![]() |
Þeim fjölgar stöðugt sem leita aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar og í dag fékk stofnunin 50.000 dollara styrk frá Samfélagssjóði Alcoa í Bandaríkjunum til að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur í kreppu. Styrkurinn nemur 5,7 milljónum íslenskra króna. Honum verður varið árið 2011 til matar- og lyfjaaðstoðar, ráðgjafar og hjálpar vegna skólagöngu og tómstunda barna. Þetta er þriðja árið í röð sem Hjálparstarfið fær styrk frá Samfélagssjóði Alcoa.
Starfsárið 2009-2010 tók Hjálparstarf kirkjunnar við rúmlega 5000 umsóknum frá einstaklingum og fjölskyldum í tæplega 60 af 76 sveitarfélögum landsins. Úthlutanir vegna þessara umsókna voru samtals rúmlega 11.700 sem var 60% aukning frá árinu áður. Aðstoðin tók breytingum vegna nýrra aðstæðna. Innihaldi matarpakka var breytt í samræmi við hækkun verðlags og nýrrar samsetningar umsækjendahópsins sem bæði yngdist og jafnaðist að kynjum. Öryrkjum, sem alltaf hafa verið fjölmennasti hópurinn, fækkaði hlutfallslega með tilkomu fleiri atvinnulausra á umsækjendaskrá. Farið var fram á gögn um tekjur og gjöld til að meta hverjir þyrftu mest á hjálp að halda. Um 400 sjálboðaliðar komu að verkefnum innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins á þessu tímabili sem var nýlunda, en þeir voru nánast engir fyrir kreppu.