Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Vilt þú vera með í hjálparstarfi á Haítí? 23.03.2010

Nú þarf að lyfta grettistaki í uppbyggingarstarfi á Haítí. Vilt þú vera með?

Afleiðingar af jarðskjálftanum á Haítí 12. janúar 2010 sem mældist 7 á Richter eru hrikalegar. Meira en 200.000 manns eru látnir, um 300.000 slasaðir, 1.2 milljónir manna misstu heimili sín og lifa í tjöldum og bráðabirgðahúsnæði í höfuðborginni Port-au-Prince.

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að Alþjóðaþróunar- og neyðarhjálp kirkna ACT Alliance. Fimm ACT aðilar voru með starfsemi á Haítí fyrir jarðskjálftann mikla. Þeir eru burðarásarnir í uppbyggingarstarfi ACT eftir skjálftann. Þessir aðilar eru Lutheran World Federation, Christian Aid, Diakonie Katastrophenhilfe, Interchurch Organisation for Development Cooperation og United Methodist Committee on Relief. Þekking þeirra á staðháttum og góð tengsl við fólkið, nýtist vel í uppbyggingarstarfinu.  Níu aðrir ACT-aðilar, þar á meðal Hjálparstarf norsku og dönsku kirkjunnar, hafa sent sína sérfræðinga á staðinn. Mörg hundruð tonn af matvælum, húsbúnaði og tjöldum hafa borist til nauðstaddra. Víða hefur hreinsikerfi verið sett upp til að hreinsa óhreint vatn, töflum sem hreinsa óhreint vatn verið dreift, mat og drykkjarvatni dreift til fólks.  Lið sérfræðinga, lækna og hjúkrunarfólks er að störfum, lyfjum dreift og slösuðum sinnt.

Clement Celis, 45 ára, býr í höfðuborginni Port-au-Prince, hún var í sturtu þegar ósköpin dundu yfir og dóttir hennar var inni í stofu. „Allt fór á hreyfingu og ekkert til að halda í. Það var eins og að vera í miðri flóðbylgju” segir Clement. Hún hljóp inn í stofu og tókst að komast með dóttur sinni út úr húsinu í þann mund sem húsið hrundi. Þrír synir hennar eru einnig á lífi en eiginmaður hennar er talinn af. Clement býr nú í tjaldi í búðum með börnunum sínum fjórum.

Um leið og neyðarstarfi er sinnt er mikilvægt að horfa til framtíðar og gefa fólki sem hefur misst nána ættingja og allt sitt von þrátt fyrir allt. Að það sjái möguleika á að geta lifað með sínum nánustu við sæmilegar aðstæður og sjá sér farborða. Um það snýst uppbyggingarstarfið sem nú er framundan.

Bæta þarf aðstæður í búðum sem heimilislausir búa í við mikil þrengsli. Bæta hreinlætisaðstöðu og fjölga salernum.  Síðan þarf að gera fólkinu kleift að reisa varanlegri hús eða skjól en nú er rigningartíminn hafinn og þá er mjög erfitt að búa í tjöldum. Hreinsa þarf rústir og útvega byggingarefni en aðeins 25% þeirra 1.2 milljóna manna sem þurfa nýtt hús hefur fengið nauðsynlegt byggingarefni til að hefjast handa. Halda þarf áfram að dreifa mat og vatni, en um leið styðja við innlenda akuryrkju og matarframleiðslu svo hægt verði að draga úr mataraðstoð sem fyrst. Skipulagt hefur verið starf þar sem þjálfað fólk  sinnir börnum í gegnum barnamiðstöðvar þar sem rætt er við þau, farið í leiki og myndmennt notuð til að hjálpa þeim að tjá erfiða reynslu sína og vinna úr henni. Þeir sem hafa slasast og þurfa að lifa við varanlega fötlun þurfa stuðning til að fá þau hjálpartæki sem henta hverjum og einum s.s. hjólastóla og gervilimi.

 Vilt þú vera með í uppbyggingarstarfinu á Haítí? Vilt þú gefa von við erfiðar aðstæður? Þú getur lagt lið með því að greiða valgreiðslu í heimabankanum þínum, leggja inn á reikning 334-26-886 kt. 450670-0499 eða hringja í söfnunarsíma 907 2003 hvert símtal gefur 2.500 krónur. Haítíbúar þurfa þína hjálp.

Til baka