Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Einstæð þriggja barna móðir trúði vart eigin augum 07.05.2014

María Rhoda er 33 ára gömul  einstæð þriggja barna móðir sem býr á verkefnasvæði Hjálparstarfs kirkjunnar í Lyantonde í Úganda. Hún er HIV-smituð og við lélega heilsu. Í upphafi síðasta árs fékk hún heimsókn frá sjálfboðaliða sem sagði henni að fjölskylda hennar hefði verið valin í hóp fjölskyldna í héraðinu sem mest þyrftu á aðstoð að halda. Hún myndi því fá húsaskjól og bætt aðgengi að drykkjarhæfu vatni. Rhoda hélt að sjálfboðaliðinn væri að grínast.

Á seinni hluta ársins fóru Rhoda og börnin hennar úr hripleku hreysi í öruggt hús. Við nýja húsið er eldunaraðstaða með sparhlóðum. Við húsið er líka kamar, handþvottaaðstaða og vatnstankur fyrir 4000 lítra af drykkjarhæfu rigningarvatni. Rhoda og börnin hennar fengu auk þess rúm, dýnur, teppi, suðupott, matardiska og vatnsbrúsa.  

Þegar verkefnisstjóri hitti Rhodu í lok ársins sagði hún að börnin hennar hefðu nú nægan tíma til skólagöngu þar sem þau þyrftu ekki lengur að ganga um langan veg eftir vatni. Hún sjálf gæti líka tekið lyfin sín óhrædd við sýkingar af völdum óhreins drykkjarvatns. „Okkur líður miklu betur en ég trúi því varla enn að ég og börnin mín höfum þetta hús til afnota og ég er mjög þakklát fyrir það,“ sagði hún.

Rhoda og börnin hennar eru meðal munaðarlausra barna og fólks með HIV/alnæmi sem Hjálparstarf kirkjunnar styður í þremur héruðum í Úganda;  í Rakaí og Lyantonde (sem eru samliggjandi héruð) annars vegar og í Sembabule hins vegar. Íbúar þar eru að stærstum hluta sjálfsþurftarbændur og á þurrkatímum eins og um sumar 2013 þurfa þeir sem verst eru settir að bíða eftir vatni við borholur í 3 – 4 klukkustundir, greiða fyrir vatnið hátt verð og bera það svo heim.

Við ætlum að halda áfram að bæta lífskilyrði sárafátæks fólks á starfssvæðum okkar í Úganda. Þau sem þar eru verst sett vegna fátæktar og skorts á aðgengi að hreinu vatni og þar með hreinlæti þjást af vannæringu sem leiðir til kraftleysis og umkomuleysis. Saga Rhodu og barnanna hennar sýnir hvað hægt er að gera ef leggjumst á eitt og hjálpumst að. Með því að greiða 1800 króna valgreiðslu Hjálparstarfs kirkjunnar í heimabankanum getur þú lagt þitt af mörkum.


 

Til baka