Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Íslendingar í Noregi hugsa heim, styðja innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins 19.12.2011

Afhendings styrks Ólafíusjóðs til Hjálparstarfs kirkjunnar. 
Í dag 19. desember afhenti Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fyrrum sendiherra Íslands í Noregi, Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð 100.000 norskar krónur, eða rúmlega tvær milljónir íslenskra króna, frá íslenska söfnuðinum í Noregi. Sigríður Dúna afhenti Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins styrkinn í Dómkirkjunni og var sóknarpresturinn Hjálmar Jónsson einnig viðstaddur. Er styrknum ætlað að renna til hjálparstarfs kirkjunnar á Íslandi fyrir jólin og vilja Íslendingar í Noregi með því leggja löndum sínum heima lið. Með styrknum fylgja hlýjar jólakveðjur. Styrkurinn er veittur í nafni Ólafíusjóðs, sem starfar á vegum íslenska safnaðarins og er Sigríður Dúna formaður sjóðsstjórnar.

Ólafíusjóður er nefndur í höfuðið á trúkonunni Ólafíu Jóhannsdóttur, sem starfaði meðal þeirra sem minnst máttu sín í Osló upp úr aldamótunum 1900.  Hlutverk sjóðsins er að aðstoða bágstadda Íslendinga bæði í Noregi og á Íslandi. Ólafía var brautryðjandi í hjálparstarfi á sinni tíð og hafa Norðmenn heiðrað minningu hennar með ýmsum hætti. Brjóstmynd af Ólafíu stendur nærri Vaterlandbrúnni í Osló og í nágrenninu er gata nefnd eftir henni; Olafiagangen. Ólafía sinnti starfi sínu einkum meðal þeirra kvenna sem minnst máttu sín í samfélaginu og urðu að þola kynferðisofbeldi af ýmsu tagi. Þegar Norðmenn settu á stofn miðstöð fyrir leiðbeiningar um getnaðarvarnir og meðhöndlun kynsjúkdóma nefndu þeir hana því Olafiaklinikken í höfuðið á Ólafíu.

Krossmen Ólafíu barst eftir krókaleiðum til Íslands og er það varðveitt í Dómkirkjunni í Reykjavík. Því þótti við hæfi að afhenda styrkinn í kirkjunni, sem einnig var sóknarkirkja Ólafíu á Íslandi. Í Noregi hefur mynd krossmensins verið saumuð út í hökul og stólu prests íslenska safnaðarins og í hverri messu fara fram samskot í sjóðinn sem ber nafn hennar.

 

Til baka