Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
Athugasemd vegna frétta um matarkort 15.12.2010

Í tilefni af umræðu undanfarinna daga og  fréttum í gær frá fréttastofu RÚV um að hjálparsamtök vilji ekki matarkort og séu sum treg til samstarfs við Félagsmálaráðuneytið vill Hjálparstarf kirkjunnar koma eftirfarandi á framfæri:

 

Hjálparstarf kirkjunnar hefur í gegnum árin leitað eftir nánara samstarfi við sveitarfélög og ríki og einnig verið í forystu fyrir því að auka samstarf og samræmingu milli hjálparsamtaka til að tryggja að þeir sem verst eru settir fái stuðning, misnotkun minnki og fjármunir nýtist sem allra  best. Hjálparstarfið kannast ekki við tregðu til samstarfs við Félagsmálaráðuneytið, hvorki um notkun matarkorta né annars. Þvert á móti hefur verið upplýst að kortaleiðin er fær enda hefur Hjálparstarfið til fjölda ára notað kortin í stuðningi sem veittur er um allt land. En það hefur einnig verið upplýst að ef fara eigi kortaleiðina einnig á höfuðborgarsvæðinu krefjist það aukins fjármagns.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur verið í forystu meðal hjálparsamtaka í því að skrá upplýsingar um þá sem leita sér hjálpar til að átta okkur  betur á stöðunni og tryggja að þeir sem verst eru settir fái stuðning. Því eru upplýsingar um samsetningu, framfærslu, aldur, húsnæði og margt fleira til staðar mörg ár aftur í tímann.

Frá því kreppan skall á snarfjölgaði umsóknum um aðstoð og samsetning umsækjendahópsins varð önnur. Vegna fjölgunarinnar var ljóst að endurskoða þurfti vinnulag til að tryggja áfram fagleg vinnubrögð og að fjármagn nýttist sem best. Niðurstaðan var sú að biðja alla sem til stofnunarinnar leita um að skila inn gögnum um tekjur og útgjöld þannig er hægt að sjá hvert ráðstöfunarfé viðkomandi er og styðja þá sem minnst hafa milli handanna.

 

Á umbrotatímum, þegar margt er óljóst og margir eiga undir högg að sækja og fjármagn er af skornum skammti er brýnna en nokkru sinni að standa saman, samræma og tryggja fjármagn til að styðja við þá sem verst hafa það. Þar er engan bilbug og enga tregðu fyrir að fara hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Til baka