Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
SAM mannréttindasamtökin 25 ára 16.09.2011

21. ágúst síðastliðinn héldu samtökin Social Action Movement, SAM, upp á 25 ára afmæli sitt.  Hjálparstarfið hefur átt farsælt samstarf við SAM síðan 1988 eða í 23 ár og tók þátt í að byggja miðstöð samtakanna í bænum Mamandur í Tamil Nadu héraði, 70 km fyrir sunnan Chennaiborg, en þar eru skrifstofur og aðstaða til námskeiðahalds. Fulltrúar Hjálparstarfsins voru viðstaddir hátíðarhöldin.

Stofnandinn
Kaþólski presturinn og stjórnmálafræðingurinn P.B. Martin er stofnandi þeirra og leiðtogi þótt samtökin séu nú orðin stór og dreifð og undir stjórn sjálfstæðra leiðtoga hverrar einingar.

Vilja auka réttindi hinna lægst settu
Samtökin voru sett á laggirnar til þess að auka menntun og efla sjálfsvitund dalíta og þeirra allra lægst settu í indversku þjóðfélagi. Stofnuð hafa verið verkalýðsfélög í hefðbundnum atvinnugreinum dalíta s.s. sykureyrskurðarmanna, þvottamanna og skóara. Stéttlausum er veitt lögfræðileg aðstoð í deilumálum við stjórnvöld t.d. þegar barist er fyrir breytingum á eignarhaldi lands. Samtökin reka forskóla til að búa börn stéttlausra undir nám ekki síður en aðkast og erfiðleika sem viðbúið er að þau mæti í almenna skólakerfinu. Samtökin reka umfangsmikið verkefni til að leysa þrælabörn úr ánauð og koma þeim í skóla. Náið er unnið með foreldrum, þeir fræddir um réttindi sín og barna sinna og þeim sýnt fram á mikilvægi þess að börnin þeirra ganga í skóla. SAM rekur kvöldskóla til að búa vinnandi börn undir það að hætta í vinnu og fara í skóla. SAM vinnur mikið upplýsingastarf þessu tengt til þess að geta herjað á stjórnvöld um aðgerðir gegn barnaþrælkun. Þegar börnin eru tilbúin til að setjast á skólabekk er skuld foreldra þeirra greidd, og börnin innrituð í almenna skóla. Þar er þeim fylgt eftir vikulega svo þau heltist ekki úr námi og lendi aftur í sama fari. Samtökin hafa um árabil rekið opinn háskóla fyrir stéttlaus ungmenni. Þar hefur sérstökum þörfum þeirra verið mætt en þau eiga oft mjög litla skólagöngu að baki og hafa mjög brotna sjálfsmynd vegna stöðu sinna í samfélaginu. Starfsemi skólans er nú að breytast og mun grunnnámi haldið áfram en flestum nemendum vísað í nýjan skóla sem kirkjan á svæðinu rekur. Þar starfar stofnandi SAM nú. Er sá skóli nær því að vera hefðbundinn og vonast er til að þar fái nemendur enn betri menntun. Starf SAM hefur í áranna ráð vaxið að umfangi og áherslur breyst í kjölfar reynslu og aðstæðna. Er það kostur samtakanna að vera í svo náinni samvinnu við fólkið sjálft að hægt er að breyta með litlum fyrirvara komi á daginn að einhver leið skili ekki tilætluðum árangri eða þarfir skapast sem verður að bregðast við. Smelltu hér til að skoða heimasíðu SAM.

Til baka