Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Hjólar í kringum landið og safnar áheitum fyrir efnalítil ungmenni 11.07.2014

„Ég fylgdist með því fyrir nokkrum árum hvernig stuðningur Hjálparstarfs kirkjunnar við ungmenni nýttist frábærlega. Mig hefur síðan þá langað að styrkja starfið. Nú er tækifærið mitt komið. Ég ætla að hjóla í kringum landið og óska eftir áheitum vina minna til að hvetja mig áfram,“ sagði Hildigunnur Hauksdóttir sem er frísk og fjörug kona á fimmtugsaldri sem heldur af stað á þriðjudaginn 15. júlí og safnar um leið áheitum til styrktar Framtíðarsjóðs Hjálparstarfs kirkjunnar. Vinkona Hildigunnar, Sigrún Sævarsdóttir, mun fylgja henni eftir á bíl og mun hún senda myndir og segja frá ferðinni á facebooksíðu Hjálparstarfsins.

Markmið með Framtíðarsjóðnum er að veita efnalitlum ungmennum efnislegan stuðning og þar með tækifæri til að stunda nám sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskólanáms. Samtals nutu 78 ungmenni stuðnings Hjálparstarfsins til náms í framhaldsskólum síðasta skólaár. Stuðningurinn felst til að mynda í því að greitt er fyrir námsgögn, skólavist, tölvu og aðra kostnaðarliði sem er efnalitlum ungmennum hindrun í að ljúka námi. Stuðningur Hjálparstarfsins er veittur eftir faglegt mat félagsráðgjafa án tillits til trúar, þjóðernis, litarháttar, kyns eða skoðana.

Hægt er að heita á Hildigunni og styrkja Framtíðarsjóð með því að greiða inn á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir verkefni innanlands: 0334-26-27. Kennitala er 450670-0499.  Einnig er hægt að hringja í söfnunarsímanúmerið 907 2002 (2500 krónur).  Á vefsíðunni www.gjofsemgefur.is er svo hægt að kaupa gjafabréfið Framtíðarsjóður.

Til baka