Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?
28.11.2019
Vatn, húsaskjól og betri heilsa - með þinni hjálp!
Forsíðumynd Margt smátt 4 2019

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til verkefna í sveitum Úganda og Eþíópíu. Fólkið sem við aðstoðum þar býr við mikinn skort um aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu.

Söfnunin er með þeim hætti að við höfum nú sent 2500 króna valgreiðslu í heimabanka landsmanna á aldrinum 30 – 80 ára. Við bendum jafnframt á söfnunarsímann 907 2003 en með því að hringja í númerið leggur fólk til 2500 krónur sem bætast við á næsta símreikningi. 

Gjafabréfin okkar fást á gjofsemgefur.is og svo er hægt að leggja inn framlag að eigin vali á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning okkar 0334-26-50886, kt. 450670-0499.

Takk fyrir stuðninginn!

15.11.2019
Stuðningur fyrir jólin
20190515_121546

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar undirbúa nú aðstoð við efnalitlar fjölskyldur í desember. Aðstoðin er veitt með inneignarkortum í matvöruverslunum, ásamt jólagjöfum fyrir börnin og jólafatnaði fyrir börn jafnt sem fullorðna, en fatnaðinn hefur okkur verið gefinn og er vel með farinn, hreinn og heill. Markmiðið er að gera fólki kleift að gleðjast með sínum nánustu yfir hátíðirnar. 

Við tökum á móti umsóknum frá barnafjölskyldum á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar, Háaleitisbraut 66, neðri hæð Grensáskirkju, dagana 3., 4. og 5. desember kl. 11 - 15. Athugið að gögn sem sýna tekjur og útgjöld frá mánaðamótum nóvember og desember skulu fylgja með umsókn. Fjölskyldur sem hafa fengið Arion inneignarkort í matvöruverslunum frá Hjálparstarfi kirkjunnar eftir 1. júlí 2019 geta fyllt út umsóknareyðublað hér.  

Einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ekki börn á framfæri er bent á að hægt er að sækja um stuðning hjá Mæðrastyrksnefndum og Hjálpræðishernum.  

Alls nutu 1274 fjölskyldur eða um 3400 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól. Fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar veita styrki til stafsins ár hvert og vinnuframlag sjálfboðaliða við skráningu og afgreiðslu umsókna fyrir jól er jafnframt ómetanlegt. 

Nánar um aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og samstarfsaðila fyrir jól er að finna hér

Christmas assistance, information in English

20.08.2019
HJÁLPARSTARF KIRKJUNNAR AÐSTOÐAR EFNALITLA FORELDRA Í UPPHAFI SKÓLAÁRS
Ekkert barn útundan bak

Nú styttist í að skólarnir hefji starfið að nýju eftir sumarfrí. Starfsfólk og sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar munu næstu daga og vikur taka á móti foreldrum grunnskólabarna sem búa við kröpp kjör og aðstoða um ýmislegt sem vantar í upphafi skólaárs.

„Ákvörðun sveitarfélaga um að útvega ritföng í skólastarfi er frábært skref í átt að félagslegum jöfnuði meðal grunnskólabarna. En að mörgu er að huga í vetrarbyrjun. Hlýr fatnaður, skólataska, sunddót í skólasundið, íþróttabúnaður, iðkunargjöld hvort sem er í íþróttum, listum eða tómstundastarfi, eru meðal útgjaldaliða barnafjölskyldna. Og þetta eru stórir útgjaldaliðir“, segir Vilborg Oddsdóttir, umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar.

Á starfsárinu júlí 2018 – júní 2019 veitt Hjálparstarf kirkjunnar samtals 2091 fjölskyldu efnislega aðstoð. Barnafjölskyldur fengu inneignarkort fyrir matvöru og börn og unglingar fengu styrki til íþróttaiðkunar, listnáms og tómstundastarfs. Ungmenni fengu einnig styrki til greiðslu skólagjalda í framhaldsskólum og fyrir bóka- og efniskostnaði. 495 einstaklingar og fjölskyldur sóttu sér notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu og 367 einstaklingar um land allt nutu aðstoðar við lyfjakaup.

Hjálparstarfið hefur hrundið af stað átakinu Ekkert barn útundan og sent valgreiðslukröfu í heimabanka landsmanna upp á 2600 krónur en andvirðið fer til starfsins innanlands. Í fyrra söfnuðust um 7,5 milljónir króna með þessum hætti.

10.04.2019
Draumur um (aðeins) betra líf
_DSC6837-TH-Thorkelsson-Uganda-2018 fyrir vef páskar

Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent valgreiðslu í heimabanka landsmanna á aldrinum 30 – 80 ára að upphæð 2400 krónur. Við erum að safna fyrir aðstoð við börn og unglinga í Kampala, höfuðborg Úganda. Þangað liggur þungur straumur ungs fólks í von um betra líf en því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út á glæpabraut og vændi til að lifa af.

Við viljum að unga fólkið fái þjálfun sem gefur þeim möguleika á að fá störf og að þau geti komið undir sig fótunum. Við veitum því aðstoð í samstarfi við Lútherska heimssambandið (LWF) í Úganda og samtökin Uganda Youth Development Link, UYDEL, sem halda úti menntasmiðjum í fátækrahverfum borgarinnar.

Í menntasmiðjunum velur unga fólkið sér námssvið og öðlast nægilega færni til að verða gjaldgengt á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Þau stunda íþróttir, dans og tónlist ásamt því að fá þar fræðslu um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Verkefnið hefur náð til yfir eitt þúsund barna og ungmenna á aldrinum 13-24 ára síðustu tvör árin. Það hefur gefið góða raun og við höldum því ótrauð áfram. Við viljum gefa ungu fólki sem býr við örbirgð tækifæri til betra lífs.

19.02.2019
Fermingarbörn söfnuðu samtals 7.832.672 krónum
Háteigssókn og prestur

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar börnum í fermingarfræðslu, prestum og öðru starfsfólki þjóðkirkjunnar kærlega fyrir frábæran stuðning við starfið síðastliðið haust. Alls söfnuðust 7.832.672 krónur í lok október og byrjun nóvember þegar börnin gengu í hús í heimabyggð með bauk Hjálparstarfsins í hönd og söfnuðu fyrir verkefnum stofnunarinnar í Afríku. Beinn kostnaður við söfnunina nam 496.938 krónum.  

Í lok september komu Trudy og Douglas frá Úganda til þess að fræða börn og unglinga um verkefnin sem þau starfa að í Úganda. Þau hittu yfir fjörutíu hópa barna og unglinga í kirkjum og framhaldsskólum í þær 5 vikur sem þau voru á landinu.

30.11.2018
Vatn, húsaskjól og betri heilsa – með þinni hjálp!

Í hátíðarmessu í Hallgrímskirkju fyrsta sunnudag í aðventu þann 2. desember næstkomandi mun Hjálparstarf kirkjunnar hefja jólasöfnun fyrir verkefnum í sveitum Úganda og Eþíópíu.

Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar fólk sem þar býr við mikinn skort um aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu, húsaskjól og tækifæri til betri heilsu með verkfærum til akuryrkju og endurbættum fræjum til framleiðslu, bólusetningu dýra, þjálfun dýraliða o.fl.. Valdefling kvenna, umhverfisvernd og sjálfbærni eru höfð að leiðarljósi í öllum verkþáttum. Nánar um verkefnin er að finna í starfsskýrslu hér: http://help.is/doc/240

Jólasöfnunin er með þeim hætti að við sendum 2500 króna valgreiðslu í heimabanka landsmanna á aldrinum 30 – 80 ára. Ein valgreiðsla er send á hvert heimilisnúmer. Við bendum jafnframt á söfnunarsímann 907 2003 en með því að hringja í númerið leggur fólk til 2500 krónur sem bætast við á næsta símreikningi.

Gjafabréfin okkar fást á gjofsemgefur.is og svo er hægt að leggja inn framlag að eigin vali á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning okkar 0334-26-50886, kt. 450670-0499.

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar fyrir stuðninginn!

29.10.2018
Fermingarbörn safna fyrir vatni og valdeflingu
Fermingarbsofnun_myndir_009

Um tvö þúsund börn í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar um land allt ganga þessa dagana í hús í hverfinu sínu með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar og safna fyrir verkefnum stofnunarinnar í Úganda og Eþíópíu.

Í október komu til landsins ungmenni frá verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og veittu fleiri en fjörutíu fræðsluerindi um verkefnin í fermingarfræðslu og í félagsfræðiáföngum í framhaldsskólum.

Fjáröflun með aðstoð barna í fermingarfræðslu nú er sú tuttugasta í röðinni en í fyrra lögðu fermingarbörnin sitt af mörkum með því að safna yfir átta milljónum króna.

Hjálparstarf kirkjunnar biður landsmenn að taka vel á móti börnunum þegar þau banka upp á með bauk í hönd. Börnin ganga tvö til þrjú saman og baukurinn sem þau eru með er merktur Hjálparstarfi kirkjunnar, númeraður og með innsigli.

17.10.2018
Margt smátt ... 3. tbl. 2018 er komið út
forsíðan betri

Þriðja tölublað fréttablaðs Hjálparstarfs kirkjunnar er komið út og má finna hér  

Í blaðinu segjum frá heimsókn Trudy og Douglas til Íslands en þau eru ungir félagsráðgjafar sem starfa að verkefnum Hjálparstarfsins í Úganda. Til Íslands eru þau komin að fræða börn í fermingarfræðslu um aðstæður jafnaldra þeirra í Úganda og um verkefnin sem þau starfa að.

Í kjölfar fræðslunnar munu fermingarbörn um allt land ganga í hús með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar og bjóða landsmönnum að styðja starfið með fjarframlagi. Söfnunin verður á tímabilinu 29.október til 2. nóvember.

Við segjum líka frá verkefnum sem við vinnum með fólki hér heima og frá öðrum verkefnum í þróunarsamvinnu og þar sem veitt er mannúðaraðstoð. Við fjöllum um leiðir til að auka umburðarlyndi í fjölmenningarsamfélagi og hvernig unglingar á Íslandi ætla að hjálpast að á landsmóti sem framundan er.

Blaðið kemur út fjórum sinnum á ári, tvisvar í tímaritsformi, sent til um 4.000 aðila í júní og október, og tvisvar í dagblaðsformi, sent á heimili í landinu með Fréttablaðinu í upphafi jólasöfnunar og í upphafi páskasöfnunar. Öll tölublöð árisns er hægt að nálgast hér á help.is undir flipanum Fréttablaðið Margt smátt... 

12.10.2018
Ekkert barn útundan með þinni hjálp!
Ekkert barn útundan bak

Í ágúst hóf Hjálparstarf kirkjunnar haustsöfnun til að fjármagna aðstoð við barnafólk á Íslandi undir slagorðinu Ekkert barn út undan. Söfnun lauk þann 10. október síðastliðinn en alls söfnuðust um 7,4 milljónir króna. 

Stuðningur Hjálparstarfs kirkjunnar við fjölskyldur sem búa við fátækt felst í inneignarkortum fyrir matvöru, aðstoð vegna kaupa á lyfjum og hjálpartækjum og í því að fólk getur sótt sér notaðan fatnað til stofnunarinnar án endurgjalds. Sérstök áhersla er lögð á að hlúa að börnum sem búa við fátækt svo þau geti tekið þátt í samfélaginu óháð efnahag.

Börn og unlingar undir átján ára aldri fá styrki til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs. Fyrir milligöngu Hjálparstarfsins geta börn og unglingar einnig sótt sumarbúðir og sjálfstyrkingarnámskeið. 

Framtíðarsjóður er sérstakur sjóður Hjálparstarfsins sem notaður er til að styrkja sjálfráða ungmenni sem búa við fátækt til náms sem gefur þeim réttindi til starfs eða veitir þeim aðgang að lánshæfu námi. Sjóðurinn hefur verið til frá árinu 2006 en markmiðið með styrkveitingu úr honum er að rjúfa vítahring stuttrar skólagöngu, lágra launa og fátæktar.

Kærar þakkir fyrir samhug og frábæran stuðning! 

12.10.2018
Vissir þú að …
20190515_121546
 • félagsráðgjafar Hjálparstarfsins hafa sérstakan viðtalstíma og taka á móti fólki sem leitar eftir efnislegri aðstoð á miðvikudögum klukkan 12 – 16?
 • alls nutu 1304 fjölskyldur eða um 3500 einstaklingar um land allt aðstoðar Hjálparstarfsins fyrir síðustu  jól?
 • hinir ómetanlegu sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins taka á móti fólki á lager Hjálparstarfsins í kjallara Grensáskirkju, Háaleitisbraut 66 á þriðjudögum milli klukkan 10 og 12 og hjálpa því að finna sér fatnað við hæfi?
 • annar hópur öflugra sjálfboðaliða mætir vikulega til að taka fatnað sem almenningur gefur Hjálparstarfinu upp úr pokum, flokka hann og setja í hillur?
 • í desember 2017 og janúar 2018 fengu 360 fjölskyldur (um 970 einstaklingar) notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu?
 • félagsráðgjafar Hjálparstarfsins þróa úrræði í samvinnu við notendur þjónustunnar og skipuleggja sjálfstyrkingarnámskeið og ýmis valdeflandi verkefni allt árið um kring?  
10.08.2018
“Ég vil koma aftur næsta sumar!”
Forsíðumynd þarf að klippa til

Góð stemning ríkti í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn nú í júni en þá stóðu Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn á Íslandi saman að fjögurra daga sumarfríi fyrir fjölskyldur í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn fimmta sumarið í röð. Tilgangurinn var sem fyrr að stuðla að jákvæðri upplifun fyrir börn og foreldra sem búa við efnislegan skort og hafa alla jafna ekki tök á að fara saman í frí. Tíu fjölskyldur, alls 48 einstaklingar, fóru í fríið að þessu sinni.

Gleði og rólegheitastemning ríktu á svæðinu enda markmið margra að njóta einfaldlega samverunnar í sveitasælunni.  “Það er gott að fá tækifæri til að hlaða batterín og þurfa hvorki að elda né vaska upp,” sagði ein mamman aðspurð um hvernig hún nyti dvalarinnar. 

Meðal dagskrárliða voru bogfimi, hjólabátar, kajakar, vatnasafarí, klifur og sund.  Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfsins og verkefnisstjóri sumarfrísins sagði að börnin hefðu notið dvalarinnar í botn enda mikið fíflast og leikið úti við. “Svo var mjög gaman þegar nokkrar stelpur tóku bara völdin síðasta kvöldið og stýrðu fjöldasöng og skemmtidagskrá kvöldvökunnar sjálfar,” sagði hún.

Markmið með valdeflingarverkefnum á borð við sumarfríið er að fólk finni styrk sinn og getu til að takast á við erfiðar aðstæður og til að komast út úr félagslegri einangrun sem oft er fylgifiskur efnaleysis. Sérstök áhersla er lögð á þarfir barna og unglinga og starfið miðar að því að þau hafi sterka sjálfsmynd og séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

20.06.2018
Hjálparstarf kirkjunnar fordæmir harkalegar aðgerðir Bandaríkjastjórnar

Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi fordæmir þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að aðskilja börn frá foreldrum sínum við landamærin við Mexíkó þegar fólk leitar til landsins í hælis- eða atvinnuleit án tilskilinna leyfa. Þvingaður aðskilnaður barna við foreldra í slíkum aðstæðum brýtur í bága við alþjóðleg lög um vernd og öryggi barna jafnt sem almennt siðgæði. Hjálparstarfið hvetur stjórnvöld á Íslandi eindregið til að mótmæla þessum aðgerðum við Bandaríkjastjórn.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar

22.03.2018
Nístandi fátækt neyðir börn og ungmenni út í vændi og glæpi. Gefum þeim séns!
IMG_8663

Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent valgreiðslu í heimabanka til landsmanna á aldrinum 30 – 80 ára að upphæð 2400 krónur. Við erum að safna fyrir aðstoð við börn og unglinga í fátækrahverfum í Kampala, höfuðborg Úganda. Þangað liggur þungur straumur ungs fólks í von um betra líf en því miður bíður flestra þeirra hins vegar atvinnuleysi og eymdarlíf í fátækrahverfum og mörg ungmenni leiðast út í smáglæpi og vændi til að lifa af.

Við viljum að unga fólkið fái þjálfun sem gefur þeim betri möguleika til að fá störf og að þau geti komið undir sig fótunum. Við veitum því aðstoð í samstarfi við Lútherska heimssambandið (LWF) í Úganda og Ugandan Youth Development Link, UYDEL, í hverfunum Rubage, Nakawa og Makindye.

Í verkmenntamiðstöðvum UYDEL getur unga fólkið valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð. Þau fá svo líka fræðslu um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Verkefnið hófst fyrir ári síðan en við ætlum að aðstoða 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára á þrem árum.

Nánar um verkefnið í páskablaði Hjálparstarfs kirkjunnar

27.02.2018
Brýn mannúðaraðstoð veitt stríðshrjáðum Sýrlendingum
Jórdanía 2018

Utanríkisráðuneytið samþykkti í febrúar beiðni Hjálparstarfsins um styrk til að aðstoða stríðshrjáða Sýrlendinga og Hjálparstarfið sendi í beinu framhaldi alls 26 milljónir og 330 þúsund króna framlag Íslendinga til Lútherska heimssambandsins í Jórdaníu. Þar fær flóttafólk sem er nýkomið yfir landamærin aðstoð við að koma sér fyrir í nýju samfélagi, sálfélagslega þjónustu og stuðning við að afla sér lífsviðurværis.

Í Jórdaníu er flóttafólk frá Sýrlandi um 650 þúsund talsins. Lúttherska heimssambandið aðstoðar meðal annars með því að bjóða upp á starfsnám og greiðslu fyrir vinnuframlag. Skólagjöld eru greidd fyrir nemendur og konur fá þjálfun og aðstoð við að koma sér upp smávöruverslun sér til lífsviðurværis. Börnum og unglingum er veittur sálrænn stuðningur og konum er veitt sálfélagsleg þjónusta.

Aðstoðin er liður í heildstæðu verkefni Alþjóðlegs Hjálparstarfs kirkna, ACT Alliance, sem bað aðildarstofnanir sínar um 10,2 milljónir bandaríkjadala til að veita 180 þúsund manns mannúðarastoð vegna átakanna í Sýrlandi á árinu 2018. Aðstoðin er veitt innan landamæra Sýrlands, í Jórdaníu og í Líbanon en langflestir þeirra sem flýja átökin í Sýrlandi leita hælis í þessum tveimur nágrannaríkjum.

Átökin í Sýrlandi hafa nú varað í sjö ár og meira en helmingur íbúanna hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín. Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þurfa nú 13,5 milljónir Sýrlendinga á mannúðaraðstoð að halda, þar af eru 6,3 milljónir íbúa á vergangi innan landamæra Sýrlands. Um 13 milljónir manns hafa ekki aðgengi að heilbrigðisþjónustu og 5,8 milljónir íbúanna hafa verið í eldlínunni oftar en einu sinni og endurtekið þurft að yfirgefa heimili sín. Um helmingur þeirra sem eru á flótta eru á barnsaldri. Neyð þeirra er mikil og þörfin fyrir aðstoð er brýn. Nánar hér.

16.02.2018
Vilt þú vera Hjálparliði?
20190515_121546

Má bjóða þér að slást í hóp Hjálparliða sem styrkir Hjálparstarfið með mánaðarlegu framlagi og rétta þannig hjálparhönd þeim sem á þurfa að halda? Hafðu samband í síma 5284400 eða sendu okkur tölvupóst á help@help.is. Kærar þakkir!

06.02.2018
Eru borgaralaun málið?
eapn

Kostir og gallar þessarar róttæku hugmyndar verða ræddir á morgunverðarfundi EAPN á Íslandi* á Grand Hotel föstudaginn 23. febrúar frá 8:30 -11:00. Aðgangseyrir 3000 krónur. Skráðu þig hér: Morgunverðarfundur EAPN um borgaralaun – Skráning.

*European Anti Poverty Network

Dagskrá:

08:30     Setning: Sigfús Kristjánsson stjórnarmaður í EAPN

08:40     Halldóra Mogensen þingkona Pírata: Skilyrðislaus grunnframfærsla: „Valdefling á einstaklingsgrundvelli.“

09:00     Haukur Hilmarsson ráðgjafi í fjármálahegðun: „Borgaralaun – lausn eða bjarnagreiði?“

09:20     Albert Svan bien Ísland

09:40     Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður málefnahóps ÖBÍ um Sjálfstætt líf: „Borgaralaun frá sjónarhorni öryrkja.“

10:00     Valur Gunnarsson blaðamaður og rithöfundur: „Þarf minni vinna að vera bölvun?“

10:20     Pallborðsumræður og samantekt

11:00     Dagskrárlok

25.01.2018
Rausnarlegt framlag frá Hallgrímssókn
26904604_1800997293243592_20637356139734120_n

Við messu í Hallgrímskirkju þann 21. janúar síðastliðinn afhenti Hallgrímssókn Hjálparstarfi kirkjunnar hátt í fjórar milljónir króna sem söfnuðust í Hallgrímkirkju á síðasta ári. Um 20 ár eru liðin frá því farið var að gera tilraunir með messusamskot í Hallgrímskirkju og urðu þau fljótlega að föstum lið. Í fyrra safnaðist í almennun messum, árdegismessum og jólasöfnun um ein milljón króna til hjálparstarfs og kristniboðs, auk þess sem safnað var í messum til fleiri góðra málefna á árinu. Á jólafundi sóknarnefndar var ákveðið að úthluta 4 milljónum króna úr Líknarsjóði kirkjunnar til hjálpastarfs og kristniboðs, en sjóðurinn hefur tekjur sínar af framlögum, bænastjaka og söfnunarbauknum Grænu tunnunni.  Auk þess bað Hallgrímssöfnuður Hjálparstarf kirkjunnar að koma 1 milljón króna úr Líknarsjóði í landssöfnunina „Vinátta í verki“ til stuðnings þeim sem áttu um sárt að binda vegna náttúruhamfaranna á Grænlandi aðfararnótt 18. júní þegar flóðbylgja gekk yfir smáþorpið Naarsuuiaq. Hamfarirnar kostuðu fjögur mannslíf og gífurlegt eignatjón.

Kristín Ólafsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og Kristján Þór Sverrisson hjá Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga tóku við framlagi Hallgrímssöfnuðar og fluttu ávörp.

Einar Karl Haraldsson, gjaldkeri safnaðarins, minnti sérstaklega á innanlandsstarf Hjálparstarfsins sem hefði fært mörgum tækifæri til þess að brjótast út úr vítahring fátæktar og menntunarskorts, og sagði m.a. við þetta tækifæri: „Við hér í Hallgrímssöfnuði höfum valið Hjálparsstarfið og Kristninboðssambandið sem meginfarvegi fyrir hjálpar- og boðunarstarf vegna þess að við treystum þeim og við vitum að þessar stofnanir hafa til að bera fagþekkingu og réttu tengslin innanlands sem á alþjóðavettvangi til þess að rækja köllun sína þannig að þeir fjármunir sem hér safnast komi í réttan stað niður og gagnist sem best.“ Hjálparstarfið þakkar kærlega fyrir stuðninginn!

04.01.2018
Vilborg Oddsdóttir sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar
Vilborg fálkaorða

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 1. janúar 2018 sæmdi forseti Íslands tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar var ein þeirra. Hún var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir framlag til samhjálpar og baráttu gegn fátækt í samfélaginu. Hjálparstarfið er að vonum stolt af Vilborgu!

 

21.12.2017
Veglegur styrkur frá Valitor fyrir jólaaðstoð
Valitor Jólaaðstoð_2017
Stjórn Valitor ákvað að veita Rauða krossi Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar styrk til að aðstoða bágstaddar fjölskyldur fyrir jólin. Styrkurinn er að upphæð 1 m.kr. til hvors aðila. Á heimasíðu Valitor segir:„Hjálparstarf þessara aðila hefur lengi gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi, en þó er þörfin fyrir aðstoð þeirra sérstaklega brýn um þessar mundir." Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, og Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Valitor Ísland, afhentu Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins og Kristínu Hjálmtýsdóttur framkvæmdastjóra Rauða krossins styrkina. Hjálparstarfið þakkar kærlega fyrir stuðninginn!
01.12.2017
Vatn er von
bls 4 _DSC8492-TH-Thorkelsson-Ethiopia-Des-2016

Í Eþíópíu valda tíðir þurrkar matarskorti og vannæringu. Þú getur tekið þátt í að tryggja fólki þar aðgengi að drykkjarhæfu vatni, hjálpa því til sjálfbærni í landbúnaði og stuðla að auknu jafnrétti samfélaginu öllu til farsældar. 

 • Valgreiðsla í heimabanka - 2.500 krónur
 • Framlag á söfnunarreikning númer 0334-26-50886, kt. 450670-0499
 • Framlag með greiðslukorti á framlag.is
 • Framlag í söfnunarsíma 907 2003 - 2.500 krónur
Lesa meira...
26.11.2017
Jólaaðstoð Hjálparstarfsins - Við tökum á móti umsóknum 4., 5. og 6. desember kl. 11:00 - 14:00. Á sama tíma býðst fólki að sækja sér fatnað hér.
20190515_121546

Hjálparstarf kirkjunnar leggur áherslu á að aðstoða fjölskyldufólk sem býr við kröpp kjör fyrir jólin svo það geti gert sér dagamun og glaðst með fjölskyldunni yfir hátíðirnar. Við erum á Háaleitisbraut 66, neðri hæð Grensáskirkju. Nánar um hvar, hvernig og hvenær er hægt að sækja um er að finna hér.

Þær fjölskyldur sem hafa fengið inneignarkort í matvöruverslunum frá Hjálparstarfinu á árinu 2017 geta fyllt út umsóknareyðublað hér.

Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk fær einnig notaðan fatnað eða inneignarkort fyrir fatnaði, aðgöngumiða í leikhús og / eða bíó og inneignarkort hjá vinsælum veitingastöðum meðal barna og unglinga. Þá fá foreldrar efnislega aðstoð svo börnin geti fengið jólagjafir sem þau hafa sett á óskalistann. Á svæðum þar sem öðrum hjálparsamtökum er til að dreifa einskorðar Hjálparstarfið aðstoðina við efnalitlar barnafjölskyldur. Á landsbyggðinni þar sem Hjálparstarfið er eitt að störfum er einstaklingum einnig veitt sérstök aðstoð fyrir jól.

Fyrir jól 2016 var gott samstarf um jólaaðstoð milli Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í Reykjavík og við Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefndir og Rauða krossinn á Eyjafjarðarsvæðinu og í Árnessýslu. Eins og fyrr gat fólk einnig leitað til presta og djákna í kirkjum vítt um land. Alls naut 1471 fjölskylda (um 4000 einstaklingar) um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól eða 18 fjölskyldum fleiri en fyrir jól 2015. 

24.11.2017
Styrktartónleikar Elísabetar Þórðardóttur í Laugarneskirkju
Pollasjóður fyrir facebook og vef

Elísabet Þórðardóttir organisti heldur styrktartónleika fyrir tónlistarfólk framtíðarinnar í Laugarneskirkju föstudaginn 24. nóvember klukkan 17 - 18. Á efnisskránni eru verk eftir Mendelsohn, Johann Sebastian Bach,Smára Ólason, Pál Ísólfsson og Eugene Gigout.

Tekið er við frjálsum framlögum við inngang en þau renna í Pollasjóð sem er styrktarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir tónlistarfólk framtíðarinnar. Við verðum við innganginn með posa en einnig má styrkja starfið með því að greiða inn á bankareikning 0334-26-27, kt. 450670-0499 eða hringja í söfnunarsíma 907 2002 en þá gjaldfærast 2500 krónur á næsta símreikning. Samtals fengu 53 börn og unglingar undir átján ára aldri styrk frá Hjálparstarfinu á síðasta starfsári til íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs.

17.11.2017
Toyota á Íslandi styrkir Hjálparstarf kirkjunnar með sendibifreið
Toyota sendib. Hk

Hjálparstarf kirkjunnar hefur fengið í hendur nýja Proace sendibifreið frá Toyota á Íslandi. Bifreiðin verður notuð í fjölþættum verkefnum Hjálparstarfsins á Íslandi og nýtist ekki síst nú þegar mest er að gera fram að jólum.

„Við erum afar þakklát fyrir stuðning Toyotoa á Íslandi en nýja sendibifreiðin kemur í stað eldri bifreiðar sem Toyota gaf Hjálparstarfinu árið 2008. Bíllinn mun nýtast vel í ýmsum útréttingum en fyrir jólin er mikið að gera og margt að sækja og senda. Fyrir síðustu jól fékk 1471 fjölskylda eða um 4000 einstaklingar um allt land aðstoð og reiknum við með svipuðum fjölda í ár,“ sagði Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins þegar hann tók við lyklum af bifreiðinni frá Páli Þorsteinssyni, upplýsingafulltrúa Toyota á Íslandi.

06.11.2017
Fermingarbörn safna fyrir vatni
Fermingarbsofnun_myndir_009

Börn í fermingarfræðslu ganga í hús um land allt vikuna 6. - 10. nóvember með söfnunarbauk Hjálparstarfs kirkjunnar í hönd og safna fyrir vatnsverkefnum í Eþíópíu. Áður en börnin fara af stað fræðast þau um verkefnin og um gildi samhjálpar og náungakærleiks. Prestar, annað starfsfólk kirkna, foreldrar og síðast en ekki síst börnin sjálf leggja á sig mikla vinnu við söfnunina og er framlag þeirra ómetanlegt.

Takk fyrir að taka vel á móti fermingarbörnunum þegar þau banka upp á!

03.11.2017
Viltu vera Hjálparliði?
20190515_121546

Má bjóða þér að slást í hóp Hjálparliða sem styrkja Hjálparstarfið með mánaðarlegu framlagi? Við erum að hringja út þessa dagana og bjóða velunnurum starfsins að vera með okkur í því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Stuðningurinn gerir okkur kleift að veita fólki neyðaraðstoð hér heima og í fátækustu samfélögum heims.

Viltu fræðast nánðar um starfið? Starfsskýrslan fyrir starfsárið 2016 - 2017 er hér.

Við gefum út fréttablað fjórum sinnum á ári, þriðja tölublað 2017 er hér.

20.06.2017
Tekur allt að þrjár vikur að komast á öruggan stað
Flóttafólk frá Suður-Súdan

Í dag er alþjóðadagur flóttafólks. Í Úganda eru 800 þúsund flóttamenn, mest konur og börn sem hafa flúið undan stríðandi fylkingum sem ráðast í síauknum mæli á almenning í Suður-Súdan. Flóttinn yfir landamærin til Norður-Úganda getur tekið allt að þrjár vikur og það er þreytt fólk sem stígur úr rútum sem flytja fólkið í flóttamannabyggðirnar þar sem það fær strax vatn, mat og skjól. Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent um þrettán milljóna króna framlag Íslendinga til aðstoðar við fólkið.

Í Moyohéraði í Norður-Úganda samhæfir Lútherska heimssambandið, LWF, aðstoð mannúðarsamtaka við flóttafólk frá Suður-Súdan og hefur til þess umboð frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Flóttafólkið fær orkubita og vatn við komuna á móttökusvæði LWF. Því næst fer fólkið í sjúkraskýli þar sem læknir hlúir að þeim sem þurfa aðstoð. Eftir læknisskoðun sest fólkið hjá fulltrúa Lútherska heimssambandsins sem skráir það bráðabirgðaskráningu inn í landið. Rúta bíður svo fólksins og keyrir það í flóttamannabyggðir þar sem það fær heitan mat einu sinni á dag og hefur aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu. Fólkið fær efni til að reisa sér bráðabirgðaskýli um leið og það hefst handa við að reisa hefðbundin hús. Börnin taka þátt í skólastarfi og fólkið fær aðstoð við að aðlagast lífinu á nýjum stað í sátt og samlyndi við heimamenn. Þangað til uppskera fæst fær fólkið mánaðarlega skammta af hráefni til matargerðar.

06.06.2017
Mannúðaraðstoð í Sómalíu vegna þurrka og uppskerubrests
Vannæring í Sómalíu

Í júníbyrjun sendi Hjálparstarf kirkjunnar 15,8 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Sómalíu vegna þurrka og langvarandi ófriðar í landinu. Markmiðið er að tryggja 60.600 manns nægan aðgang að fæðu, vatni og hreinlætisaðstöðu. Utanríkisráðuneytið veitti 15 milljóna króna styrk til aðstoðarinnar en það er Hjálparstarf norsku kirkjunnar sem stýrir starfinu á vettvangi.

Veðurfyrirbrigðið El Nino hefur nú valdið mestu öfgum í veðurfari í Sómalíu í 50 ár. Stopul úrkoma síðan um mitt ár 2015 hefur leitt til vatnsskorts sem hefur valdið alvarlegum uppskerubresti. Skepnur hafa fallið úr hor og fólkið hefur neyðst til að selja eigur sínar og taka lán til þess að lifa af. Langvarandi ófriður í landinu gerir ástandið enn verra þar sem hann hefur leitt til þess að fólk hefur þurft að flýja heimkynni sín. Nú er talið að um helmingur þjóðarinnar, yfir sex milljónir íbúa, þurfi á mannúðaraðstoð að halda.

Hjálparstarf kirkjunnar í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð og Lútherska heimssambandið hafa skipulagt heildræna aðstoð í fylkjunum Puntland og Somalíland til loka febrúar 2018. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna í neyðarbeiðni frá Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance.

07.04.2017
Kampalaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar
IMG_8301

 Kampalaverkefni Hjálparstarfsins er í þremur fátækrahverfum í höfuðborginni og varir í 3 ár. Áætlaður heildarkostnaður er um 33 milljónir króna.

Markhópurinn eru 1500 börn og ungmenni á aldrinum 13-24 ára en markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu sem það geti nýtt til að sjá sér farborða, að það taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina og að þau séu upplýst um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Lútherska heimssambandið og samtökin UYDEL (Ugandan Youth Development Link) með góðum stuðningi utanríkisráðnuneytisins.

UYDEL hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Þau reka verkmenntamiðstöðvar þar sem ungmennin  geta valið sér ýmis svið og öðlast nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði svo sem við hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, saumaskap og sápugerð.

07.04.2017
Rafvirkjun, hárgreiðsla, saumar, sápugerð ...
IMG_8269

Tölvuviðgerðir og almenn rafvirkjun eru vinsælar námsgreinar meðal drengja í verkmenntastöðinni í Rubagahverfi Kampala. Þegar fulltrúa Hjálparstarfsins bar að var þar aðeins ein stúlka við nám í iðngreininni. Hárgreiðsla nýtur hins vegar miklilla vinsælda meðal stúlkna. Að flétta sítt hár örfínum fléttum getur tekur fjórar stúlkur allt að fjórar klukkustundir. Förðun og snyrting eru einnig vinsælar námsgreinar meðal stúlknanna í fátækrahverfunum sem og veitingaþjónusta.Í Rubaga gefst tækifæri til þess að læra sápugerð og unga fólkinu býðst að læra um það hvernig hægt er að setja á fót sjálfstæðan atvinnurekstur meðal annars til að selja sápuframleiðsluna.

07.04.2017
„Að virkja og valdefla er aðferðin sem við notum“
IMG_8777

Anna Nabylua félagsráðgjafi er aðstoðarframkvæmdastjóri Uganda Youth Development Link (UYDEL) og stýrir Kampalaverkefni Hjálparstarfsins. Hún hefur áralanga reynslu af starfi með börnum og unglingum sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu og útsett fyrir mansali og annarri misnotkun. Anna segir að til þess að ná mestum árangri í starfinu hafi reynslan kennt að best sé að virkja unglingana og efla sjálfsmynd þeirra með því að fá þeim viðráðanleg verkefni sem samt séu krefjandi. Hún leggur ríka áherslu á að unglingarnir læri um rétt sinn til heilbrigðisþjónustu og um kynheilbrigði. HIVsmit eru tíðari í fátækrahverfunum en annars staðar í Kampala og nýsmit eru tíðust meðal vændiskvenna. Anna og annað starfsfólk UYDEL leitast við að koma unglingunum sem hafa lokið námi í iðngrein í starfsnemastöður í fyrirtækjum en þannig á unga fólkið von um betra líf.

07.04.2017
„Ekki gefast upp, það er alltaf von!“
IMG_8668

Nuriette Nagure er 24 ára gömul. Hún býr við fötlun og ferðast um á hjólastól. Í mars síðastliðnum hitti Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar hana í  verkmenntamiðstöðinni í Makindyehverfi Kampalaborgar þar sem hún er að læra að sauma og hanna föt.

Aðspurð um hvaða skilaboð hún hefði til ungs fólks á Íslandi svaraði hún: „Við ungt fólk sem býr við fötlun eins og ég vil ég segja: Verið hugrökk, ekki gefast upp, það er alltaf von“ en Nuriette gerir sér von um að geta séð fyrir sér með því að sauma og selja kjóla í framtíðinni. Hún mun njóta stuðnings UYDEL samtakanna sem eru samstarfsaðilar Hjálparstarfsins í Kampala til þess.

Úganda er númer 163 á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna en alls eru 188 ríki og landssvæði á listanum. Úganda flokkast þar með sem eitt af fátækustu ríkjum heims. Íbúar eru samtals um 38 milljónir en aldurssamsetningin er þannig að 80% íbúanna eru á aldrinum 12 – 30 ára. Meðalaldur er 16 ár. Samkvæmt Alþjóðabankanum er atvinnuleysi meðal ungs fólks hvergi meira í heiminum en í Úganda þar sem um 60% unga fólksins er án atvinnu.

24.02.2017
Alda Lóa Leifsdóttir fyrst til að hljóta Fjölmiðlaverðlaun götunnar
IMG_8158
Alda Lóa Leifsdóttir og Laufey Ólafsdóttir, Peppari.

Alda Lóa Leifsdóttir hlaut heiðursverðlaunin Fjölmiðlaverðlaun götunnar úr hendi Pepp Ísland fyrir ljósmyndir í umfjöllunum Fréttatímans um fátækt á árinu 2016 ásamt því að fá viðurkenningu fyrir greinina „Vildi að ég gæti boðið börnunum í mat”, sem var að mati dómnefndar jákvæð og uppbyggileg.

Alda Lóa fékk jafnframt flestar tilnefningar til hvatningarverðlauna Pepp Ísland 2017 og þótti framlag hennar því verðskulda sérstaka viðurkenningu, saltstauk sem situr á listaverki úr hraunmola hönnuðum af Sign í Hafnarfirði.

Verðlaunin voru afhent við formlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 23. febrúar sl. en þetta er í fyrsta sinn sem Pepp Ísland, grasrótarhreyfing fólks með reynslu af fátækt, veitir blaða-, frétta- og dagskrárgerðarfólki viðurkenningu fyrir framlag til málefnalegrar umfjöllunar um fátækt á Íslandi. Alls hlutu ellefu manns viðurkenningu fyrir faglega umfjöllun um fátækt nú.

Áslaug Karen Jónsdóttir, blaðamaður á Stundinni, hlaut verðlaun fyrir „Fátæku börnin”, sem var að mati dómnefndar besta blaðagreinin. Kristjana Guðbrandsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, hlaut verðlaun fyrir bestu fyrirsögnina, „Fátækt deyr þegar draumar fá líf” og Gunnar Smári Egilsson fyrir greinina „Efnahagslegt hrun ungs fólks” í Fréttatímanum.

Lesa meira...
31.01.2017
„Gríðarlegur skortur á samhug og ábyrgð“
20190515_121546

í kjölfar tilskipunar Bandaríkjaforseta um bann við landgöngu fólks frá sjö ríkjum til Bandaríkjanna hafa Lútherska heimssambandið, Lutheran World Federation, Alkirkjuráðið, the World Council of Churches, og Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um grafalvarlegar afleiðingar tilskipunarinnar fyrir flóttafólk. Biskup Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar taka heilshugar undir og styðja ályktunina.

„Kristin trú kennir okkur að elska náungann. Í því felst að við tökum á móti flóttafólki og komum fram við það eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur,“ segir í yfirlýsingunni en í henni eru bandarísk stjórnvöld eindregið hvött til að virða alþjóðalög sem skylda þjóðir heims til að taka á móti flóttafólki og veita því vernd.

 „Ákvörðun bandarískra stjórnvalda um að helminga fjölda flóttafólks sem veita skal hæli ár hvert hefur ekki aðeins grafalvarleg áhrif fyrir fólk sem er í brýnni þörf fyrir vernd, tilskipun Bandaríkjaforseta grefur jafnframt undan því að aðrar þjóðir virði alþjóðalög um vernd flóttafólks.“

„Við þökkum öllum þeim samtökum og stofnunum sem veita mannúðaraðstoð fólki í neyð, sérstaklega fólki frá Sýrlandi og Miðausturlöndum. Við þökkum þeim sem hafa aðstoðað flóttafólk við að fá hæli í Bandaríkjunum sem og annars staðar. Við tökum undir með öllum þeim sem hafa krafist þess að tilskipunin verði dregin til baka,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.

Lútherska heimssambandið og Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna aðstoða flóttafólk í 25 ríkjum heims. Árið 2016 aðstoðaði Lútherska heimssambandið 2,3 milljónir jarðarbúa sem hafa þurft að yfirgefa heimkynni sín vegna átaka. 

Yfirlýsinguna í heild er að finna á heimasíðu Lútherska heimssambandsins: https://www.lutheranworld.org/sites/default/files/statement_on_us_presidential_executive_order_final_links.pdf

30.01.2017
Hallgrímssókn styrkir starfið um hátt í fjórar milljónir króna
Hallgrímskirkja jan 2017

Þann 15. janúar síðastliðinn afhenti Irma Sjöfn Óskarsdóttir prestur í Hallgrímskirkju Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar rausnarlegan styrk til starfsins, samtals 3.761.159 krónur. Séra Irma Sjöfn sagði við afhendingu styrkjarins að hann kæmi frá fólkinu í Hallgrímssókn, meðal annnars í samskotum við guðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Við móttöku styrkjarins þakkaði Bjarni Hallgrímssókn fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum tíðina.

Á myndinni sem tekin var við styrkveitinguna eru sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Bjarni Gíslason frá Hjálparstarfinu og Hermann Bjarnason frá Kristniboðssambandinu sem fékk afhentan styrk við sama tækifæri.

25.01.2017
Styrkir starfið um 124 þúsund krónur
Hlynur Steinsson jan 2017
Fjölmargir einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki gera Hjálparstarfi kirkjunnar kleift að halda úti verkefnum innanlands og á alþjóðavettvangi. Í gær kom til okkar ungur maður, Hlynur Steinsson, með fjárframlag sitt til hjálparstarfs í þágu þeirra sem búa við fátækt. Framlagið nemur 124 þúsund krónum og kann Hjálparstarfið Hlyni bestu þakkir fyrir frábæran stuðning við starfið.
17.01.2017
Veglegur styrkur frá Skyrgámi
_MG_8071 snikkuð til fyrir vef

Jólasveinaþjónusta Skyrgáms kom færandi hendi til Hjálparstarfs kirkjunnar nú á dögunum og styrkti starfið með hluta af veltu þjónustunnar á síðasta ári, alls 995.800 krónur.

Á 19 árum hefur Jólasveinaþjónustan stutt Hjálparstarfið um tæpar 12 milljónir króna sem runnið hafa til bágstaddra á verkefnasvæðum okkar í Eþíópíu, Úganda og á Indlandi sem og til barna og unglinga hérlendis sem hafa getað sótt sumarnámskeið og framhaldsskólanám með aðstoð Skyrgáms.

Kærar þakkir Skyrgámur og félagar fyrir frábæran stuðning við starfið!

21.12.2016
Hjálparstarf kirkjunnar þakkar landsmönnum fyrir frábæran stuðning á árinu!
jólakveðja

Skrifstofa Hjálparstarfsins er opin yfir hátíðarnar sem hér segir:

Á Þorláksmessu er opið kl. 08:00 - 18:00 og á aðfangadag kl. 10:00 - 12:00. Vinsamlegast athugið að símanúmer skrifstofu á aðfangadag er 5284402. Skrifstofan er opin 28., 29. og 30. desember frá kl. 08:00 - 16:00 en lokað er 24. - 27. desember og 31. desember - 3. janúar en þá opnum við aftur kl. 08:00.

Gjafabréf fást á gjofsemgefur.is og skilaboð má senda á facebooksíðu Hjálparstarfsins. Við svörum svo fljótt sem verða má.

Starfsfólk Hjálparstarfsins þakkar kærlega fyrir samstarf og stuðning við starfið á árinu sem er að líða og óskar landsmönnum öllum friðarjóla og gæfuríks nýárs.

21.12.2016
Frábær stuðningur við starfið!
Bjarni og ...
Páll Þórisson og Bjarni Gíslason

Undanfarna daga hafa fjölmargir einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir fært Hjálparstarfinu mikilvægt framlag til starfsins.

Páll Þórisson kom færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins enn eitt árið og afhenti Bjarna Gíslasyni 8.354 krónur nú í dag. Páll er einn dyggasti stuðningsmaður okkar og safnar í bauk Hjálparstarfsins allt árið. Við færum honum og öðrum sem styðja starfið okkar bestu þakkir!

 

 

21.12.2016
Álíka margir njóta aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar nú og fyrir jól í fyrra
Vilborg og Agnes jólaúthlutun 2016 fyrir vef
Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup við úthlutun.

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Hjálparstarfs kirkjunnar hafa undanfarna daga verið í miklum önnum að taka á móti umsóknum og afgreiða aðstoð fyrir jólin. Úthlutun er nú lokið og benda fyrirliggjandi gögn til þess að jafn margir eða jafnvel aðeins færri hafi leitað til Hjálparstarsfins nú en fyrir jól 2015. Endanlegar tölur munu þó ekki liggja fyrir fyrr en í byrjun janúar. Í fyrra naut 1451 fjölskylda um allt land aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Tekið er mið af aðstæðum hvers og eins en veitt aðstoð er fyrst og fremst í formi inneignarkorta í matvöruverslunum fyrir jól. Barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör býðst auk þess að fá jólafatnað og jóla- og skógjafir fyrir börnin og fleira.

Sjálfboðaliðar gegna veigamiklu hlutverki fyrir jól ár hvert en þeir flokka notaðan fatnað sem Hjálparstarfinu berst, brjóta hann saman og raða í hillur ásamt því að aðstoða þá sem koma til að fá sparifatnað. Stuðningur einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana er Hjálparstarfinu ómetanlegur og kann starfsfólk Hjálparstarfsins þeim bestu þakkir fyrir og óskar landsmönnum öllum gleði og friðar um jól.

28.11.2016
Jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og samstarfsaðila
IMG_7933
Sjálfboðaliðarnir okkar undirbúa jólaaðstoðina.

Assistance before Christmas - In English

Í desember ár hvert aðstoðar Hjálparstarf kirkjunnar efnalítið fólk svo það geti gert sér dagamun yfir hátíðirnar. Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta í matvöruverslunum sem verða gefin út eigi síðar en 19. desember.

Barnafjölskyldum sem búa við kröpp kjör býðst auk þess að fá jólafatnað og jóla- og skógjafir fyrir börnin.

Umsóknarfrestur er til og með 7. desember 2016.

 • Tekið er á móti umsóknum frá barnafjölskyldum í Reykjavík á skrifstofu Hjálparstarfsins, Háaleitisbraut 66, neðri hæð, dagana 5., 6. og 7. desember kl. 11-15. Athugið að gögn sem sýna tekjur og útgjöld síðasta mánaðar skulu fylgja með umsókn.
 • Þær fjölskyldur sem hafa fengið inneignarkort í matvöruverslunum frá Hjálparstarfinu á árinu 2016 geta fyllt út umsóknareyðublað á www.help.is
 • Þar sem Hjálparstarfið aðstoðar aðeins barnafjölskyldur í Reykjavík er fullorðnum einstaklingum sem ekki hafa börn á framfæri bent á að hægt er að leita til annarra hjálparsamtaka um aðstoð.
 • Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar aðstoðar fjölskyldur jafnt sem einstaklinga með lögheimili í sveitarfélaginu dagana 28. og 29. nóvember milli klukkan 16 og 18.
 • Í Kópavogi aðstoðar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs fjölskyldur og einstaklinga í fjárhagslegum vanda dagana 29. nóvember og 6. desember milli klukkan 15 og 18.
 • Á Suðurnesjum verður tekið á móti umsóknum til Velferðasjóðs Suðurnesja og Hjálparstarfs kirkjunnar í Keflavíkurkirkju 29. og 30. nóvember og 1., 6. og 8. desember klukkan 09:00-12:00.
 • Á Eyjafjarðarsvæðinu hafa Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd, Rauði krossinn og Hjálpræðisherinn á Akureyri með sér samstarf um aðstoð. Tekið er á móti umsóknum í síma 570 4090 frá 30. nóvember til 9. desember milli kl. 10 - 12. 
 • Í Árnessýslu hefur Hjálparstarfið samstarf um jólaaðstoð við Rauða krossinn og kvenfélögin. Tekið er á móti umsóknum 29. og 30. nóvember milli kl. frá 10 - 12 og 1. desember milli kl. 15-18 í Selinu við Engjaveg á Selfossi og hjá sóknarprestum.
 • Annars staðar á landinu taka prestar í heimasókn við umsóknum um aðstoð frá einstaklingum jafnt sem fjölskyldufólki til og með 12. desember.
27.11.2016
Vatn er von - Jólasöfnun Hjálparstarfsins er hafin
vatn er von bara mynd fyrir vef

Í Sómalífylki í Eþíópíu valda tíðir þurrkar viðvarandi matarskorti og vannæringu. Vatnsskorturinn leiðir til lélegs ástands bústofnsins en dýralæknaþjónusta er stopul. Afleiðingin er fátækt en vegna hennar er skortur á tækjum og tólum og því eru ræktunaraðferðir í jarðrækt takmarkaðar. Allt leiðir þetta til þess að fæðuöryggi er mjög ábótavant og lífsskilyrði eru slæm.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur í níu ár starfað með sjálfsþurftarbændum á svæðinu að því að tryggja aðgengi að hreinu vatni, auka fæðuval og efla völd og áhrif kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.

Starfið hefur borið góðan árangur en svæðið er stórt og íbúar margir. Þegar aðstæður hafa breyst til batnaðar í einu þorpi höfum við fært okkur um set og hjálpað fólki til sjálfshjálpar í því næsta. Með frábærum stuðningi frá almenningi á Íslandi höldum við áfram að hjálpa fólkinu í Jijiga til sjálfshjálpar - í hverju þorpinu á fætur öðru.

Við höfum sent valgreiðslu að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna en einnig er hægt að hringja í söfnunarsíma 907 2003 og leggjast þá 2.500 krónur á næsta símreikning. Framlag að eigin vali er hægt að gefa á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

31.10.2016
Bank bank. Má bjóða þér að gefa í baukinn?
Fermingarbsofnun_myndir_009

Um 2600 fermingarbörn um allt land ganga í hús þessa vikuna og safna peningum til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Framlag fermingarbarna er risastórt en í fyrra söfnuðu þau um átta milljónum króna. Áður en börnin ganga í hús fá þau að kynnast þróunarsamvinnu Hjálparstarfs kirkjunnar í fermingarfræðslunni. Þau fræðast um aðstæður fólks sem býr við erfið lífsskilyrði og fá tækifæri til að ræða um sameiginlega ábyrgð jarðarbúa á því að allir fái lifað mannsæmandi lífi

Með verkefninu gefst tækifæri til að fræða fermingarbörnin um boðskap Krists um náungakærleik á áþreifanlegan hátt. Á unglingsárum þegar skilningur vex og ungt fólk er að móta sér lífsstíl er mikilvægt að fá að setja sig í samhengi við aðra í heiminum og skynja kraft sinn til þess að breyta rétt og hafa áhrif. Hjálparstarfið biður þig að taka vel á móti fermingarbörnunum þegar þau banka upp á hjá þér

31.08.2016
Er fátæktarklám í fjölmiðlum?
Fundur fólksins

Fundur í Aalto fundarherbergi í Norræna húsinu á föstudaginn 2. september klukkan 16:00 - 17:00

Pepp á Íslandi (People experiencing Poverty) sem hefur að markmiði að vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun og Hjálparstarf kirkjunnar standa fyrir viðburði á Fundi fólksins á föstudaginn 2. september klukkan 16:00 – 17:00. Um er að ræða samtal milli fólks sem býr við eða hefur búið við fátækt og fjölmiðlafólks um hvernig fjölmiðlar fjalla um fátækt, hvers vegna og hvort og hvernig mætti gera betur.

Hugmyndin er að ræða um það hvernig fólk sem býr við fátækt myndi vilja að rætt væri um það og aðstæður þess? Hlustar fólk ekki nema ákveðinn vinkill sé hafður í umfjöllun? Er hægt að fjalla um fólk í erfiðum aðstæðum með virðingu og af nærgætni og halda athygli almennings um leið?

Fundarstjóri er Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar. Við pallborðið sitja Laufey Ólafsdóttir, samhæfingarstjóri Pepp, Gunnar Smári Egilsson, útgefandi Fréttatímans, Ása Sverrisdóttir, Pepp Akureyri, Lóa Pind Aldísardóttir, dagskrárgerðarmaður á Stöð 2, Þorkell Þorkelsson (Keli) ljósmyndari og Sædís Arnardóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfsins.

Nánar um viðburðinn má sjá á https://www.facebook.com/events/1273438802687964/

15.08.2016
Aðstoð veitt í upphafi skólaárs
Sjálfboðaliðar
Sjálfboðaliðar aðstoða fólk um fatnað á þriðjudögum.

Haustið er sá tími þegar fjölskyldur sem búa við kröpp kjör leita til Hjálparstarfsins um aðstoð við að mæta útgjöldum í upphafi skólaárs. Síðasta haust leituðu foreldrar hátt í 200 barna og unglinga til okkar um stuðning vegna þessa og við búumst við svipuðum fjölda umsókna nú.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka á móti umsóknum  þriðjudaginn 16. og fimmtudaginn 18. ágúst klukkan 13:00 – 15:00 og á sama tíma mánudaginn 22. og þriðjudaginn 23. ágúst. Umsækjendur eru beðnir um að hafa með sér gögn um tekjur og fjárhaglega stöðu. 

Auk þess að aðstoða fjölskyldur við kaup á ritföngum og skólavörum með gjafakortum í ritfangaverslanir styrkir Hjálparstarfið ungmenni sem orðin eru sjálfráða og vilja hefja eða ljúka framhaldsskólanámi sem gefur þeim réttindi til starfs eða inngöngu í háskóla. Styrkirnir eru til greiðslu skólagjalda og fyrir bóka- og efniskostnaði.

Börn tekjulágra foreldra njóta einnig stuðnings svo þau geti iðkað íþróttir með jafnöldrum sínum, stundað tónlistarnám og tekið þátt í tómstundastarfi. Markmiðið er að þau geti tekið virkan þátt í samfélaginu og að bágur efnahagur foreldranna takmarki ekki möguleika þeirra til þess.

Sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins aðstoða fólk við að finna fatnað við hæfi en fataúthlutun er á þriðjudögum kl. 10:00 – 12:00. Hjálparstarfið tekur við heilum og hreinum fatnaði í húsnæði stofnunarinnar að Háaleitisbraut 66, Reykjavík, alla virka daga kl. 8:00 – 16:00. Hlýr vetrarfatnaður fyrir börn og unglinga er alltaf á óskalistanum hjá okkur.

Hjálparstarfið er á sama máli og Barnaheill um að börn eigi að geta stundað nám án þess að finna fyrir mismunandi efnahagsstöðu foreldra sinna og hvetur til undirskriftar á barnaheill.is/askorun þar sem skorað er á stjórnvöld að afnema gjaldtöku fyrir námsgögn.

29.07.2016
Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar
Öllasjóður

Í gær, fimmtudaginn 28. júlí, afhenti Minningarsjóður Ölla Hjálparstarfi kirkjunnar eina milljón króna til að styrkja börn sem búa við kröpp kjör til íþróttaiðkunar. Upphæðin safnaðist að stórum hluta til í áheitasöfnun fyrir sjóðinn í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2015.

Minningarsjóður Ölla var stofnaður haustið 2013 í kringum frumsýningu á heimildamyndinni um Örlyg Aron Sturluson, einn allra efnilegasta körfuboltamann sem Ísland hefur átt. Ölli lék með meistaraliði Njarðvíkur og A-landsliði Íslands og var valinn fyrstur í lið í fyrsta Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands. Ölli lést af slysförum þann 16. janúar árið 2000, daginn eftir Stjörnuleikinn, aðeins 18 ára gamall. Það var vinur Ölla og samherji í Njarðvík á sínum tíma, Logi Gunnarsson körfuboltamaður, sem afhenti peningagjöfina á skrifstofu Hjálparstarfsins í gær.

Það gjörbreytir stöðu barnanna að njóta þessa stuðnings og fá þannig tækifæri til að taka þátt í íþróttastarfi með jafnöldrum sínum. Í fyrra fengu foreldrar hátt í 200 barna og unglinga styrk frá Hjálparstarfi kirkjunnar til að mæta útgjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs og við reiknum með svipuðum fjölda umsókna í ár. Félagsráðgjafar okkar taka við styrkumsóknum á miðvikudögum frá kl. 12 – 16 frá og með 10. ágúst næstkomandi.

Frétt Stöðvar tvö um styrkveitinguna.

20.07.2016
Margt smátt ... er komið út
printscreen fyrir vefinn

Hér á Íslandi fögnum við flest sólinni og vonum að hann haldist þurr í sumarfríinu. Í Eþíópíu hafa miklir þurrkar í fyrra og í vor hins vegar valdið endurteknum uppskerubresti þannig að búfé hefur fallið úr hor og milljónir íbúa eu nú háðar aðstoð um lífsviðurværi. Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við með matarsendingum á verstu þurrkasvæðin en ráða ekki óstudd við ástandið. Auk þess að glíma nú við þessar afleiðingar El Nino veðurhamsins er Eþíópía stærsta móttökuríki flóttafólks í Afríku með fleiri en 700.0000 manns í flóttamannabúðum víðs vegar um landið.

Hjálparstarf kirkjunnar, með styrk frá hjálparliðum sem styrkja starfið með föstu framlagi, almenningi og utanríkisráðuneytinu, hefur sent ellefu og hálfa milljón króna til að tryggja lífsviðurværi sjálfsþurftarbænda á verstu þurrkasvæðunum. Í fréttablaðinu okkar segjum við frá aðstæðum fólksins og hvernig aðstoðin sem veitt er gerbreytir lífi þess. Við segjum einnig frá starfinu innanlands; því sem nýliðið er og því sem er á döfinni. Hér er blaðið: Margt smátt...

06.06.2016
Samvera og góðar minningar
Sumarfrí og sjálfboðaliðar 047
Siglingar eru með því vinsælasta á dagskránni.

Samvera og góðar minningar - skipulagt 4 daga sumarfrí fyrir barnafjölskyldur í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn hefst á morgun 7. júní. Tuttugu og ein fjölskylda eða um 60 manns taka þátt í verkefninu sem er skipulagt í samvinnu við Hjálpræðisherinn á Íslandi. Markmiðið er að auka virkni og félagslega þátttöku og stuðla að samveru og gæðastundum efnalítilla fjölskyldna. Verkefnið er byggt á reynslu af samskonar verkefnum frá síðustu tveimur árum sem þátttakendur hafa verið mjög ánægðir með.

25.04.2016
Fjársöfnun er hafin vegna neyðaraðstoðar í Ekvador
RS14351_2016_04_Ecuador_earthquakes_photos4 vefur
525 manns létust í jarðskjálftanum.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til hjálparstarfs í Ekvador í kjölfar jarðskjálftans sem þar reið yfir þann 16. apríl síðastliðinn. Söfnunarreikningur er  0334-26-056200, kt. 45067-00499.

Stjórnvöld lýstu strax yfir neyðarástandi í landinu en skjálftinn sem mældist 7,8 stig á Richterskvarða varð 525 manns að bana. Um 4600 manns slösuðust í skjálftanum og 23.506 íbúar misstu heimili sín. Opinberar byggingar og vegir skemmdust einnig í skjálftanum.

Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, sem og önnur hjálparsamtök, hafa þegar hafið hjálparstarf í þeim sex héruðum sem verst urðu úti. Skýli með hreinlætisaðstöðu hafa verið reist, fólk fengið hreint drykkjarvatn, matargjafir og sálrænan stuðning.       

Áætlað er að um hálf milljón íbúa þurfi á aðstoð að halda vegna eyðileggingar af völdum skjálftans. ACT Alliance hefur sent út neyðarbeiðni fyrir um 199 milljónum króna til neyðaraðstoðar við íbúa á skjálftsvæðunum næsta árið og til uppbyggingarstarfs.

 

18.04.2016
Gleðilegt sumar!
Mynd án texta fyrir vef

Sala tækifæriskorta til styrktar íþrótta- og tómstundastarfi barna sem búa við kröpp kjör.

Hjálparstarf kirkjunnar býður nú til sölu tækifæriskort sem við köllum Gleðilegt sumar! Kortin sem fást í verslunum Bónuss og N1 kosta 1200 krónur stykkið. Andvirðið rennur til barna sem búa við fátækt á Íslandi. Þau fá aðstoð svo þau komist í skipulagt íþrótta- og tómstundastarf með jafnöldrum sínum en einnig til þess að fjölskyldur geti átt saman gleðistundir í sumarleyfinu og þannig safnað góðum minningum í minningarbankann. 

Um 250 börn nutu stuðnings Hjálparstarfsins á síðasta starfsári vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs. Aðgangskort voru gefin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sem og bíómiðar, leikhúsmiðar og boðskort á veitingastaði sem eru vinsælir meðal barna og unglinga.

Í heild veitti Hjálparstarfið um 5900 manns á Íslandi stuðning á síðasta starfsári. Fyrst og fremst er um að ræða fjölskyldur einstæðra tekjulágra mæðra og öryrkja. Eitt megin markmiðið með starfinu er að draga úr hættunni á félagslegri einangrun þeirra sem til stofnunarinnar leita með því að veita efnislega aðstoð ásamt því að bjóða upp á ráðgjöf, sjálfstyrkingar- og færninámskeið. Við leitumst við að styðja börn sérstaklega með það að markmiði að styrkja sjálfsmynd þeirra og auka virkni þeirra og þátttöku í samfélaginu; að sjá til þess að efnislegur skortur takmarki ekki möguleika þeirra til farsæls lífs.

08.04.2016
Engar afmælisgjafir takk!
Torfi og Bjarni í april 2016b

Torfi H. Ágústsson varð sjötugur þann 25. mars síðastliðinn. Hann hélt upp á afmælið sitt og bauð fólkinu sínu til veislu. Nema hvað, hann afþakkaði gjafir en bauð fólki að setja seðil í bauk til að styrkja verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í þágu flóttafólks frá Sýrlandi. Síðastliðinn miðvikudag afhenti Torfi Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, 180.000 króna peningagjöf frá honum, Margréti Jónsdóttur, eiginkonu hans, vinum og ættingjum.

Peningunum verður varið til aðstoðar við flóttafólk Í Líbanon en þar eru nú um 1,5 milljón flóttamanna frá Sýrlandi. Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna veitir þar margvíslega aðstoð, meðal annars heita og næringarríka máltíð einu sinni á dag. Hafið þakkir fyrir, Torfi og fólkið hans!

08.04.2016
Heilsueflandi samvera ... alveg málið!
Sædís hugsaðu jákvætt
Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfsins.

Þær ellefu konur sem taka þátt í námskeiðinu Heislueflandi samvera sem Hjálparstarfið og Hjálpræðisherinn fóru af stað með í október síðastliðnum eru hæstánægðar með dagskrá þess og sjáflsvinnu sem þar fer fram. Einn hluti námskeiðsins var matreiðsla í Réttarholtsskóla þar sem Gunnþórunn Jónsdóttir matreiðslukennari tók hópinn að sér í fjögur skipti. Undir hennar leiðsögn voru galdraðir fram hinir ýmsu réttir og má þar nefna japanskt kjúklingasalat, Chili con carne, kanelsnúðar og pönnukökur. Í hverjum tíma voru matreiddir 2-3 aðalréttir auk eftirréttar og endaði tíminn á sameiginlegu borðhaldi þar sem konurnar gæddu sér á veislumatnum í samneyti hver við aðra. Annar þáttur var sjálfsvinna á sjálfstyrkingarnámskeiðinu Konur eru konum bestar sem Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfsins stýrði í febrúar en markmið þess er að skapa konum vettvang til að kynnast sjálfum sér betur í góðum félagsskap þar sem þær fá tækifæri til að deila reynslu sinni og benda hver annarri á leiðir til að styrkja sjálfsmyndina en rík áhersla er lögð á virka þátttöku í hópaverkefnum og umræðum. Námskeiðinu sem lýkur nú í apríl er ætlað konum utan vinnumarkaðar en markmiðið með því er að efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu þátttakendanna. Hjálparstarfið kann Góða hirðinum, nytjamarkaði Sorpu, bestu þakkir fyrir stuðninginn við verkefnið!

08.04.2016
Veglegur styrkur frá íslenska söfnuðinum í Noregi
Kristján og Bjarni í april 2016b

Þriðjudaginn 5. apríl síðastliðinn afhenti Kristján Daðason, ritari Ólafíusjóðs íslenska safnaðarins í Noregi, Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, 450.000 króna styrk sjóðsins við verkefni Hjálparstarfsins á Íslandi.

Ólafíusjóður var stofnaður árið 2009 og er ætlað að mæta tímabundnum erfiðleikum t.d. í tengslum við veikindi, dauðsfall eða önnur áföll sem dunið geta yfir einstaklinga og fjölskyldur. Heiti sjóðsins er til minningar um Ólafíu Jóhannsdóttur, sem hjálpaði nauðstöddum konum í Osló upp úr aldamótunum 1900. Hjálparstarf kirkjunnar kann íslenska söfnuðinum í Noregi bestu þakkir fyrir frábæran stuðning við starfið!

23.03.2016
Páskablað Hjálparstarfsins er komið út
RS3973_2011_Ethiopia_drought-7117 fyrir vef

Margt smátt... fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar kom út á laugardaginn með Fréttablaðinu. Ertu búin/n að sjá blaðið? Það er líka hér:http://help.is/doc/213

21.03.2016
Tíu milljónir Eþíópa eru á barmi hungursneyðar. Söfnun er hafin
RS3973_2011_Ethiopia_drought-7117 fyrir vef

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til að svara neyðarbeiðni Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna, ACT Alliance, um 627 milljónir króna til að aðstoða Eþíópa sem eru á barmi hungursneyðar vegna þurrka og uppskerubrests. Markmið ACT Alliance er að bæta fæðuöruggi, veita húsaskjól, tryggja heilsugæslu og skólagöngu barna og útvega sjálfsþurftarbændum á verstu þurrkasvæðunum útsæði, búfénað og bóluefni fyrir dýrin. Hjálparstarf kirkjunnar á Íslandi vinnur auk þess með sjálfsþurftarbændum á þurrkasvæðum í Sómalífylki að því að bæta fæðuöryggi og auka aðgengi að hreinu vatni.  

Neyðarástand í norðan- og austanverðri Eþíópíu nú má rekja til þess að ekki rigndi á venjubundnum regntíma í mars á síðasta ári. Ekki rigndi heldur í ágúst og september þannig að haustuppskera brást, dýr drápust úr þorsta og milljónir íbúa urðu háðar matar- og drykkjaraðstoð. Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við en útilokað er að þau ráði hjálparlaust við það neyðarástand sem blasir við. Nú þegar er svo komið að um tíu milljónir íbúa, þar af nær sex milljónir barna, þurfa á aðstoð að halda og óttast er að ástandið vernsi enn frekar ef ekki rignir á næstunni.

03.03.2016
Vilt þú vera Hjálparliði? Við erum að hringja núna
Hjálparliðar styrkja Hjálparstarfið með reglulegu framlagi sem gerir okkur kleift að vinna þeirri hugsjón brautargengi að hjálpa þeim sem búa við mikla fátækt– bæði hér heima og í fátækustu ríkjum heims. Á Íslandi hefur Hjálparstarfið að leiðarljósi að rjúfa vítahring fátæktar og félagslegrar einangrunar. Þróunarsamvinnuverkefni okkar snúa fyrst og fremst að þeim sem verst eru staddir svo sem munaðarlausum börnum og einstæðum mæðrum með mörg börn á framfæri. Við reiðum okkur á - og þökkum innilega fyrir stuðning - frá hjartahlýju fólki!
23.02.2016
Unga fólkið lætur sig aðra varða
Gjof landsm 2015 fyrir vef
ÆSKÞ safnaði 500 þúsund krónum fyrir ungt fólk.

Á landsmóti Æskulýðsfélags þjóðkirkjunnar í Vestmannaeyjum í október síðastliðnum söfnuðu 700 unglingar 500 þúsund krónum í þágu jafnaldra sinna sem búa við kröpp kjör. Á aðalfundi ÆSKÞ þann 18. febrúar afhenti Guðmundur Karl Einarsson, gjaldkeri, Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins framlagið sem rennur í Polla- og Hemmasjóði stofnunarinnar.

Pollasjóður var stofnaður árið 2014 þegar Heiðar í Pollapönki setti Eurovisiongítarinn sinn á uppboð. Úr sjóðnum fá börn efnalítilla foreldra styrk og þar með tækifæri til að láta draum sinn rætast og stunda tónlistarnám. Hemmasjóður er nefndur eftir Hermanni Hreiðarssyni, knattspyrnumanni, sem lagði til stofnfé hans. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styrkja börn efnalítilla foreldra og veita þeim tækifæri til að stunda íþróttir með vinum sínum og félögum.

Allt frá árinu 2010 hefur ÆSKÞ safnað fé til fjölmargra verkefna Hjálparstarfsins. Unga fólkið lætur sig sannarlega aðra varða og kann Hjálparstarfið þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn!

22.02.2016
43,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar í Sýrlandi og uppbyggingar í Nepal
Jórdanía 2018
Börn á flótta fá heita og næringarríka máltíð einu sinni á dag.

Hjálparstarf kirkjunnar sendi nú í febrúar 22,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga og 21 milljón króna til hjálparstarfs og uppbyggingar í Nepal í kjölfar jarðskjálftans sem þar reið yfir í apríl í fyrra.

Samstarfsaðili Hjálparstarfsins, International Orthodox Christian Charities (IOCC), hjálpar fólki sem hefur orðið að flýja heimili sín og er heimilislaust, hjá venslafólki eða í flóttamannabúðum í Sýrlandi, Jórdaníu og Líbanon. Á árinu 2016 áætlar IOCC að aðstoða um 60 þúsund manns með því að tryggja þeim aðgang að heilsugæslu og útvega fæði, skjól og húsbúnað ásamt því að gera börnum kleift að sækja skóla og veita flóttafólkinu sálrænan stuðning. Þá er móttökusamfélögum hjálpað svo þau geti sem best tekið á móti sífellt fleira flóttafólki.  Utanríkisráðuneytið styrkir verkefnið um tuttugu milljónir króna. Í febrúar 2014 sendi Hjálparstarfið 16,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar við stríðshrjáða Sýrlendinga og nemur því heildarframlag til þessa brýna mannúðarstarfs 39,2 milljónum króna.

Í Nepal aðstoðar Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, 308 þúsund íbúa sem urðu illa úti í jarðskjálftanum í apríl síðastliðnum með því að tryggja þeim hreint vatn og hreinlætisaðstöðu, heilbrigðisþjónustu, húsaskjól og stuðning við viðgerð á húsnæði, matarföng, áfallahjálp og sálrænan stuðning. Fjárstuðningur frá Íslandi rennur til verkefna sem DCA, dönsk systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar, stýrir og lýkur þeim í apríl 2016. Utanríkisráðuneytið styrkti verkefnið um tuttugu milljónir króna.

10.02.2016
Kærar þakkir fyrir frábæran stuðning!
Strákar brosa í Jijiga 2015 vef

Í desember og janúar síðastliðnum studdu almenningur, samtök og fyrirtæki verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar með 61 milljón króna framlagi. Til verkefna á Íslandi söfnuðust 28,5 milljónir króna og til verkefna erlendis 32,5 milljónir króna.

Langstærsta verkefni Hjálparstarfsins erlendis er á þurrkasvæðum Í Eþíópíu en þar eru vatnsþrær grafnar, brunnar byggðir og fræðsla veitt um nýtingu vatns, bættar ræktunaraðferðir, hreinlæti og smitleiðir sjúkdóma. Stuðlað er að bættum hag kvenna kvenna með því að veita þeim fræðslu og þjálfun í atvinnurekstri og örlán til að hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd.

Á Íslandi aðstoðar Hjálparstarf kirkjunnar efnalitla með inneignarkortum í matvöruverslanir samfara félags- og fjármálaráðgjöf. Stuðningur er veittur vegna óvænts lyfjakostnaðar og þá njóta börn og unglingar stuðnings í upphafi skólaárs og til að stunda tónlistanám, íþróttir og tómstundastarf. Sjálfstyrkingar- og færninámskeið eru einnig í boði ásamt skipulagðri samveru sem vinnur gegn félagslegri einangrun sökum fátæktar.

Alls nutu 1453 fjölskyldur (um 3900 manns) um land allt aðstoðar fyrir síðustu  jól eða tveim fjölskyldum færri en fyrir jól 2014. Af umsækjendum voru 81% konur, 55% einstæðir foreldrar, 44% á örorkubótum, 16% voru á framfærslu sveitarfélaga og 15 % voru í vinnu. Í desember og janúar síðastliðnum fengu 584 einstaklingar til viðbótar notaðan fatnað hjá Hjálparstarfinu og stuðning vegna lyfjakaupa.

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar almenningi, samtökum og fyrirtækjum fyrir frábæran stuðning við starfið!

08.02.2016
Gefum voninni vængi!
vængir framan fyrir vef

Kirkjugestum í sóknum landsins jafnt sem öðrum býðst nú að taka þátt í söfnunarverkefni fyrir Hjálparstarf kirkjunnar sem hefur um leið uppeldislegt gildi. Hefur verkefnið hlotið yfirskriftina Gefum voninni vængi en gerðir hafa verið tveir samstæðir söfnunarbaukar, annar baukurinn er merktur Sjóður fyrir náungann en hinn Sjóður fyrir mig. Baukarnar gefa foreldrum og fræðurum í barnastarfi kirkjunnar færi á að kenna börnunum annars vegar að það er skynsamlegt að safna fyrir því sem mann vantar og hins vegar um samkennd og samábyrgð: Að um leið og við gefum eigin vonum vængi sé mikilvægt að huga að náunganum og hafa hugföst orð Jesú um að elska náungann eins og okkur sjálf. Söfnunarfé verður varið til verkefna Hjálparstarfsins í þágu þeirra sem búa við fátækt innanlands og utan.

Baukana myndskreytti Halla Sólveig Þorgeirsdóttir en þá má nálgast í kirkjum landsins og hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík. Kirkjurnar munu aðstoða við að koma baukunum til Hjálparstarfsins í lok söfnunar þann 20. mars næstkomandi.

26.01.2016
Frábær stuðningur Hallgrímssóknar við starfið!
Stuðn Hallgrk v Hk fyrir vefinn

Við messu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 24. janúar síðastliðinn afhenti Aðalheiður Valgeirsdóttir, varaformaður sóknarnefndar, Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, fjárframlag Hallgrímssóknar frá árinu 2015 að upphæð 3,3 milljónir króna. Hallgrímssókn var frumkvöðull að því að hafa samskot í messum þar sem fólk getur lagt fram fé til brýnna málefna en fé er einnig safnað með ljósberanum í kirkjunni þar sem m.a. margir ferðamenn gefa gjafir. Aðalheiður sagði að Hallgrímssókn vildi styðja við starf Hjálparstarfsins sem leggði áherslu á að hjálpa þeim sem verst eru settir. Féð væri framlag kirkjugesta sem væri miðlað áfram.  Við móttöku framlagsins tók Bjarni Gíslason fram að allt starf Hjálparstarfsins miðaði að hjálp til sjálfshjálpar með valdeflingu einstaklinga til að móta eigin framtíð. Hann sagði rausnarlegan stuðning Hallgrímskirkju sannarlega efla starfið.Við sama tækifæri afhenti Aðalheiður fulltrúa Kristniboðssambandsins, Kristínu Bjarnadóttur, 800.000 króna framlag.

Á myndinni sem var tekin við þetta tækifæri eru sr. Jón Dalbú Hróbjartsson, Aðalheiður Valgeirsdóttir, varaformaður sóknarnefndar, Kristín Bjarnadóttir, fulltrúi Kristniboðssambandsins, Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar og sr. Sigurður Árni Þórðarson.

17.12.2015
Jólaaðstoð innanlands í fullum gangi
Framlag sjálfboðaliða er ómetanlegt
Sjálfboðaliðar gegna stóru hlutverki í desember

Í dag, 17. desember, og á morgun, 18. desember, veita sjálfboðaliðar og starfsfólk Hjálparstarfsins efnalitllum fjölskyldum sérstaka desemberaðstoð en markmið hennar er að gera fólki kleift að gleðjast með sínum nánustu yfir hátíðirnar og stuðla að aukinni félagslegri virkni. Aðstoðin tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta í matvöruverslanir.

Þar sem Hjálparstarfið er eitt að störfum er einstaklingum veitt sérstök aðstoð fyrir jól en á svæðum þar sem öðrum hjálparsamtökum er til að dreifa einskorðar Hjálparstarfið aðstoðina við barnafjölkyldur sem búa við kröpp kjör. Gott samstarf um jólaaðstoð er milli Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins, Mæðrastyrksnefndar og Rauða krossins á Eyjafjarðarsvæðinu, í Árnessýslu, Hafnarfirði og Kópavogi.

Alls bárust 1.455 umsóknir fyrir jól 2014 og í heild er áætlað að 3.929 einstaklingar hafi notið aðstoðar þá. Við áætlum að fjöldi umsækjanda verði svipaður í ár en endanlegur fjöldi verður ekki ljós fyrr en við talningu skráninga og mun liggja fyrir í janúar.

Fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar hafa styrkt verkefnið með vinnu- og fjárframlagi en stuðningur þeirra er grundvöllur fyrir verkefninu og alveg ómetanlegur. 

07.12.2015
Kaupás styrkir innanlandsstarfið
Mynd fyrir vef frá styrkveitingu FESTI Krónunni 2015
Fulltrúar félagasamtaka taka á móti styrkjum
Fulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar tók á móti 500 þúsund króna styrk frá Kaupás ehf í morgun. Styrkurinn er í formi inneignarkorta í matvöruverslanir Krónunnar. Sjálfboðaliðar Hjálparstarfsins hafa verið í óða önn undanfarna daga við að taka á móti umsóknum um sérstaka aðstoð fyrir jól en umsóknarfrestur rann út í dag. Inneignarkort í matvöruverslanir verða afhent fimmtudaginn 17. og föstudaginn 18. desember næstkomandi. Kærar þakkir fyrir stuðninginn!
07.12.2015
Þorkell Máni styður starfið
Mynd Þorkell Máni styrkir vefur 3

Hjálparstarf kirkjunnar fékk góða heimsókn í morgun þegar fulltrúar Þorkels Mána, Oddfellowstúku nr. 7, komu færandi hendi. Birgir Þórarinsson, Kjartan Rafnsson, Ásgeir Ingvason og Jóhann afhentu 600.000 krónur til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Þessir fjármunir koma sér sannarlega vel einmitt núna þegar stærsta úthlutun ársins er framundan. Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins og Vilborg Oddsdóttir umsjónarmaður innanlandsstarfs þökkuðu fyrir þennan frábæra stuðning en stúkan hefur oft áður stutt starfið.

 

27.11.2015
Jólasöfnun Hjálparstarfsins er hafin

Fólk sem ekki hefur aðgang að vatni til drykkjar, matargerðar og til að gæta hreinlætis er útsett fyrir lífshættulegum sjúkdómum sem berast með óhreinu vatni eins og kóleru og öðrum niðurgangspestum.

Með hreinu vatni hefur allt líf hins vegar möguleika á að vaxa og dafna. Fæðuöryggi eykst með jarðyrkju og búfjárrækt, aukið hreinlæti leiðir til aukins heilbrigðis, börn geta varið tíma sínum til skólagöngu og jafnrétti kemst á þegar konur fá tíma og tækifæri til sinna öðru en grunnþörfum fjölskyldunnar. Með fræðslu um betri nýtingu jarðvegs er svo hægt að auka vernd umhverfisins. Allir þessir þættir leiða til sjálfbærrar þróunar samfélaga.

Markmið Hjálparstarfs kirkjunnar er að vinna með fólki sem býr við sára fátækt. Við höfum að leiðarljósi að starfið leiði til sjálfshjálpar, virkni og sjálfbærrar þróunar í samfélögunum sem við störfum með.

Stærsti þátturinn í verkefnum okkar í Afríku er að grafa brunna og vatnsþrær og reisa vatnssöfnunartanka. Við vitum að hreint vatn breytir öllu!

Þú getur lagt starfinu lið með því að greiða valgreiðslu Hjálparstarfsins í heimabankanum, með því að hringja í síma 907 2003 (2.500 krónur), með framlagi á www.framlag.is eða með því að leggja inn á söfnunarreikning 334 -26 – 050886, kt. 450670 – 0499.  

þinn stuðningur gerir kraftaverk!

 

27.11.2015
Hjálparstarf kirkjunnar undirbýr aðstoð við efnalitlar fjölskyldur fyrir jól
Framlag sjálfboðaliða er ómetanlegt
Sjálfboðaliðar gegna stóru hlutverki í desember

Hjálparstarf kirkjunnar undirbýr nú stærsta verkefni sitt á árinu en það er sérstök aðstoð við efnalitlar fjölskyldur í desember vegna jólahalds. Markmið aðstoðarinnar er að gera fólki kleift að gleðjast með sínum nánustu yfir hátíðirnar og stuðla að aukinni félagslegri virkni. Aðstoð sem veitt er tekur mið af aðstæðum hvers og eins og er fyrst og fremst í formi inneignarkorta í matvöruverslanir sem verða gefin út eigi síðar en 18. desember.

Tekið verður á móti umsóknum frá barnafjölskyldum á höfuðborgarsvæðinu á skrifstofu Hjálparstarfsins, Háaleitisbraut 66, Reykjavík 3., 4., 7. og 8. desember kl.11:00 - 15:00.

Prestar á landsbyggðinni taka við umsóknum í heimasókn til og með 11. desember. Með umsóknum skulu fylgja gögn um tekjur og útgjöld frá síðasta mánaði.

Fólk sem hefur fengið Arion inneignarkort í matvöruverslanir hjá Hjálparstarfinu eftir 1. júlí síðastlinn getur sótt um hér á vefsíðu Hjálparstarfsins undir flipanum verkefni innanlands/umsóknareyðublað.

Á svæðum þar sem öðrum hjálparsamtökum er til að dreifa einskorðar Hjálparstarfið aðstoðina við barnafjölkyldur sem búa við kröpp kjör. Þar sem Hjálparstarfið er eitt að störfum er einstaklingum einnig veitt sérstök aðstoð fyrir jól. Gott samstarf um jólaaðstoð er milli Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins, Mæðrastyrksnefndar og Rauða krossins á Eyjafjarðarsvæðinu, í Árnessýslu, Hafnarfirði og Kópavogi.

Alls bárust 1.455 umsóknir fyrir jól 2014 og í heild er áætlað að 3.929 einstaklingar hafi notið aðstoðar. Fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar veita styrki til verkefnisins ár hvert og vinnuframlag sjálfboðaliða við skráningu umsókna fyrir jól er jafnframt ómetanlegt. 

23.10.2015
Styðjum flóttafólk! Stórtónleikar í Viðistaðakirkju á sunnudaginn
barn á flótta fyrir vef

Þann 25. október nk. stendur Víðistaðakirkja fyrir styrktartónleikum til stuðnings flóttafólki. Allur ágóði tónleikanna rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar og fer í neyðaraðstoð við flóttafólk frá Sýrlandi. Margt frábært tónlistarfólk kemur fram á tónleikunum og gefur vinnuframlag sitt til stuðnings góðu málefni:

Diddú, Bubbi Morthens, Guðrún Gunnarsdóttir, Ragnar Bjarnason, Þorgeir Ástvaldsson, Bjarni Arason, Ragnheiður Gröndal, Regína Ósk, Svenni Þór, Alma Rut, Hjörtur Howser, Eysteinn Eysteinsson, Hafsteinn Valgarðsson, Alda Dís, Tindatríó, Arnhildur Valgarðsdóttir, Kór Víðistaðasóknar og Helga Þórdís Guðmundsdóttir.

Miðaverð er kr. 2.900,- og fer miðasala fram á midi.is. Allar frekari upplýsingar er hægt að fá í Víðistaðakirkju í sími 565-2050

12.10.2015
Margt smátt ... 3. tbl. 2015 er komið út
Margt smátt..., 3 tbl. 2015

Fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar, Margt smátt... 3. tbl. 2015, er komið út. Í blaðinu fjöllum við um málefni flóttafólks og aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar við flóttafólk frá Sýrlandi. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Hjallasókn í Kópavogi, er með fallega hugleiðingu í blaðinu, við segjum frá flóamarkaðinum okkar í þágu skólabarna á Íslandi og frá verkefnum okkar í þágu fólks sem býr við sára fátækt í Úganda, Eþíópíu og á Indlandi.

Þú getur lesið fréttablaðið hér: http://help.is/doc/193

21.09.2015
Heit máltíð fyrir fólk á flótta
RS8069_LEB_2014_North_community kitchen_020 fyrir vef

Í norðurhluta Líbanon vinna heimamenn og flóttafólk frá Sýrlandi hlið við hlið við að matreiða fyrir börn, barnshafandi konur, fatlaða og þá sem verst er settir og ekki hafa aðgang að eldunaraðstöðu. Næringarrík máltíðin inniheldur 17% fitu, 12% prótein og næga orku fyrir daginn. Konurnar frá Sýrlandi sem matbúa fá greitt fyrir vinnu sína og þar með tækifæri til að aðlagast nýju samfélagi betur.      

Þú getur tekið þátt í neyðaraðstoð við flóttafólk frá Sýrlandi í Jórdaníu og Líbanon! Við erum að safna núna! Gjafabréfið Heit máltíð fyrir fólk á flótta fæst hér: http://gjofsemgefur.is/?prodid=94

09.09.2015
Alþjóðahjálparstarf kirkna bregst við brýnni þörf flóttafólks í Evrópu
Flóttafólk í Evrópu fyrir vef

Systursamtök Hjálparstarfs kirkjunnar í Grikklandi, Ungverjalandi og Serbíu veita flóttafólki frá Sýrlandi, Afganistan, Eritreu, Írak og Sómalíu neyðaraðstoð og sálrænan stuðning. Alþjóðahjálparstarf kirkna - ACT Alliance – sendi fyrr í dag út neyðarbeiðni um 209 milljónir króna til að fjármagna neyðaraðstoðina til loka febrúar 2016.    

Örmagna flóttafólkinu eru veitt matarföng, húsaskjól, eldhúsáhöld, aðgangur að hreinlætisaðstöðu og hreinlætisvörur auk þess sem leitast er við að veita því sálrænan stuðning, fræðslu og ráðgjöf.  

Talið er að á árinu hafi 267.000 flóttamenn flúið heimkynni sín og náð landi í Evrópu eftir mikla hættuför yfir sjó og land. Þannig telur Flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna að fleiri en 3.000 börn, konur og karlar hafi drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið árið 2014.  

Alþjóðahjálparstarf kirkna bendir jafnframt á að brýn þörf sé á neyðaraðstoð í Sýrlandi og í nágrannalöndum þar sem flestir eru í flóttamannabúðum en enn eigi eftir að fjármagna aðstoð þar.

28.08.2015
„Fólkið er að deyja við bæjardyrnar – Við verðum að bregðast við núna!"
flygtninge_dreng_donationsformaal_SubColumn
Mynd: Erik Marquardt/Scanpix

Sameiginleg yfirlýsing framkvæmdastjóra kirkjutengdra hjálparstofnana á Norðurlöndum í lok fundar þeirra í Hróarskeldu, Danmörku, 26. – 27. ágúst 2015:

Ákall um tafarlaus viðbrögð við mannúðarvanda í Evrópu og við Miðjarðarhaf!

Í Evrópu státum við okkur af því að vera í fararbroddi þegar kemur að lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum. Við sem leiðtogar hjálparstofnana sem starfa á grunni kristinna gilda teljum brýnt að evrópskt samfélag bregðist tafarlaust við neyð flóttafólks, nú reynir á að orðum fylgi athafnir.

Evrópubúar eru í aðstöðu til að rétta hjálparhönd og stjórnvöld mega ekki bregðast þeirri skyldu sinni að virða rétt fólks til mannsæmandi lífs. Við verðum að koma flóttafólki sem nú streymir til Evrópu til hjálpar. Fólkið sem hefur flúið heimaland sitt vegna stríðsátaka verður að njóta þeirrar aðstoðar sem því ber samkvæmt alþjóðalögum um mannréttindi og réttindi flóttafólks.

Stöðugt þyngri straumur flóttafólks til Evrópu er afleiðing fátæktar og stríðsátaka. Evrópubúar verða að taka höndum saman og veita aðstoð. Að reisa girðingar og loka fólk úti er engin lausn. Vandinn verður hins vegar ekki leystur nema með því að ráðast að rótum hans. Norrænar kirkjutengdar hjálparstofnanir eru staðráðnar í að halda áfram að þrýsta á stjórnvöld svo þau efli virðingu fyrir mannréttindum. Við höldum áfram neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu og leggjum áherslu á að aðstæður skapist þannig að fólk sé ekki nauðbeygt til að að yfirgefa heimkynni sín.

Anne-Marie Helland, Kirkens Nødhjelp, Norge

Gunilla Hallonsten, Svenska Kyrkan Internationellt Arbete, Sverige

Bo Forsberg, Diakonia, Sverige

Jouni Hemberg, Kirkon Ulkomaanapu , Finland

Bjarni Gislason, Hjálparstarf kirkjunnar, Íslandi

Birgitte Qvist-Sørensen, Folkekirkens Nødhjælp, Danmark

Lesa meira...
24.08.2015
Flóamarkaður í þágu skólabarna!
Flói 2015 104 vef

 

Sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar standa fyrir flóamarkaði við Grensáskrikju laugardaginn 29. ágúst 2015 kl 13:00 - 16:00.

Á markaðinum verður hægt að gera góð kaup en þar verða til sölu alls kyns gersemar; vintage fatnaður, bækur, húsgögn, húsbúnaður, leikföng, skrautmunir, skótau og margt fleira. Allur ágóði rennur til aðstoðar við börn og unglinga á Íslandi.

 

Hjálparstarf kirkjunnar aðstoðar efnalitlar barnafjölskylur við kaup á skólavörum og við að greiða útgjöld vegna íþrótta- og tómstundastarfs en í upphafi skólaárs getur það reynst fjölskyldum þungur baggi að útbúa börnin fyrir skólann og veturinn almennt.

Haustið 2014 aðstoðaði Hjálparstarfið foreldra 170 grunnskólabarna með því að láta þeim í té inneignarkort í ritfangaverslanir. Þá fengu 76 ungmenni í 11 sveitarfélögum stuðning við að greiða skóla- og efnisgjöld og til að kaupa bækur. 

 

05.08.2015
Sumri hallar, hausta fer..
skola_vola

.. og þá fer skólinn að byrja! Hjálparstarfið veitir efnalitlum foreldrum grunnskólabarna styrk vegna kostnaðar sem til fellur í upphafi skólaársins. Efnalitlum framhaldsskólanemum er veittur stuðningur við að greiða skólagjöld og kaupa bækur og fleira sem þarf til að stunda námið. Fullorðnum einstaklingum í endurhæfingu er veittur styrkur til að hefja nám eða ljúka því námi sem ekki er lánshæft. Um er að ræða styrk fyrir hluta kostnaðar. Munið að koma með innkaupalista frá skólanum og endilega munið að taka til það sem er nýtilegt frá því í fyrra!

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka á móti umsóknum um styrk vegna kostnaðar sem fylgir skólagöngu grunnskólabarna:

 • þriðjudaginn 18. ágúst kl. 13:00 - 15:00
 • fimmtudaginn 20. ágúst kl. 13:00 - 15:00
 • mánudaginn 24. ágúst kl. 13:00 - 15:00
 • þriðjudaginn 25. ágúst kl. 13:00 - 15:00
27.07.2015
Samvera og góðar minningar
Fjölskyldufrí við Úlfljótsvatn 630 á vef
Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn á Íslandi stóðu fyrir og skipulögðu sumarfrí fyrir 19 barnafjölskyldur, alls 65 þátttakendur, í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn 8. – 12. júní síðastlinn. Þátttakendur voru hæstánægðir í lok ferðar, eða réttara sagt allt nema veðrið sem hefði mátt vera betra að sumra mati. Meðal þess sem sagt var í lok frísins var: „Þetta var alveg frábært frí í alla staði! Afskaplega gaman og afslappandi. Allt svo vel skipulagt og starfsfólkið æði. Góður matur og góður félagsskapur. Gott að breyta um umhverfi. Fín dagskrá. Veðrið hefði samt mátt vera betra.“ Lesa meira...
22.07.2015
Að rækta garðinn sinn
fyrir vefinn

Tilraunaverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins um matjurtarækt og námskeið um ræktun, næringargildi, matreiðslu og geymslu grænmetis fyrir barnafjölskyldur er í fullum gangi. Verkefnið fór af stað í lok apríl en 39 fjölskyldur (um 100 manns) hvarvetna af höfuðborgarsvæðinu, á Reykjanesi og á Akureyri fengu þá úthlutað matjurtagarði og útsæði til að rækta grænmeti nú í sumar. Í maí fengu fjölskyldurnar fræðslu frá garðyrkjufræðingi um sáningu og ræktun. Garðyrkjufræðingurinn er til taks í sumar til að gefa góð ráð og á uppskerutíma í haust verður haldið námskeið um matræðslu og geymslumöguleika grænmetis.

 

Lesa meira...
20.07.2015
Félagsráðgjafar í sumarfríi frá 21. júlí - 7. ágúst 2015
sumarfrí félagsráðgjafa
Frá 21. júlí til og með 7. ágúst eru félagsráðgjafar Hjálparstarfsins í sumarfríi. Þeir sem leita til Hjálparstarfsins í fyrsta sinn geta bókað tíma hjá félagsráðgjöfum frá og með 10. ágúst. Skrifstofa Hjálparstarfsins er opin eftir sem áður og áfram verður greitt inn á inneignarkort í matvöruverslanir samkvæmt aðstoðaráætlun við hvern og einn. 
16.06.2015
Ertu búin/n að taka fram hlaupaskóna?
Aron og Elías Bjarnasynir fyrir vefinn
Kæri velunnari Hjálparstarfsins! Ertu búin/n að taka fram hlaupaskóna? Við vildum bara minna á að Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2015 fer af stað frá Lækjargötu þann 22. ágúst næstkomandi. Maraþon, hálfmaraþon og boðhlaup fer af stað klukkan 08:40, 10 km hlaup klukkan 09:35 og skemmtiskokk 3 km klukkan 12:15. Við hvetjum þig til að skrá þig í hlaupið og að sjálfsögðu að velja Hjálparstarfið sem góðgerðarfélag til að hlaupa fyrir! Skráning er á marathon.is. Með óskum um gott gengi!
20.05.2015
Sálrænn stuðningur er mikilvægur eftir jarðskjálfta í Nepal
Alþjóðlegt Hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, leggur ríka áherslu á sálrænan stuðning við þá sem eiga um sárt að binda í Nepal eftir jarðaskjálftana þar ásamt því að útvega matar- og drykkjarföng og veita læknisaðstoð: https://www.youtube.com/watch?v=I0kQjecoqRc
04.05.2015
Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna - ACT Alliance - bregst við neyð í Nepal
Nepal

Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna, ACT Alliance, aðstoðar fórnarlömb jarðskjálftans í Nepal með því að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu, heilbrigðisþjónustu, bráðabirgðaskýli, matarföng, áfallahjálp og sálrænan stuðning. Lúterska heimssambandið (LWF), Lúterska hjálparstarfið í Bandaríkjunum (LWR), finnska hjálparstarfið (NCA) og danska hjálparstarfið (DCA) framkvæma neyðaraðstoðina í samstarfi við innlend samtök sem eru aðilar að ACT Alliance. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á tæpar 13 milljónir bandaríkjadala eða um 1.7 milljarð króna en þegar er búið að afla 340 milljóna króna.

Jarðskjálftinn sem reið yfir þann 25. apríl síðastliðinn var upp á 7.3 stig á Richter. Upptökin voru 80 km norðvestur af höfuðborginni Kathmandu. Talið er að rúmlega 7000 manns hafa látist í kjölfar skjálftans og eyðileggingin á innviðum er gífurleg.

ACT Alliance hefur sent Hjálparstarfi kirkjunnar beiðni um fjárstuðning við neyðaraðstoðina sem þegar er hafin. Þú getur tekið þátt í að svara beiðninni með því að leggja inn á söfnunarreikning 0334-26-050886, kt. 450670-0499 eða með því að hringja í söfnunarsíma 907 2003 (kr 2.500).

 

20.04.2015
Gefðu barni á Íslandi gleðilegt sumar!
Mynd af skjáauglýsingu fyrir vef

Hjálparstarf kirkjunnar safnar nú fyrir innanlandsaðstoð í þágu barna tekjulágra foreldra með því að selja gjafakortin „Gleðilegt sumar“ á 1200 krónur í verslunum Hagkaups á höfuðborgarsvæðinu. Myndirnar framan á kortunum eru eftir 5 ára gömul börn í leikskólanum Austurborg í Reykjavík. Kortin má nota sem tækifæriskort, til dæmis með blómvendi á sumardaginn fyrsta. Með því að kaupa gjafakort tekur þú þátt í því að gefa barni gleðilegt sumar!

09.04.2015
Páskasöfnun Hjálparstarfsins
forsíðumynd fyrir vefinn

Við erum að safna fé til vatnsverkefnis okkar í Eþíópíu. Þú, lesandi góður, getur hjálpað með því að greiða valgreiðslu Hjálparstarfsins í heimabankanum, með því að hringja í síma 907 2003 (2.500 krónur), leggja inn á söfnunarreikning okkar númer 0334-26-50886, kt. 450670-0499 eða með framlagi á www.framlag.is.

Hjálp til sjálfshjálpar lykillinn að árangri 

Eþíópía er næstfjölmennasta ríki Afríku með um 90 milljónir íbúa. Tíðir þurrkar og árangurslitlar aðferðir í landbúnaði valda matarskorti en að staðaldri búa 8,3 milljónir íbúanna við ótryggt fæðuframboð og aðrar 6,7 milljónir líða skort yfir þurrkatímann. Á síðasta áratug hafa yfir 5 milljónir íbúa þurft á mataraðstoð að halda ár hvert. Í afskekktu og harðbýlu Sómalífylki verða þurrkar sífellt tíðari og fjórðungur íbúanna, 1 milljón manns, er háður mataraðstoð að staðaldri.    

Hjálparstarf kirkjunnar styður sjálfsþurftarbændur og hálfhirðingja í Jijiga í Sómalífylki til sjálfshjálpar. Markmiðið með starfinu er að auka fæðuöryggi og bæta lífskjör með því að bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni. Með auknu aðgengi að hreinu vatni og umhverfisvernd eykst framleiðslan og heilsufar batnar. Verkefnið okkar er heildrænt og samþætt og í því er lögð áhersla á valdeflingu kvenna, sjálfbæra þróun verkefnisins og uppbyggingu þekkingar í samfélaginu.  

Lesa meira...
09.04.2015
Margt smátt ... fréttablaðið okkar er komið út
forsíðumynd
Í blaðinu fjöllum við um starfið í Eþíópíu en nú stendur einmitt yfir söfnun fyrir verkefni okkar þar. Þá er umfjöllun um fjölbreytt starf hér innanlands, um verkefnin í Úganda og á Indlandi og við fjöllum um fátækt. Breytendur láta í sér heyra í blaðinu og fjalla um stóra samhengið. Endilega kíktu á blaðið.
19.03.2015
Inneignarkort til eftirbreytni
matarkort Arion 003minni 2

Evrópsku kærleiksþjónustusamtökin Eurodiaconia hafa útnefnt nálgun Hjálparstarfs kirkjunnar í vinnu með fólki sem býr við fátækt og félagslega einangrun sem eina af tíu bestu aðferðum innan samtakanna við að styðja fólk til virkni og aukinnar þátttöku í samfélaginu.

Í skýrslu Eurodiaconia frá desember 2014 (sjá www.eurodiaconia.org) er tekið undir það sjónarmið Hjálparstarfsins að fólki sé sýnd meiri virðing með því að láta því í té inneignarkort í matvöruverslanir í stað beinna matargjafa í poka. Að valdefling sem leiðir til sjálfshjálpar felist í því að gera fólki kleift að fara sjálft í þá matvöruveslun sem það kýs og kaupa matvörur að eigin vali. Þá telur Eurodiaconia til eftirbreytni hvernig Hjálparstarfið tvinnar saman efnislegan stuðning, ráðgjöf, sjálfstyrkingar- og virknivinnu með skjólstæðingum.

Lesa meira...
19.03.2015
Ótrúlegur stuðningur!
ACT PAUL JEFFREY 3 minni

Við hjá Hjálparstarfi kirkjunnar erum mjög þakklát fyrir þann frábæra stuðning sem starf okkar fær úr öllum áttum. Mjög margir leggja sitt af mörkum, einstaklingar greiða valgreiðslur sem við sendum í heimabanka, leggja inn á söfnunarreikninga, hringja í söfnunarsíma og kaupa gjafabréfin okkar á gjofsemgefur.is. Fyrirtæki taka mjög vel í styrkbeiðni okkar, bankar, stéttarfélög, sóknir og samtök leggja fram umtalsverða fjármuni. Heildarsöfnunarfé síðustu þrjá mánuði er samtals 70 milljónir króna, þar af eru 37 milljónir til innanlandsstarfsins og 33 milljónir til verkefna erlendis.

Sá mikli stuðningur sem starfið nýtur ber vott um að margir eru sammála markmiðum Hjálparstarfsins hvort heldur sem er í þróunarsamvinnuverkefnum erlendis, t.d. í Eþíópíu þar sem fleirum er tryggður aðgangur að hreinu vatni eða í starfinu á Íslandi þar sem t.d. er veittur tímabundinn efnislegur stuðningur með inneignarkortum í matvöruverslunum og efnaminni framhaldsskólanemendur fá styrk til greiðslu skólagjalda.

Lesa meira...
29.01.2015
Seldu handverk og gáfu andvirðið til vatnsverkefna Hjálparstarfsins
krakkar í Foldaskóla 2015
Fjörtíu börn í 6. bekk Foldaskóla í Grafarvogi bjuggu til lyklakippur, segla, tréleikföng, stafasnaga, speglakrossa, hálsmen, armbönd, jólakort og bókamerki og seldu í verlsunarmiðstöð nú fyrir jólin. Afraksturinn, 49.407 krónur, gáfu þau til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og Eþíópíu. Þau voru spurul og áhugasöm þegar fulltrúi Hjálparstarfsins sagði þeim frá verkefnunum í síðustu viku. Kærar þakkir krakkar fyrir framtakið og stuðninginn!
20.01.2015
Börn á Indlandi studd til náms
Indland
Á starfsárinu 2013 - 2014 styrktu Hjálparstarf kirkjunnar og 300 íslenskir fósturforeldrar alls 489 börn til skólavistar. Fjörtíu og fjögur þeirra ganga í skóla en eru ekki á heimavist. 231 barn er í skóla og á heimavist og 214 ungmenni eru í bóklegu eða verklegu framhaldsnámi. Viltu taka þátt í verkefninu og gerast fósturforeldri? Meira um það hér
16.01.2015
Fataúthlutun hefst á nýjan leik þriðjudaginn 20. janúar
föt í janúar 2015 008 fyrir facebook 2
Eftir mikla törn í desember var gert hlé á fataúthlutun Hjálparstarfsins yfir jól og áramót. Fyrstu dagana í janúar nýttu sjálfboðaliðar til að taka fatnað upp úr pokum, flokka og raða í hillur en mikið magn gæðafatnaðar barst Hjálparstarfinu fyrir tilstilli söfnunarátaks eRótarý á Facebook á hautmánuðum. Notaðan fatnað er hægt að nálgast hér í húsnæði Hjálparstarfsins að Háaleitisbraut 66 á þriðjudögum frá kl. 10:00 - 12:00.
09.01.2015
Að leggja í Framtíðarsjóðinn er góð fjárfesting
gjafabref_3

Skólaárið 2013 - 2014 fengu sjötíu og átta ungmenni í 13 sveitarfélögum og 18 framhaldsskólum styrk úr Framtíðarsjóði Hjálparstarfs kirkjunnar til greiðslu skólagjalda og fyrir bóka- og efniskostnaði. Meðalupphæð hvers styrks var 36.564 krónur. Þá fengu tólf ungmenni fartölvu að auki. Hjálparstarf kirkjunnar styður 16 - 20 ára gömul ungmenni til stúdentsprófs, sveinsprófs eða annars sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskólanáms. Markmiðið með starfinu er að auka möguleika ungmennanna á öruggri framfærslu og farsælu lífshlaupi. Þú getur lagt starfinu lið með því að kaupa gjafabréfið Framtíðarsjóður á www.gjofsemgefur.is

08.01.2015
Við tökum aftur á móti umsóknum þann 14. janúar
aðstoð innanlands
Hjálparstarf kirkjunnar óskar landsmönnum gleði og friðar á nýju ári! Við byrjum að taka á móti umsóknum um aðstoð á nýjan leik miðvikudaginn 14. janúar næstkomandi klukkan 12 – 16. Notaðan fatnað má nálgast á þriðjudögum frá og með 20. janúar klukkan 10 – 12. Verið velkomin! 
06.01.2015
Örlátir jólasveinar og mamma þeirra styrkja starfið
Grýla afhendir Bjarna 885 þ kr

Grýla og syn­ir henn­ar, jóla­svein­arn­ir þrett­án, hafa nú yf­ir­gefið byggðir. Þau kvöddu borg­ar­búa fyrr í dag, á þrett­ánd­an­um, í Esju­stofu við Mó­gilsá um leið og þau af­hentu Hjálp­ar­starfinu tæp­lega 900 þúsund króna fram­lag frá Jólasveinaþjónustu Skyrgáms. Með fram­lag­inu nú vill Grýla minna á mik­il­vægi þess að gera góðverk allt árið um kring en ein­skorða það ekki við jól­in. Þá sagði hún eng­an geta gert allt fyr­ir alla en að hver og einn gæti lagt sitt af mörk­um og hjálpað ein­hverj­um. Jóla­sveinaþjón­usta Skyrgáms hef­ur frá stofn­un látið 20% af veltu sinni renna til Hjálp­ar­starfs kirkj­unn­ar. Heild­ar­fram­lag er tæp­ar 10 millj­ón­ir og hef­ur því verið varið til að aðstoða ein­stak­linga í verk­efn­um Hjálparstarfsins bæði inn­an­lands og utan. Við þökkum grýlu og sonum hennar kærlega fyrir stuðninginn!

23.12.2014
Bestu óskir um gleði og frið um jól
jólakveðja

Sjálfboðaliðar Hjálparstarfs kirkjunnar hafa unnið ómetanlegt starf nú í desember við að taka á móti fatnaði sem hjartahlýjir einstaklingar hafa sent til okkar. Sjálfboðaliðarnir hafa flokkað, raðað í hillur og aðstoðað fólk sem hingað hefur komið eftir hlýjum útifatnaði jafnt sem sparifötum fyrir jólin. Fjölmargir hafa líka komið að aðstoð við efnalitlar barnafjölskyldur og tekið á móti umsóknum, skráð þær niður og síðar afhent inneignarkort í matvöruverslanir og jólagjafir til barna. Ljósmyndarar og annað fagfólk hefur gefið vinnu sína við fjölskyldumyndatöku og jólasveinar og tónlistarfólk skemmtu á jólaballi Hjálparstarfsins án endurgjalds. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka haft einnig lagt til fjárstuðning við starfið. Síðast en ekki síst höfum við fundið sterkan samhug allra þeirra sem keypt hafa gjafabréf á gjofsemgefur.is - ekki bara með fólki á Íslandi heldur líka á verkefnasvæðum okkar í Úganda, Eþíópíu og á Indlandi.

Við starfsfólkið hjá Hjálparstarfinu þökkum kærlega fyrir stuðninginn við starfið á árinu sem er að líða og þeim sem hingað hafa leitað fyrir traustið. Við óskum ykkur öllum kærleiksríkrar jólahátiðar og friðar á nýju ári!     

19.12.2014
Jólin hans Hallgríms í gjafapoka Hjálparstarfsins
Hallgrímskirkja
Í morgun afhenti Jóhannes Pálmason, formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju, Bjarna Gíslasyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins, 100 eintök af bókinni Jólin hans Hallgríms en bókinni verður stungið í gjafapoka barnafjölskyldna fyrir jólin.

Steinunn Jóhannesdóttir er höfundur bókarinnar sem segir frá aðventunni í Gröf á Höfðaströnd árið 1621. Þá var Hallgrímur Pétursson sjö ára gamall. Margt hefur breyst á fjórum öldum en þó er jólahald heimilisfólksins í Gröf kunnuglegt. Ljós kviknar í hjörtum mannanna þótt myrkrið grúfi yfir. Steinunn hefur skrifað sögulegar skáldsögur um Hallgrím Pétursson og Guðríði konu hans. En í Jólin hans Hallgríms segir hún frá skáldjöfrinum ungum. Myndirnar gerði Anna Cynthia Leplar.

Hallgrímssöfnuður styður Hjálparstarf kirkjunnar. Í messum kirkjunnar er ávallt safnað til hjálparstarfs, kristniboðs og líknarstarfs. Við inngang Hallgrímskirkju er ljósberi og mörg sem koma í kirkjuna kveikja á kertum og stinga pening í bauk þar nærri. Þeir fjármunir fara til líknarstarfs. Árið 2014 verður framlag Hallgrímskirkju til Hjálparstarfs kirkjunnar um 2,4 milljónir króna.

12.12.2014
Góður styrkur frá Þorkeli Mána IOOF stúku 7
stuka_7

Kjartan Rafnsson, Birgir Þórarinsson, Ásgeir Ingvason og Jóhann Árnason, félagar í Oddfellow stúku nr. 7, Þorkeli Mána, komu færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins í dag. Þeir færðu Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra 700.000 krónur til stuðnings innanlandsstarfinu. Hjálparstarfið færir þeim bestu þakkir fyrir þessa góðu gjöf, sem mun m.a. nýtast vel við jólaaðstoð sem nú er framundan.

 

09.12.2014
Góður styrkur frá SFR - stéttarfélagi í almannaþjónustu
sfr_styrkir_starfid

Í byrjun desember afhenti Árni Stefán Jónsson formaður SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins 150 þúsund króna styrk til jólaaðstoðar. Jólaaðstoðin felst fyrst og fremst í því að gefin eru út inneignarkort í matvöruverslanir en tekjulágum foreldrum býðst einnig að koma til Hjálparstarfsins eftir jólagjöfum, fatnaði og fleiru. Hjálparstarfið kann SFR bestu þakkir fyrir stuðninginn!

28.11.2014
Jólablað Hjálparstarfsins kemur til þín með Fréttablaðinu á morgun

Þú getur skoðað fréttablaðið okkar margt smátt ... með því að smella á myndina.

Í jólablaðinu fjöllum við um verkefni Hjálparstarfsins í Úganda og Eþíópíu en þar er markmið okkar að létta undir með fólki með því að auðvelda því aðgang að hreinu vatni. Við fjöllum einnig um stærsta verkefni okkar hér heima en það er sérstök aðstoð við efnalitlar barnafjölskyldur fyrir jólin og segjum frá nýliðnu sjálfstyrktingarnamskeiði sem slóð í gegn nú í haust. Og svo er margt fleira fróðlegt í blaðinu líka

25.11.2014
Samstarf um jólaaðstoð í Reykjavík
Hjordis_og_Bjarni_samstarf_jola_018
Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn í Reykjavík hafa ákveðið að starfa saman að jólaaðstoð við efnalitlar barnafjölskyldur í borginni í ár. Bjarni Gísla­son fram­kvæmda­stjóri Hjálp­ar­starfs­ins og Hjör­dís Kristinsdóttir flokksleiðtogi hjá Hjálpræðishernum hand­söluðu sam­komu­lag um þetta í gær og sagði Bjarni við það tæki­færi að sam­starf og sam­ræm­ing á aðstoð væri alltaf af hinu góða. Hjálp­ræðis­her­inn og Hjálp­ar­starf kirkj­unn­ar hafa átt í far­sælu sam­starfi und­an­far­in ár meðal ann­ars um námseið og sum­ar­búðir fyr­ir efnalitlar fjöl­skyld­ur. Hjördís sagði það því nán­ast eðli­legt skref að vera einnig í sam­starfi um jólaaðstoðina.
Lesa meira...
03.11.2014
Fermingarbörn byrja að safna fyrir vatni í dag
Fermingarbsofnun_myndir_009

Á hverju hausti ganga tilvonandi fermingarbörn í hús og safna fé til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku. Börnin ganga tvö og tvö saman og foreldrar þeirra eru jafnvel með í för þegar þau banka upp á hjá landsmönnum með söfnunarbauk í hönd.

Áður en börnin ganga í hús fá þau fræðslu um það hvernig vatnsþró, vatnstankur eða brunnur með hreinu vatni getur gjörbreytt lífi fólks til hins betra: Heilsufar batnar; stúlkur sem áður sóttu vatn um langan veg fá tíma til að sækja skóla; með áveitu verður til meiri og betra fæða og svo koll af kolli.

Með því að taka þátt í fjáröflunarverkefninu fá börnin innsýn í líf jafnaldra sinna í starfssvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku og kynnast erfiðleikum sem þau búa við. Fermingarbörnin fá líka tækifæri til að ræða um ábyrgð okkar allra á því allir jarðarbúar fái lifað mannsæmandi lífi.

Í nóvember 2013 söfnuðu fermingarbörn 8.283.633 krónum til vatnsverkefna í Eþíópíu, Malaví og Úganda. Framlag fermingarbarna og stuðningur þeirra er ómetanlegur og kann Hjálparstarfið þeim bestu þakkir fyrir!

Með von um að þú, lesandi góður, takir vel á móti fermingarbörnunum sem banka upp á hjá þér með söfnunarbauk Hjálparstarfs kirkjunnar í hönd.

Bestu kveðjur,

Bjarni Gíslason,

framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar

03.11.2014
Irene og Ronald
Irene_og_Ronald_fyrir_vef

Undanfarinn mánuð hafa tvö ungmenni frá Úganda hitt tilvonandi fermingarbörn á Íslandi og sagt þeim frá sjálfum sér og aðstæðum heima fyrir. Irene er 19 ára og Ronald er 25 ára. Þau búa á verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Lyantonde og Sembabule. Irene hefur lokið framhaldsskóla og kennt í grunnskóla. Ronald hefur lokið tveggja ára háskólanámi í félagsráðgjöf og starfað sem sjálfboðaliði að verkefnum okkar í þágu alnæmissjúkra og aðstandenda þeirra.
Irene og Ronald hafa mætt á skrifstofuna hjá okkur á morgnana til að undirbúa sig fyrir samtal við íslensk fermingarbörn og þá hefur okkur gefist tækifæri til að kynnast þeim aðeins. Þau fara í tölvuna og eru á Facebook alveg eins og krakkarnir okkar og þau eru flinkari á öppin en miðaldra skrifstofufólk í henni Reykjavík. Þau eru eldklár og alveg eins og íslenskir krakkar með sína drauma og þrár um góða framtíð.
Heima í Úganda eru aðstæður hins vegar töluvert öðruvísi en hér...

Lesa meira...
15.10.2014
Hjálparstarf kirkjunnar og kertaverksmiðjan Heimaey halda áfram samstarfi um Friðarljós
Svein_Palmason_og_Bjarni_Gislason

Sveinn Pálmason forstöðumaður kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar og Bjarni Gíslason framkvæmdatjóri Hjálparstarfs kirkjunnar handsöluðu í gær samkomulag um áframhaldandi samstarf um framleiðslu og sölu Friðarljósa, útikerta Hjálparstarfs kirkjunnar. Heimaey sem er verndaður vinnustaður og Hjálparstarf kirkjunnar hafa starfað saman í yfir tvo áratugi að framleiðslu Friðarljósa Hjálparstarfsins. Sá háttur hefur hingað til verið hafður á að Hjálparstarfið hefur útvegað dósir undir kertavax en Heimaey hefur sett vaxið í dósirnar. Samkvæmt nýjum samningi mun Heimaey alfarið sjá um framleiðsluna. Samningurinn er til þriggja ára, frá 2015 – 2017. Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar er ánægður með nýja samninginn. „Það er frábært að halda áfram góðu samstarfi við Heimaey. Við munum selja þau Friðarljós í blikkdósum sem við eigum enn á lager hér en næstu þrjú árin mun Heimaey framleiða 5.000 útikerti í álformi á hverju ári fyrir Hjálparstarfið. Ef eftirspurn eftir Friðarljósum verður meiri en því nemur munum við að sjálfsögðu panta fleiri,“ sagði Bjarni í gær.

15.10.2014
Við erum komin til að segja takk!
Fyrir_vef_Mjog_god_naermynd

„Við erum fyrst og fremst komin til að segja takk," segja Irene Kwagala og Ronald Karamuzi sem eru komin til okkar frá starfssvæðum Hjálparstarfsins í Úganda. Þau heimsækja nú tilvonandi fermingarbörn um allt land og segja þeim frá aðstæðum í heimahéruðum. Það er hægt að fræðast meira um starfið í Úganda hér: http://www.help.is/doc/174

03.10.2014
Sterkar stelpur eru í forgrunni í fréttablaði Hjálparstarfs kirkjunnar

 Þú getur skoðað fréttablaðið okkar margt smátt ... með því að smella á myndina.

Ung­lings­stúlk­ur í fá­tæk­ustu lönd­um heims eru í brenni­depli í kynn­ing­ar­viku frjálsra fé­laga­sam­taka og Þró­un­ar­sam­vinnu­stofn­un­ar Íslands 6. til 11. októ­ber und­ir heit­inu Sterk­ar stelp­ur – sterk sam­fé­lög. Stelp­ur skipta þjóðfé­lagið mjög miklu máli en þær þurfa oft að líða ójafn­rétti og sér­stak­lega er oft brotið á stúlk­um í þró­un­ar­lönd­um. Því vilja stofnanir og samtök sem vinna að þróunarsamvinnu vekja krakka á Íslandi til um­hugs­un­ar um stelp­ur í sam­fé­lag­inu og það að stelp­ur séu jafn sterk­ar og strák­ar.

 

01.10.2014
Yfirlýsing frá Hjálparstarfi kirkjunnar vegna framleiðslu á Friðarljósum

Framkvæmdastjórar kertaverksmiðjunnar Heimaeyjar og Hjálparstarfs kirkjunnar hafa í dag rætt saman um framleiðslu á Friðarljósum sem Heimaey hefur framleitt til margra ára. Sala á Friðarljósum hefur dregist saman og verðsamkeppni á markaði er mjög hörð. Ákvörðun Hjálparstarfsins um að flytja inn fullunnin kerti frá Póllandi hefur verið gagnrýnd. Hjálparstarfinu þykir leitt að upplýsingagjöf til Heimaeyjar um stöðu mála og grundvöll ákvörðunar um að flytja inn fullunnin kerti árið 2013 hafi ekki verið sem skyldi. Heimaey hefði viljað fá betri aðkomu og möguleika á að bjóða í fullunnin Friðarljós. Aðilar munu nú í sameiningu skoða þessi mál í fullri hreinskilni og ræða möguleika á áframhaldandi samstarfi.

Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

08.09.2014
Ráðstefna um viðunandi framfærslu

   

Hvað þarf til að lifa mannsæmandi lífi? Norrænt velferðarkerfi – er það til? Hver er staðan á Íslandi?

EAPN á Íslandi stendur fyrir ráðstefnu um viðunandi framfærslu í sal Samhjálpar að Stangarhyl 3a, Reykjavík, föstudaginn 19. september kl. 10:30 – 15:00. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Per K. Larsen, formaður EAPN í Danmörku. Ný skýrsla um viðunandi framfærslu hér á landi verður kynnt á ráðstefnunni.   

EAPN (European Anti Poverty Network) er evrópskt tengslanet frjálsra félagasamtaka sem hafa það að markmiði að þrýsta á og kynna stjórnvöldum og stofnunum leiðir til að þróa og beita árangursríkum aðferðum gegn fátækt og félaglegri einangrun.

EMIN er tveggja ára verkefni tengslanetsins þar sem leitast er við að finna út hvað þarf í hverju Evrópuríki fyrir sig til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. EAPN á Íslandi tekur þátt í verkefninu með norrænum hópi undir forystu Dana. Hópurinn leitast meðal annars við að svara þeirri spurningu hvort til sé norrænt velferðarkerfi. Skýrsla EAPN á Íslandi um stöðuna hér á landi verður kynnt á ráðstefnunni en hún byggir á viðtölum við fólk sem býr við fátækt, fræðimenn og fulltrúa verkalýðsfélaga. EMINverkefnið er unnið með stuðningi frá framkvæmdastjórn ESB.

04.09.2014
Bara fyrir þig

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir efnalitla

Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn á Íslandi auglýsa 10 vikna námskeið í förðun, föndurgerð og fjármálastjórn heimilisins.

Námskeiðið sem er að mestu verklegt hefst þann 22. september næstkomandi og lýkur þann 24. nóvember.

Það fer fram í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd á mánudögum frá klukkan 13:00 – 16:00.

Áhugasömum er bent á að senda umsókn til vilborg@help.is; saedis@help.is; eða með því að hringja í síma 5284400 fyrir 17. september. 

 

21.08.2014
Special counselling for Immigrants on Wednesdays

From 27 August to 29 October 2014 the Reykjavik Human Rights Office Offers Councelling for Immigrants here at our Office on Wednesdays from 12:30 - 14:00. 

Information, advice, and counselling about:

 • city services available to you and help in accessing those services, such as financial assistance, rent benefits, social workers, etc.
 • your rights and obligations in Icelandic society.
 • solutions in family matters, e.g. child support, divorce and custody,
 • accessible help in cases of domestic violence.
 • residence permits and applying for Icelandic citizenship.
 • work-related issues including unemployment.
 • local organizations that can address your needs such as schools of Icelandic, adult education centres, cultural and religious centres, family and women‘s help services, leisure and sport clubs, etc.

 

Councellor

Date

Language

Joanna Marcinkowska

27 August

Polish, English, Icelandic

Edda Ólafsdóttir

10 September

Icelandic, English, Norwegian

Barbara Kristvinsson

24 September

English, Icelandic

Joanna Marcinkowska

8 October

Polish, English, Icelandic

Edda Ólafsdóttir

15 October

Icelandic, English, Norwegian

Barbara Kristvinsson

29 October

English, Icelandic

 

11.08.2014
Landsbankinn styrkir verkefni Hjálparstarfsins
Sumarfri_fyrir_vef

Landsbankinn veitti Hjálparstarfinu 500 þúsund króna styrk úr samfélagssjóði sínum þann 7. ágúst síðastliðinn. Styrkurinn var veittur til stuðnings verkefnisins Samvera og góðar minningar.  Markmiðið með verkefninu er að veita efnalitlum fjölskyldum tækifæri til samveru og sameiginlegrar afþreyingar í sumarfríinu. Þegar fjölskyldurnar verja tíma saman geta þær skapað góðar minningar sem efla mikilvæg fjölskyldutengsl og styrkja sjálfsmynd barnanna. Mikil ánægja var með Sumarfrí fyrir barnafjölskyldur á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins á Íslandi sem fram fór í fallegu umhverfi við Úlfljótsvatn í júní sl. Sumarfríið er liður í verkefninu.

31.07.2014
Ákall til íslenskra stjórnvalda vegna ástandsins á Gaza
gaza

Alþjóðahjálparstarf kirkna, ACT Alliance, sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að, skorar á íslensk stjórnvöld að beita pólitískum þrýstingi á alþjóðavettvangi og beita öllum öðrum tiltækum ráðum til að stöðva átökin á Gaza þar sem missir mannslífa og þjáning íbúanna er óbærileg.

Alþjóðasamfélaginu ber skylda til að bregðast við og tryggja vernd og öryggi borgara og að alþjóðalögum um framgöngu í stríði, um vernd spítala og skóla sé hlítt. Íslensk stjórnvöld hafa fullgilda rödd í alþjóðasamfélaginu og ber að beita henni af fullum þunga.

Hundrað fjörtíu og fjórir ACT aðílar í 140 löndum með 25.000 starfsmenn og sjálfboðaliða bera fram sama ákall til stjórnvalda í sínum heimalöndum. ACT Alliance sinnir neyðarhjálp á svæðinu, veitir börnum sálrænan stuðning og styður Ahli Arab sjúkrahúsið með eldsneyti og lyfjum.

ACT Alliance brýnir fyrir íslenskum yfirvöldum að vinna að því af öllum kröftum að vopnahléi verði komið á og það virt, að alþjóðalögum um vernd og öryggi sé framfylgt svo hægt sé að veita bráðnauðsynlega neyðaraðstoð. Mannslíf eru í húfi og mikil þörf er fyrir lyf og vatn.

11.07.2014
Vilja styðja jafnöldrur í Úganda til náms
Thordis_og_Karolina_006

Þórdís Eva Elvarsdóttir og Karólína María Sigurðardóttir eru átta ára gamlar og ganga í Kársnesskóla. Þær komu til Hjálparstarfsins í dag og afhentu Bjarna framkvæmdastjóra 3.274 krónur sem þær höfðu safnað með sölu á dótinu sínu. Þær vilja taka þátt í því að byggja brunna og reisa vatnstanka svo jafnöldrur þeirra í Úganda komist líka í skóla. Kærar þakkir stelpur!

11.07.2014
Hjólar í kringum landið og safnar áheitum fyrir efnalítil ungmenni
Hildigunnur_2014

„Ég fylgdist með því fyrir nokkrum árum hvernig stuðningur Hjálparstarfs kirkjunnar við ungmenni nýttist frábærlega. Mig hefur síðan þá langað að styrkja starfið. Nú er tækifærið mitt komið. Ég ætla að hjóla í kringum landið og óska eftir áheitum vina minna til að hvetja mig áfram,“ sagði Hildigunnur Hauksdóttir sem er frísk og fjörug kona á fimmtugsaldri sem heldur af stað á þriðjudaginn 15. júlí og safnar um leið áheitum til styrktar Framtíðarsjóðs Hjálparstarfs kirkjunnar. Vinkona Hildigunnar, Sigrún Sævarsdóttir, mun fylgja henni eftir á bíl og mun hún senda myndir og segja frá ferðinni á facebooksíðu Hjálparstarfsins.

Hægt er að heita á Hildigunni og styrkja Framtíðarsjóð með því að greiða inn á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir verkefni innanlands: 0334-26-27. Kennitala er 450670-0499.  Einnig er hægt að hringja í söfnunarsímanúmerið 907 2002 (2500 krónur).  Á vefsíðunni www.gjofsemgefur.is er svo hægt að kaupa gjafabréfið Framtíðarsjóður.

 

Lesa meira...
11.07.2014
Félagsráðgjafar fara í sumarfrí 21. júlí - 6. ágúst
sumarfrí félagsráðgjafa

Félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar eru í sumarfríi frá 21. júlí til 6. ágúst 2014. Skrifstofa Hjálparstarfsins er opin eftir sem áður og allir þeir sem nú þegar fá stuðning í formi inneignarkorta í matvöruverslanir fá áfram greitt inn á kort sín samkvæmt ákvörðun. Frá 7. ágúst verður að nýju hægt að bóka tíma hjá félagsráðgjafa. 

11.07.2014
„Ég á svo mikið“
Sif_Sigurjonsdottir_fyrir_vef

Sif Sigurjónsdóttir er alveg að verða sjö ára, bara eftir 5 daga. Hún kom til Hjálparstarfsins með fulla kerru af fallegu dóti, meðal annars lego, blómálfum og fallegum vængjum sem hana langar til að deila með öðrum börnum. Takk Sif, nú geta önnur börn leikið sér með skemmtilega dótið í kerrunni!

01.07.2014
Notuð hjól fyrir börn og unglinga
hjol

Samtökin Barnaheill söfnuðu nýverið notuðum reiðhjólum fyrir börn og unglinga sem ekki hafa kost á að kaupa sér reiðhjól. Fjöldamörg hjól voru í framhaldinu afhent hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Enn eru nokkuð mörg reiðhjól eftir og þau má nú nálgast hér fyrir utan húsnæði Hjálparstarfs kirkjunnar í kjallara Grensáskirkju að Háaleitisbraut 66 (gengið inn að neðanverðu).

16.06.2014
DV styrkir Pollasjóð
DV___Pollasjodur

Dagblaðið DV lagði í dag til 100.000 krónur í Pollasjóð en úr honum fá börn efnaminni foreldra styrk til að stunda tónlistarnám. DV gaf auk þess heilsíðuauglýsingu og netborða sem birtist á þjóðhátíðardaginn 17. júní fyrir gjafabréfið Pollasjóður sem fæst á www.gjofsemgefur.is. Á myndinni sést hvar Vilborg Oddsdóttir umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins afhendir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur aðstoðarritstjóra DV gjafabréfið Pollasjóður í þakklætisskyni fyrir veittan stuðning dagblaðsins. Heiðar Arnar Kristjánsson Pollapönkari og börn hans Eneka Aris og Myrkvi voru viðstödd afhendinguna.

Lesa meira...
13.06.2014
„Að sigrast á sjálfri mér“
Unnur_fyrir_vefinn

Alls tóku 18 fjölskyldur eða 60 einstaklingar þátt í Sumarfríi fyrir barnafjölskyldur á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins á Íslandi sem lauk fyrr í dag. Sumarfríið var í fallegu umhverfi við Úlfljótsvatn þar sem hver fjölskylda hafði sitt herbergi til afnota í sumarbúðum skáta í 5 daga frá 9. júní.

„Klifrið er skemmtilegast. Ég er að verða fimmtug í sumar og er að klifra í fyrsta skiptið. Ég er ekkert smá stolt að hafa komist upp á toppinn og að hafa sigrast á sjálfri mér,“ sagði Unnur sem klifraði alla leið upp klifurturninn á staðnum. „Hér er alveg dásamlegt að vera. Veðrið er yndislegt og ég sé varla strákinn minn sem er alveg á fullu,“ sagði Unnur sem er í sumarfríinu með 12 ára gömlum tvúburabörnum sínum. „Krakkarnir hafa svo sannarlega notið þess að vera hérna. Strákurinn minn fór út á kajak og við mæðgurnar fórum á hjólabát í morgun. Í kvöld er svo kvöldvaka og á morgun sirkus og hestaferð. Þetta er bara frábært,“ bætti Unnur við.

Lesa meira...
12.06.2014
Hemmasjóður verður til
Hermann_Hreidarson_fyrir_vef

Hermann Hreiðarsson knattspyrnumaður lagði í byrjun júní til fimm hundruð þúsund krónur sem stofnframlag í Hemmasjóð Hjálparstarfs kirkjunnar. Sérstakt gjafabréf „Hemmasjóður“ hefur nú verið útbúið á www.gjofsemgefur.is en það gefur þeim sem þess óska tækifæri til að taka þátt í verkefninu en sjóðurinn hefur það að markmiði  að styrkja börn efnalítilla fjölskyldna og veita þeim tækifæri til að stunda íþróttir með vinum sínum og félögum.

Lesa meira...
03.06.2014
Hjartahlý og gjafmild
Klettaskolakrakkar

Krakkarnir í tíunda bekk í Klettaskóla í Öskjuhlíð söfnuðu sér fyrir útskriftarferð til Vestmannaeyja nú á dögunum. Þau voru svo dugleg að safna að þau áttu líka fyrir því að fara út að borða í Perlunni á morgun. En enn var afgangur af söfnunarfénu. Þá datt þeim í hug að láta gott af sér leiða.  Þau völdu að láta afganginn, fimmtíu og fimm þúsund krónur, fara í að reisa vatnstank í Afríku þar sem aðgangur að vatni er ekki mikill á þurrkatímanum. Vatnstankur gerir börnum í Rakai í Úganda kleift að sækja vatn við húsið sitt í stað þess að fara eftir því um langan veg og burðast svo með það heim. Takk krakkar, þið eruð frábær!

02.06.2014
Hættu ekki fyrr en húsið var komið
Stelpur_ur_Retto

Anna Margrét, Berglind, Jóhanna og Snædís eru í 10. bekk í Réttarholtsskóla. Þegar kom að því að ákveða tíu daga lokaverkefni við skólann voru þær sammála um að gera eitthvað krefjandi.  Þær ákváðu því að að efna til hjóla- og skautamaraþons og safna áheitum fyrir húsi til handa munaðarlausum börnum í Úganda. Þær hétu því að hætta ekki fyrr en þær hefðu safnað fyrir einu húsi sem kostar 130 þúsund krónur. Það tókst þeim eftir að Anna Margrét og Jóhanna voru búnar að skauta í tvær klukkustundir eða 230 hringi í Skautahöllinni í Laugardal og Berglind og Snædís höfðu hjólað hring í kringum Reykjavík en það tók þær um 2 klukkustundir.

Lesa meira...
20.05.2014
Pollasjóður - nýtt gjafabréf á gjofsemgefur.is
Pollasjodur_fyrir_facebook_og_vef

Nú er komið nýtt gjafabréf á gjafabréfasíðuna okkar www.gjofsemgefur.is. Gjafabréfið heitir Pollasjóður en nú í maí setti Heiðar í Pollapönki Eurovisiongítarinn sinn á uppboð. Feðgarnir Einar Guðjónsson og Guðjón Einarsson keyptu gítarinn og lögðu þar með til stofnfé í Pollasjóð. Úr sjóðnum fá börn efnalítilla foreldra styrk og þar með tækifæri til að láta draum sinn rætast og stunda tónlistarnám.

Nú er sem sagt hægt að gleðja fjölskyldu og vini með góðri gjöf og veita um leið tónlistarfólki framtíðarinnar ómetanlegan stuðning. Gjafabréfið kostar 3.000 krónur.

Lesa meira...
16.05.2014
Pollasjóður
Pollasjodur_2

Í morgun afhenti Heiðar í Pollapönki gítarinn sinn sem seldur var á uppboði á Virkum morgnum á Rás 2 nú fyrir skömmu. Einar og Guðjón kaupendur gítarsins afhentu Hjalparstarfi kirkjunnar stofnfé að upphæð 320 þúsund krónur í nýstofnaðan Pollasjóð við sama tækifæri.

Strákarnir í Pollapönki höfðu frumkvæði að því að setja Fender Stratocaster-gítar Heiðars Arnar Kristjánssonar sem hann spilaði á í Eurovision á uppboð á Virkum morgnum á Rás 2 og láta ágóðann renna í sjóð eyrnamerktan fyrir börn sem vilja stunda tónlistarnám en hafa ekki efni á því.

Lesa meira...
07.05.2014
Einstæð þriggja barna móðir trúði vart eigin augum
Maria Rhoda við gamla hreysið

María Rhoda er 33 ára gömul  einstæð þriggja barna móðir sem býr á verkefnasvæði Hjálparstarfs kirkjunnar í Lyantonde í Úganda. Hún er HIV-smituð og við lélega heilsu. Í upphafi síðasta árs fékk hún heimsókn frá sjálfboðaliða sem sagði henni að fjölskylda hennar hefði verið valin í hóp fjölskyldna í héraðinu sem mest þyrftu á aðstoð að halda. Hún myndi því fá húsaskjól og bætt aðgengi að drykkjarhæfu vatni. Rhoda hélt að sjálfboðaliðinn væri að grínast.

Á seinni hluta ársins fóru Rhoda og börnin hennar úr hripleku hreysi í öruggt hús. Við nýja húsið er eldunaraðstaða með sparhlóðum. Við húsið er líka kamar, handþvottaaðstaða og vatnstankur fyrir 4000 lítra af drykkjarhæfu rigningarvatni. Rhoda og börnin hennar fengu auk þess rúm, dýnur, teppi, suðupott, matardiska og vatnsbrúsa. 

Lesa meira...
30.04.2014
Húsnæðismál og framfærsluviðmið eru brýnustu viðfangsefnin

Aðildafélög EAPN (European Anti Poverty Network) á Íslandi héldu aðalfund mánudaginn 28. apríl síðastliðinn. Brýnustu viðfangsefni samfélagsins að mati samtakanna er að finna úrlausnir við bráðum vanda á húsnæðismarkaði. Samtökin vilja ennfremur hvetja stjórnvöld til að setja viðunandi neysluviðmið vegna  lágmarksframfærslu.

Lesa meira...
26.03.2014
Sumarfrí fyrir barnafjölskyldur. Umsóknarfrestur framlengdur
Sumarfrí 2014

Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn bjóða efnalitlum barnafjölskyldum í sumarfrí dagana 9. - 13. júní næstkomandi í fallegu umhverfi við Úlfljótsvatn þar sem hver fjölskylda fær sitt herbergi til afnota í sumarbúðum skáta. Boltaleikir, ratleikir, vatnasafarí, klifurturn, gönguferðir, sundferð, hestaferð, veiði, kanóa- og árabátasigling er meðal þess sem boði verður. Þá verða starfræktir klúbbar fyrir unglinga og 11 ára+ og boðið verður upp á dömustund, herrastund og kvöldvökur.

Sumarfríið er skipulagt fyrir barnafjölskyldur með að minnsta kosti eitt barn yngra en 14 ára og elsta systkin yngra en 18 ára og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Velferðarsjóður barna styrkir verkefnið.

Tekið er á móti umsóknum til 16. apríl en umsóknareyðublað er hér.

 

22.03.2014
Mikilvægi vatns sýnt með ljósmynd á alþjóðadegi vatnsins
Græni hellirinn

Mynd Lilju Salóme Hjördísardóttur Pétursdóttur sem hún tók vorið 2011 í Græna hellinum við eyna Hvar í Króatíu hlaut flest atkvæði dómnefndar í vatnsmyndasamkeppni okkar á facebook í tilefni af alþjóðadegi vatnsins í dag þann  22. mars. Dómnefnd sagði myndina gefa til kynna mikilvægi vatns fyrir lífið á jörðinni ásamt því að vera frumleg og tæknilega vel unnin. Sjónarhornið þykir koma áhorfandanum skemmtilega á óvart og litirnir tærir og fallegir. Til hamingju Lilja Salóme og bestu þakkir til allra sem tóku þátt í keppninni!

Lesa meira...
18.03.2014
Framtíðarsjóður fær rausnarlegan stuðning
Eva Björk Valdimarsd afh framl i frtsj

Á aðalfundi Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) í Neskikrju síðastliðinn föstudag fór fram formleg afhending á framlagi í Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar sem safnaðist á landsmóti sem haldið var í Reykjanesbæ í lok október á síðasta ári. Eva Björk Valdimarsdóttir framkvæmdastjóri ÆSKÞ afhenti Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins 746.367 krónur. Bjarni þakkaði þetta rausnarlega framlag...

Lesa meira...
03.02.2014
Á sautjándu milljón króna til hjálparstarfs í Sýrlandi
syrland

Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent 16,6 milljónir króna til neyðaraðstoðar við stríðshrjáða í Sýrlandi. Framlaginu verður varið til aðstoðar við heimilislaust fólk á vergangi í eigin landi og flóttafólk í nágrannalöndum Sýrlands. Markmið verkefnisins er að sinna grunnþörfum íbúanna með því að veita þeim matarðstoð og aðstoð við að halda heimili, tryggja þeim aðgang að heilsugæslu, halda úti skólastarfi fyrir börn og síðast en ekki síst með því að veita börnum og unglingum sálrænan stuðning. Ungu flóttafólki frá Sýrlandi sem dvelur í búðum og ungu fólki frá móttökuþjóðum er þannig hjálpað til að takast á við aðstæður á jákvæðan hátt en þannig er leitast við að draga úr neikvæðum áhrifum stríðsástandsins á umhverfið.

Lesa meira...
31.01.2014

Elda - sauma - skipta um kló

Gerðu það sjálf/ur

Færni- og sjálfstyrkingarnámskeið á vegum Hjálpræðishersins og Hjálparstarfs kirkjunnar hefst í Mjódd 17. febrúar. Gjaldfrjálst.

Lesa meira...
27.01.2014
Fróðleiksfús, skapandi og láta gott af sér leiða
Krakkar í 6

Krakkarnir í 6. bekk í Foldaskóla í Reykjavík afhentu nýverið Hjálparstarfi kirkjunnar 45.992 króna styrk til vatnsverkefna stofnunarinnar í Afríku. Fjárins öfluðu þau með því að búa til hálsmen, lyklakippur, skartgripatré, hárskraut, snaga, klukkur, segla og jólaskraut sem þau svo seldu á markaði rétt fyrir jól. Fjáröflunarverkefnið er liður í námi barnanna í nýsköpun.

 

Lesa meira...
14.01.2014
Skortur á vatni er stærsta vandamál flóttafólksins
Flóttafólk frá Suður-Súdan

Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna ACT Alliance veitir aðstoð í flóttamannabúðum vegna átaka í Suður-Súdan.

„Skortur á vatni er stærsta vandamálið hér,“ segir Tabisha Nyabol 61 árs suður-súdönsk kona sem þurfti að flýja heimili sitt vegna átakanna milli stjórnarhers og uppreisnarmanna í Suður-Súdan sem hófust í desember síðastliðnum. Tabisha hefur verið með barnabörnum sínum í flóttamannabúðum í Adjumani í Úganda frá því á nýjársdag.

Lesa meira...
08.01.2014
Nýr liðsmaður Hjálparstarfsins
Kristin í lit

Kristín Ólafsdóttir hefur hafið störf sem fræðslu- og upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar. Kristín starfaði áður sem sendifulltrúi og síðar verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Hún tekur við starfinu af Bjarna Gíslasyni sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins.

Lesa meira...
06.01.2014
Jónas Þórir Þórisson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri
716771

Jónas Þórir Þórisson, sem hefur verið framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar frá 1990, hefur látið af störfum. Þegar hann byrjaði voru þrír starfsmenn. Í dag eru starfsmenn sex og starfið hefur eflst til muna, ekki síst innanlandsstarfið, sem margfaldaðist eftir að kreppan skall á.„Ég er fyrst og fremst þakklátur eftir öll þessi ár, bæði Guði og mönnum. Ég vil þakka öllum þeim sem sem hafa stutt starfið af trúfesti.

Lesa meira...
05.01.2014
Á nýju ári ætla ég...

Settu þér raunhæf markmið og gerðu svo áætlun um hvernig þú ætlar að ná þeim. Svo getur þú skipt markmiðunum upp í flokka, einn tengist heilsunni – missa nokkur kíló, annar tengist vinnunni – fá hærri laun og sá þriðji fjöskyldunni – hafa meiri tíma með fjölskyldunni. Er þetta ekki nokkuð hefðbundin uppskrift að betra lífi á nýju ári?

Hvernig skyldu þessi markmið vera hjá fólki sem býr í Sýrlandi eða á Filippseyjum eða í Jijiga-héraði í Austur-Eþíópíu...

Lesa meira...
21.12.2013
Hreint vatn bjargar mannslífum, taktu þátt í jólasöfnun!
Brunnur í Malaví fermb

Jólasöfnun Hjálparstarfsins, Hreint vatn bjargar mannslífum, er í fullum gangi. Vatnsverkefni Hjálparstarfsins eru í Eþíópíu, Úganda og Malaví. Fólki er gert kleift að byggja brunna, það tekur ábyrgð á flestum þáttum og það sem upp á vatnar eins og til dæmis sement og vatnspumpa sem dælir vatninu, kemur frá verkefninu. Með hreinu vatni frá brunni er hægt að taka stór skref til framfara og betra lífs – bjarga mannslífum. Greiddu valgreiðslu í heimabanka. Einnig er hægt að hringja í söfnunarsíma 907 2003 (kr. 2.500), leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886, kt. 450670-0499 eða gefa frjálst framlag á framlag.is. 

Lesa meira...
19.12.2013
Samkaup styrkir jólaúthlutun
IMG_7537 samkaupskort minni

Samkaup hefur eins og mörg undanfarin jól ákveðið að styrkja jólaúthlutun Hjálparstarfsins með inneignarkortum í verslunum sínum um allt land samtals að upphæð 500.000 krónu.  Afhendingin fór fram í verslun Nettó á Granda í gær þar sem Hrefna Sif verslunarstjóri afhenti Bjarna Gíslasyni upplýsingafulltrúa kortin. Hjálparstarfið þakkar þennan góða stuðning sem nýtis vel út um allt land. Hjálparstarfið færir Samkaupum sínar bestu þakkir.

Lesa meira...
19.12.2013
Nytjamarkaður ABC styður innanlandsstarf
IMG_7536 ABC minni

ABC barnahjálp ákvað fyrr á árinu að gefa 10% af sölu nytjamarkaðar ABC í Súðarvogi á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Oddur Björn Tryggvason og Guðrún Sveinsdóttir afhentu Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa og Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra 333.333 krónur. Þessi stuðningur kemur sér vel og fer í jólaúthlutun Hjálparstarfsins. 

Lesa meira...
19.12.2013
Skyrgámur fór í jólabað og gaf rúmlega 800.000 krónur til hjálparstarfa
1 minni

Klukkan 11 í morgun fór Skyrgámur í sitt árlega jólabað í Laugardalslaug ásamt Pottaskefli og Bjúgnakræki. Mikið gekk á en að loknu baðinu í heitapottinum  afhentu þeir bræður Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins 836.500 krónur sem er 20% af veltu Jólasveinaþjónustu Skyrgáms frá síðustu jólum. Jólasveinaþjónusta Skyrgáms heimsækir hundruð leikskóla, fyrirtæki og einstaklinga fyrir jólin ár hvert. Þeir láta ekki nægja að skemmta sér og börnunum  heldur láta gott af sér leiða. Á 14 ára starfsferli hefur jólasveinaþjónustan gefið Hjálparstarfinu tæplega 8 milljónir króna til hjálparstarfa heima sem erlendis.

Hjálparstarf kirkjunnar færir þeim bestu þakkir fyrir. 

Lesa meira...
18.12.2013
ASÍ styrkir innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins um 500.000 krónur
IMG_7529 minni

Gylfi Arnbjörnsson afhenti Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa Hjálparstarfs kirkjunnar Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra 500.000 krónur til styrktar innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins núna fyrir jólin. Jónas þakkaði þennan góða stuðning og lagði áherslu á að samstaða og samstarf við stéttarfélög væri mjög mikilvæg í þeirri vinnu að bæta stöðu þeirra sem lægstar tekjur hafa. Sambærilegur stuðningur hafi oft áður borist frá ASÍ sem beri að þakka. 

Lesa meira...
17.12.2013
Leikskólinn Marbakki gefur vatnstank
IMG_7521 Marbakki minni

Það er hefð fyrir því í leikskólanum Marbakka að annað hvert ár er safnað fyrir góð málefni. Í ár varð fyrir valinu að safna fyrir verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda. Markmið verkefnisins er að bæta lífskjör HIV/alnæmissmitaðra aðstandenda og eftirlifenda. Marbakkabörnin teiknuðteiknuðu myndir sem foreldrar og aðrir keyptu á frjálsu verði og starfsfólk lagði einnig sitt af mörkum. Afraksturinn varð aldeilis glæsilegur 55.000 krónur sem dugar fyrir vatnstanki sem safnar rigningarvatni á svæði þar sem þarf að fara langar leiðir að sækja vatn. Á rigningartímanum fyllist í sífellu í tankinn og svo þegar hættir að rigna dugar vatnið í tankinum langt inn í þurrkatímann. Vatnstankur gerir því kraftaverk fyrir börnin í Úganda. Hjálparstarfið þakkar börnunum, starfsfólkinu og foreldrum kærlega fyrir!

Lesa meira...
17.12.2013
Hlýjar jólagjafir frá prjónasamverum Lágafellskirkju
IMG_7524 prjónasamvera Lágaf. kirkju minni

Þær komu færandi hendi konurnar sem hafa staðið fyrir prjónasamveru Lágafellskirkju í vetur. Þær afhentu afrakstur prjónastarfsins, húfur, vetlinga, sokka, peysur og fleira sem verður úthlutað í jólaúthlutun Hjálparstarfsins. Sannarlega hlýjar jólagjafir sem margir fá að njóta. Kæarar þakkir!

Lesa meira...
16.12.2013
Skrifstofan opin 8-17 fram til jóla

Skrifstofa Hjálparstarfs kirkjunnar er opin kl 8-17 fram til jóla og kl 10-12 á aðfangadag og gamlársdag. Lokað 27. desember og 3. janúar 2014. Beinir símar eftir kl. 16: 528 4405 og 528 4406. Hægt verður að sækja um aðstoð á nýju ári á miðvikudögum kl. 11-16 frá og með 15. janúar.

Lesa meira...
12.12.2013
Skyldi það vera jólageit?
brosað með geit HK minni

Það er ekki víst að jarmandi jólagjöf undir jólatréð slái í gegn á íslenskum heimilum, gjöf sem nartaði í jólatréð á meðan hún biði eftir að vera klædd úr jólapappírnum!
En víst er að geit er vinsæl jólagjöf á Íslandi, um 400 geitur voru gefnar í jólagjafir í fyrra. Á 6 árum hafa á fimmta þúsund geitur verið gefnar.  Að vísu eru jólatrén ekki í hættu því geiturnar eru afhentar í verkefnalöndum Hjálparstarfs kirkjunnar, Úganda og Malaví. Þar koma þær fátækum fjölskyldum til góða.

Lesa meira...
09.12.2013
Félag vélstjóra og málmtæknimanna gefa 600.000
Fél velst og malm des 2013 m

Guðmundur Ragnarsson formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) kom færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins í dag með 600.000 krónur til innanlandsaðstoðar nú fyrir jólin. VM hefur oft áður styrkt starfið myndarlega. Jónas Þórir Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins tók við gjöfinni og þakkaði Guðmundi fyrir góðann stuðning sem styrkir stoðirnar í starfi þar sem hjálp til sjálfshjálpar er grunnstef. Hjálparstarf kirkjunnar færir Félagi vélstjóra og málmtæknimanna sínu bestu þakkir!

Lesa meira...
02.12.2013
Margt smátt, jólablað komið út
ms 4tbl 2013 m

Margt smátt, jólablað er komið út. Í því er fjöldi áhugaverðra greina, fjallað um fjölbreytt starf Hjálparstarfsins og jólasöfnunin, Hreint vatn bjargar mannslífum, kynnt. Blaðið má sjá hér.

Lesa meira...
28.11.2013
Höfðinglegar gjafir til styrktar börnum
gjöf frá Sumarhjálpinni

Björg Sigurðardóttir kom færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins. Hún hafði staðið fyrir matarboði í tilefni af afmæli sínu en bað samt gesti að greiða fyrir veitingarnar og það sem kæmi inn rynni til fátækra barna á Íslandi í gegnum starf Hjálparstarfsins. Inn komu 43.500 krónur sem Björg afhenti Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa Hjálparstarfsins. Við sama tækifæri afhenti Björg fyrir hönd Sumarhjálparinnar 2.756.492 krónur sem eru eftirstöðvar af reikningi Sumarhjálparinnar sem einnig eiga að renna til stuðnings fátækum börnum. Sannarlega höfðinglegar gjafir sem nýtast munu í margvíslegu starfi á Íslandi börnum til hagsbóta. Vilborg færði Björgu þakkir fyrir hönd Hjálparstarfs kirkjunnar. 

Lesa meira...
28.11.2013
Jólasöfnun, Hreint vatn bjargar mannslífum, er hafin
Drengur í Malaví. Paul Jeffrey-ACT

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er hafin. 345 milljónir manna í Afríku hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Á verkefnasvæðum Hjálparstarfsins er vatnsskortur mikill. Við þær aðstæður verður allt annað ótryggt. Þá misferst uppskeran, fæða er af skornum skammti og sjúkdómum fjölgar með minna hreinlæti. Jólasöfnunin verður helguð því að tryggja fleirum aðgang að hreinu vatni.  Vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar eru í þrem löndum Afríku: Malaví, Eþíópíu og Úganda. Fólki er gert kleift að byggja brunna en verkefnin eru nátengd fræðslu og framkvæmdum á sviði hreinlætis, fæðuöryggis og betri afkomu.

Yfirskrift söfnunarinnar er Hreint vatn bjargar mannslífum. Send er valgreiðsla að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna. 72 greiddar valgreiðslur eða 180.000 krónur duga fyrir góðum brunni sem sem gefur hreint vatn um langa framtíð. Einnig er hægt að: hringja í söfnunarsíma 907 2003 (2.500 kr.), gefa framlag á framlag.is og leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

 

Lesa meira...
28.11.2013
Fermingarbörn standa sig frábærlega
brunnur mal

Fermingarbörn stóðu sig vel eins og endrenær í 15. fermbingarbarnasöfnunni fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar sem fór fram 4.-12. september. Endanleg tala liggur ekki fyrir en nú þegar er talan komin í  7,3 milljónir króna sem er frábært. Eftir að hafa fengið fræðslu um vatnsskort í Afríku og hvernig verkefni Hjálparstarfsin bæta aðstæður bönkuðu fermingarbörn um allt land upp á hjá landsmönnum með merkta bauka Hjálparstarfsins.  

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar fermingarbörnum fyrir dugnað og elju og öllum sem þátt tóku í söfnuninni. Framlagið mun nýtast til að bæta lífsafkomu á verkefnasvæði í Eþíópíu, Úganda og Malaví. 

Lesa meira...
12.11.2013
Versti fellibylur sögunnar hefur skelfilegar afleiðingar á Filippseyjum
131108030403-wave-typhoon-house-horizontal-gallery

Fellibylurinn Haiyan, einn skæðasti fellibylur sögunnar reið yfir miðhluta Filippseyja síðastliðinn föstudag, með skelfilegum afleiðingum. Óttast er að að minnsta kosti 10.000 manns hafi farist, 11 milljónir hafa orðið fyrir miklum skaða og 673.000 manns hafa misst heimili sín og eru án skjóls og nauðsynja. Hjálparstarfið er aðili að ACT Alliance sem þegar hefur brugðist við ástandinu.Hjálparstarf kirkjunnar hefur opnað söfnunarreikning til styrktar neyðarhjálpinni:
0334-26-886 kt.: 450670-0499. Sjá nánar á vefsíðu ACTmyndband af því þegar fellibylurinn reið yfir og einnig fréttir með myndböndum frá ástandinu á Filippseyjum á BBC.

Lesa meira...
04.11.2013
Fermingarbörn safna fyrir vatni
Brunnur í Malaví fermb

Fermingarbörn úr 64 sóknum í öllum landshlutum ganga í hús á tímabilinu 4. - 12. nóvember milli kl 17:30 og 21 og safna peningum til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í þrem löndum Afríku: Malaví, Úganda og Eþíópíu.

Starfsfólk kirkjunnar fræðir um 2.900 fermingarbörn um aðstæður í löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Meira en 700 milljónir manna hafa ekki aðgang að heinu vatni. Í fræðslunni heyra börnin um árangur af verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar hvernig hægt er að safna rigningarvatni og grafa brunna sem veita hreint vatn sem gjörbreytir lífinu til hins betra. Með þessu fá fermingarbörnin tækifæri til að láta til sín taka og gefa Íslendingum tækifæri til að leggja sitt af mörkum. Sjá skemmtilegt fræðslumyndband um hvernig standa á að söfnun.

Lesa meira...
04.11.2013
89% er ekki nóg
ACT PAUL JEFFREY 3 minni

„Hér er maður á 53 sem hugsar ekki um börnin í Afríku, neyð annarra skiptir hann engu máli“ kallar  drengur í gjallarhorn á tröppum manns sem hikar við að gefa pening í fötu sem hann réttir að honum, „ætlarðu að gefa núna?“  spyr drengurinn og gefur í skyn að hann geti alveg kallað meira yfir hverfið. Nei, svona stendur maður ekki að söfnun, enda er þessi sena í fræðslumyndbandi til fermingarbarna til að sýna hvernig á EKKI að hegða sér og þau hvött til að sýna kurteisi og hegða sér vel. Fermingarbörn um allt land horfa á bráðskemmtileg myndbönd um hvernig á að fara að (og ekki) þegar þau ganga í hús um allt land og safna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Það munu þau gera 4.-7. og 11.-12. nóvember næstkomandi.

Þessi myndbönd er hægt að sjá á hér.

Lesa meira...
01.11.2013
ACT Alliance bregst við neyðarástandi í Sýrlandi
RS4654_jordan2012jeffrey-3438 minni

Í Sýrlandi búa 22 milljónir manna. Neyðarástandið sem þar ríkir hefur bein áhrif á 7 milljónir manna. 4.3 milljónir eru flóttamenn innan Sýrlands, 2.2 milljónir hafa flúið til nágrannalanda, felstir til Líbanon, Jórdaníu og Tyrklands. Helmingurinn eru börn. Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT Alliance sem sinnir neyðarhjálp í Sýrlandi og nágrannalöndum. Fimm ACT-aðilar  eru að störfum á svæðinu þar af er IOCC (International Othodox Christian Charity) með aðgerðir innan landamæra Sýrlands. Rudelmar De faria meðlimur í stjorn ACT Alliance útskýrir í myndbandinu sem má sjá hér ástandinu og hvað ACT aðilar eru að gera.

Lesa meira...
28.10.2013
Unglingar hafa slegið tóninn gegn fátækt
unglingar á Landsmóti 2013 minni

Unglingar sem voru Landsmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar s.l. hegi stóðu fyrir söfnun í Framtíðarsjóð Hjálparstarstarfs kirkjunnar. Hér má sjá viðtal við Guðrúnu Karls Helgudóttur formanns ÆSKÞ á vef kirkjunnar og hér má sjá ræðu Sigurvins Jónssonar sem hann flutti í Laugarneskirkju um fátækt og framtak unglinganna.  

Lesa meira...
24.10.2013
Fræðast um fátækt og safna í Framtíðarsjóð

Landsmót æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar verður sett í Reykjanesbæ á morgun. Í ár verða 640 þátttakendur á landsmótinu, 500 þáttakendur ásamt á annað hundrað leiðtogum og sjálfboðaliðum. Þetta er fjölmennasta landsmótið sem hefur verið haldið til þessa. Að þessu sinni ætla unglingarnir í æskulýðsfélögunum að fræðast um fátækt og baráttuna gegn henni og safna fé til að styrkja Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar. Hjálparstarfið hefur átt gott og farsælt samstarf við ÆSKÞ síðastliðin 4 ár og þau stutt starfið myndarlega. Sjá frétt á vef kirkjunnar.

Lesa meira...
10.10.2013
Viltu hlæja upphátt?
sofnunarskoli sjonna

Skoðaðu þá kennslumyndband fyrir fermingarbörn um hvernig þau eiga að koma fram þegar þau banka upp á hjá fólki í söfnun sinni fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfins í Afríku. Söfnunin fer fram í byrjun nóvember. Skoða kennslumyndband: Söfnunarskóli Sjonna (ath þetta eru 5 stutt myndbönd).

Lesa meira...
10.10.2013
Starfsskýrsla 2012-2013 komin út
arssk 2012_2013 minni

Aðalfundur Hjálparstarfs kirkjunnar fór fram í safnaðarheimili Grensáskirkju laugardaginn 28. september. Ólafur Jóhannsson sóknarprestur Grensássóknar sá um helgistund í kirkjunni þar sem Samkórinn söng þrjú lög. Ingibjörg Pálmadóttir formaður flutti skýrslu stjórnar, starfsskýrsla og ársreikningar voru lagðir fram og samþykktir. Fjallað var um starfið á Íslandi og verkefnin erlendis. Þrjár konur sem hafa verið virkar í starfi EAPN (European Anti Powerty Network) á Íslandi sögðu frá reynslu sinni og svöruðu spurningum. Stjórnin var endurkjörin, í henni eru: Ingibjörg Pálmadóttir formaður, Lóa Skarphéðinsdóttir og Páll Kr. Pálsson. Varamenn: Guðmundur Guðmundsson og Hörður Jóhannesson. Starfsskýrslu má sjá hér: lengri útgáfa og styttri útgáfa.

Lesa meira...
07.10.2013
Sorpa styrkir Framtíðarsjóð
Sorpa 2013

Þann 4. október síðastliðinn var úthlutað styrkjum af ágóða af sölu nytjamarkaðar Sorpu, Góða hirðinum. 17 góðgerðarfélög og verkefni voru styrkt um alls tæpar 10 milljónir króna.  Framtíðarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar fékk úthlutað 750.000 krónum. Framtíðarsjóður styður ungmenni til stúdentsprófs, sveinsprófs eða annars sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskolanáms. Nemendur fá aðstoð við að greiða námsgögn, skólagjöld, kaupa tölvu eða greiða annan kostnað sem gæti orðið hindrun í að ljúka námi. Um leið og Hjálparstarf kirkjunna þakkar þennan góða stuðning hvetur hann alla til að nýta sér Góða hirðinn og þannig ekki bara fá góða hluti á frábæru verði heldur líka styrkja góð málefni.

Lesa meira...
03.10.2013
Spennandi lesefni í Mörgu smáu!
Margt smátt 3 tbl. 2013 fors

Fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar Margt smátt 3. tbl. 2013 er komið út. Þar má lesa viðtal við Ásdísi Lýðsdóttur um rannsókn á staðgöngumæðrun á Indlandi og nám í þróunarfræðum, grein um þúsaldarmarkmiðin og hvort þau náist og hvað á að taka við af þeim,  ACT Alliance að störfum og margt fleira. Margt smátt 3. tbl 2013.

Lesa meira...
12.09.2013
Risavatnsból finnst undir eyðimörk
hnotturinn í vatnsdropa

Það er víða vatnsskortur í Keníu, fram hafa komið vísbendingar um risavatnsból undir eyðimörk í Norður-Keníu sjá áhugaverða frétt á Vísi.

Lesa meira...
26.08.2013
Takk fyrir áheit
hlaup

Metþátttaka var í Reykjavíkurmaraþoninu laugardaginn 24. ágúst síðastliðinn, rúmlega 14.000 hlauparar tóku þátt. Einnig var slegið met í áheitasöfnun til góðgerðarmála meira en 72 milljónir króna söfnuðust til 156 góðgerðarfélaga. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þeim átta hlaupurum sem söfnuðu áheitum til styrktar starfinu og öllum þeim sem gáfu. Áheitin nema samtals 146.500 krónum. TAKK.

Lesa meira...
23.08.2013
Áttu þér draum?
Barn á Indl i ánauð

„Ég á mér engan draum“ var svar 17 ára Indverja sem hafði verið bundinn í þrælavinnu síðan hann var 10 ára. Þrælavinnan hafði algjörlega rænt hann voninni og neistanum. Viðtal við þennan dreng og fleiri börn má sjá í myndinni Upp úr öskustónni á YouTube.

Hjálparstarf kirkjunnar vinnur í samstarfi við mannréttindasamtökin Social Action Movement (SAM) að því að leysa börn úr skuldaánauð. Sakir fátæktar og kúgunar setja foreldrar börn sín í vinnu gegn láni fyrir óvæntum útgjöldum og nauðþurftum. Að leysa barn úr skuldaánauð felur ekki bara í sér að greiða skuldina heldur veita foreldrum og börnum fræðslu um réttindi sín og langtíma stuðning.

Lesa meira...
20.08.2013
Áheit fyrir Hjálparstarfið komin í 129.500 krónur
hlaup

Nú nálgast Reykjavíkurmaraþon sem verður laugardaginn 24. ágúst. Við skorum á alla að heita á þá hlaupara sem hlaupa fyrir Hjálparstarfið.  Nú hafa átta hlauparar safnað áheitum og heildarupphæðin er komin í 129.500 krónur. Einfalt er að heita á hlauparana á www.hlaupastyrkur.is finna Hjálparstarfið undir góðgerðarfélög og ganga frá stuðningu með greiðslukorti eða með því að senda sms. Munum að margt smátt gerir eitt stórt!

Lesa meira...
13.08.2013
Skólastuðningur fyrir grunnskólabörn

Umsóknir um skólastuðning fyrir grunnskólabörn verða afgreiddar eftirfarandi daga.
Komið með innkaupalista frá skóla og verið búin að taka til það sem er nýtilegt frá því í fyrra. Stuðningur er veittur upp í kostnað við skólabyrjun.

Mánudagur 19. ágúst 13-15
Föstudagur 23. ágúst kl. 11-12 og 13-15
Mánudagur 26. ágúst kl. 13-15

Hafið samband við félagsráðgjafa vegna stuðnings við framhaldsskólanema.

Lesa meira...
20.06.2013
Spennandi greinar í Mörgu smáu
margt sm 2. tbl 2013

Meðal efnis í nýútkomnu fréttablaði Hjálparstarfsins, Mörgu smáu eru: Insha´Allah - ef Guð lofar, grein um verkefni í Eþíópíu, Dæmi sem gekk upp, viðtal við dr. Margaret Nakakeeto barnalæknir sem er í stjórn Racobao-samtakanna samstarfsaðila Hjálparstarfsins í Úganda, Í vinnu og með akur í fullri rækt, saga bræðra í Úganda sem fengu stuðning fyrir 10 árum og vegnar vel, Eru íslenskar kirkjur þær einu í veröldinni sem ekki taka samskot í messum?, viðtal við fjóra einstaklinga um samskot í þjóðkirkjunni. Sjá Margt smátt 2. tbl 2013.

Lesa meira...
14.06.2013
Flöskur og dósir breytast í vatnstank og geit á leikskólanum Mýri
3 minni

Árleg Skerpluhátíð leikskólans Mýri, í Skerjafirði, var haldinn fimmtudaginn 13. júní. Garður leikskólans var skreyttur blöðrum og borðum og boðið var upp á grillaðar pulsur. Sjá mátti brosandi börn með líflegar andlitsskreytingar dansa og leika sér um svæðið. Sérstaka athygli vakti viðartunna sem þakrenna leikskólans var leidd í. Í tunnuna safnast rigningarvatn ...

Lesa meira...
13.06.2013
Þrælabörn frelsuð úr ánauð
þrælab

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn barnaþrælkun sem er 12. júní, viljum við benda á heimildarmynd sem var gerð fyrir Landsmót aæskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar 2010. Myndin fjallar um starf Social Action Movement, samstarfsaðila Hjálparstarfsins á Indlandi sem vinnur að því að leysa þrælabörn úr vinnuánauð. Myndina má sjá hér.

Lesa meira...
12.06.2013
Heimsljós - frábært veftímarit um þróunarmál
Heimsljós - veftímarit

Heimsljós - veftímarit um þróunarmál kemur út vikulega. Frábært tímarit með fjölbreytta umfjöllun og fjöldann allan af krækjum á áhugavert efni um þróunarmál. Meðal efnis í nýjasta tölublaðinu: 

 • Vannæring orsök 45% dauðsfalla allra barna yngri en 5 ára: Alþjóðleg baráttuherferð gegn barnadauða - áhersla á næringu
 • Árangur af þróunarstarfi síðustu ára - mestu framfarir í sögunni!
 • Alþjóðlegur baráttudagur gegn barnaþrælkun

Heimsljós má sjá hér.

Lesa meira...
07.06.2013
Aðstoð í allt sumar en ráðgjafar taka frí

Innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar mun ganga sinn vanagang í sumar, greitt er inn á inneignarkort í matvöruverslunum samkvæmt aðstoðaráætlun við hvern og einn. Aðstoð vegna sumardvalar barna, sumargjafa og annarra þátta stendur yfir. Frá 15. júlí, til og með 2. ágúst verður þó ekki hægt að fá ráðgjöf eða viðtal hjá félagsráðgjöfum vegna sumarleyfa þeirra. Þeir sem koma nýir á þeim tíma geta bókað tíma hjá félagsráðgjöfum eftir Verslunarmannahelgi en t.d. lyfjaaðstoð verður veitt á þessu tímabili sem og í allt sumar. Við óskum landsmönnum gleðilegs sumars og sólar í sinni, hvort sem vætutíð verður ofan á - eður ei.

30.05.2013
Til hamingju Ísland eða hvað?
útskrift

Það eru margir sem fá hamingjuóskir þessa dagana enda tími skólaslita og útskrifta. Við getum verið stolt af þeim sem klára áfanga og halda til starfa í samfélaginu eða til áframhaldandi náms. Við gleðjumst yfir þessu en það hefur líka komið fram að margir heltast úr lestinni í framhaldsskóla. „Þurfum þjóðarátak gegn brottfalli“ sagði Skúli Helgason alþingismaður

Lesa meira...
28.05.2013
Útskirftargjöf sem gefur
Framtíðarsj

Nú er tími skólaslita, útskrifta og útskriftargjafa. Á gjafabréfasíðu Hjálparstarfsins 
gjofsemgefur.is er hægt að finna
fjölbreyttar gjafir sem henta. Þar má nefna 
Framtíðarsjóð 
sem 
styður ungmenni á Íslandi til að ljúka námi, Skóladót sem rennur til stuðnings skólagöngu munaðarlausra barna í Úganda eða Það er leikur að læra til að kaupa skólagöng handa börnum á Íslandi. Einnig er hægt að fá gjafabréfin á skrifstofu Hjálparstarfsins, Háaleitisbraut 66, Reykjavík, kl. 8-16 mánudaga-föstudaga.

Lesa meira...
21.05.2013
Mótorhjólamessa, kaffi og vöfflur
Mótorhj messa

Það þykir ekki lengur tíðindum sæta að sjá vélfáka í tugatali og leðurklædda menn og konur ganga til kirkju. Allavega ekki í Digraneskirkju á annan í hvítasunnu. Sú var raunin einnig í ár þegar mótorhjólafólk streymdi til messu. Sjá mátti á annað hundrað mótorhjól skarta sínu fegursta og eigendur sömuleiðis í viðeigandi leðurfatnaði.

Lesa meira...
16.05.2013
Börn á Djúpavogi styrkja Hjálparstarfið
TTT Djúavogi

Fjölmenn fjölskyldu- og vorhátíð fór fram í Djúpavogskirkju á sunnudaginn, 12. maí. Hátíðin hófst á stund í kirkjunni með  söng, sögu og góðum gestum sem komu í heimsókn. Hluti af hátíðinni var kökubasar 10-12 ára TTT-barna, þar sem kökurnar runnu vel út og vilja börnin styrkja Hjálparstarf kirkjunnar sem þakkar fyrir þennan góða stuðning. 

Lesa meira...
08.05.2013
Þú getur lagt lið!
hjalparstarf 100 kort

Styrktu innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar um allt land. Gerðu mögulegt að mæta þörfum fleiri barna og fjölskyldna sem standa höllum fæti. Þú getur greitt valgreiðslu í heimabankanum þínum (2.400), hringt í söfnunarsíma 907 2002 (2.500), gefið á framlag.is eða lagt inn á reikning: 0334-26-886, kt. 450670-0499. Takk fyrir.

Lesa meira...
08.05.2013
Er sumarið gleðitími fyrir alla?
2011-3 minni

 

Sumarið er gleðitími fyrir margar fjölskyldur og nú þegar hafa margir skipulagt sumarið, hvert á að fara og hvað á gera. Fríin snúast oftast um að  gera eitthvað saman, upplifa eitthvað nýtt og öðruvísi og eignast sameiginlegar minningar sem er einmitt svo mikilvægt í öllum fjölskyldum. Hjá þeim fjölskyldum sem standa höllum fæti getur þessi tími valdið kvíða.

Lesa meira...
29.04.2013
Að hjálpa er að forgangsraða

Ég get bara ekki orða bundist yfir hugsunarhætti sem komið hefur fram af og til undanfarið sem lýsir sér í setningum á borð við: "Við Íslendingar eigum nóg með okkur, hvernig getum við hjálpað öðrum?" Ef við útfærum þennan hugsunarhátt til hins ýtrasta má leiða líkur að því að enginn geti hjálpað neinum nema sjálfum sér. Eigingirnin og sjálfhverfan verður algjör. Fengu Íslendingar lán og stuðning í kreppunni af því að þær þjóðir sem stóðu að því höfðu bara ekkert annað að gera við peningana?

Lesa meira...
17.04.2013
Hvað á að taka við eftir 2015?

Tímamörk
Þúsaldar-
markmiðanna 

nálgast óðum
en þau miða við 2015. Hvað á að taka við? Á vettvangi ACT Alliance sem Hjálparstarfið er aðili að er unnið markvisst með hvað eigi að taka við. ACT Alliance er samtstarf 131 aðila sem starfa í 140 löndum með um 30.000 starfsmönnum og sjálfboðaliðum.

Lesa meira...
22.03.2013
Að læra að láta sér líða vel

Að læra að láta sér líða vel, hætta að óttast fjármálin sín, ná sér í meiri menntun allt eru þetta hlutir sem Hjálparstarf kirkjunnar hjálpar fólki að ná tökum á. Í sérblaði um innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins með Fréttablaðinu 23. mars er sagt frá þessu og fleiri leiðum til hjálpar þeim sem vilja breyta.

Lesa meira...
21.03.2013
Páskasöfnun fyrir innanlandsstarf hafin
radgjof er mikilv

Páskasöfnunin Hjálpum heima er hafin.Fjölbreytt starf felst í mataraðstoð með inneignarkortum í matvöruverslunum, stuðningi við framhaldsskólanemendur, lyfjaaðstoð, fataúthlutun, stuðningi við foreldra vegna skólagagna og fatnaðar á grunnskólabörn, ráðgjöf og stuðningi til endurhæfingar. Páskasöfnun Hjálparstarfsins til styrktar þessu starfi er hafin.

Send er valgreiðsla að upphæð 2.400 krónur í heimabanka landsmanna.

Einnig er hægt að:
hringja í söfnunarsíma 907 2002 (2.500 kr.)
gefa framlag á framlag.is 
leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
11.03.2013
Vel heppnaður fulltrúaráðsfundur í safnaðarheimili Grensáskirkju
Biskup á fulltrúaráðsf 2.03.2013.

Á fulltrúaráðsfundi í safnaðarheimili Grensáskirkju 2. mars sýndu, biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir og Ingibjörg Pálmadóttir formaður stjórnar, myndir og sögðu frá nýafstaðinni ferð sinni til Malaví og Keníu. Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóri fór yfir stöðu... 

Lesa meira...
08.03.2013
Von um gróður úr ótrúlegustu átt
geitur a vef

Stækkandi eyðimerkur, gróðurleysi, hungur og hryllingur heimsins er sannarlega nógur til að halda vöku fyrir fólki. í þessu myndbandi er (ó)trúlegar lýsingar vísindamanns sem ól manninn í Afríku á því hvernig eina leiðin til að græða upp orfoka land um allan heim sé með því að herma eftir náttúrunni, herma eftir áhrifum villtra dýrahjarða fortíðarinnar með stórum hjörðum húsdýra. Sjón er sögu ríkari. Það vekur virkilega vonir. 

Lesa meira...
28.02.2013
Fátækt er ekki einkamál - borgarafundur í Þjóðminjasafninu 1. mars kl. 14-16
Fátækt er ekki einkamál

Samstarfshópur um enn betra samfélag boðar til borgarafundar um farsæld og fátækt á Íslandi. Fundurinn verður haldinn í Þjóðminjasafninu föstudaginn 1. mars kl. 14 -16. Þar mun hópurinn kynna skýrslu sem varpar nýju ljósi á stöðu fátækra í landinu og leggja fram tillögur til breytinga. Fulltrúar stjórnmálaflokka munu hlýða á kynninguna og hafa stutta framsögu.

Allir eru hvattir til þátttöku. Fátækt er ekki einkamál.  Sjá skýrsluna Farsæld.

Lesa meira...
25.02.2013
"Konurnar munu bjarga heiminum"
Agnes í Malaví feb 2013

Agnes M. Sigurðardóttir biskup var fyrr í mánuðinum á ferð í Malaví að skoða verkefni Hjálparstarfsins og í Keníu að skoða starf Kristniboðssambandsins. Í Fréttablaðinu og á Visi birtist grein um ferðina sem má sjá hér.

Lesa meira...
08.02.2013
Málþing um gagnsemi frjálsra félagasamtaka

Á þriðjudaginn halda Almannaheill og Fræðasetur þriðja geirans málþing um gagnsemi frjálsra félagasamtaka. Það verður haldið í Háskólanum í Reykjavík og hefst kl. 12:15 og stendur til 13:45. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir. Ragna Árnadóttir formaður Almannaheilla segir frá  vinnu að gerð frumvarps til laga um stöðu, skyldur og réttindi félagasamtaka sem vinna í almannaþágu. Sjá dagskrá málþingsins.

Lesa meira...
04.02.2013
Geitur gegn gjafakvíða

Sr. Sigurður Árni Þórðarson í Neskirkju skrifar um geitur og gjafabréf Hjálparstarfsins í pistli sínum í Fréttablaðinu. Þar segir: "Gjafakvíði er skelfilegur og getur farið illa með fólk. Hvað ættir þú að gefa afa í afmælisgjöf?" Við pistilinn er að bæta að á næstunni koma ný og frumleg gjafabréf fyrir fólk í Valentínusarhugleiðingum. Fylgist með, þegar nær dregur 14. febrúrar, á gjofsemgefur.is og á Facebook.

Lesa meira...
16.01.2013
Act Alliance öflug samtök í þróunar- og neyðarhjálp

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að Act Alliance sem eru samtök kirkna og kirkjutengdra stofnana sem starfa í 140 löndum. Verðlaunaður heimildarþáttur á sjónvarpsstöðinni Public Broadcasting Systems (PBS) hóf 18.  þáttaröð sína á umfjöllun um neyðar- og hjálparstarf Church World Service (CWS) sem einnig er aðili að Act Alliance. Rætt er við framkvæmdastjóra CWS og við fólk á neyðarsvæðum m.a. á svæðum þar sem Hjálparstarfið hefur í gegnum Act tekið þátt í hjálparstarfi. Umfjöllunina má sjá hér.

Lesa meira...
11.01.2013
Hópkaup gefur 760 þúsund
hopkaup jan 2013

Þær komu færandi hendi þær Brynja Björk Hinriksdóttir og Markéta Haraldsson Petru frá Hópkaupum á skrifstofu Hjálparstarfsins. Hópkaup stóð fyrir leik á  síðu sinni þar sem lofað var að gefa 100 krónur fyrir hvert "like" til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. 7.600 "like" tryggðu 760.000 króna framlag. 

Lesa meira...
10.01.2013
Það sem við gefum gerir okkur rík

Á nýju ári vill Hjálparstarf kirkjunnar þakka fyrir stuðning og velvild Íslendinga. Jólasöfnun fyrir vatnsverkefni í Afríku er enn í gangi og tölur liggja ekki fyrir en samt er ljóst að stuðningurinn er mikill, jafnframt er mikill stuðningur við starfið á Íslandi. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og samtök hafa lagt lið með myndarlegum hætti, sem ber að þakka. 

Lesa meira...
04.01.2013
28,5 milljónir úr SPRON-sjóði

Innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar tók í desember við 28, 5 milljónum króna frá SPRON-sjóðnum ses. Um var að ræða eftirstöðvar eigna sjóðsins en stjórnin tók þá ákvörðun í sumar að veita fjármunum til Hjálparstarfsins vegna ráðgjafar, námskeiða, þjálfunar og efnislegrar aðstoðar við þá sem sækja um aðstoð hér heima.

Lesa meira...
03.01.2013
Kirkjukór Vídalínskirkju safnar

Kirkjukór Vídalínskirkju í Garðabæ tók sig til fyrir jólin og safnaði framlögum meðal kórfélaga til að styrkja einhvern nauðstaddan á Íslandi. Upphæðinni var komið til Hjálparstarfsins og félagsráðgjafar okkar beðnir um að velja styrkþega.

Lesa meira...
21.12.2012
Styrkur til innanlandsaðstoðar úr Ólafíusjóði
Styrkur til innanl frá ísl.s. Nor 2012 017 minni

Þann 20. desember afhenti Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, formaður stjórnar Ólafíusjóðs, sem starfar á vegum íslenska safnaðarins í Noregi, Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð 75.000 norskar krónur, eða rúmlega ein og hálf milljón íslenskra króna, frá safnaðarfólki í Noregi. Er styrknum ætlað að renna til hjálparstarfs kirkjunnar á Íslandi fyrir jólin og vilja Íslendingar í Noregi með því leggja lið löndum sínum heima. Með styrknum fylgja hlýjar jólakveðjur. Hjálparstarfið þakkar þennan góða stuðning.

Lesa meira...
20.12.2012
Kennarasamband Íslands styrkir innanlandsaðstoð
IMG_5482 Þórður Á Hjaltested og Svanhildur KÍ minni

Þórður Á. Hjaltested formaður KÍ og Svanhildur María Ólafsdóttir gjaldkeri ahfentu í dag Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins 300.000 krónu styrk til innanlandsaðstoðar. Í stað þess að senda jólakort vill KÍ styrkja Velferðarsjóð barna, kortaleiðina í mataraðstoð og Framatíðarsjóð ungmenna, 100.000 krónur í hvern lið eða samtals 300.000 krónur.

Lesa meira...
19.12.2012
Jólasöfnun er í fullum gangi
ACT PAUL JEFFREY 3 minni

Jólasöfnun Hjálparstarf kirkjunnar er í fullum gangi. 800 milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu vatni. 1,5 milljón barna deyja á ári af vatnsskorti og sjúkdómum þeim tengdum. Jólasöfnunin verður helguð því að tryggja fleirum aðgang að hreinu vatni.Yfirskrift söfnunarinnar er Hreint vatn gerir kraftaverk. Send er valgreiðsla að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna. 72 greiddar valgreiðslur eða 180.000 krónur duga fyrir góðum brunni sem sem gefur hreint vatn um langa framtíð.

Lesa meira...
19.12.2012
Starfsmannafélag T&R gaf 110 hamborgarahryggi
IMG_3097 minni

 

Starfsmannafélag Tryggingar og ráðgjafar afhenti Hjálparstarfi kirkjunnar 100 hamborgarahryggi að gjöf í tilefni jólaúthlutunar nú í desember. ,,Þetta er kærkomin gjöf sem mun gleðja marga. Þetta verður jólasteikin hjá 100 fjölskyldum sem fá úthlutað hjá okkur,“ segir Jónas Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

 

Lesa meira...
19.12.2012
Jólasveinaþjónusta Skyrgáms gefur rúmlega 800.000 krónu
Jólasv afh Jónasi Hk 2012

Í dag kl. 13 komu jólasveinar klifrandi niður turn Laugarneskirkju, til að afhenda Hjálparstarfi kirkjunnar 20% af veltu Jólasveinaþjónustu Skyrgáms. Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar tók við gjöfinni krónur 823.700 úr hendi Skyrgáms og Stekkjastaurs.

Hjálparstarf kirkjunnar færir þeim bestu þakkir fyrir. 

Lesa meira...
17.12.2012
Safnar í bauk allt árið og gefur Hjálparstarfinu
IMG_5420 Páll 2012 minni

Það brást ekki í ár frekar en fyrri ár að Páll Þórisson kom til okkar á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar í aðdraganda jóla. Hann kemur á hverju ári með bauka sem hann safnar í allt árið og afhendir fyrir jólinn. Þannig vill hann leggja sitt af mörkum til að hjálpa þeim sem búa við erfiðar aðstæður í Afríku og hafa ekki aðgang að hreinu vatni. Þegar Páll kom til okkar í dag komu 12.885 krónur upp úr baukunum sem duga fyrir hreinu vatni handa 70 manns. Hjálparstarfið þakkar Páli kærlega fyrir.

Lesa meira...
14.12.2012
Samkaup styrkir innanlandsaðstoð um 500.000 krónur
138_samkaup_logo

Samkaup hefur enn á ný styrkt innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins. Nú með 500.000 krónur í inneignarkortum í verslunum Samkaupa um allt land. Kortin verða liður í jólaúthlutun sem nú er framundan.  Umsækjendur um allt land munu fá afhend kort sem létta undir í matarinnkaupum fyrir jólin. Hjálparstarfið þakkar Samkaupum þennan góða stuðning!

Lesa meira...
14.12.2012
Lindex veitir 600.000 króna stuðning
Lindex_sRGB

Lindex á Íslandi hefur veitt innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins 600.000 króna stuðning í inneignarkortum í verslun sinni í Smáralind. Inneignarkortin munu nýtast barnafjölskyldum til fatakaupa fyrir jólin. Þessi stuðningur mun létta undir með mörgum fjölskyldum sem nú geta þrátt fyrir erfiða stöðu endurnýjað föt á börnin fyrir jólin. Hjálparstarfið færir Lindex bestu þakkir!

Lesa meira...
12.12.2012
Félag vélstjóra og málmtæknimanna styrkja innanlandsaðstoð
MV 2012

Áslaug R. Stefánsdóttir skrifstofu- og fjármálastjóri og Guðmundur Ragnarsson formaður VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna, komu færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins í dag. Sem oftar færðu þau innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins myndarlegan stuðning, 800.000 krónur.

Lesa meira...
11.12.2012
Norvik styrkir innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins
Norvik 2012 5402 minni

Styrktarsjóður Norvik styrkir innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar um 1 milljón króna. 500.000 krónur eru í inneiganrkortum í Krónunni og 500.000 krónu styrkur að auki. Hjálparstarfið færir þeim bestu þakkir fyrir.

Lesa meira...
11.12.2012
Hádegistónleikar í Háteigskirkju 14. desember kl. 12:30

Hugljúfir jólatónar til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar munu hljóma á síðustu hádegistónleikum ársins í Háteigskirkju, föstudaginn 14. desember kl. 12.30. Aðgangseyrir er 1.000 kr. Fram koma margir söngvarar ásamt Kammerhópnum Stillu.

Lesa meira...
04.12.2012
Jólablað Hjálparstarfsins komið út
m sm 4tbl jol 2012

Margt smátt, jólablað Hjálparstarfsins var fylgiblað með Fréttablaðinu s.l. laugardag. Í því er fjölbreytt efni um starfið og jólasöfnunin undir yfirskriftinni, Hreint vatn gerir kraftaverk, kynnt sérstaklega. Blaðið má sjá hér.

Lesa meira...
03.12.2012
Jólaaðstoð

Tekið er við umsóknum frá barnafjölskyldum í Reykjavík á skrifstofu Hjálparstarfsins, dagana  28. og 29. nóv. og 5., 6., 12. og 13. des. kl. 11-15.

Þeir sem eru með virk inneignarkort frá Hjálparstarfinu geta sótt um á www.help.is

Á landsbyggðinni geta allir sótt um hjá prestum, síðasti umsóknardagur hjá þeim er 10. desember. 

Á Eyjafjarðarsvæðinu er sameignileg jólaaðstoð Hjálparstarfsins með Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Rauða krossinum á Akureyri og Hjálpræðishernum á Akureyri. Umsækjendur á þessu svæði eru vinsamlegast beðnir að hafa samband milli kl. 10-12 mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga í síma 867 5258 til að fá nánari upplýsingar. 

Á Selfossi er kirkjan og Rauði krossin á Selfossi með jólaaðstoð. Hægt er að sækja um í Selfosskirkju 4. og 5 . desember á milli kl. 11:30-14.

Lesa meira...
03.12.2012
Hreint vatn gerir kraftaverk - Jólasöfnun hafin
brunnur í Malaví minni

Jólasöfnun Hjálparstarf kirkjunnar er hafin. 800 milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu vatni. 1,5 milljón barna deyja á ári af vatnsskorti og sjúkdómum þeim tengdum. Jólasöfnunin verður helguð því að tryggja fleirum aðgang að hreinu vatni.Yfirskrift söfnunarinnar er Hreint vatn gerir kraftaverk. Send er valgreiðsla að upphæð 2.500 krónur í heimabanka landsmanna. 72 greiddar valgreiðslur eða 180.000 krónur duga fyrir góðum brunni sem sem gefur hreint vatn um langa framtíð.

Lesa meira...
29.11.2012
Fermingarbörn söfnuðu 7,3 milljónum króna
Brunnur í Malví minni m

7,3 milljónir króna söfnuðust þegar fermingarbörn um land allt gengu í hús  í byrjun nóvember með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. Undanfari þess var fræðsla til um 2800 fermingarbarna um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Innilegar þakkir!

Lesa meira...
28.11.2012
Innanlandsaðstoð eftir áramót

Nú er búið að opna fyrir umsóknir um jólaaðstoð sjá upplýsingar um hana hér til hliðar, en fyrsti umsóknardagur fyrir aðstoð eftir áramót verður miðvikudaginn 16. janúar. Fyrsta fataúthlutun eftir áramót verður þriðjudaginn 15. janúar.

Lesa meira...
28.11.2012
Skýrsla um fátækt á Íslandi
Farsæld ferhyrnd mynd minni

Skýrslan Farsæld fjallar um fátækt á Íslandi. Í henni eru ábendingar um fátæktargildrur og tillögur um hvernig megi bæta úr. Skýrsluna má lesa hér.

Lesa meira...
12.11.2012
Fermingarbarnasöfnun hefur gengið vel
Fermingarborn

Enn er ekki búið að taka saman lokaniðurstöðu fermingarbarna-
söfnunar ársins, ófærð og vont veður orsakaði að söfnunun frestaðist sums staðar. Söfnunin hefur gengið mjög vel víða t.d. á Húsavík þar sem hressir krakkar gengu í hús og söfnuðu 215.000 krónur. Á Siglufirði söfnuðust 110.000 krónur, í Bústaðasókn 295.000, í Grafarvogssókn komu inn 340.000, 78.000 í Ásprestakalli og 78.000 á Seyðisfirði svo einhverjir séu nefndir af handahófi. Þökkum fermingarbörnunum fyrir dugnað og öllum sem hafa gefið. Við bíðum spennt eftir lokaniðurstöðunni sem kemur í ljós síðar.

Lesa meira...
07.11.2012
Opinn fundur um fátækt 23. nóvember
Farsæld ferhyrnd mynd minni

 

Býrð þú við eða hefur þú búið við fátækt og hefur skoðanir sem þú vilt koma á framfæri?

Föstudaginn 23. nóvember í húsnæði Samhjálpar, Stangarhyl 3a, kl. 13-15:30
verður haldinn opinn fundur á vegum EAPN á Íslandi, European Anti Poverty Network,
sam-evrópskra samtaka sem berjast fyrir félagslegu réttlæti og útrýmingu fátæktar í Evrópu.

Lesa meira...
31.10.2012
Stórkostlegur árangur í fermingarbarnasöfnun á Akranesi
Fermingarbsöfnun myndir minni

Greinilegt er að Íslendingar, með allt sitt hreina vatn, vilja styrkja aðgerðir til að tryggja fólki á svæðum þar sem vatn er af skornum skammti aðgang að hreinu vatni. Fermingarbarnasöfnun fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku byrjar mjög vel. Fermingarbörn á Akranesi gengu í hús í gærkvöldi og var mjög vel tekið. Alls söfnuðust á Akranesi 392.861 krónur sem er stórkostlegt! Í vatnsverkefnum í Eþíópíu, Úganda og Malaví er í samstarfi við íbúa unnið að bættum aðstæðum, grafið fyrir brunnum og vatnsþróm og um leið frætt um hreinlæti og smitleiðir sjúkdóma. Handgrafinn brunnur kostar 180.000 krónur.

Um 3000 fermingarbörn um allt land ganga í hús þessa dagana, tökum vel á móti þeim!

Lesa meira...
29.10.2012
Fermingarbörn ganga í hús
ACT PAUL JEFFREY 3 minni

 

Fermingarbörn úr 65 sóknum í öllum landshlutum ganga í hús á tímabilinu 29. okt. til 6. nóv., milli kl 17:30 og 21 og safna peningum til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í þrem löndum Afríku: Malaví, Úganda og Eþíópíu.

Starfsfólk kirkjunnar fræðir um 3000 fermingarbörn um aðstæður í löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Mörg þeirra hittu Innocent Kaphinde og Doniu Phiri frá Malaví sem heimsóttu um 2000 fermingarbörn um allt land. Sjá grein Innocent og Doniu á visi.is. Þetta er í 14. sinn sem söfnunin er haldin. Í fyrra söfnuðu fermingarbörn 8 milljónum króna. En samtals hafa þau í gegnum árin safnað um 75 milljónum króna til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar. 

Tökum vel á móti fermingarbörnunum og leggjum okkar af mörkum.

Lesa meira...
24.10.2012
Opinn fundur um FARSÆLD á Íslandi fimmtudag kl 14:30 í Þjóðminjasafninu
Farsæld ferhyrnd mynd minni

 

Í framhaldi af skýrslu starfshóps um baráttu gegn fátækt á Íslandi, sem kom út 17. október s.l. verður  opinn fundur um FARSÆLD á Íslandi 25. október í bíósal Þjóðminjasafnsins kl. 14:30-16:00

Hópur fólks með yfirgripsmikla sérþekkingu á kjörum fátækra á Íslandi kynnir nýja skýrslu og markvissar tillögur til að auka farsæld í samfélaginu okkar og útrýma langvarandi fátækt.

Lesa meira...
17.10.2012
Ný skýrsla um fátækt á Íslandi
blaðam f 17.10.2012 006 minni

 

Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra var í dag afhend skýrslan Farsæld, barátta gegn fátækt á Íslandi, í Þjóðminjasafninu. Að skýrslunni komu fjölmargir aðilar en fulltrúar frá Rauða krossinum í Reykjavík, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Félagsráðgjafadeild HÍ, Þjóðkirkjunni og Hjálparstarfi kirkjunnar unnu skýrsluna. Í kaflanum Samandregnar niðurstöður segir: Íslenskt samfélag hefur sett sér skráðar og óskráðar reglur um virðingu fyrir mannréttindum sem endurspeglast í því að meginþorri landsmanna býr við góðar aðstæður, lífskjör og hagsæld. Skýrluna má lesa hér.

Lesa meira...
12.10.2012
Sorpa styrkir Hjálparstarf kirkjunnar
GH_300dpi_an_texta

Góði hirðirinn, nytjamarkaður SORPU veitir árlega styrki til fjölda góðra málefna. Hjálparstarf kirkjunnar naut góðs af þann 4. október síðastliðinn þegar rúmlega 10 milljónum króna var úthlutað til fjölda aðila. Hjálparstarfið fékk eina milljón króna til námskeiðshalda sem miða að sjáfsstyrkingu og valdeflingu kvenna. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þennan frábæra stuðning sem mun koma sér vel í þeim þætti starfsins sem lítur að konum sem orðiða hafa undir á einhvern hátt. Sjá frétt á heimasíðu SORPU.

Lesa meira...
04.10.2012
Fjölbreytt efni í Mörgu smáu, fréttablaði Hjálparstarfsins
Margt smátt sept. 2012

Margt smátt, fréttablað Hjálparstarfsins var að koma út og er á leið til áskrifenda í pósti. Í því er að vanda fjölbreytt efni meðal annars fjallað um neyðaraðstoð í Austur-Afríku  undir yfirskriftinni "Ári seinna", um ástandið í Malaví "Sjaldan er ein báran stök" og um endurnýjanlega orku "Afríka getur verið í fararbroddi". Ef þú vilt fá fría áskrift hringir þú í 528 4400 eða sendir nafn og heimilisfang á Áslaugu á aslaug hjá help.is. Netútgáfu-Margt smátt 3. tbl. 2012 má sjá hér.

Lesa meira...
01.10.2012
Starfsskýrsla 2011-2012 komin út
innocent og donia

Aðalfundur Hjálparstarfs kirkjunnar var haldinn síðastliðinn laugardag 29. september í safnaðarheimili Grensáskirkju. Eftir helgistund í kirkjunni sem sr. Ólafur Jóhannsson sá um fóru fram venjuleg aðalfundarstörf, Ingibjörg Pálmadóttir formaður stjórnar kynntu störf hennar, stjórnarkjör, starfsskýrsla kynnt og endurskoðaðir reikningar lagðir fyrir og samþykktir. Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir ávarpaði fundinn, Sigurður Kr. Erlingsson sagði frá ráðgjöf sem hann veitir skjólstæðingum Hjálparstarfsins og góðir gestir frá Malaví, Innocent Kaphinde og Donia Phiri kynntu sig og sungu þrjú lög við mikinn fögnuð viðstaddra. Starfsskýrsla er gefin út í tveim útgáfum lengri og ýtarlegri má sjá hér og styttri útgáfu má sjá hér.

Lesa meira...
19.09.2012
Komum heiminum í "lag" - tónleikar á Café Rósenberg laugardagskvöld
logo-300 landsk

Jón Jónsson, Friðrik Dór, Magni Ásgeirsson, Ragnheiður Gröndal, Védís Hervör og Varsjárbandalagið koma fram á tónleikum á Café Rosenberg næstkomandi laugardagskvöld kl. 22.00. Tónleikarnir eru lokahnykkur í átaki frjálsra félagasamtaka í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands um gildi og mikilvægi þróunarsamvinnu.

Lesa meira...
17.09.2012
Komum heiminum í lag
logo-300 landsk

 

Frjáls félagasamtök á Íslandi, sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu, standa að kynningu á þróunarmálum í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands vikuna 17.-22. september. Þetta er í annað sinn sem þessi hópur stendur að slíku átaki en áherslan í ár er á ójöfnuð í heiminum.

Markmiðið með átakinu, sem ber yfirskriftina „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ er að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda og vekja Íslendinga betur til vitundar um samfélagslegar og siðferðilegar skyldur þjóðarinnar í baráttunni gegn fátækt, vannæringu og ójöfnuði í heiminum.

Lesa meira...
14.09.2012
Þróunarsamvinna ber ávöxt
logo-300 landsk

Mánudaginn 17. september hefst kynningarátakið „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ en undirtitill átaksins er í ár „Komum heiminum í lag“. Að átakinu standa  frjáls félagasamtök sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Markmiðið með átakinu er að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda.

Lesa meira...
10.09.2012
Áheit í Reykjavíkurmaraþoni skiluðu 40.500 krónum

 

Sex vaskir hlauparar hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Samtals söfnuðust 40.500 krónur sem Hjálparstarfið þakkar kærlega fyrir. Síðan hlaupið var fyrst haldið hefur það vaxið mjög en upphafsárið 1984 voru þátttakendur 214. Í ár hlupu 13.410 sex vegalengdir. Alls söfnuðust til góðgerðarmála tæpar 46 milljónir króna!

Lesa meira...
14.08.2012
Aðstoð vegna skólabyrjunar

 

Aðstoð vegna skólabyrjunar er veitt:

Fimmtudag 16. ágúst kl. 13-15
Þriðjudag 21. ágúst kl. 13-15
Fimmtudag 23. ágúst kl. 13-15

Vinsamlegast komið með innkaupalista frá skólununum.

Lesa meira...
23.07.2012
Reykjavíkurmaraþon nálgast - hlaupum til góðs
hlaupari

Reykjavíkurmaraþon verður 18. ágúst. Við hvetjum alla til að taka þátt og hlaupa fyrir Hjálparstarfið. Hægt er að hlaupa sex vegalengdir: 1 km fyrir börnin, 3 km skemmtiskokk, 10 km hlaup, boðhlaup (42,2 km), hálfmaraþon (21,1 km) og maraþon (42,2). Nú er um að gera að slást í hópinn, velja sér vegalengd og byrja að safna áheitum. Þeir sem ekki eiga þess kost að hlaupa geta heitið á hlauparana á slóðinni www.hlaupastyrkur.is, velja hnappinn góðgerðarfélög, með því að velja Hjálparstarf kirkjunnar birtast þeir hlauparara sem hægt er að heita á. Þegar hlaupari sem þú vilt heita á er fundinn er gengið frá greiðslu á þeirri upphæð sem þú velur með kreditkorti – einfalt og þægilegt og hjálparstarfið eflist! Þú getur heitið á hlaupara núna með því að smella hér.

Lesa meira...
17.07.2012
1,7 milljónir króna úr Fatimusjóðnum til verkefna í Eþíópíu
2

Fulltrúar Fatimusjóðsins, Jóhanna Kristjónsdóttir, Guðlaug Péturdóttir  og Ragný Guðjohnsen,  afhentu í dag Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar 1.735.000 króna stuðning við verkefni í Jijiga-héraði í Austur-Eþíópíu. 1,5 milljónir fara í að reisa vatnsþró, 85.000 krónur til að að byggja 10 kamra og 150.000 krónur fara í smálánasjóð kvenna.

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þennan frábæra stuðning.
Lesa meira...
09.07.2012
Margt smátt fréttablaðið komið út
RS3558_malawi11jef

Ekki ölmusa heldur mannréttindi og valdefling, viðtal við Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgafa, Á ferð í Jijiga-héraði í Austur-Eþíópíu, Afríka nóg vatn en samt ekki, Fátækir sitja eftir. Þetta eru dæmi um áhugavert efni í Mörgu smáu, nýjasta fréttablaði Hjálparstarfsins. Blaðið má sjá hér.

Lesa meira...
07.06.2012
Börn í Pálmholti gefa vatnstank
vidvatnskranan

Börnin í leikskólanum Pálmholti á Akureyri hafa undanfarnar vikur safnað fé til kaupa á vatnstanki fyrir fjölskyldu í Úganda. Verkefnið er hluti af þróunarverkefni sem ber heitið Hringrásir allan ársins hring: hvernig má efla siðferðiskennd og gagnrýna hugsun leikskólabarna gagnvart umhverfi sínu. Í dag keyptu þau vatnstank í gegnum gjafabréfasíðuna Gjöf sem gefur (gjofsemgefur.is). Lesa má skemmtilega frétt í vikublaðinu Akureyri hér. Hjálparstarfið þakkar börnunum, foreldrum og starfsfólki leikskólans kærlega fyrir! Nú fær fjölskylda í Úganda miklu betra líf fyrir ykkar tilstuðlan!

Lesa meira...
01.06.2012
Láta gott af sér leiða í skólaverkefni

Dagmar Agnarsdóttir og Dagný Rós Elíasdóttir komu færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins í gær. Þær eru að útskrifast úr 10. bekk Réttarholtsskóla og völdu í lokaverkefni að láta gott af sér leiða. Þær höfðu tekið eftir gjafabréfum Hjálparstarfs kirkjunnar, Gjöf sem gefur á gjofsemgefur.is. Eftir að hafa kynnt sér betur hvaða verkefni eru styrkt í gegnum gjafabréfin ákváðu þær að leggja sitt af mörkum. Þær söfnuðu samtals 33.900 krónum. Hjálparstarfið þakkar þetta frábæra framtak!

Lesa meira...
29.05.2012
Mótorhjólamenn styrkja innanlandsaðstoð
IMG_4891 minni

Árleg mótorhjólamessa í Digraneskirkju var í gær annan í hvítasunnu að venju. Sjaldan koma svo margir mórorhjólamenn saman á einum stað á vélfákum sínum, enda var fullt út úr húsi í Digraneskirkju og bílastæðin full af hjólum. Í messunni var prédikun, altarisganga og tónlistarfólk spilaði Led Zeppelin lög með íslenskum textum. Á meðan á messunni stóð og eftir hana var selt kaffi og rjómavavöfflur til styrktar innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Það er skemmst frá því að segja að salan gekk mjög vel og komu inn rúmlega 131.000 krónur. Hjálparstarfið þakkar stuðninginn!

Lesa meira...
18.05.2012
Kynntu framtíðaráform í þróunarstarfi

Emmanuel Winston og bróðir hans Shamma frá United Church of India (UCCI) heimsóttu biskup Íslands í dag. Bræðurnir starfa báðir fyrir UCCI sem á samstarf við Hjálparstarf kirkjunnar um skóla- og heimavistarstarf á Indlandi.

Lesa meira...
11.05.2012
Fósturforeldrar óskast - fundur miðvikud. kl. 20

Kynning á skóla- og heimavistarstarfi á Indlandi verður miðvikudaginn 16. maí kl. 20 í safnaðarheimili Grensáskirkju. Emmanuel Winston framkvæmdastjóri starfsins þar og bróðir hans Shamma verða á fundinum, segja frá og taka þátt í umræðum. Nú sárvantar fósturforeldra.

Lesa meira...
10.05.2012
Einstæðir foreldrar standa illa
hjalparstarf 100 kort

Hátt í fimmtungur einstæðra foreldra var í alvarlegum vanskilum um síðustu mánaðarmót. Rúmlega helmingur þeirra sem þiggja mataraðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar eru einstæðir foreldrar. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo voru rúmlega 26.000 manns í alvarlegum vanskilum í byrjun maí. Sjá frétt um málið á stöð 2. Hjálparstarf kirkjunnar veitir aðstoð um allt land. Nú stendur yfir söfnun „Hjálpum heima“ hægt er að styðja starfið með því að greiða valgreiðslu í heimabanka, á framlag.is, söfnunarsíma 907 2002 (kr. 2.500) eða með því að leggja inn á reikning: 0334-26-886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
10.04.2012
Hjálpum þeim heildarútgáfa 1985-2011
cover

Í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá fyrstu útgáfu lagsins „Hjálpum þeim“ kom út fyrir síðustu jól vönduð heildarútgáfa af laginu. Lagið hefur frá upphafi verið fjáröflun til neyðaraðstoðar. Allur ágóði af sölu er ætlaður til neyðaraðstoðar á hungursvæðum A-Afríku á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Helstu útsölustaðir stuðningsaðila: Bensínstöðvar Skeljungs - ELKO - Fjarðarkaup - Hagkaup - Krónan - Melabúðin - Penninn - Skífan.
Bakhjarl og fjárgæsluaðili átaksins er Landsbankinn.Útgáfan er tvöföld, geisladiskur með öllum útgáfum lagsins, þeirri nýjustu á ensku „HELP THEM“, og DVD-diskur með myndböndum við lagið frá 1985, 2005 og 2011. Allir helstu söngvarar hvers tíma koma fram. Verð kr. 2.490.

Þetta er safngripur sem ætti að vera til á öllum heimilum!

Lesa meira...
03.04.2012
Hjálpum heima - páskasöfnun
hjalparstarf 100 kort

Páskasöfnun fyrir innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar er í fullum gangi. 65-80 ára fengu senda greiðsluseðla og sendar eru valgreiðslur í heimabanka landsmanna, upphæðin er kr. 2.400.- Einnig er hægt að hringa í söfnunarsíma 907 2002 (kr. 2.500), gefa á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-886 kt. 450670-0499. Takk fyrir stuðninginn!

Lesa meira...
02.04.2012
Margt smátt... fréttablað komið út
hjalparstarf 100 kort

Margt smátt..., fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar er komið út. Í því er meðal annars ítarleg kynning á innanlandsaðstoð stofnunarinnar og páskasöfnun til eflingar hennar sjá Margt smátt.. 1. tbl 2012.

Lesa meira...
30.03.2012
Hjálpum heima - Páskasöfnun hafin
hjalparstarf 100 kort

Páskasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er hafin. Að þessu sinni söfnum við fyrir fjölbreyttri aðstoð á Íslandi. Hjálparstarfið veitir faglega ráðgjöf og hjálp til sjálfshjálpar. Í fyrra hófst sú nýjung að gefa inneignarkort í matvöruverslunum í stað þess að úthluta mat í poka og hefur það reynst mjög vel. Valgreiðsla kr. 2.400.- hefur verið send í heimabanka landsmanna.
Hjálpum heima, tökum þátt í páskasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar.

Lesa meira...
22.03.2012
Vissir þú þetta um vatnið?
Stúlka tekur vatn úr brunni

Í dag er alþjóðlegur dagur vatnsins. Mikið magn af vatni þarf til til að framleiða dagskammt af fæðu fyrir eina manneskju. Miklu meira en við flest gerum okkur grein fyrri. Að meðaltali drekkum við 2-3 lítra af vatni á dag en það þarf 1.500 lítra af vatni til að framleiða aðeins 1 kíló af korni og það þarf tíu sinnum meira vatn eða 15.000 lítra til að framleiða 1 kíló af kjöti. Til að framleiða dagsskammt af fæðu fyrir eina manneskju þarf 3.000 lítra af vatni.

Lesa meira...
13.03.2012
Þúsaldarmarkmið um aðgengi að hreinu drykkjarvatni hefur náðst!
við kranann

Stóráfangi hefur náðst í baráttunni fyrir auknu aðgengi að hreinu drykkjarvatni. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunin (WHO) hafa kynnt skýrslu sem sýnir að á tuttugu ára tímabili fengu meira en tveir milljarðar manna aðgang að hreinu drykkjarvatni. Sjá frétt í Veftímariti um þróunarmál á heimasíðu ÞSSÍ.

Lesa meira...
12.03.2012
Hrósar innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins

Heather Roy, framkvæmdastjóri Eurodiaconia, heimsótti kirkjuna í vikunni og kynnti sér starf á sviði kærleiksþjónstu. Eurodiaconia er samfélag 36 samtaka og stofnana í 22 löndum Evrópu sem sinna kærleiksþjónustu. Heather Roy hrósaði innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins og notkun greiðslukorta í stað matarpoka og vildi miðla þessu til annarra félaga sem fyrirmynd að því að hjálpa fólki til að þiggja stuðning en hafa þó ákveðna stjórn á því á hvern hátt það nýtir stuðninginn. Hjálparstarfið fékk verðlaun Eurodiaconia samtakanna 2011. Sjá frétt á vef kirkjunnar.

Lesa meira...
06.03.2012
Fulltrúaráð fundaði 3. mars
Fulltrrfundur 3. mars 2012 023 minni

Laugardaginn 3. mars fundaði fulltrúaráð Hjálparstarfs kirkjunnar í safnaðarheimli Grensáskirkju. Tæplega 40 manns sóttu fundinn. Ingibjörg Pálmadóttir formaður stjórnar fór yfir störf stjórnar fyrri helming starfsársins, Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóri fór yfir stöðu fjármála og verkefna almennt og Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi fjallaði um fjölbreytta aðstoð sem veitt er á Íslandi og þá sérstaklega um kortaleiðina þar sem veitt eru inneiganrkort í matvöruverslunum. Þorsteinn Valdimarsson umsjónarmaður með starfi Breytanda, Changemakers á Íslandi, sagði frá starfi hreyfingarinnar og biskup Íslands herra Karl Sigurbjörnsson flutti erindið, Kirkjan og hjálparstarf.

Lesa meira...
29.02.2012
61 milljón safnast til neyðarhjálpar í Austur-Afríku og á Íslandi
Budir i Guud, Somalia minni

Stuðningur almennings, samtaka og fyrirtækja við starf Hjálparstarfs kirkjunnar í desember og janúar sl. var frábær. Heildarinnkoma til neyðarhjálpar á hungursvæðum Austur-Afríku og til innanlandsaðstoðar var 61.200.000 krónur

Lesa meira...
27.02.2012
Æskulýðsfélög styrkja uppbyggingarstarf í Japan
Rakel Brynjólfsdóttir og Toshiki Toma feb. 2012 minni

Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar tók fyrir helgi á móti peningum sem söfnuðust á landsmóti Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar á Selfossi í lok október á síðasta ári og sem æskulýðsfélög hafa safnað í eigin fjáröflunum. Búið er að senda peningana tæpar 240.000 krónur til samtakanna Hearts of Gold í Japan sem ætla að nota þá til að styðja við börn í Fukushima sem misstu foreldra sína í hamförunum í Japan eftir jarðskjálftann mikla 11. mars í fyrra og flóðunum sem fylgdu í kjölfarið og sprengingarnar í kjarnorkuverinu í Fukushima.

Lesa meira...
16.02.2012
Biskup í Malaví
_MG_3842 minni

Það var þorpsbúum í Malaví mikil uppörvun að hitta biskup Íslands í byrjun mánaðar og skynja áhuga hans á kjörum þeirra. Fáir hafa látið sig varða afdrif fjölskyldna sem búa við örbirgð og náttúrhamfarir. Sjá frétt á vef kirkjunnar.

Lesa meira...
25.01.2012
Tæpar 2 milljónir fyrir aðstoð á Norðurlandi

Þann 16. desember sl. for fram söfnun í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4 til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar og söfnuðust tæpar tvær milljónir króna sem renna til jólaaðstoðar á Norðurlandi næstu tvö árin og gera Hjálparstarfinu kleift að standa vel að þeirri aðstoð. Hjálparstarfið þakkar Ásgeiri Ólafssyni fyrir frumkvæði og alla umsjón með söfnunni og dagskránni á N4 og öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn og studdu söfnunina.

Lesa meira...
18.01.2012
17,5 milljónir til neyðarhjálpar í Austur-Afríku
2011_Ethiopia_drought-6944

Hjálparstarf kirkjunnar hefur lagt fram 17,5 milljónir króna til neyðarhjálpar vegna hungursneyðar í Austur-Afríku. Neyðaraðstoðin fer í gegnum ACT Alliance sem Hjálparstarfið er aðili að. Af fjárhæðinni eru 10 milljónir frá Utanríkisráðuneytinu en afgangurinn er stuðningur Íslendinga í gegnum safnanir Hjálparstarfsins. Jólasöfnun sem enn er ekki búið að taka saman en gekk mjög vel fer einnig í þetta verkefni, fjárhæðin sem fer til neyðarhjálpar á svæðinu á því eftir að hækka.

Lesa meira...
17.01.2012
Tekið við umsóknum um aðstoð á miðvikudögum kl. 12-16
hjalparstarf 100 kort

Hjálparstarf kirkjunnar tekur við umsóknum um aðstoð á miðvikudögum kl. 12-16 á skrifstofunni, Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík. Mataraðstoðin felst í inneignarkortum í matvöruverslunum sem eru ætluð barnafjölskyldum á höfuðborgarsvæðinu og einnig barnlausum úti á landi þar sem öðrum hjálparsamtökum sem veita mataraðstoð er ekki til að dreifa. Úti á landi er sótt um til presta og djákna. Öllum umsóknum þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á tekjur og gjöld viðkomandi, hér má sjá nánari upplýsingar um nauðsynleg gögn.

Lesa meira...
10.01.2012
Geitur og hænur vinsælar jólagjafir
brosað með geit HK minni

Mikil aukning var á sölu gjafabréfa Hjálparstarfs kirkjunnar á gjofsemgefur.is um síðustu jól eða um 50% fleiri pantanir en árið áður. Hægt er að kaupa yfir 30 mismunandi gjafabréf frá sparhlóðum á 1.300 krónur upp í brunn á 150.000 krónur.Geitur og hænur eru vinsælastar, 518 geitur og 607 hænur seldust fyrir síðustu jón en vatn er einnig mjög vinsælt og einnig að frelsa börn á Indlandi úr skuldaánauð.

Lesa meira...
09.01.2012
Samfélagssjóður Valitor styður innanlandsaðstoð
Samfélagssj Valitor 16. des minni

Samfélagssjóður Valitor úthlutaði átta styrkjum í nýliðnum desembermánuði en hlutverk sjóðsins er að styðja við vandlega valin málefni sem bæta mannlíf og efla. Hjálparstarf kirkjunnar fékk stuðning til hjálparstarfs á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Rauða krossinn og um land allt fyrir jólin 2011.

Lesa meira...
23.12.2011
Jólasöfnun fyrir hjálparstarfi í Austur-Afríku í fullum gangi
Barnhungursneyd

Jólasöfnun fyrir hjálparstarfi í Austur-Afríku er í fullum gangi. Þú getur bjargað mannslífum með því að greiða valgreiðslu í heimabanka, hringja í styrktarnúmer 907 2003 (2.500 kr.), gefa framlag á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

Þitt framlag skiptir sannarlega máli, mannslíf eru í húfi.

Lesa meira...
23.12.2011
727.500 krónur frá Jólasveinaþjónustu Skyrgáms
2011 005 minni

Jólasveinar frá jólasveinaþjónustu Skyrgáms heimsækja hundruð leikskóla, fyrirtæki og einstaklinga fyrir jólin ár hvert. Jólasveinaþjónustan gefur 20% af veltunni til Hjálparstarfs kirkjunnar og hefur á 13 ára starfsferli gefið rúmlega 6 milljónir króna.

Lesa meira...
22.12.2011
Um 1.000 umsóknir um jólaaðstoð afgreiddar
matarkort Arion 003minni 2

Um 1000 umsóknir hafa verið afgreiddar í jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar nú í desember.  Ætla má að um 2.800 einstaklingar um allt land njóti góðs af. Jólaaðstoðin gekk mjög vel enda lögðu margir sjálfboðaliðar lið. Einstaklingar, fyrirtæki og samtök hafa lagt fram fjármagn til jólaaðstoðarinnar og þökkum við þann góða stuðning.

Lesa meira...
21.12.2011
Góður stuðningur frá starfsfólki Arionbanka
Starfsfólk Arionbank viðskiptaumsjón gefa 003 minni

Starfsfólk Arionbanka, viðskiptaumsjón, hugsa til þeirra sem minna mega sín. Í stað þess að gefa hvert öðru jólagjafir var ákveðið að styrkja hjálparstarf. Halldís Hulda afhenti fyrir hönd starfsfólksins Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastóra Hjálparstarfsins 45.000 krónur sem nýtast munu þeim sem eiga um sárt að binda. Hjálparstarfið þakkar stuðninginn!

Lesa meira...
20.12.2011
Páll gefur 23.845 kr. til hjálparstarfs
Páll gefur framlag

Páll Þórisson afhenti Hjálparstarfi kirkjunnar framlag að upphæð 23.845 kr. til verkefna stofnunarinnar. páll er dyggur stuðningsmaður og um hver jól hefur hann komið með það sem hann hefur getað sparað í baukum og seðlum. Páll er harðduglegur og mikils vert fyrir Hjálparstarfið að hafa svo trygga stuðningsmenn. Hér séts hann afhenda Jónasi Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins framlagið.

Lesa meira...
19.12.2011
Íslendingar í Noregi hugsa heim, styðja innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins
Styrkur til innanl frá ísl.s. Nor 2011 minni

Í dag 19. desember afhenti Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fyrrum sendiherra Íslands í Noregi, Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð 100.000 norskar krónur, eða rúmlega tvær milljónir íslenskra króna, frá íslenska söfnuðinum í Noregi.

Lesa meira...
16.12.2011
Svooo fallegar prjónavörur
handprjon2

Handverkshópur prjónakellu á Facebook afhenti Hjálparstarfinu undurfagrar prjónavörur til að gefa þeim sem sækja til okkar um aðstoð. Þarna eru barnapeysur með dýrindis litmynstri og prjónamynstri, sokkar, vettlingar, húfur, eyrnaskjól og ungbarnateppi. Það verðu gaman að gefa þetta! Kærar þakkir, kellur.

Lesa meira...
16.12.2011
Umsóknarfrestur vegna jólaaðstoðar

Frestur til að sækja um jólaaðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar er liðinn. Þeir sem eiga samþykkta umsókn (hafa ekki fengið gögn sín endursend) geta komið mánudag 19. des., þriðjudag eða miðvikudag á milli kl. 11 og 14 og sótt kort. Þeir sem þegar áttu kort og sóttu um hér á vefnum, fá lagt inn á þau í síðasta lagi 21. des. [Mynd 3]

Lesa meira...
16.12.2011
Starfsmenn Lansbanka afhenda 6 milljónir til Hjálparstarfa
Studningur fra LB

Sex milljónir hafa safnast í jólasöfnun starfsmanna Landsbankans og starfsmannafélags bankans til styrktar Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Rauða kross Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar. Þetta er þriðja árið í röð sem starfsmenn bankans leggja sitt að mörkum til stuðnings mikilvægu starfi hjálparsamtakanna fyrir jólin.

Hjálparstarfið þakkar þennan rausnarlega stuðning.

Lesa meira...
16.12.2011
Brúnegg gefur 500 hænur
Hænur frá Brúnegg

„Við viljum gefa gjöf sem gefur“ sagði Kristinn Gylfi Jónsson frá Brúneggjum þegar hann afhenti Jónasi Þ. Þórssyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar 250.000 krónur sem eiga að fara í að gefa fátækum fjölskyldum í Malaví og Úganda hænur. Upphæðin dugar fyrir 500 hænum sem nýtast munu um 150 fjölskyldum.

Hjálparstarfið þakkar Brúnegg kærlega fyrir.

Lesa meira...
16.12.2011
Góður stuðningur frá Kennarasambandi Íslands
Gjöf frá KÍ

Kennarasamband Íslands veitir á hverju ári styrk til samtaka eða aðila sem tengja starf sitt börnum og ungmennum. Er styrkurinn veittur í stað þess að senda jólakort. Í ár fær Hjálparstarf kirkjunnar þennan styrk að upphæð 300.000 krónur sem skiptist í þrennt og fer í Velferðarsjóð barna, Framtíðarsjóð ungmenna og í „kortaleiðina“ í innanlandsaðstoðinni. Þórður A. Hjaltested formaður KÍ, Björg Bjarnadóttir varaformaður KÍ og  Svanhildur María Ólafsdóttir formaður SÍ afhentu Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa Hjálparstarfsins styrkinn. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar stuðninginn.

Lesa meira...
15.12.2011
Samkaup gefur til jólaaðstoðar Hjálparstarfsins
Skúli Skúlason og Ómar Samk

Skúli Skúlason stjórnarformaður Samkaupa og Ómar Valdimarsson framkvæmdastjóri afhentu Hjálparstarfinu 500 þúsund krónur í inneignarkortum í verslunum Samkaupa. Þetta er stuðningur til þeirra sem leita sér aðstoðar fyrir jólin. Kortaleiðin sem var tekin upp fyrr á þessu ári hefur fest sig í sessi og reynst mjög vel.
Hjálparstarfið þakkar þennan góða stuðning sem kemur sér mjög vel nú þegar mörg hundruð umsókna hafa borist.

Lesa meira...
15.12.2011
Hjálpum þeim - safnútgáfa
Afhending

Hjálparstarfið tók við glænýjum safndiski með þremur útgáfum af laginu Hjálpum þeim, þeirr nýjustu á ensku. Jóhann G. Jóhannsson annar höfunda lagsins afhenti diskinn. Barnakór Öldutúnsskóla í Hafnarfirði söng lagið og Andrea Jónsdóttir sagði frá laginu í gegnum árin. lagið Hjálpum þeim hefur aflað mikilla fjármuna til neyðarstarfa Hjálparstarfs kirkjunnar.

Lesa meira...
14.12.2011
ASÍ styrkir jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossinns
jólastyrkur asi

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands afhenti fulltrúa Hjálparstarfs kirkjunnar hálfa milljón króna í dag. Fjárhæðin rennur til jólaúthlutunar Hjálparstarfs kirkjunnar sem unnin er í samvinnu við Rauða kross Íslands og samráði við Mæðrastyrksnefndir í Kópavogi og Hafnarfirði.
Hjálparstarfið þakkar ASÍ þennan góða stuðning.

 

Lesa meira...
13.12.2011
Nemendur í 6. bekk Foldaskóla styrkja vatnsverkefni
Foldaskoli 2011 1

Hinn árlegi nýsköpunardagur 6. bekkjar Foldaskóla var haldinn með markaði  á Torginu við Nettó fimmtudaginn 24. nóvember. Margt fallegra muna var  til sölu og  innkoman varð 32.972 krónur. Fulltrúi 6. bekkinga Kolbrún Halla Guðmundsdóttir afhenti Bjarna Gíslasyni fræðslu- og upplýsingafulltrúa Hjálparstarfsins peningana sem renna munu til vatnsverkefna Hjálparstarfsins í Afríkulöndunum Malaví, Eþíópíu og Úganda. Hjálparstarfið þakkar nemendum 6. bekkjar Foldaskóla kærlega fyrir!

Lesa meira...
09.12.2011
Söfnun fyrir innanlandsaðtoð á Norðurlandi

Söfnun til styrktar innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar á Norðurlandi verður í beinni útsendingu á N4 sjónvarpi föstudaginn 16. desember frá kl 20.00-22.00. Sent verður út frá Hofi. Safnað verður fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem standa höllum fæti og eiga jafnvel erfitt með að halda jól og geta ekki sent börn sín í frístundir og félagsstörf. Úthlutað verður vikuna 19. -23. desember. Allt sem safnast er lagt beint inn á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar á Norðurlandi.

Fylgjumst með dagskránni og tökum þátt!

Lesa meira...
09.12.2011
Norvik styrkir jólaaðstoð Hjálparstarfsins um 1,5 milljón
Norvik Gisli Jón Magnússon minni 2

Gísli Jón Magnússon fjármálastjóri Kaupáss, kom færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfsins í dag. Hann afhenti Vilborgu Oddsdóttur félagsráðgjafa og Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra 1,5 milljónir króna styrk úr Styrktar- og menningarsjóði Norvik í formi inneignarkorta í Krónunni til notkunar í jólaaðstoð Hjálparstarfsins. Er þessi stuðningur viðbót við 500.000 króna fjárframlag fyrr á árinu. Mörg hundruð umsóknir hafa borist og kemur þessi rausnarlegi stuðningur sér því mjög vel. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þennan frábæra stuðning.

Lesa meira...
24.11.2011
Fermingarbörn söfnuðu 7,8 milljónum króna
Stulka vid brunn Malavi minni

7,8 milljónir króna söfnuðust þegar fermingarbörn um land allt gengu í hús aðra viku í nóvember með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. Undanfari þess var fræðsla til um 2700 fermingarbarna um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Féð sem þau söfnuðu rennur til vatnsverkefna Hjálparstarfsins í Afríkulöndunum, Eþíópíu, Malaví og Úganda.

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar öllum sem gáfu, fermingarbörnum fyrir dugnað og prestum og kirkjustarfsmönnum samstarfið.

Lesa meira...
24.11.2011
Kaffihúsaguðsþjónusta á Nesinu skilar 64 þúsundum til innanlandsaðstoðar
Seltk 6 2011 minni

Sunnudaginn 20. nóvember var kaffhúsaguðþjónusta í Seltjarnarneskirkju. Fermingarbörnin voru hetjur dagsins, tóku á móti kirkjugestum, gengu um beina, lögðu á borð, sáu um uppvask, lásu ritningarlestra og bænir. Allt var þetta gert til þess að safna peningum fyrir innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. 64.000 krónur söfnuðust.

Hjálparstarfið þakkar fermingarbörnum í Seltjarnarneskirkju kærlega fyrir þennan frábæra stuðning!

Lesa meira...
23.11.2011
Gefðu lífsvon – gefðu vatn
Barnhungursneyd

Hungursneyð geisar nú í Austur-Afríku og þar deyr fólk úr hungri á hverjum degi.Núna þarf að forða fleirum frá dauða. Hjálparstarf kirkjunnar vinnur að því að tryggja fæðu og hreint vatn og bjarga þannig mannslífum. Börnin ganga fyrir og fá næringu og læknisaðstoð.

Þú getur hjálpað núna
Þú getur bjargað mannslífum með því að taka þátt í jólasöfnun Hjálparstarfsins og greiða valgreiðslu í heimabanka. Einnig er hægt að hringja í styrktarnúmer 907 2003 (2.500 kr.), gefa framlag á framlag.is eða leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

Þitt framlag skiptir sannarlega máli, mannslíf eru í húfi.

Lesa meira...
16.11.2011
Opnað fyrir umsóknir um jólaaðstoð

Nú geta þeir sem þegar eru komnir með kort frá Hjálparstarfinu sótt um jólaaðstoð hér á vefnum.
If you already have a debit card from Hjálparstarf kirkjunnar you can apply for Christmas assistance here online.

Smellið á Aðstoð innanlands í listanum til vinstri og síðan á Hér sækir þú um aðstoð.
Click Aðstoð innanlands on the list to the left and then Hér sækir þú um aðstoð.

Lesa meira...
09.11.2011
Fermingarbarnasöfnun komin á fullt
Fermingarbarnasöfnun husav2011

Nú er söfnun fermingarbarna fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins komin á fullt. Veðrið síðastliðinn mánudag setti strik í reikninginn hjá sumum sem ætluðu að safna þá en frestuðu því til næsta dags. Fermingarbörn í Húsavíkurkirkju sem alltaf taka þátt af miklum þrótti höfðu sína söfnun í gær og söfnuðu 222.660 krónum, sem er hreint frábær árangur! Hér má sjá frétt og mynd á heimasíðu Húsavíkurkirkju frá því í gær rétt áður en söfnun hófst.

Lesa meira...
09.11.2011
Hjálparstarf kirkjunnar fær Evrópuverðlaun fyrir innanlandsaðstoð sína
Evrópsk verðlaun innanlaðst

Innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar tók við Eurodiaconia-verðlaununum í ár fyrir vel skipulagt og árangursríkt hjálparstarf, gott skipulag og samstarf við sjálfboðaliða og fyrir að hafa brugðist fljótt við áhrifum kreppunnar á bágstadda á Íslandi.

Lesa meira...
06.11.2011
Fermingarbörn safna fyrir vatni
Fermingarbsöfnun minni 2

Dagana 7.-15. nóvember ganga fermingarbörn um allt land í hús með merkta bauka Hjálparstarfsins og safna fyrir vatnsverkefni í Afríku. Tökum vel á móti þeim og leggjum okkar af mörkum! Sjá kynningu á söfnuninni sem Ármann Hákon Gunnarsson gerði og greinina Ferming hvað? á tru.is.

Lesa meira...
25.10.2011
Margt smátt, fréttablað Hjálparstarfsins komið út.
stulka a indl

Margt smátt, fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar er komið út. Í blaðinu er fjallað um fjölbreytt starf Hjálparstarfsins en að þessu sinni sérstaklega um starfið á Indlandi. Blaðið er sent út til um 6000 áskrifenda og stuðningsaðila. Blaðið má sjá hér.

Lesa meira...
20.09.2011
Hungur ríkir í Austur-Afríku
2011_Ethiopia_drought-7039


12 milljónir manna eru í brýnni þörf fyrir aðstoð. 750.000 manns í Sómalíu eru í bráðri lífshættu. Ófriður, fátækt og þurrkar eru samverkandi þættir sem gera ástandið mjög slæmt. ACT Alliance sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að hefur gefið út neyðarbeiðni vegna Austur-Afríku. Styddu neyðarhjálp á svæðinu: reikn 0334-26-886 kt. 450670-0499, söfnunarsími 907 2003 (2.500 kr.). Sjá nánari upplýsingar um ástandið og neyðarhjálp ACT Alliance á www.actalliance.org.

Lesa meira...
16.09.2011
SAM mannréttindasamtökin 25 ára
SAM 25 ara

21. ágúst síðastliðinn héldu samtökin Social Action Movement, SAM, upp á 25 ára afmæli sitt.  Hjálparstarfið hefur átt farsælt samstarf við SAM síðan 1988 eða í 23 ár og tók þátt í að byggja miðstöð samtakanna í bænum Mamandur í Tamil Nadu héraði, 70 km fyrir sunnan Chennaiborg, en þar eru skrifstofur og aðstaða til námskeiðahalds. Fulltrúar Hjálparstarfsins voru viðstaddir hátíðarhöldin.

Lesa meira...
15.09.2011
Hið frábæra lag Hjálpum þeim komið út á ensku
2011_Ethiopia_drought-6979

Nú er hið frábæra lag Axels Einarssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, Hjálpum þeim, komið út á ensku. Einvalalið íslenskra söngvara syngur lagið sem fyrst kom út 1985 og var endurútgefið 2005. Tilgangurinn er að hvetja okkur öll til að styðja þá sem líða vegna hungursneyðar í Austur-Afríku. Lagið er komið á YouTube.

Lesa meira...
13.09.2011
Hár og tónleikar skila 634.481 krónu til neyðarhjálpar
tonleikar 003minni

 

Styrktartónleikar vegna hungursneyðar í Astur-Afríku með hljómsveitinni Tilviljun?, Pétri Ben og Guðmundi Karli Brynjarssyni síðastliðinn sunnudag tókust frábærlega vel. Aðgangseyrir á tónleikana skiluðu 309.681 krónu. Hársöfnun Arons Bjarnasonar sem er meðlimur í Tilviljun? þar sem hann klippti síða dredda sem hann hafði safnað í sjö ár, skilaði 324.800 krónum. Samtals söfnuðust því 634.481 króna sem duga til að sjá 2.500 manns fyrir korni til þriggja mánaða. Sjá frétt á Stöð 2 og á mbl.is. Enn er hægt að gefa: reikn 0334-26-886 kt. 450670-0499, söfnunarsími 907 2003 (2.500 kr.).

 

Lesa meira...
09.09.2011
Þið eruð ekki ein, hlustaðu á lagið

 

Í tenglsum við styrktartónleika næstkomandi sunnudag í Fíladelfíu, Hátúni 2, kl. 20, hefur Hljómsveitin Tilviljun? gefið út lagið Þið eruð ekki ein, sem þú getur hlustað á hér.

 

Lesa meira...
07.09.2011
Lætur dreddana fjúka til góðs

 

Aron sem er meðlimur í hljómsveitinni Tilviljun? hefur ákveðið að láta dredda sem hann hefur verið með í 7 ár fjúka ef söfnun fyrir neyðarhjálp í Austur-Afríku gengur vel, lestu skemmtilega frétt á mbl.is um málið og horfðu á frétt sem var á Stoð 2. Þeir sem vilja styrkja hársöfnun Arons eða Hjálparstarf kirkjunnar geta millifært inn á reikning hjálparstarfsins; Reikningsnr: 0334-26-886 og kt: 450670-0499.

 

Lesa meira...
07.09.2011
Þið eruð ekki ein, styrktartónleikar sunnudag 11. september kl. 20 Fíladelfíu Hátúni 2

Þið eruð ekki ein, styrktartónleikar vegna hungursneyðar í Austur-Afríku verða sunnudaginn 11. september kl. 20 í Fíladelfíu, Hátúni 2.
Hljómsveitin Tilviljun?, Pétur Ben og sr. Guðmundur Karl Brynjarsson munu koma fram.

Aðgangseyrir er 1.500 krónur (við inngang) og rennur óskiptur til neyðarhjálpar í Austur-Afríku. Allir sem koma að tónleikunum gefa vinnu sína.
Markmiðið er að safna 500.000 krónum sem dugar til að gefa um 2000 manns korn til þriggja mánaða.

Hvetjum alla til að mæta!

Lesa meira...
05.09.2011
Þróunarsamvinna ber ávöxt
eplisávöxtur

Frjáls félagasamtök á Íslandi sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu standa að kynningu á þróunarmálum í samstarfi við Þróunar-samvinnustofnun Íslands vikuna 5.-7. september. Markmiðið er að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda og vekja Íslendinga betur til vitundar um samfélagslegar og siðferðilegar skyldur þjóðarinnar í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

Fáðu epli í fallegum poka frá Úganda

Á miðvikudaginn munu félagasamtökin dreifa eplum í Kringlunni, Smáralind, Lækjartorgi, Laugardal, Fjarðarkaupum og Mjódd á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri við sundlaugina og á Glerártorgi, undir yfirskriftinni: Þróunarsamvinna ber ávöxt

Lesa meira...
17.08.2011
Framlag vegna hungursneyðar í Eþíópíu

Hjálparstarfið sendir 3,4 milljónir til neyðaraðstoðar í Eþíópíu vegna þurrkanna og fólksflóttans sem þar á sér stað. Þar af eru 2,7 milljónir frá Utanríkisráðuneytinu. Smelltu hér til að gera þér grein fyrir aðstæðum í flóttamannabúðunum Dadaab í Kenýa. Talað við starfsmenn Lútherska heimssambandsins sem fjármunir frá Hjálparstarfinu fara til. Til Dadaab koma á degi hverjum 1300 nýir flóttamenn. Þar dvelja nú hátt í 500.000 manns. Söfnunarsími er opinn 907 2003. Hvert símtal gefur viðkomandi 2.500 kr. til aðstoðarinnar. GEFÐU NÚNA

15.07.2011
Neyðarbeiðni vegna Eþíópíu
Karlaandlit

ACT Alliance sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að hefur gefið út neyðarbeiðni fyrir þriggja mánaða átak vegna langvarandi þurrka í Eþíópíu. Að mati stjórnvalda og hjálparstofnana í landinu þurfa rúmlega fjórar og hálf milljón manna neyðaraðstoð. Beiðni ACT Alliance miðar við að aðstoða tæplega 64.000 manns og búfé þeirra um mat og fóður, malaríuvarnir og styrkja möguleika fólks til að halda út aðstæður þar til von er á næstu rigningum, í október eða nóvember. Hjálparstarf kirkjunnar styður þróunar- og neyðarverkefni í Eþíópíu. Ef þú ert aflögufær, hringdu þá í söfnunarsímann 907 2003 og gefðu 2.500 kr. til að mögulegt verði að grípa til aðgerða. Mynd HK mars 2011: Áhyggjufullir ungir menn í Somali-héraði.

Lesa meira...
15.07.2011
Margt smátt, spennandi fréttablað komið út

Margt smátt fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar er komið út. Í því má lesa margar athyglisverðar greinar t.d. um farsímanotkun í Afríku, skort á vatni og vatnsverkefni Hjálparstarfsins, baráttu fyrir auknum réttindum kvenna auk fjölda mynda frá starfinu. Blaðið er einnig á netinu og má lesa hér, Margt smátt 2. tbl. 2011.

Lesa meira...
14.07.2011
Söfnunarsími opinn
Úlfaldi með vatn

Hjálparstarfið hefur opnað söfnunarsíma vegna þurrka og neyðar á verkefnasvæði sínu í Eþíópíu. Hjálparstarfið hefur í tvígang greitt fyrir útkeyrslu vatns á svæðinu og skólamáltíðir. Þannig fá börnin í það minnsta eina máltíð á dag og haldast í skóla. Gefðu núna ef þú ert aflögufær. Síminn er opinn en einnig má leggja inn á reikning 0334 26 886 / kt. 450670 0499.

Lesa meira...
07.07.2011
Í startholunum í Eþíópíu vegna þurrka

Verkefnasvæði Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu, Somali-hérað, er á þessu svæði sem nú er fjallað um í fréttum vegna þurrka og fólksflótta. Lútherska heimssambandið og eþíópíska Mekane Jesus-kirkjan eru í startholunum með neyðaraðstoð. ACT Alliance sem Hjálparstarfið er aðili að, hefur gefið úr aðvörun um neyðina og búist er við alþjóðlegri beiðni ACT á næstunni um að ACT-aðilar bregðist við með fjármunum, sérþekkingu og aðgerðum.

Lesa meira...
28.06.2011
Tökum fram hlaupaskóna - Reykjavíkurmaraþon 20. ágúst

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður 20. ágúst. Þar er hægt að hlaupa í þágu góðra mála. Við hvetjum alla til að taka þátt og hlaupa fyrir Hjálparstarfið. Hægt er að hlaupa sex vegalengdir: 1 km fyrir börnin, 3 km skemmtiskokk, 10 km hlaup, boðhlaup (42,2 km), hálfmaraþon (21,1 km) og maraþon (42,2). Á slóðinni hlaupastyrkur.is er hægt að heita á sinn mann.

Lesa meira...
11.06.2011
Fátækt - Hjálpum heima, myndbönd á visir.is

Nú er hægt að sjá fræðslu- og söfnunarþáttinn Fátækt - Hjálpum heima á visir.is. smelltu hér.

 

Lesa meira...
07.06.2011
Takk
hjalparstarf 300 kort

Hjálparstarfið þakkar frábæran stuðning við nýja nálgun við mataraðstoð. Söfnun fyrir kortaleiðinni sem enn stendur yfir er komin í 28 milljónir króna. TAKK!

Lesa meira...
19.05.2011
Öll framlög skipta máli

Söfnun fyrir nýrri nálgun í mataraðstoð er í fullum gangi. Almenn ánægja er með nýja leið með inneignarkortum í matvöruverslanir fyrir barnafjölskyldur í stað þess að úthluta mat í poka. Vegna fyrirspurna um mánaðarlegan stuðning við þessa aðstoð viljum við benda á að hægt er að leggja reglulega inn á reikning: 0334-26-27 kt. 450670-0499. Einnig er hægt að hringja í síma 528 4400 og ganga frá reglulegum stuðningi. Við minnum líka á valgreiðslu í heimabankanum. Öll framlög skipta máli.

Lesa meira...
02.05.2011
Kortaleiðin framfaraskref
hjalparstarf_front-page

Margt smátt, fréttablað Hjálparstarfsins er komið út, það fylgdi Fréttablaðinu laugardaginn 30. apríl. En nú má einnig sjá blaðið á netinu Margt smátt 1. tbl. 2011. Meðal efnis í blaðinu: Kortaleiðin er framfaraskref, viðtal við Eldeyju Huld Jónsdóttur félagsráðgjafa, Um hugmyndir og siðfræði hjálparinnar, grein eftir  Halldór S. Guðmundsson lektor við HÍ, Viljum ekki staðna eftir Jónas Þ. Þórisson framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins og margt fleira.

Lesa meira...
28.04.2011
Hjálpum heima, söfnun stendur yfir
hjalparstarf 100 kort

Valgreiðsla býður í heimabankanum þínum. Með því að greiða hana styður þú innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar um allt land og hjálpar til sjálfshjálpar. Einnig er hægt að hringja í söfnunarsímann 907 2002, gefa framlag á framlag.is eða á söfnunarreikning 0334-26-50886, kt. 450670-0499. Gefa núna.

Lesa meira...
28.04.2011
Ný nálgun við mataraðstoð
hjalparstarf Nn litid

Nú heyra matarpokar sögunni til í mataraðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar.  Frá 1. maí fá barnafjölskyldur um allt land, sem uppfylla skilyrði, inneignarkort sem þær geta notað til að velja sjálfar í innkaupakörfur sínar. Þessi leið er dýrari og því stendur yfir söfnun til hjálpar hér heima, með valgreiðslum í heimabanka

Lesa meira...
20.04.2011
Hugmyndirnar á bak við umskurð stúlkna

Umskurður stúlkna eða limlesting á kynfærum þeirra er algeng á verkefnasvæði Hjálparstarfsins í Eþíópíu. Þar eru íbúar nær allir múslímar en Lútherska heimssambandinu sem Hjálparstarfið vinnur með, hefur tekist að breyta skoðunum fólksins á þessu. Skoðaðu frábæran stuttþátt um hugrakkar stúlkur sem neituðu að láta umskera sig. Þær eru nú flottar fyrirmyndir stúlkna í sömu stöðu. Myndin fjallar um allar hliðar og ástæður þess að mæður og feður vilja láta dætur sínar ganga í gegnum þessa eldraun sem oft endar með dauða stúlkunnar.

Lesa meira...
06.04.2011
Nýjar verklagsreglur Hjálparstarfsins

Gegnsæi og upplýsingagjöf er sjálfsagður hluti af faglegu starfi Hjálparstarfs kirkjunnar. Stjórn og starfsmenn hafa á undanförnum mánuðum unnið að verklagsreglum um megin þætti starfsins. Slíkar reglur móta og veita aðhald í starfi. Verklagsreglur Hjálparstarfs kirkjunnar.

Lesa meira...
23.03.2011
Góð stemning í Laugardalslaug á degi vatnsins
Andabraud4

Það var góð stemning í Laugardalslauginni í gærkvöldi þegar hljómsveitin Andabandið tók nokkur lög og Breytendur minntu á hve gott við höfum það á Íslandi að geta buslað í hreinu vatni á meðan margir hafa ekki nóg að drekka.

Lesa meira...
21.03.2011
Aþjóðlegur dagur vatnsins
image_19063_large[1]

Tónleikar í sundi!

22. mars 2011 verður alþjóðlegur dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um allan heim. Ýmsir viðburðir munu fara fram og mun ungliðahreyfingin Breytendur standa fyrir nokkrum slíkum hér á landi.

Lesa meira...
21.03.2011
Eftir að brunnurinn kom skilar fræðsla um hreinlæti árangur
brunnur mal

Fólkið á sléttunni í Chikwawa í suður Malaví hefur ekki hugmynd um að í dag 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins enda þótt þau séu með í vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Þau eru uppteknari af nýfengnu hreinu vatni sem gjörbreytir lífinu til hins betra.

Lesa meira...
18.03.2011
Siðareglur Hjálparstarf kirkjunnar

Starfsmenn og stjórn Hjálparstarfs kirkjunnar hafa undafarna mánuði unnið að siðareglum fyrir stofnunina. Tilgangurinn er að veita stjórn og starfsfólki stuðning til faglegrar og ábyrgrar vinnu, veita siðleg viðmið umfram lagalegar skyldur og upplýsa um gildi sem móta starfið. Siðareglur Hjálparstarfs kirkjunnar.

Lesa meira...
07.03.2011
Unglingar í æskulýðsfélögum kirkjunnar leysa 75 börn úr skuldaánauð
1 Armannog Jonas 050311

Á fulltrúaráðsfundi Hjálparstarfs kirkjunnar 5. mars afhenti Ármann Gunnarsson fyrir hönd Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar 374.000 krónur  til stuðnings verkefni Hjálparstarfsins á Indlandi

Lesa meira...
03.03.2011
Fulltrúaráðsfundur laugardaginn 5. mars
thraelabarnindl

Fulltrúaráðsfundur Hjálparstarfs kirkjunnar verður í safnaðarheimili Grensáskirkju laugardaginn 5. mars. Fundurinn hefst með helgistund kl. 10:30 sem sr. Ólafur Jóhannsson mun sjá um. Þorsteinn Pálsson formaður stjórnar mun fjalla um störf stjórnar, Jónas Þórir Þórisson framkvæmdastjóri mun stikla á stóru í starfinu og Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi fjallar um innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins.

Lesa meira...
14.02.2011
"Ferðin hefur verið frábær upplifun" segja sjálfboðaliðar á Indlandi
indland1

Katrín Þóra Jóhannesdóttir, Halldóra Kristín Magnúsdóttir og Arna Garðarsdóttir sjálfboðaliðar hafa undanfarnar vikur sent okkur pistla um dvöl sína á Indlandi. Hér kemur síðasti pistillinn: Nú er dvöl okkar á Indlandi að ljúka

Lesa meira...
14.02.2011
Frá sjálfboðaliðum á Indlandi
Lesa meira...
10.02.2011
ACT Alliance hefur miðlað 12 milljörðum króna til Haítí
kona við tjald

Hjálparstarf kirkjunnar veitir mest af sinni neyðarhjálp í gegnum ACT Alliance en einnig beint til samstarfsaðila á hverju svæði. Hjálparstarfið er einn 100 aðila að ACT  Alliance. Samtökin veita neyðarhjálp, vinna að uppbyggingu í kjölfar neyðar og langtíma þróunarstarfi. Samtökin vinna í 130 löndum.

Lesa meira...
31.01.2011
Fjallað um dýrmætasta efni í í heimi í Dalvíkurskóla
P1240001

Nemendur yngstastigs Dalvíkurskóla hafa að undaförnu fræðst um dýmætasta efni í heimi, vatn.Þau fengu frá Hjálparstarfinu  ýmsar upplýsingar um vatn og skort á vatni í Afríku og einnig stand sem sýnir hvernig brunnur getur litið út.

Lesa meira...
25.01.2011
“Gaman að taka þátt í öllu því góða starfi sem fram fer hér”
indland2

Hér kemur pistill númer 2 frá sjáfboðaliðunum Katrínu Þóru, Halldóru Kristínu og Örnu sem eru staddar á Indlandi: Dvöl okkar hér heldur áfram ævintýri líkust.

Lesa meira...
24.01.2011
“Allt öðruvísi en á Íslandi” segja sjálfboðaliðar á Indlandi.
indland1

Katrín Þóra Jóhannesdóttir, Halldóra Kristín Magnúsdóttir og Arna Garðarsdóttir eru um þessar mundir staddar í bænum Ketanakonda á Indlandi. Þær eru 25 ára, tvær á lokaári í læknisfræði, þær Halldóra og Katrín, og Arna er hjúkrunarfræðingur. Þær eru sjálfboðaliðar á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og munu vinna á heilsugæslustöð í bænum í sex vikur. Þær stöllur sendu okkur nokkrar línur um ferðina út og dvölina fyrstu dagana:

Lesa meira...
14.01.2011
Ár síðan jarðskjálftinn reið yfir Haítí

Nú er rúmlega ár síðan jarðskjálftinn mikli reið yfir Haítí með hrikalegum afleiðingum, 230.000 manns lét lífið, hundruði þúsunda slösuðust og um milljón lifir enn í búðum.  ACT-Alliance sem Hjálparstarfið er aðili að stendur fyrir mjög öflugu uppbyggingarstarfi sem má lesa um og skoða myndir og myndbönd  á heimasíðu ACT-Alliance og síðunni tust.org.

Lesa meira...
04.01.2011
Úthlutun byrjar aftur 12. janúar

Úthlutun innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar byrjar aftur miðvikudaginn 12. janúar kl. 12-17. Fataúthlutun hefst þriðjudaginn 18. janúar kl. 10-12.

29.12.2010
Geit gleður og bjargar!
geit.jpg.crop_display[1]

Margir gáfu geit í jólagjöf þessi jólin og slógu með því tvær flugur í einu höggi; glöddu viðtakanda með hlýrri kveðju og hjálpuðu um leið fátækri fjölskyldu í Afríku. Sjá fróðlega frétt Sjónvarpsins um málefnið.

23.12.2010

Við hér hjá Hjálparstarfi kirkjunnar óskum þér, hvar sem þú ert, innilega gleðilegra jóla og vonum að allt gangi þér í haginn á nýju ári.  

Skrifstofan verður opin til hádegis á aðfangadag. Lokað verður 27. desember og opið til hádegis á gamlársdag.

22.12.2010
Jólasöfnun í fullum gangi
facebook kubbur jól

Jólasöfnun Hjálparstarfs krikjunnar sem rennur til hjálparstarfa heima og heiman er í fullum gangi, við hvetjum alla til að greiða valgreiðslu sem send hefur verið  í heimabanka landsmanna. Einnig má leggja inn á söfnunarreikning: 0334-26-50886 kt. 450670-0499, gefa framlag á styrktarsíðunni framlag.is og gefa skemmtilega jólagjöf á gjofsemgefur.is.

Lesa meira...
22.12.2010
Innes gefur Gevalia kaffi
Des 2010 Innes

Innnes hefur undanfarin ár, í stað þess að senda út jólakort og gjafir til viðskiptavina sinna, gefið Gevalia kaffi til Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur til að deila út til sinna skjólstæðinga.  Líkt og undanfarin ár gefur Innnes fyrir þessi jól 1 tonn af Gevalia kaffi. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar Innes kærlega fyrir þennan góða stuðning!                                                                                                   

Lesa meira...
21.12.2010
"Páll er okkur hinum frábær fyrirmynd"
Páll Þórisson

Það var skemmtileg heimsókn sem við fengum í dag á skrifstofu Hjálparstarfsins. Páll Þórisson kom þá með þrjá fulla bauka með peningum til styrktar starfinu.

Lesa meira...
21.12.2010
Nemendur Kirkjubæjarskóla á Síðu láta ekki sitt eftir liggja

Nemendur Kirkjubæjarskóla á Síðu láta ekki sitt eftir liggja í því að styðja þá sem minna mega sín.

Lesa meira...
20.12.2010
Samfélagssjóður Alcoa gefur tæpar 6 milljónir króna til hjálparstarfs hér á landi
afhending Erna og Jónas

Þeim fjölgar stöðugt sem leita aðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar og í dag fékk stofnunin 50.000 dollara styrk frá  Samfélagssjóði Alcoa í Bandaríkjunum til að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur í kreppu.  

Lesa meira...
18.12.2010
Gefa 15% til Hjálparstarfsins
ImageHandlerCA50IC0P

Sjáið skemmtilega grein á Pressunni um fjóra bæður sem spila tónlist hér og þar og gefa 15% af tekjunum til Hjálparstarfs kirkjunnar: Fjórir músíkalskir dredda-drengir: Myndi aldrei tíma kjuðunum á bræður mína!

17.12.2010
VALITOR styrkir Jólaaðstoðina 2010

VALITOR  færði  í gær fulltrúum Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Rauða krossins og Hjálpræðishersins fjárstyrk sem ætlaður er til að styrkja það góða og öfluga starf sem fram fer hjá samtökunum nú fyrir jólin.    Samtökin fengu, samtals 3.129.000 milljónir króna. Bestu þakkir!

Lesa meira...
15.12.2010
Dugleg börn í leikskólanum Hádegishöfða
Untitled-1 copy

 

Við fengum skemmtilega kveðju frá Láru G. Oddsdóttur sóknarpresti í Valþjófsstðaprestakalli:

Í morgun komu börnin af leikskólanum Hádegishöfða í Fellabæ á Fljótsdalshéraði í árlega heimsókn til prestsins síns í Kirkjuselið í Fellabænum.Þau hlýddu á frásögn um jólaguðspjallið og sungu jólalög.En þau komu líka færandi hendi.  Þau afhentu prestinum sínum gjöf sem átti að fara til Hjálparstarfs kirkjunnar

Lesa meira...
15.12.2010
Pokasjóður gefur 20 milljónir til Jólaaðstoðar 2010
pokasj2010

Pokasjóður afhenti í dag 20 milljónir króna til Jólaaðstoðar 2010, til að deila út fyrir jólin. Að aðstoðinni standa Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Rauði krossinn í Reykjavík og Hjálpræðisherinn. Framlag Pokasjóðs er í formi gjafakorta sem gilda í matvöruverslunum þeirra sem standa að sjóðnum. Inneign á kortunum er ýmist 5.000 eða 10.000 kr.

Lesa meira...
15.12.2010
Athugasemd vegna frétta um matarkort

Í tilefni af umræðu undanfarinna daga og  fréttum í gær frá fréttastofu RÚV um að hjálparsamtök vilji ekki matarkort og séu sum treg til samstarfs við Félagsmálaráðuneytið vill Hjálparstarf kirkjunnar koma eftirfarandi á framfæri: Hjálparstarf kirkjunnar hefur í gegnum árin leitað eftir nánara samstarfi við sveitarfélög og ríki og einnig verið í forystu fyrir því að auka samstarf og samræmingu milli hjálparsamtaka...

Lesa meira...
14.12.2010
Alþýðusamband Íslands styður Jólaaðstoðina
Jolauthlutun 2010 ASÍ 2minni

Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands afhenti fulltrúum Hjálparstarfs kirkjunnar hálfa milljón króna í dag. Fjárhæðin rennur til jólaúthlutunar Hjálparstarfs kirkjunnar sem unnin er í samvinnu við Hjálpræðisherinn, Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefndir í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.  Aðstoðin fer fram um allt land m.a. með úthlutun á matvælum og fatnaði til þeirra sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum. 

Lesa meira...
14.12.2010
Jóla- og góðgerðardagur á Álftanesi skilar 81 Aukapoka

Þann 11. desember síðastliðinn var haldinn hinn árlegi Jóla- og góðgerðardagur á Álftanesi. Þar gafst bæjarbúum og gestum tækifæri til að koma saman og láta gott af sér leiða. Margt skemmtilegt var í boði í íþróttamiðstöðinni til dæmis handverksmarkaður, kaffisala, föndur, upplestur, fatasöfnun og matarpokasöfnunin, Auka pokinn, fyrir innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar.

Lesa meira...
14.12.2010
Félag vélstjóra og málmtæknimanna gefa 600.000
1447minni

Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) hefur ákveðið að styrkja innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Guðmundur Ragnarsson formaður VM afhenti Jónasi Þóri Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins 600.000 krónur. Jónas þakkaði þennan góða stuðning sem mun nýtast fjölskyldum á Íslandi.

Lesa meira...
10.12.2010
Nemendur í Birkimelsskóla leysa 12 börn á Indlandi úr skuldaánauð
thorunn jonatansdottir

Nemendur í Birkimelsskóla í Vesturbyggð hafa á aðventunni búið til jólakort og selt til ágóða fyrir verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem þrælabörn á Indlandi eru leyst úr skuldaánauð. Átta nemendur bjuggu til falleg og frumleg jólakort og seldu fyrir 60.000 krónur

Lesa meira...
10.12.2010
Jólasveinar búnir að krækja í geitur og kýr
mynd 1minni

Menn vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar í gær þegar Þvörusleikir kom askvaðandi inn og vildi gefa 10 kýr og 30 geitur og bjóða 10 íslenskum börnum dvöl í sumarbúðum næsta sumar. Hann heimtaði að komast að tölvu til að gera þessi innkaup á gjafabréfasíðunni gjöfsemgefur.is. Gjöfin jafgildir 606.000 kr. Jónas Þ. Þórisson tók á móti gjöfinni.

Lesa meira...
08.12.2010
Aðventulag á tonlist.is
ellenk

Nýtt aðventulag er komið á tonlist.is: Ljós friðarins. Flytjendur eru Ellen Kristjánsdóttir og Pétur Ben en Hrannar Björn Kristjánsson stjórnaði upptöku. Öll gáfu þau vinnu sína og eigandi hljóðversins gaf upptökutímann. Þannig fer allt andvirði lagsins, þegar það er keypt á tónlist.is, til Hjálparstarfs kirkjunnar nema vsk og STEF-gjöld. Lagið kostar 299 kr. Textann þýddi séra Guðmundur Karl Brynjarsson prestur í Lindakirkju en höfundur lags og texta er Norðmaðurinn Eivind Skeie. Fara á tónlist.is 

08.12.2010
KEA styrkir Hjálparstarf kirkjunna
Halldor_Johannsson_og_Jon_Oddgeir_Gudmundsson

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhenti í gær Hjálparstarfi kirkjunnar á Akureyri 500 þúsund króna peningagjöf sem ætluð er til kaupa á matvælum til styrktar skjólstæðingum hjálparstarfsins.

Lesa meira...
08.12.2010
Fulltrúaráð vekralýðsfélaga í Reykjavík styrkir barnafjölskyldur
mynd 2

Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hefur veitt Hjálparstarfi kirkjunnar styrk að upphæð kr. 500.000 sem mun renn til að styrkja ungar barnafjölskyldur.

Lesa meira...
03.12.2010
Umsóknardagar vegna Jólaaðstoðar

Hjálparstarf kirkjunnar, Rauða kross-deildir, Mæðrastyrksnefndir og Hjálpræðisherinn eru í samvinnu um jólaaðstoð. Úthlutun er samræmd og því er sótt um á einum stað. Umsóknardagar hjá Hjálparstarfinu, Háaleitisbraut 66, Reykjavík, eru 7., 8. og 9. desmeber kl. 11-12 og 13-15.  

02.12.2010
Hrossabændur á Suðurlandi, SS og Krás styrkja Hjálparstarfið
1448935_reyktfolalda[1]

Hrossabændur á Suðurlandi í samstarfi við Sláturfélag Suðurlands og kjötvinnsluna Krás á Selfossi  hafa gefið Hjálparstarfi kirkjunnar  450 kg  af reyktum folaldabjúgum og hrossabjúgum.  

Lesa meira...
01.12.2010
Ný heimasíða hjá Changemaker
Breytendur

Þú kemur ekki að tómum kofanum hjá Changemager, aðgerðahópi sem vill gera heiminn betri með jákvæðum aðferðum. Skoðaðu nýja heimasíðu þeirra.

30.11.2010
Margt smátt komið út
Margt sm.4tbl

Margt smátt 4. tbl. 2010, fréttablað Hjálparstarfsins er komið út. Í því er fjölbreytt efni m.a.  Velferð barna - framtíðin að veði, Gauðrifið öryggisnet - HIV/alnæmi, vitðtal við Jónas Þóri Þórisson framkvæmdastjóra Hjálparstarfsins í tilefni af 20 ára starfsafmæli hans. Margt smátt 4. tbl. 2010.

29.11.2010
8.000.000 söfnuðust fyrir vatni í fermingarbarnasöfnun
brunnuriMal10

Rétt um 8 milljónir króna söfnuðust þegar fermingarbörn um land allt gengu í hús í byrjun nóvember með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. Undanfari þess var fræðsla til rúmlega 3000 fermingarbarna um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Féð sem þau söfnuðu rennur til vatnsverkefna Hjálparstarfsins í Afríkulöndunum, Eþíópíu, Malaví og Úganda.

Lesa meira...
24.11.2010
Gefðu gjöf sem skiptir máli
vidvatnskranan

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er að fara í gang. Þriðja árið í röð renna framlög í jólasöfnun til helminga í aðstoð innanlands og til vatnsverkefna í Afríku. Valgreiðsla að upphæð 2.500 krónur er send í heimabanka landsmanna. Að auki minnum við á styktarsíðu okkar framlag.is þar sem hægt er að styrkja verkefni að eigin vali og gjafabréfasíðu okkar gjofsemgefur.is þar sem er að finna skemmtilegar jólagjafir sem nýtast þeim sem þurfa á stuðningi að halda. Reikningur söfnunarinnar er 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
19.11.2010
Toyota styrkir Hjálparstarf kirkjunnar
toyota

Toyota á Íslandi og Hjálparstarf kirkjunnar hafa endurnýjað samning um afnot af Toyota Hiace sendibifreið í eitt ár. Er þetta þriðja árið í röð sem Hjálparstarf kirkjunnar fær afnot af sendibifreiðinni sem verður notuð til almennra snúninga í fjölþættu hjálparstarfi og kemur sér sérstaklega vel nú fyrir jólin þegar mest er að gera.

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar Toyota á Íslandi fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Á myndinni eru frá vinstri Jónas Þórir Þórisson, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar og Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota á Íslandi.

Lesa meira...
18.11.2010
Aukapokinn kominn af stað

Nú er hægt að kaupa alls kyns nauðsynjar og setja í aukapoka fyrir þá sem mest þurfa á hjálp að halda. Með okkur í þessu átaki eru Kostur, Krónan, Nettó, Bónus og Hagkaup á höfuðborgarsvæðinu og matvöruverslanir þeirra á Akureyri og í Reykjanesbæ. Í þessum búðum eru körfur eða stampar til að skilja pokana eftir í. Hjálparstarfið sækir pokana og deilir þeim út gegnum sitt matarbúr. 

Lesa meira...
12.11.2010
Héldu tombólu fyrir innanlandsaðstoð
tombola

Við fengum frábæra heimsókn á skrifstofu Hjálparstarfsins í dag. Sara Ívarsdóttir, Laufey Mattíana Long, Anna Dögg Arnardóttir og Valur Guðmundsson komu færandi hendi með 13.000 krónur sem á að fara í innanlandsaðstoð. Þau héldu tombólu þar sem þau seldu sultu og alls konar dót með þessum frábæra árangri! Jónas Þórir Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins tók á móti framlaginu og færði þeim bestu þakkir.

Lesa meira...
12.11.2010
Frábær fermingarbörn!
Fata við brunn
Brunnur í verkefni Hk í Malaví.

Það er sannarlega hægt að segja að fermingarbörn landsins séu frábær, þau hafa undanfarna daga safnað fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Gengið í hús í sínu hverfi í rigningu, í roki, í kulda og frosti, ekkert hefur aftrað þeim frá því að láta gott af sér leiða. Prestar og starfsfólk kirkna hefur skipulagt söfnunina frábærlega og hvatt börnin til dáða og landsmenn tekið þeim mjög vel.  Ekki eru allir búnir að leggja inn en nú er upphæðin komin í 6.2 milljónir  króna sem er frábært! Spennandi verður að sjá hver endanleg tala verður. Innilegar þakkir til allra sem hafa lagt hönd á plóg!

Lesa meira...
04.11.2010
Fermingarbarnasöfnun gengur vel
vid brunn i Malavi

Fermingarbarnasöfnun fer mjög vel af stað við höfum fengið skilaboð um að fermingarbörnunum hefur verið mjög vel tekið og er verið að telja það sem safnaðist. "Þau eru mjög stolt þegar þau koma til baka með fulla bauka" sagði einn prestur. Við viljum benda á að börnin eru með merkta, númeraða og innsiglaða bauka frá Hjálparstarfinu. Tökum vel á móti fermingarbörnunum þegar þau banka upp á. Reikningur söfnunarinnar er: 0334-26-56200 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
01.11.2010
Fermingarbörn um allt land safna til vatnsverkefna Hjálparstarfsins
við kranann

Fermingarbörn úr 65 sóknum í öllum landshlutum ganga í hús á tímabilinu 1.-9. nóvember milli kl 17:30 og 21 og safna peningum til vatnsverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar í Afríku.

Starfsfólk kirkjunnar fræðir um 3000 fermingarbörn um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni. Mörg þeirra hittu Stephen og Charity frá Úganda sem sögðu frá lífi sínu og aðstæðum. Sjá viðtal við og myndband á vef kirkjunnar.

Þeir sem vilja leggja söfnunni lið geta lagt inn á reikning söfnunarinnar: 0334-26-56200 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
20.10.2010
Heimildarmynd um frelsun þrælabarna á Indlandi
thraelabarnindl

Á lansmóti æskulýðsfélaga kirkjunnar 15.-17. október var sýnd heimildarmynd um starf Social Action Movement (SAM) samtakanna sem Hjálparstarfið er í samstarfi við. SAM vinnur að því að leysa börn úr skuldaánauð. Armann Hákon Gunnarsson og Harpa Stefánsdóttir voru að störfum með SAM í 6 mánuði og stóðu að gerð heimildarmyndarinnar. Unglingar á lansmótinu söfnuðu nægu fé til að frelsa 60 börn úr skuldaánauð. Myndina má sjá hér.

Lesa meira...
20.10.2010
Barnabros gefa upplifun

20 miðar á Dísu ljósálf. Hjálparstarfið fær þá ánægju að deila þessum miðum út til fjölskyldna sem ekki hafa efni á að fara með börn sín í leikhús eða njóta annarrar upplifunar sem kostar peninga. Miðarnir eru fyrsta gjöf Barnabrosa, nýstofnaðs félags, til að gleðja börn. Barnabros fá gjafir úr mörgum áttum og Austurbær gaf leikhúsmiðana nú. Lestu meira ef þú vilt hjálpa Barnabrosum. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfsins tók við miðunum.

Lesa meira...
18.10.2010
Unglingar á landsmóti frelsa 60 börn úr skuldaánauð
Mynd af indverskum strákum
Strákar

650 unglingar á lansmóti Æskulýðssambands Þjóðkirkunnar sem að þessu sinni fór fram á Akureyri söfnuðu um helgina fé til stuðnings verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar á Indlandi þar sem börn eru leyst úr skuldaánauð í samstarfi við mannréttindasamtökin Social Action Movement. Sjá frétt á pressunni. Hjálparstarfið þakkar unglingunum fyrir dugnað og fórnfýsi.

Lesa meira...
15.10.2010
Viltu leysa barn á Indlandi úr skuldaánauð?

Þeir sem vilja leysa barn á Indlandi úr skuldaánauð geta lagt inn á reikning 0334-26-27 kt. 450670-0499, skrifa í athugasemdir: Indland eða farið á www.framlag.is og valið börn og síðan Frelsa barn úr skuldaánauð og greitt með greiðslukorti eða gefið gjafabréf á www.gjofsemgefur.is og valið börn og síðan Frelsa barn úr skuldaánauð og greitt með korti. Innilegar þakkir fyrir stuðninginn.

Lesa meira...
11.10.2010
Margt smátt komið út

Margt smátt fréttablað Hjálparstarfsins er komið út og er á leiðinni til áskrifenda. Þar kennir ýmissa grasa: "Ég er lifandi dæmi um árangurin" segir Charity Namara frá Úganda sem er í heimsókn á Íslandi, "Þorpið á sléttunni" grein um ferð til Malaví eftir Gunnar Sigurðsson, grein um innanlands aðstoð undir yfirskriftinni "Fjölbreytt aðstoð innanlands" þar sem fram kemur að aukningin er mest í yngri aldurshópum og margt fleira. Margt smátt 3. tbl. 2010.

Lesa meira...
28.09.2010
2,5 milljóna króna styrkur frá Sorpu
Sorpa

Sorpa hefur veitt Hjálparstarfinu 2,5 milljóna króna styrk. Tvær milljónir renna í Framtíðarstjóð sem styður ungmenni 16-20 ára til stúdentsprófs, sveinsprófs eða annars sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskólanáms og fimmhundruð þúsund renna til að styðja við tómstundaiðkun barna frá efnaminni fjölskyldum. Þessi stuðningur kemur sér mjög vel á erfiðum tímum og gerir Hjálparstarfinu kleift að efla enn áherslu á að styðja við börn og ungmenni. Hjálparstarfið þakkar Sorpu og starfsmönnum Góða hirðisins kærlega fyrir.

Lesa meira...
27.09.2010
Gott starfsár að baki
adalfund2010

Aðalfundur Hjálparstarfs kirkjunnar fór fram laugardaginn 25. september síðastliðinn. Fram kom í máli Jónasar Þóris Þórissonar framkvæmdastjóra, að tekjur stofnunarinnar á síðasta starfsári, 1. júlí 2009 til 30. júní 2010, voru 303,1 milljón króna. Framlög til verkefna voru 252,6 milljónir þarf af var 126,5 milljónum króna varið til þróunarverkefna og 37,3 milljónum til neyðarhjálpar. 81,5 milljónum var varið til verkefna innanlands.

Lesa meira...
27.09.2010
"Ég er lifandi dæmi um árangurinn"
Stephen_Charity

Stephen og Charity sem eru frá Úganda verða hér á landi 22. september til 28. október. Þau munu heimsækja fermingarbörn um allt land, fræða þau um líf og kjör jafnaldra í Afríku og hvetja þau til dáða í tengslum við söfnun fermingarbarna 1.-9. nóvember fyrir vatnsverkefni Hjálparstarfsins í Afríku.

„Við hlökkum mjög til að koma til Íslands“ segir Stephen Ssenkima framkvæmdastjóri RACOBAO.

Lesa meira...
01.09.2010
4 milljónir króna til neyðarhjálpar í Pakistan
pakistan2010

Hjálparstarf kirkjunnar sendir 4 milljónir króna til neyðarhjálpar í Pakistan þar af eru 1,5 milljón frá Utanríkisráðuneytinu.Þessu er miðlað  í gegnum  ACT Alliance sem Hjálparstarfið er aðili að.  Þrír ACT-aðilar eru að störfum í Pakistan og þekkja allar aðstæður. Samtals reikna þeir með að ná til um 270.000 manns. Hægt er að styðja Hjálparstarf kirkjunnar / ACT-Alliance í Pakistan með því að leggja inn á reikning 0334-26-886  / kt. 450670-0499.

Lesa meira...
25.08.2010
155.000 krónur safnast í áheit í Reykjavíkurmaraþoni
reykjavmarathon2010

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í blíðskaparveðri laugardaginn 21. ágúst. Rúmlega 10.000 þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Áheitasöfnun fyrir 98 góðgerðarfélög gekk mjög vel og söfnuðust alls tæplega 30 milljónir króna. 12 skráðu sig í áheitasöfnun fyrir Hjálparstarf kirkjunnar og söfnuðust samtals 155.000 krónur. Innilegar þakkir til hlauparanna og þeirra sem opnuðu budduna til að styrkja starf Hjálparstarfsins.

Lesa meira...
19.08.2010
Finndu hvað sanngirnin rennur ljúflega niður!
Fairtrade logo_80

Á MENNINGANÓTT færðu ókeypis ljúfasta kaffi í veröldinni því það er keypt á sanngjörnu verði af fátækum bændum út um heim. Í Kirkjuhúsinu að Laugavegi 31, hittir þú ungt baráttufólk, Breytendur, ungliðahreyfingu Hjálparstarfs kirkjunnar, sem vill betri heim. Kl.  14-18. kynna þau spennandi fairtrade-merktar vörur og selja geitur, hænur og vatn á gjafabréfi frá Hjálparstarfi kirkjunnar. Kíktu við og sjáðu myndir frá nýkomnum ferðalöngum til Indlands, smakkaðu gott kaffi og hvíldu lúin bein kl.  14-18 í Kirkjuhúsinu á Menningarnótt.

Lesa meira...
16.08.2010
Matarúthlutun hefst aftur eftir sumarlokun

Matarúthlutun hefst aftur eftir sumarlokun miðvikudaginn 18. ágúst  kl. 12-17. Föt eru afgreidd á þriðjudögum í samræmi við ákvörðun félagsráðgjafa eftir viðtal. Eins og undanfarin ár er veittur styrkur vegna skólabyrjunar eftir aðstæðum og mat félagsráðgjafa.

Lesa meira...
22.07.2010
Selja bók til hjálpar nauðstöddum
IMG_0105

Systkinin Benjamín og Salóme hafa verið duglega að afla fjár fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Í vetur seldu þau bókina Velgengni og vellíðan og gekk svo vel að þau tóku annan skammt. Nú voru þau að skila af sér enda brátt á leið til Bandaríkjanna þar sem þau ætla að búa næsta árið. Þau seldu núna fyrir 8000 kr. en í heild hafa þau safnað tugum þúsunda fyrir innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins. Við þökkum þeim hjartanlega fyrir og óskum þeim góðs gengis í nýju umhverfi.

25.06.2010
Margt smátt fréttablað Hjálparstarfsins að koma út

Margt smátt fréttablað Hjálparstarfsins er að koma út, það verður sent áskrifendum í næstu viku en blaðið er komið á netið. Margar áhugaverðar greinar eru í blaðinu: "Sparhlóðir breyta lífi okkar kvennanna alveg ótrúlega mikið  " segir Loy Adeke, Gífurleg aukning í innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar, "Devika, fyrrum barnaþræll - mögnuð kona". Margt smátt 2.tbl. 2010.

Lesa meira...
22.06.2010
Góður stuðningur við hjálparstarf á Haítí.
kona við tjald

19.5 milljónir króna hafa safnast hjá Hjálparstarfi kirkjunnar til hjálpar- og uppbyggingarstarfa á Haítí.  Með 13 milljón króna framlagi frá Utanríkisráðuneytinu gerir þetta samtals 32.5 milljónir króna.

Lesa meira...
10.06.2010
Höfðu tombólu fyrir Haítí

Þær Hafrún Freyja Hrafnkelsdóttir og Rut Sigurðardóttir héldu að eigin frumkvæði tombólu og söfnuðu flöskum og dósum til styrktar hjálparstarfi á Haítí. Rut leit við á skrifstofu Hjálparstarfsins og afhenti Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra afraksturinn 4.784 krónur.

Lesa meira...
25.05.2010
25.000 dala framlag Sonja Foundation til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar

Hjálparstarfi kirkjunnar hefur borist 25.000 dala framlag til innanlandsaðstoðar frá Sonja Foundation. Þessi  rausnarlegi stuðningur sem samsvarar um 3,2 milljónum króna mun nýtast vel til að mæta sívaxandi þörf barnafjölskyldna fyrir stuðning.

Lesa meira...
21.05.2010
Uppbyggingarstarf á Haítí
þrjú konuandlit

Snemma morguns í Petit Goave, 68 km suðvestur af Port-au-Prince, bíða hundruðir manna eftir að sáðkorni verði úthlutað. Fólk hefur komið úr fjallahéraðinu í kring, sem varð illa úti í jarðskjálftanum mikla. Flestir hafa beðið í marga klukkutíma. ACT, Alþjóða hjálparstarf kirkna, er að dreifa sáðkorni til þeirra verst settu á svæðinu; eldra fólks, einstæðra foreldra og barnmargra fjölskyldna. Þau eru öll meðlimir í samvinnufélagi bænda sem valdi hverjir ættu að fá aðstoð.

Lesa meira...
12.05.2010
Trumbugnýr á Austurvelli
fairtrtrumbur

Það var trumbugnýr á Austurvelli á alþjóðlegum degi sanngjarnra viðskipta (Fair trade day) laugardaginn 8. maí kl. 15. Breytendur (Changemaker) vildu með þessu vekja athygli á Fairtrade vörum. Fairtrade samtökin stuðla að réttlæti og sanngirni í viðskiptaháttum við þriðja heiminn og er Fairtrade vottunin trygging fyrir því að bændurnir sem framleiddu vöruna hafi fengið það lágmarksverð sem dugir þeim til að lifa af. Sjá frétt á heimasíðu Breytanda

Lesa meira...
12.05.2010
Gáfu 25.000 krónur upp í brunn í Afríku
Fururgrund

Börn í leikskólanum Furugrund í Kópavogi hafa ásamt starfsfólki og foreldrum undanfarin tvö ár safnað drykkjarílátum til styrktar brunnagerð í Afríku. Þetta er liður í Comeniusarverkefni, alþjóðlegu verkefni sem leikskólinn tekur þátt í með sjö öðrum leikskólum um allan heim.  Á lokahátíð afhentu börnin 25.000 krónur sem duga til að sjá um 100 manns fyrir vatni í mörg ár.  Hjálparstarf kirkjunnar þakkar frábært framtak.

Lesa meira...
06.05.2010
Alþjóðlegur dagur sanngjarnra viðskipta 8. maí
FT logo islenkst

Gefum taktinn fyrir sanngjarnari heim! Trumbuhringur á Austurvelli laugardaginn 8. maí kl. 15.Breytendur, ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar sendi frá sér fréttatilkynningu um málið:

Þann 8. maí verður Alþjóðlegur dagur sanngjarnra viðskipta haldinn hátíðlegur um allan heim. Í fyrra tóku um 8 milljónir manna þátt og létu Íslendingar að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja.Í ár munum við auðvitað gera gott betur og fjölmenna niður á Austurvell kl. 15 til að berjast gegn fátækt, ósanngirni og barnaþrælkun. Við berjumst fyrir félagafrelsi og lýðræði og styðjum lífræna ræktun með jákvæðum aðferðum.
 

Lesa meira...
03.05.2010
12,3 milljónir hafa safnast fyrir Haítí í páskasöfnun Hjálparstarfsins
Farið í leiki í barnamiðstöð

12,3 milljónir króna hafa safnast í páskasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir Haíti en stofnunin hefur þá samanlagt safnað tæplega 21 milljón króna til uppbyggingar á Haítí.„ Með 5,5 milljónum króna sem söfnuðust strax eftir skjálftann og þriggja milljóna króna framlagi frá Utanríkisráðuneytinu er heildarupphæðin sem safnast hefur hjá Hjálparstarfinu til hjálpar- og uppbyggingarstarfa á vegum ACT Alliance, Alþjóðahjálparstarfs kirkna, á Haítí tæplega 21 milljón króna“ segir Jónas Þórisson framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins.

Lesa meira...
20.04.2010
„Aldrei verið hamingjusamari en akkúrat hér á Indlandi"
armannogharpa

„Við höfum aldrei verið hamingjusamari en akkúrat hér á Indlandi" segir Ármann Hákon Gunnarsson í nýlegu bréfi. Ármann er ásamt eiginkonu sinni Hörpu Stefánsdóttur sjálfboðaliði hjá SAM samtökunum, samstarfsaðila Hjálparstarfsins sem m.a. leysa þrælabörn í Kanchipuram á Indlandi úr ánauð. Ármann og Harpa eru að vinna að rannsókn á afdrifum þrælabarna eftir að þau hafa verið leyst úr ánauð.

Lesa meira...
13.04.2010
Söfnun fyrir Haítí í fullum gangi
actalliance

Uppbyggingarstarf á Haítí er í fullum gangi. Samkvæmt upplýsingum frá ACT Alliance, Alþjóða hjálparstarfs kirkna, hafa 80% heimilislausra (1.2 milljónir manna) fengið nauðsynlegt byggingarefni til að koma sér upp bráðabirgða húsnæði. Verið er að undirbúa 7.400 hektara land norðan við höfuðborgina Port-au-Prince fyrir þá sem þurfa tímabundna búsetu á nýju svæði. Tæplega 5000 salerni hafa verið reist í 651 búðum heimilislausra í Port-au-Prince, Jacmel, Gressier, Leogane og víðar. Vilt þú gefa von við erfiðar aðstæður? Þú getur lagt lið með því að greiða valgreiðslu í heimabankanum þínum, leggja inn á reikning 334-26-886, kt. 450670-0499 eða hringja í söfnunarsíma 907 2003, hvert símtal gefur 2.500 krónur. Takk fyrir stuðninginn!

Lesa meira...
25.03.2010
Aðstoð veitt óháð kynþætti, trú eða þjóðerni

Í skipulagsskrá Hjálparstarfs kirkjunnar 5. gr. segir: „Hjálparstarf kirkjunnar veitir aðstoð sína án tillits til hverjir viðtakendur eru og hver sé orsök neyðarinnar." Hjálparstarfið er einnig bundið af siðareglum Alþjóðahjálparstarfs kirkna, ACT Alliance, sem það er aðili að, en í þeim stendur í 2. gr.: „Aðstoð er veitt óháð kynþætti, trú, þjóðerni eða nokkru öðru auðkenni þess er nýtur aðstoðarinnar." Skipulagsskrána má sjá undir liðnum um starfið t.v. hér á síðunni og með því að smella á nánar hér að neðan má sjá siðareglur ACT Alliance.

Lesa meira...
23.03.2010
Vilt þú vera með í hjálparstarfi á Haítí?

Afleiðingar af jarðskjálftanum á Haítí 12. janúar 2010 sem mældist 7 á Richter eru hrikalegar. Meira en 200.000 manns eru látnir, um 300.000 slasaðir, 1.2 milljónir manna misstu heimili sín og lifa í tjöldum og bráðabirgðahúsnæði í höfuðborginni Port-au-Prince.  Nú þarf að lyfta grettistaki í uppbyggingarstarfi á Haítí. Vilt þú vera með? Vilt þú gefa von við erfiðar aðstæður? Þú getur lagt lið með því að greiða valgreiðslu í heimabankanum þínum, leggja inn á reikning 334-26-886 kt. 450670-0499 eða hringja í söfnunarsíma 907 2003 hvert símtal gefur 2.500 krónur. Haítíbúar þurfa þína hjálp.

Lesa meira...
23.03.2010
ACT Alliance – ein stærstu alheimssamtök í mannúðaraðstoð
actalliance

Hvort sem neyðin er á Haíti, í Eþíópíu, Pakistan eða Austur-Evrópu er kirkjan þar að störfum. Fyrst þarf að bjarga lífi og vernda líf – síðan tekur við uppbygging og þróun. Nú hefur ACT Alliance verið hleypt af stokkunum til að samræma þetta tvennt. Gríðarleg þekking og reynsla býr með ACT-aðilum. Á þessu frábæra myndbandi er því lýst á myndrænan hátt hvernig ACT-netið starfar – áherslunni á samstöðu og fjölbreytni: http://bit.ly/duwxhO Sjáðu líka Power Point-sýningu með öllu því helsta um ACT.

Lesa meira...
23.03.2010
Páskablað Hjálparstarfsins komið út
Drengur i rustum

Páskablað Hjálparstarfsins er komið út. Í því er m.a. fjallað um hjálpar- og uppbyggingarstarf á Haítí en nýhafin páksasöfnun er til hjálpar á Haítí. Páskablaðið má sjá hér.

Lesa meira...
23.03.2010
Góður stuðningur frá Símanum
IMG_9794

Fyrir jólin 2009 var í samstarfi við Græna framtíð söfnun á notuðum farsímum  í verslunum Símans undir yfirskriftinni Góði, græni síminn. Græn framtíð sér síðan um að koma farsímunum í endurnýtingu. Andvirði síma sem söfnuðust renna til þróunarverkefna Hjálparstarfs kirkjunnar.  Þetta átak tókst mjög vel og renna samtals 313.772.- krónur til Hjálparstarfsins. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar Símanum og Grænni framtíð kærlega fyrir. Hjalti Harðarson deildarstjóri verslana Símans tók á móti þakkarskjali úr hendi Bjarna Gíslasonar upplýsingafulltrúa Hjálparstarfsins.

Lesa meira...
18.03.2010
Nöturlegar staðreyndir um Haítí - Páskasöfnun hefst á mánudag

Nú eru að birtast í heimabönkum landsmanna valgreiðslur vegna páskasöfnunar Hjálparstarfs kirkjunnar. Þær hljóða upp á 2.400 kr. og munu þær renna til neyðar- og uppbyggingarstarfs á Haítí. Við hvetjum alla sem geta til að greiða. Enn eru brýnustu þarfirnar að útvega mat og vatn og koma fólki í varanlegt skjól því regntíminn er að hefjast. Þá versna aðstæður til muna ekki síst vatns- og hreinlætismál. Á regntímanum verður allt að leðju, rusl og úrgangur fer á flot, seytlar í gegnum jarðveginn og mengar grunnvatn. Nú ríður á að halda dampi. Haítar treysta á umheiminn. Þú ert umheimurinn. Einnig má greiða aðrar upphæðir á reikning. 334 26 886 / kt. 450 670 0499. Allt skiptir máli.

Lesa meira...
17.03.2010
Farðu í klósettröðina!

Alþjóðlegi vatnsdagurinn er haldinn 22 mars. Nú er hann helgaður hreinu vatni og viðhaldi vatnsgæða þ. á m. í gegnum hreinlæti. Til að vekja athygli á því að 2,6 milljarðar manna hafa ekki aðgang að klósetti og hreinlætisaðstöðu efna regnhlífarsamtökin End of Water Poverty til klósettraða vítt um heiminn. Þú getur farið í röðina og lagt málinu lið. Hér sérðu einnig meira um mikilvægi hreins vatns og tengla á frekara efni. Nær öll verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar hverfast um vatn og notkun þess til betra lífs.

Lesa meira...
11.03.2010
Mikil þörf fyrir aðstoð innanlands

Innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar er sá þáttur starfsins sem hefur vaxið mest síðustu árin. Í nýrri samantekt kemur fram að árið 2007 voru afgreiðslur 3.154, 4.918 árið 2008 og 11.254 árið 2009 eða 3,5 sinnum fleiri afgreiðslur en árið 2007. Þessar upplýsingar og fleiri má sjá hér.

Lesa meira...
09.03.2010
Hjálparstarf á Haítí - myndir

Hjálparstarf kirkjunnar er aðilið að ACT Alliance, Neyðar- og þróunarhjálp kirkna. ACT er með öflugt hjálparstarf á Haítí, Paul Jeffrey ljósmyndari ACT hefur tekið áhrifaríkar myndir á vettvangi. Myndaröð frá Haítí söfnunarsími er 907 2003. Hvert símtal gefur 2.500 krónur, söfnunarreikn.: 0334-26-886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
09.03.2010
Æskulýðsfélag Hofsprestakalls styrkir munaðrlaus börn í Úganda

Á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar sunnudaginn 7. mars síðastliðinn hélt æskulýðsfélag Hofsprestakalls sína árlegu kaffisölu eftir æskulýðsguðþjónustu í Vopnafjarðarkirkju. Kaffisalan var til stuðnings verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda sem snýr að munaðarlausum börnum sem misst hafa foreldra sína vegna alnæmis. Kaffisalan gekk frábærlega og inn komu 52.000 krónur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ungmenni í Hofsprestakalli leggja starfi Hjálparstarfsins lið. Innilegar þakkir fyrir frábæran stuðning!

Lesa meira...
01.03.2010
Fermingarbörn í Lindakirkju safna til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins

Eftir messu í Lindarkirkju 21. febrúar síðastliðinn héldu fermingarbörn flóamarkað til styrktar innanlandsaðstoðar Hjálpasrstarfsins. Markmiðið var að bjóða fólki nytsama hluti á lágu verði og um leið styrkja gott málefni. Fjölbreytt úrval hluta og fatnaðar var í boði. Margir nýttu sér tækifærið og eignuðust eigulega hluti fyrir nokkrar krónur. Þetta skemmitilega framtak fermingarbarnanna skilaði rúmlega 17.000 krónum til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Innilegar þakkir!

Lesa meira...
26.02.2010
Breyttur opnunartími matarúthlutunar
appelsina

Frá og með mars er tekinn upp nýr opnunartími fyrir matarúthlutun sem er á miðvikudögum kl. 12-17. Lengdur opnunartími á miðvikudögum gefur fleirum tækifæri á að koma. Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins sinna sérafgreiðslum á fimmtudögum vegna þeirra sem vegna fötlunar eða af öðrum sérstökum ástæðum geta ekki komið á miðvikudögum. Næsta matarúthlutun er miðvikudaginn 3. mars kl. 12-17.

Lesa meira...
15.02.2010
68,4 milljónir safnast í jólasöfnun

Í jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar sem stóð út janúar söfnuðust 68,4 milljónir króna sem renna til aðstoðar innanlands og til vatnsverkefna í Eþíópíu, Malaví og Úganda. Sambærileg tala fyrir jólasöfnun 2008 var 58 milljónir króna, sem þýðir að stuðningur hefur aukist um 18% frá fyrra ári.

Lesa meira...
27.01.2010
Sanngjörn viðskipti - Fairtrade aðal baráttumál Breytanda
FT logo islenkst

Starfsárið 2010 var byrjað af krafti þegar Breytendur, ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar, héldu sinn fyrsta  aðalfund  laugardaginn 23. janúar. Fundurinn var haldinn í Grensáskirkju og heppnaðist með ágætum. Fairtrade, eða sanngjörn viðskipti, varð fyrir valinu sem þema ársins www.changemaker.is.

Lesa meira...
22.01.2010
Aðstoð innanlands á miðvikudögum og fimmtudögum kl. 13-16.

Matarúthlutun innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins er á miðvikudögum og fimmtudögum kl. 13-16 að Haáleitisbraut 66, í kjallara Grensáskirkju. Allir umsækjendur vinsamlegast taki með eftirfarandi gögn: Yfirlit yfir allar tekjur (laun, barnabætur, meðlag osfrv) og upplýsingar um föst gjöld (leiga, leikskólagjöld, osfrv.) Umsækjendur á landsbyggðinni sæki um hjá presti sem sendir umsókn til okkar.

Lesa meira...
22.01.2010
ACT Alliance með öflugt hjálparstarf á Haítí

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT Alliance, Alþjóða neyðarhjálp kirkna. Hjálparstarf ACT Alliance á Haítí er í fullum gangi. Mörg tonn af matvælum, húsbúnaði og tjalddúkum berast nú til heimilislausra. Lið sérfræðinga, lækna og hjúkrunarfólks er líka komið til starfa.

Söfnunarsími  fyrir Haíti er 907 2003 og söfnunarreikningur: 0334-26-886 kt. 450670-0499.

 
Lesa meira...
20.01.2010
Nemendur í 6. bekk Foldaskóla gefa í vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Foldaskóli er móðurskóli í nýsköpun. Það er fastur liður í skólastarfi skólans að nemendur 6. bekkjar vinni að frumkvöðlaverkefni, setji á stofn fyrirtæki, skipuleggi og setji fram áætlun sem síðan er framkvæmd. Frumkvöðlaátakinu lauk með nýsköpunarmarkaði þar sem nemendur seldu vörur sem höfðu verið framleiddar. Nemendur ákváðu að styrkja vatnsverkefni Hjálparstarfsins í Afríku.

Lesa meira...
20.01.2010
Söfnun fyrir neyðarhjálp á Haítí í fullum gangi

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT Alliance, Alþjóða neyðarhjálp kirkna, fjórtán ACT-aðilar eru að störfum á staðnum við mjög erfiðar aðstæður þar sem neyðin er hrikaleg. Íslendingar hafa brugðist vel við kalli Hjálparstarfsins um stuðning við neyðarhjálp á Haítí, safnast hafa tæpar 4 milljónir króna. Söfnunarsími er 907 2003, söfnunarreikningur er: 0334-26-886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
20.01.2010
Fannst á lífi viku eftir jarðskjálftann

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT-Alliance sem er að störfum á Haítí. ACT ljósmyndarinn Paul Jeffrey tók meðfylgjandi myndir af vettvangi í gær (19. Jan.) í höfuðborg Haítí, Port-au-Prince. Mexíkósk björgunarsveit bjargaði Önnu Zizi úr rústum heimilis kaþólks prests, viku eftir að jarðskjálftinn dundi yfir. 

Lesa meira...
19.01.2010
Frumraun nýrra ACT-samtaka
Hjól í rústum

Neyðarstarfið á Haítí markar tímamót fyrir nýtt ACT. Nú um áramótin var ACT International, Alþjóðaneyðarhjálp kirkna, og ACT Development, þróunardeildin, sameinuð. Báðar deildir koma nú að neyðaraðstoð og gert er ráð fyrir að umskiptin yfir í uppbyggingu og þróun verði betri.

Lesa meira...
19.01.2010
Stuðningsteymi ACT á staðinn

Nýr framkvæmdastjóri stuðningsteymis ACT Alliance á Haítí, Elsa Moreno, kemur til Santo Domingo í Dómíníska lýðveldinu í dag. Hún fer fyrir nýstofnuðu svokölluðu Rapid Support Team sem á að veita ACT-aðilum stuðning við framkvæmd stórfelldrar neyðaraðstoðar.

Lesa meira...
18.01.2010
Aðstoð ACT-Alliance komin á skrið

Í ringulreiðinni sem ríkir í úthlutun hjálpargagna á Haítí, er ACT-Alliance, Alþjóðaneyðarhjálp kirkna samt að koma mat, bráðabirgðaskýlum, vatnshreinsiefnum og sérþekkingu sinni til Port-au Prince. Prospery Raymond, yfirmaður ACT-aðilans Christian Aid á staðnum, hefur þó áhyggjur af því að ekki séu til matvæli í landinu til meira en 5 daga.

Lesa meira...
16.01.2010
Söfnun fyrir neyðarhjálp á Haítí

Söfnun fyrir neyðarhjálp á Haítí er í fullum gangi söfnunarsími er 907 2003, hvert símtal gefur 2.500 krónur. Reikningur söfnunarinnar er 0334-26-886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
15.01.2010
Borgin eins og stríðsvettvangur

ACT, Alþjóðaneyðarhjálp kirkna, segir erfitt að komast um borgina Port-au Prince, höfuðborgar Haítí, til að meta aðstæður og undirbúa formlega hjálparbeiðni til aðila sinna. Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT. Rústir tefji allsstaðar för. ACT-aðilinn Hjálparstarf norsku kirkjunnar, Kirkens Nödhjelp, er að undirbúa för sérfræðinga í vatns- og hreinlætismálum sem munu setja upp vatnshreinsistöðvar og kamra. Starfsmenn hjálparsamtaka sem unnu á Haítí fyrir skjálftann, eins og aðrir íbúar, glíma við áfallið af hamförunum og leita ættingja og ástvina. Mannfall hefur orðið í þeirra röðum sem annarra. 

Lesa meira...
12.01.2010
Hjálparstarf ACT á Haítí

Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að ACT. Starfsfólk ACT,  Alþjóðaneyðarhjálpar kirkna, á Haítí tók til við hjálparstarf um leið og jarðskjálftinn hafði riðið yfir. Í höfuðstöðvum í Genf er verið að undirbúa för sérfræðinga í stjórnun, miðlun upplýsinga, vatns- og hreinlætismálum, áfallahjálp og fjármálum. Verið er að taka saman neyðargögn til sendingar. Neyðarstarf ACT-aðila á Haítí er í fullum gangi. Hafa ACT-aðilar áhyggjur af fólki í úthverfum borgarinnar og nærliggjandi svæðum, að þeir verði útundan þar sem öll athygli beinist nú að Port-au-Prince.  Söfnunarsími vegna Haítí er 907 2003 hvert símtal gefur 2500 krónur einnig má leggja inn á 0334-26-886 kt. 450670-0499 skrifa Haítí í athugasemd.

Lesa meira...
23.12.2009
Gefðu vatn og von, jólasöfnun í fullum gangi
Stúlka tekur vatn úr brunni

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar til aðstoðar heima og erlendis er í fullum gangi. Við minnum á valgreiðslu í heimabanka. Einnig er hægt að leggja inn á reikning söfnunarinnar 0334-26-50886 kt. 450670-0499, gefa framlag á framlag.is eða kaupa gjafabréf á gjofsemgefur.is. Söfnunarsímar eru 907 2002 fyrir 2.500 krónur til innanlandsaðstoðar og 907 2003 fyrir hjálp erlendis.

Lesa meira...
23.12.2009
Tryggingarfélagið Vörður gefur 250.000 krónur

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar tryggingarfélaginu Verði góðan stuðning við innanlandsaðstoð. Vörður gaf 250.000 krónur í þágu þeirra sem eru án atvinnu eða af öðrum ástæðum eiga erfitt. Þessi stuðningur mun nýtast í hjálparstarfi á Íslandi á nýju ári.

Lesa meira...
22.12.2009
Bílabúð Benna gefur jólakjötið

Hjónin Benedikt Eyjólfsson og Margrét Beta Gunnarsdóttir,  eigendur fyrirtækisins Bílabúðar Benna, afhentu í morgun 100 hamborgarhryggi til sameiginlegrar jólaaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar RKÍ. Undanfarin 10 ár hefur Bílabúð Benna gefið viðskiptavinum sínum jólagjafir en í ljósi efnahagsástandsins ákváðu eigendur fyrirtækisins frekar að gefa 100 hamborgarhryggi frá Ali til þeirra sem á aðstoð þurfa að halda yfir hátíðarnar.  

Lesa meira...
22.12.2009
Alcoa gefur 9,6 milljónir

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum hefur styrkt innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar um 75.000 Bandaríkjadali, eða um 9,6 milljónir króna. Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri upplýsinga- og samfélagsmála Alcoa á Íslandi, afhenti Hjálparstarfinu styrkinn. Þetta er í annað sinn sem Samfélagssjóðurinn styrkir Hjálparstarfið, en fyrir ári veitti sjóðurinn Hjálparstarfinu 50 þúsund dollara styrk, eða sem svarar til rúmlega 6 milljónum króna.

Lesa meira...
22.12.2009
Kennarasamband Íslands styður innanlandsaðstoð

Kennarasambandið hefur undanfarin ár styrkt góðgerðarfélög í stað þess að senda jólakort. Í ár var ákveðið að styrkja innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar með 300.000 krónum. Þörfin fyrir aðstoð hefur aukist gríðarlega,  þessi stuðningur kemur sér því mjög vel. Hálparstarfið þakkar Kennarasambandinu kærlega fyrir.

Lesa meira...
21.12.2009
Deloitte gefur vöruútttekt

Fyrirtækið Deloitte hf. færði Hjálparstarfi kirkjunnar gjöf til þeirra sem leita aðstoðar hér á landi. Um er að ræða vöruúttekt sem nýtt verður fram eftir ári en gert er ráð fyrir að þörf fyrir aðstoð fari síst minnkandi eftir jólin. Gjöfin var afhent í húsnæði Deloitte, það gerðu....

Lesa meira...
21.12.2009
SORPA styrkir Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar

SORPA veitti styrk til tíu aðila í húsnæði Góða hirðisins síðastliðinn föstudag . Styrkirnir voru veittir undir yfirskriftinni „Hjálpum fólki til sjálfshjálpar“, svo sem til menntunar, endurhæfingar og sjálfsbjargar. 1,5 milljón króna framlag var lagt í framtíðarsjóð Hjálparstarfsins. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þennan góða stuðning.

Lesa meira...
16.12.2009
Sunnudagaskólabörn í Áskirkju gefa 40.000 krónur í vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar

Margt smátt gerir eitt stórt! Það sannast svo sannarlega í sunnudagaskólanum í Áskirkju en þar hafa börnin á hverjum sunnudegi ársins sett í bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. „Börnin eru mjög spennt fyrir þessum hluta samverunnar og þau sem ekki hafa pening fá mynnt hjá okkur og eru með í að gefa. Þetta er ómissandi hluti hverrar samveru og hefur líka uppeldislegt gildi. Það er nefnilega gaman og gott að gefa“ segir Hildur Gunnarsdóttir einn af umsjónarmönnum sunnudagaskólans í Áskirkju. Hjálparstarfið þakkar börnunum kærlega fyrir.

Lesa meira...
15.12.2009
Innes og Selecta gefa Gevalia kafii

Í stað þess að senda út jólakort og jólagjafir til viðskiptavina sinna gefur Innnes ehf og dótturfyrirtæki þess, Selecta árlega tvö bretti af Gevalia-kaffi til Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur til að deila út í sameiginlegri jólaúthlutun. Bestu þakkir til Innes.

Lesa meira...
15.12.2009
Starfsólk Arion gefur matvæli og bankinn 5 milljónir

Undanfarna daga hefur starfsfólk Arion banka safnað hátt í hálfu tonni af margvíslegum matvælum til að gefa í sameiginlega jólasöfnun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar. Stjórnendur bankans ákváðu jafnframt að leggja málefninu lið með fimm milljón króna peningagjöf í stað þess að senda viðskiptavinum bankans jólakort eða jólagjafir. Fulltrúar hjálparsamtakanna tóku á móti gjöfunum í dag 15. desember í úthlutunarmiðstöðinni að Norðlingabraut 12 í Reykjavík. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar þennan frábæra stuðning.

Lesa meira...
15.12.2009
Íslenski söfnuðurinn í Noregi styrkir Hjálparstarf kirkjunnar

Forsvarsmenn íslenska safnaðarins í Noregi komu færandi hendi á skrifstofu Hjálparstarfs kirkjunnar og afhentu fimm milljónir króna sem hafa safnast í Noregi til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfsins. Söfnunin er enn í gangi, en söfnuðurinn ákvað í apríl að safna alls andvirði einnar milljónar norskra króna, eða sem svarar rúmum 20 milljónum. Afhendingin nú er fyrsti áfanginn.

Lesa meira...
15.12.2009
Gamlir farsímar nýtast Hjálparstarfi kirkjunnar

Græn framtíð og Síminn hvetja fólk til að styðja Hjálparstarf kirkjunnar fyrir jólin með því að koma með gamla og notaða GSM síma í verslanir Símans. GSM símarnir verða sendir í endurnýtingu og mun andvirði þeirra renna til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Með því að koma með gamla og notaða GSM síma í verslanir Símans geta viðskiptavinir stutt gott málefni og um leið lagt sitt á vogarskálarnar í umhverfisvernd. Afrakstur söfnunarinnar verður afhentur Hjálparstarfi kirkjunnar í byrjun janúar.
Lesa meira...
13.12.2009
Álftnesingar gefa Aukapoka

Álftnesingar héldu mikla aðventugleði á laugardag og gáfu í kjölfarið rúmlega 200 aukapoka í matarbúr Hjálparstarfsins. Foreldrafélag Álftanesskóla og Foreldrafélög leikskólanna stóðu að fjöldbreyttu gamni og gleði á skólasvæðinu og ljóst að náungakærleikurinn var fólki ofarlega í huga. Hjálparstarfið þakkar framkvæmdaraðilum og Álftnesingum innilega fyrir stuðninginn. Hann kemur sér sannarlega vel.

Lesa meira...
11.12.2009
Starfsmenn Landsbankans styrkja jólaaðstoð

Starfsmenn Landsbankans tóku höndum saman í vikunni og söfnuðu fé til styrktar sameiginlegrar jólaaðstoðar á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Sex milljónir króna söfnuðust og munu nýtast þessum þremur hjálparstofnunum við úthlutun matvæla, gjafa og til annarrar aðstoðar við fjölskyldur í neyð um land allt fyrir jólin.

Lesa meira...
10.12.2009
Hjálparstarf kirkjunnar fær afnot af Toyota Hiace sendibifreið

9. desember gerðu Toyota á Íslandi og Hjálparstarf kirkjunnar með sér samning um afnot af Toyota Hiace sendibifreið í eitt ár. Bifreiðin verður notuð til almennra snúninga í fjölþættu hjálparstarfi á vegum kirkjunnar og kemur sér sérstaklega vel nú fyrir jólin þegar mest er að gera.

Hjálparstarf kirkjunnar þakkar Toyota á Íslandi fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Lesa meira...
10.12.2009
VALITOR styrkir hjálparstarf
 
VALITOR færði í gær fulltrúum Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur fjárstyrk sem ætlaður er til að styrkja starf samtakanna. Hvor samtök um sig fengu eina og hálfa milljón króna, samtals 3 milljónir króna.
 
Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri VALITOR afhenti Ragnhildi G. Guðmundsdóttur, formanni Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Jónasi Þóri Þórissyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar styrkinn.
Lesa meira...
08.12.2009
VR gefur til jólaaðstoðar

Stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur, VR, hefur afhent 3 milljónir króna til jólaaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem veita sameiginlega mataraðstoð fyrir allt landið nú fyrir jól.

Lesa meira...
08.12.2009
Gegn spillingu

Á morgun, 9. des., er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu. Enginn er ónæmur fyrir henni og í þróunarstarfi er hún sérstaklega varasöm. Fátækir fá ekki það sem þeim er ætlað og verkefni minnka að gæðum leki fjármunir út í spillingu. Hér eru hugleiðingar yfirmanns Lútherska heimssambandsins í Úganda sem Hjálparstarf kirkjunnar starfar með þar í landi.

Lesa meira...
08.12.2009
Höfðingleg gjöf frá Pokasjóði

Stjórn Pokasjóðs afhenti í dag Hjálparstarfi kirkjunnar, Mæðrastyrksnenfdum í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi framlag að andvirði 40 milljóna króna. Framlag Pokasjóðs er í formi gjafakorta sem gilda í matvöruverslunum sem aðild eiga að sjóðnum. Inneign á kortunum er 5.000 og 10.000 krónur.

Afhendingin fór fram í sameiginlegri úthlutunarmiðstöð Hjálpstarfsins, Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur að Norðlingabraut 12 í húsnæði sem byggingarfélagið Eykt hefur lánað vegna úthlutunar á matvöru og fleiru fyrir jólin. Biskup Íslands herra Karl Sigurbjörnsson og Ragnhildur Guðmundsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur tóku við gjöfinni.

Lesa meira...
01.12.2009
Margt smátt, jólablað komið út

Margt smátt, jólablað er komið út. Þar kennir ýmissa grasa, ávarp biskups Íslands, fjallað um jólaaðstoð 2009, fjallað um fjölbreytt verkefni Hjálparstarfsins og fleira. Sjá Margt smátt.

Lesa meira...
30.11.2009
Grýla og Skyrgámur eru með í jólasöfnun Hjálparstarfsins

Grýla og Skyrgámur komu ofan úr Esju í stutta heimsókn í morgun. Erindið var að afhenda hungruðum brauð, "það á líka að gefa börnum brauð á jólnunum" sagði Grýla! Þau feðginin afhentu Jónasi Þ. Þórissyni framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar nýbakað brauð og reyndar einnig 584.400 krónur í jólasöfnun Hjálparstarfsins. Þetta er 20% af veltu síðustu vertíðar jólasveinnanna. Hjálparstarf kirkjunnar þakkar Jólasveinaþjónustu Skyrgáms (skyrgamur.is,) kærlega fyrir.

Lesa meira...
30.11.2009
Jólaúthlutun 2009

Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands búa sig undir að taka á móti miklum fjölda umsólkna um jólaaðstoð en sameignileg skráning umsækjenda fer fram hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Hjálparstarfinu.

Tekið er við umsóknum hjá:

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Hátúni 12, 105 Reykjavík: Þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga 1.,2. og 3. des. og 8., 9. og 10. des. kl. 11-14.

Hjálparstarfi kirkjunnar, Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík: Þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga 1., 2. og 3. des. og 8., 9. og 10. des. kl. 11-12 og 14-16.

Hjá prestum og félagsráðgjöfum um allt land.

Síðasti umsóknardagur er 10. desember.

Lesa meira...
27.11.2009
Jólasöfnun til neyðarhjálpar á Íslandi og til vatnsverkefna í Afríku

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst formlega með messu í Hallgrímskirkju næstkomandi sunnudag kl. 11. Um leið opnar ljósmyndasýning Hjálparstarfsins með myndum frá Súdan og Indlandi í anddyri kirkjunnar. Það fé sem safnast mun renna til neyðaraðstoðar á Íslandi og til vatnsverkefna í Afríku. Reikningur söfnunarinnar er 0334-26-50886 kt. 450670-0499.

Lesa meira...
26.11.2009
Aukapokinn bjargar

Aukapokinn bjargaði málunum í gær þegar 168 manns sóttu um aðstoð Hjálparstarfsins. Ekki hafði verið gert ráð fyrir svo miklu fjölda og innkaup í matarbúrið því ekki næg. Þá kom sér vel að geta gengið í það sem komið hafði með aukapokanum undanfarna daga. Er ljóst að sumir hefðu þurft að koma aftur eftir sínum pokum hefði innihald aukapokanna ekki beðið í hillunum. Takk fyrir, öll þið sem leggið okkur lið með aukapokanum.

Lesa meira...
25.11.2009
8.000.000 söfnuðust fyrir vatni í fermingarbarnasöfnun

Rúmlega 8 milljónir króna söfnuðust þegar fermingarbörn um land allt gengu í hús þann 9. og 10. nóvember með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar. Undanfari þess var fræðsla til rúmlega 3000 fermingarbarna um aðstæður í fátækum löndum Afríku, sérstaklega um skort á hreinu vatni.

Lesa meira...
23.11.2009
Lyfja gefur til Hjálparstarfs kirkjunnar

Lyfja afhenti í síðustu viku Hjálparstarfi kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur styrk að upphæð 500.000 kr. sem ætlaður er til að aðstoðar við lyfjakaup nú fyrir jólin.  Lyfja lét útbúa sérstakar ávísanir að fjárhæð 2.500 kr hver, sem samtökin munu útdeila til sinna skjólstæðinga eftir þörfum og gilda þær til kaupa á lyfseðilskyldum lyfjum og lausasölulyfjum í verslunum Lyfju.

Lesa meira...
17.11.2009
Neyðarhjálp í Andra Pradesh

Hjálparstarf kirkjunnar hefur undanfarnar vikur stutt neyðarhjálp vegna flóða í Andra Pradesh-fylki á Indlandi. UCCI (United Cristian Church of India) samstarfsaðili Hjálparstarfsins hefur stýrt aðstoðinni til 750 einstaklinga sem hafa fengið hrísgrjón, föt, húsbúnað og fleira í kjölfar þess að hafa misst allt sitt í flóðunum. UCCI rekur skóla, heimavist og lítinn spítala í Ketanakonda. Í bréfi þakka þeir Íslendingum stuðninginn sem gerir þeim kleift að mæta brýnustu þörfum hluta þeirra sem orðið hafa illa úti í flóðunum. Sjá fleiri myndir með því að smella á áfram.

 
Lesa meira...
17.11.2009
Anna Kristín

Anna Kristín Agnarsdóttir safnaði 2.048 kr. í bauk og afhenti Hjálparstarfinu í dag. Hún er 9 ára og fór ýmsar leiðir við að safna. Með því að taka til á heimilinu fékk hún laun sem hún setti í baukinn og fékk svo foreldra og ömmu til að leggja sitt af mörkum. Afraksturinn dugar til gefa munaðarlausum systkinum í Úganda fjórar hænur eða til að gefa barni á Íslandi jólagjöf.

 
Lesa meira...
16.11.2009
Jólaúthlutun Hjálparstarfsins

Fyrir jólin veita Hjálparstarf kirkjunnar, Reykjavíkurdeild RKÍ og Mæðrastyrksnefnd Rvk. sameiginlega jólaaðstoð í samstarfi við EYKT byggingarfélag. Sækja þarf um aðstoðina fyrirfram, sjá hér fyrir neðan. Umsækjendur af landsbyggðinni sækja um hjá prestum eða í gegnum félagsráðgjafa á stofnunum. *ATH. Síðasti dagur til að sækja um er fimmtudagur 10. desember 

Lesa meira...
12.11.2009
Hvirfilbylur í Umhverfisráðuneytinu

Fulltrúar Breytenda, ungliðahreyfingar Hjálparstarfs kirkjunnar, afhentu Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra, undirskriftir sem hreyfingin safnaði undir yfirskriftinni hlýnun jarðar er mannréttindamál. Undirskriftunum hafði verið safnað á íspinnaprik við ýmsa gjörninga og atburði í sumar og haust og úr þeim var byggður hvirfilbylur sem er táknrænn fyrir þann vanda sem steðjar að jörðinni, verði ekkert að gert. Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins.
Sjá myndband frá afhendingunni.

Lesa meira...
12.11.2009
Fólk duglegt að tína í aukapoka

Í gær safnaðist vel í sérmerktar kerrur aukapokans í Krónunni og Bónus á höfuðborgarsvæðinu. Sendibíll Hjálparstarfsins kom fullhlaðinn til baka. Ekki var vanþörf á því mikil aðsókn var að aðstoð á úthlutunardegi í gær. Biðstofa var full út úr dyrum. Sjá facebook-síðuna aukapoki, vertu vinur á Facebook.

 
Lesa meira...
25.08.2009
64 hlupu til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar

 64 hlupu til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar í Reykjavíkurmaraþoninu 22. ágúst. Þeirra á meðal voru bræðurnir Aron og Elías Bjarnasynir sem hlupu 10 km. ”Ég var ekkert búinn að æfa fyrir hlaupið og er því bara ánægður að hafa komist í mark„ segir Elías, ”þegar þetta var sem erfiðast reyndi ég að peppa sjálfan mig upp með því að hugsa til barnanna í Afríku sem njóta góðs af áheitum til Hjálparstarfs kirkjunnar, það létti sporin.„

 

Lesa meira...
24.07.2009
Ný myndasería á YouTube um verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu

Á YouTube má nú sjá nýja myndaseríu um verkefni Hjálparstarfsins í Eþíópíu. Sjá myndaseríuna.

Lesa meira...
20.07.2009
Rúm milljón komin inn í söfnun fyrir munaðarlaus börn í Úganda

Söfnun fyrir munaðarlaus börn í Úganda var hleypt af stokkunum í síðasta mánuði með því að senda gíróseðil til áskrifenda fréttablaðs Hjálparstarfsins. Alnæmið er ein meginorsök þess að mörg börn í Úganda verða munaðarlaus. Verkefni Hjálparstarfsins beinist að því að bæta lífsskilyrði þeirra. Áskrifendur hafa brugðist mjög vel við og hefur safnast rúmlega ein milljón króna. Enn er hægt að greiða seðilinn og þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta einnig lagt inn á reikning: 334-26-21000, kt. 450670-0499. Sjá umfjöllun um málefnið í Mörgu smáu, fréttablaði Hjálparstarfsins.

Lesa meira...
13.07.2009
Myndir og upplýsingar um fjölbreytt verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar á YouTube
Mynd af indverskum strákum
Strákar

Fjölbreytt verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar eru gerð skil í myndaseríu á YouTube.com sjá Fjölbreytt verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar. Einnig má minna á myndir um ferð til Malaví sjá Ferð til Malaví.

Lesa meira...
01.07.2009
Hlaupum til góðs í Reykjavíkurmaraþoni
Reykjavíkurmaraþon fer fram laugardaginn 22. águst og þú getur hlaupið til góðs og safnað áheitum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Hægt er að hlaupa maraþon, hálfmaraþon, 10 km og 3 km skemmtiskokk. Um leið og þú skráir þig www.marathon.is getur þú á einfaldan hátt skráð að þú viljir hlaupa fyrir Hjálparstarfið. Síðan geta vinir og velunnarar lagt inn áheit á þig á sömu vefsíðu. Lesa meira...
Uppbyggingarstarf á Haítí
þrjú konuandlit

Snemma morguns í Petit Goave, 68 km suðvestur af Port-au-Prince, bíða hundruðir manna eftir að sáðkorni verði úthlutað. Fólk hefur komið úr fjallahéraðinu í kring, sem varð illa úti í jarðskjálftanum mikla. Flestir hafa beðið í marga klukkutíma. ACT, Alþjóða hjálparstarf kirkna, er að dreifa sáðkorni til þeirra verst settu á svæðinu; eldra fólks, einstæðra foreldra og barnmargra fjölskyldna. Þau eru öll meðlimir í samvinnufélagi bænda sem valdi hverjir ættu að fá aðstoð.

Lesa meira...
Margt smátt ... 3. tbl. 2018 er komið út
forsíðan betri

Fréttablað Hjálparstarfs kirkjunnar Margt smátt... kemur út fjórum sinnum á ári, tvisvar í tímaritsformi, sent til um 4.000 aðila í júní og október og tvisvar í dagblaðsformi, sent á heimili í landinu með Fréttablaðinu í upphafi jólasöfnunar og í upphafi páskasöfnunar. Í blaðinu segjum frá starfinu bæði hér heima og erlendis. Fyrirtæki og samtök kaupa auglýsingar og styrktarlínur í blaðinu. Þriðja tölublað 2018 var að koma úr prentun en er líka að finna hér

Elda - sauma - skipta um kló: Gerðu það sjálf/ur

Viltu:

 • Elda hollari mat? Nýta afgangana betur? Skipuleggja innkaupin? Töfra fram veislu fyrir lítinn aur?

 • Gera við flíkurnar sjálf/ur? Skipta um rennilás á gallabuxunum? Breyta gömlu í nýtt?

 • Verða handlagnari og bjarga þér sjálf/ur heima við? Skipta um kló? Setja upp ljós?

Þá er þetta námskeiðið fyrir þig!

 • Vinnustofur í bland við fyrirlestra um hvernig við getum styrkt sjálfsmyndina og stjórnað fjármálunum betur

 • Einu sinni í viku - Hefst 17. febrúar kl. 13:00

 • Í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd

 • Aðgangur ókeypis, takmarkaður fjöldi þátttakenda, fyrstur kemur fyrstur fær

 • Hafðu samband og bókaðu þig í síma 8490036 eða 5284400

Barnagæsla á staðnum á meðan námskeiði stendur

 

Samstarfsverkefni Hjálpræðishersins og Hjálparstarfs kirkjunnar

 

 

Elda - sauma - skipta um kló: Gerðu það sjálf/ur

Viltu:

 • Elda hollari mat? Nýta afgangana betur? Skipuleggja innkaupin? Töfra fram veislu fyrir lítinn aur?

 • Gera við flíkurnar sjálf/ur? Skipta um rennilás á gallabuxunum? Breyta gömlu í nýtt?

 • Verða handlagnari og bjarga þér sjálf/ur heima við? Skipta um kló? Setja upp ljós?

Þá er þetta námskeiðið fyrir þig!

 • Vinnustofur í bland við fyrirlestra um hvernig við getum styrkt sjálfsmyndina og stjórnað fjármálunum betur

 • Einu sinni í viku - Hefst 17. febrúar kl. 13:00

 • Í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd

 • Aðgangur ókeypis, takmarkaður fjöldi þátttakenda, fyrstur kemur fyrstur fær

 • Hafðu samband og bókaðu þig í síma 8490036 eða 5284400

Barnagæsla á staðnum á meðan námskeiði stendur

 

Samstarfsverkefni Hjálpræðishersins og Hjálparstarfs kirkjunnar