiðir sjúkdóma á fyrstu sex mánuðum árisns, tveir kamrar voru reistir og fólk hvatt til að reisa sér sjálft slíka kamra. Til stóð að grafa handgrafinn brunn á öðrum ársfjórðungi en vegna Ramadan hátíðarinnar dróst að hefjast handa en brunnurinn mun verða grafinn á þriðja ársfjórðungi 2017. Vegna þurrka var orðið við beiðni staðaryfirvalda um að dreifa vatni og fengu 12.500 manns vatn á fyrri hluta árs í 63 ferðum trukka með vatnstanka svæðið.

Í landbúnaðarhluta verkefnisins fengu 738 bændur, þar af 163 konur, þjálfun í bættum ræktunaraðferðum. Fimmtíu bændur, þar af tíu konur, fengu afhenta Ardu-plóga sem rista dýpra en hefðbundir plógar og endast lengur. Fjögur hundruð fjölskyldur fengu afhent samtals 2.500 kg af þurrkþolnari korntegundum til ræktunar sem þær greiða til baka við uppskeru svo fleiri fjölskyldur njóti góðs af. Samstals fengu 146 fátækar konur 440 hænsn til hænsnarækturnar. 30.000 græðlingar eru tilbúnir til dreifingar, (avocado, papaya, mangó og guava) og verða afhentir fjölskyldum á sinni hluta ársins 2017.

Upprifjunarnámskeið var haldið fyrir 8 dýraliða og 130 bændur fengu fræðslu um dýrasjúkdóma og smitleiðir þeirra. Alls voru 476.767 dýr bólusett og áfram var haldið með kynningu á hunagsræktun en framleiðsla hefst seinnihluta ársins 2017.

Fimm sparnaðar- og lánahópar kvenna voru skipulagðir fyrstu sex mánuði 2017 en í hverjum hóp voru að meðaltali tuttugu konur. Búið er að fræða hópana en vegna Ramadan hátíðarinnar tafðist að setja af stað lánastarfsemina en það verður gert á þriðja ársfjórðungi.

Staðaryfirvöld reka tvær þjálfunarmiðstöðvar fyrir bændur. Til að styrkja þá starfsemi og bæta þjónustu voru afhent ýmis skrifstofutæki og húsgögn. Prentarar voru gefnir til að auðvelda framleiðslu fræðsluefnis. Sem fyrr er samstarf við staðaryfirvöld, þorpsleiðtoga og fólk sjálft í samfélögunum sem verkefnið nær til mjög gott.

Skýrsla NIRAS frá janúar 2018 um árangur verkefnisins.