Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Irene og Ronald 03.11.2014

Undanfarinn mánuð hafa tvö ungmenni frá Úganda hitt tilvonandi fermingarbörn á Íslandi og sagt þeim frá sjálfum sér og aðstæðum heima fyrir. Irene er 19 ára og Ronald er 25 ára. Þau búa á verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Lyantonde og Sembabule. Irene hefur lokið framhaldsskóla og kennt í grunnskóla. Ronald hefur lokið tveggja ára háskólanámi í félagsráðgjöf og starfað sem sjálfboðaliði að verkefnum okkar í þágu alnæmissjúkra og aðstandenda þeirra.
Irene og Ronald hafa mætt á skrifstofuna hjá okkur á morgnana til að undirbúa sig fyrir samtal við íslensk fermingarbörn og þá hefur okkur gefist tækifæri til að kynnast þeim aðeins. Þau fara í tölvuna og eru á Facebook alveg eins og krakkarnir okkar og þau eru flinkari á öppin en miðaldra skrifstofufólk í henni Reykjavík. Þau eru eldklár og alveg eins og íslenskir krakkar með sína drauma og þrár um góða framtíð.
Heima í Úganda eru aðstæður hins vegar töluvert öðruvísi en hér. Þrír yngri bræður bíða eftir að Irene komi heim en hún er höfuð fjölskyldunnar. Pabbi hennar lést af völdum alnæmis árið 2001 og mamma hennar dó eftir langvarandi veikindi árið 2011. Irene sér um að elda, fara eftir vatni og eldiviði ásamt því að þvo þvotta og þrífa heimili sitt og bræðra sinna. Ronald fer aftur heim til mömmu sinnar sem missti mann sinn úr alnæmi þegar Ronald var lítill strákur. Hann á þrjár systur og bróður. Mamma Ronalds er HIV-smituð og við slæma heilsu. Það hefur því komið í hlut Ronalds og systkina hans að sjá um heimilið á uppvaxtarárunum.
Irene og Ronald hafa lýst því hvernig vatnsskortur tafði fyrir skólagöngu þeirra. Þau eru hins vegar heppin þar sem þau búa á starfssvæðum Hjálparstarfsins. Irene lauk grunnskólanámi í skóla samstarfsaðila okkar og fjölskylda Ronalds fór úr moldarhreysi í múrsteinshús með vatnssöfnunartanki með fjárstuðningi frá íslenskum almenningi.
Tilvonandi fermingarbörn ganga í hús næstu daga og afla fjár til vatnsverkefna okkar í Afríku. Með þínum stuðningi getum við tryggt fleirum aðgang að hreinu vatni.

Til baka