Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Aðstoð ACT-Alliance komin á skrið 18.01.2010

Troðið er á götum borgarinnar, heimilislausir eigra um klukkutímum saman í leit að mat og vatni. Auk íbúðarhúsa, skóla og stjórnarbygginga sem hafa hrunið –  er vatnskerfi, rafmagns- og vegakerfi mjög illa farið. Mikil umferðarteppa er á flugvelli Port-au-Prince en hjálpargögn eru loksins að komast í gegn. Haítíbúar eru þó að verða því örvæntingarfyllri sem tíminn líður og fleiri ráðast á samborgara til að ná sér í vatn eða mat.

ACT eru ein stærstu hjálpsamtök á Haítí - símaráðstefna

ACT eru ein stærstu hjálparsamtökin á Haítí. Þau hafa fjóra aðila innan sinna vébanda sem hafa starfað í landinu til fjölda ára, að viðbættri aðstoð annarra ACT-aðila nú vegna skjálftans. Eftirfarandi kom fram á símaráðstefnu ACT 17. janúar.
·         ACT/Christian Aid hefur hafið dreifingu á mat, tjöldum, hreinlætispökkum, teppum, vatnsbrúsum og vatnshreinsitöflum til 15.000 manns á 8 stöðum. Þau beina athygli að svæðum þar sem aðrar hjálparstofnanir starfa lítið eða ekki. ACT/Christian Aid hefur einnig sent inn lækna- og hjúkrunarlið í gegnum sérhæft samtök á því sviði. Christian Aid reynir að kaupa sem mest af mat á eynni sjálfri, ef ekki í Haítí þá í Dómíníska lýðveldinu og er komið í samband við aðila þar. Allt annað þarf að kaupa erlendis frá.
·         ACT/Lútherska heimssambandið er að reisa starfsaðstöðu fyrir ACT-aðila á lóð sinni. Eldunaraðstaða er þar og góð nettenging. Vatnsmál þó erfið. Lútherska heimssambandið er að vinna í að ráða fleira fólk til starfa.
·         ACT/ Diakonie Katastrophenhilfe er með í pípunum að afhenda 15 tonn af mat í samvinnu við Caritas í Þýskalandi.
·         ACT/Lutheran World Relief er með matarsendingu í farvatninu.
·         Starfsfólk ACT/Church World Service og Christian Aid taka að sér að miðla hjálpargögnum sem geta borist frá öðrum.
·         ACT/Hjálparstarf norsku kirkjunnar/Kirkens Nödhjelp hefur sérþekkingu á vatns- og hreinslætismálum og áfallahjálp. KN sendi fyrir nokkru lið sérfræðinga á þessu sviði, upplýsingafulltrúa og samhæfingarsérfræðing. Tveir norskir ráðgjafar eru á leiðinni, með sérþekkingu á kynja- og barnaverndarmálum.

Hætta á sjúkdómum

ACT segir mjög ótryggt að dvelja innanhúss vegna skemmda og hrunhættu. Rigning geri aðstæður fólks enn verri. Hætta er á að sjúkdómar skjóti upp kollinum og berist hratt milli manna við þessar aðstæður. Orðrómur er um að landamærum til Dómíníska lýðveldisins verði lokað, ástand þar er nú ótryggt. Aðrir bæjir á Haítí eru líka illa leiknir, ástand þar ókannað. Eins og alltaf leggur ACT áherslu á að ná til staða sem njóta lítillar/engrar aðstoðar annarra. Enn er margra starfsmanna ACT saknað.

Áætlun SÞ um aðstoð fyrir 3 milljónir manna í 6 mánuði

Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér hjálparbeiðni upp á 562 milljónir dollara til að hjálpa þremur milljónum manna í 6 mánuði. Aðalritari SÞ, Ban Ki-moon, segir neyðarástandið á Haítí eitt það alversta í áratugi, á heimsvísu, og sárbænir fólk um að sýna stillingu. BBC-fréttastofan segir tölu látinna geta orðið á milli 50.000 og 200.000 manns.

Enginn öðrum æðri í eyðileggingunni

Jarðskjálftinn hefur skaðað alla þætti samfélagsins, einnig fólkið sem átti að vera við stjórn, kæmi til neyðarástands. Mörg hjálparsamtök hafa misst sérþjálfað starfsfólk svo og alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar. Stjórnvöld eru byrjuð að grafa fólk í fjöldagrafir. Fólk hefur ekkert fé milli handanna til að kaupa það sem til er, peningar þess hafa horfið undir rústir.

Samhjálp og frítt í síma

Símar hafa ekki virkað en írska símafélagið Digicel, segist hafa komið neti sínu í gang aftur og símtöl í gegnum það eru nú gjaldfrjáls, fyrir fólk að ná sambandi við ástvini sína.
Fólk hefur staðið saman og hjálpað hvert öðru, leitað að fólki í rústunum. Óþekktur vegfarandi bjargaði yfirmanni ACT/Christian Aid á Haítí, Prospery Raymond, úr rústum skrifstofunnar. Nágrannar Prospery búa nú í garðinum hjá honum. Fjöldi manns, e.t.v. um 100.000 manns hafa yfirgefið borgina og farið til að búa hjá ættingjum annars staðar á eynni.
Upplýsingafulltrúi ACT á Haítí, Sarah Wilson, hefur sofið í bíl og margir eru frekar úti en í húsum sínum eða rústum sem enn standa af ótta við etfirskjálfta. Starfsfólk ACT/ Diakonie Katastrophenhilfe flúði út úr skrifstofum sínum í einum slíkum en engan sakaði.

Flugvöllurinn er flöskuháls

Sarah Wilson frá ACT-aðilanum Christian Aid er upplýsingafulltrúi ACT á Haítí. Hún kom til Port-au Prince á föstudagsmorgun að staðartíma. Hún hafði þá áður flogið frá Santo Domingo en vélinni var snúið frá flugvellinum í Port-au Prince vegna örtraðar og ringulreiðar. Flugturninn er mikið skemmdur og Bandaríkjaher hefur sett upp radartæki til að hægt sé að lenda vélum og koma í loftið. Sarah og aðrir farþegar þurftu á endanum að hlaupa út úr vélinni á miðri braut og út af henni, farangri var hent út og vélin tók á loft aftur til að rýma fyrir fleirum sem komu inn til lendingar.

Sem dæmi: Ein kartafla í kvöldmat

Í Port-au Prince er skortur á öllu, einnig eldsneyti og mat. Verslanir eru opnar en erfitt að nálgast vörur vegna örtraðar - fólk treðst um til að koma höndum yfir bara eitthvað. Á föstudagskvöldið fengu Sarah og Prospery Raymond yfirmaður ACT /Christian Aid á Haítí sitt hvora kartöfluna í kvöldmat. Þau fengu egg og brauð í morgunverð daginn eftir. Skortur er farinn að segja til sín í Dómíníska lýðveldinu þar sem birgðir minnka af tjöldum og vatnshreinsibúnaði.
 
 
 
Til baka