Reikningsnúmer:
Verkefni erlendis:
0334-26-50886
Verkefni innanlands:
0334-26-27
kt. 450670-0499
Söfnunarsímar
907 2002
hjálp heima, 2500 kr.
907 2003
hjálp erlendis, 2500 kr.
viltukaupagjafabref
Viltu senda
minningarkort?

Hjálparstarfið er talsmaður fátækra

Félagsráðgjafar og skjólstæðingar Hjálparstarfsins taka þátt í fjölbreyttu samstarfi aðila sem takast á við fátækt bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi

Hjálparstarfið og Rauði krossinn í Reykjavík gáfu í október 2012 út skýrslu samstarfshóps um enn betra samfélag sem ber heitið Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi. Í skýrslunni er lögð áhersla á að nálgast beri umræðu um og aðgerðir gegn fátækt á nýjan hátt. Að uppræta þurfi ölmusuhugsun og huga beri að mannlegri reisn og mannréttindum. Í hnotskurn að ganga út frá styrkleikum fólks fremur en veikleikum.

Í skýrslunni er fjallað um nauðsyn samfélagssáttmála þar sem fátækt sé ekki náttúrulögmál, nauðsyn þess að virkja alla og ábyrgð samfélags og einstaklings þar á, samhæfingu félagslegrar þjónustu, nauðsyn á grunnframfærsluviðmiði, gerð velferðarreiknis til að hafa yfirlit yfir tekjur og gjöld, stofnun embættis sérfræðings um málefni fátækra, samræmingar í tryggingakerfi og skattkerfi, stuðning við börn eldri en 18 ára séu þau í skóla, börn og fjölskyldur af erlendum uppruna, heilsu- og tannvernd og fleira.

Samráðshópur um málefni utangarðsfólks

Hjálparstarfið tekur þátt í störfum samráðshóps Reykjavíkurborgar, stofnana og félaga um málefni utangarðsfólks. Markmið hópsins er að bæta yfirsýn yfir málefni utangarðsfólks og auka samvinnu milli ólíkra faghópa. Einnig er markmiðið að finna leiðir svo veita megi þessum hópi nauðsynlega grunnþjónustu. 

Velferðarvaktin

Félagsráðgjafi Hjálparstarfsins sem í starfi sínu kynnist náið áhrifum fátæktar á afmarkaða hópa samfélagsins tekur þátt í Velferðarvaktinni sem er skipuð fagfólki úr ýmsum geirum. Velferðarvaktin var sett á laggirnar í febrúar 2009 í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Upphaflega var henni ætlað að fylgjast með félagslegum jafnt sem fjárhagslegum afleiðingum efnahagshrunsins á fjölskyldur og heimili í landinu, meta aðgerðir sem gripið hafði verið til og leggja fram tillögur til úrbóta. Í þeirri mynd starfaði Velferðarvaktin fram til vorsins 2014, en hún skilaði af sér lokaskýrslu í desember 2013.

Í lokaskýrslunni voru settar fram tíu tillögur um framhald Velferðarvaktarinnar þar sem lagt var til að hún starfaði áfram en yrði endurskipuð. Þar var auk þess lagt til að stjórnvöld, ríki og samtök sveitarfélaganna settu fram heildstæða tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna mætti bug á fátækt á Íslandi og að gripið yrði til sérstakra aðgerða til þess að tryggja velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra.

Við endurskoðun Eyglóar Harðardóttur, félags - og húsnæðismálaráðherra, á störfum Velferðarvaktarinnar var tekið mið af tillögum hennar. Velferðarvaktin, sem tók við af þeirri eldri, hélt sinn fyrsta fund 26. júní 2014. Á fundinum voru kynntar þær breytingar sem urðu frá fyrirkomulagi fyrri vaktar.

Breytingarnar fólust aðallega í tvennu; í fyrsta lagi var sérstaklega bætt inn í skipunarbréf vaktarinnar að hún skuli huga „...að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni“. Í öðru lagi er vaktin fjölmennari en hin fyrri. Í byrjun árs 2015 voru fulltrúar í vaktinni 34 talsins, auk formanns og starfsmanns. Skýrslu Velferðarvaktarinnar frá janúar 2015 er að finna hér.

Nánar um starf Velferðavaktarinnar má lesa á heimasíðu Velferðarráðuneytisins undir http://www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/

European Anti Poverty Network á Íslandi

Félagsráðgjafi og skjólstæðingar Hjálparstarfsins taka þátt í störfum Íslandsdeildar EAPN. Markmið þessa evrópska tengslanets er að þrýsta á og kynna íslenskum og evrópskum stjórnvöldum og stofnunum leiðir til að þróa og beita árangursríkum aðferðum gegn fátækt og félaglegri einangrun. EAPN er samræðuvettvangur fyrir fólk sem býr við fátækt og eflir það til baráttu fyrir því sem myndi hjálpa þeim upp úr hjólfari fátæktar. Sjá um EAPN á www.eapn.eu

Eurodiaconia

Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka þátt í samræðum evrópsku kærleiksþjónustusamtakanna Eurudiaconia. Nánar um samtökin er að finna á vefsíðunni http://eurodiaconia.org